IX. KAFLI Tollfrjálsar tunnur

Daginn eftir bardagann við kóngulærnar gerðu Bilbó og dvergarnir síðustu örvæntingarfullu tilraunina til að finna sér leið út úr skóginum, áður en þeir dæju úr hungri og þorsta. Þeir rifu sig upp og stauluðust þangað sem átta af þeim þrettán töldu með handauppréttingu vera réttu leiðina í áttina upp á stíginn. En þeir komust aldrei að því, hvorir höfðu rétt fyrir sér. Það sem ætla mátti að væri dagur í skóginum var farið að dofa niður í myrkur nætur, þegar skyndilega birti upp af ótal kyndlum allt umhverfis þá eins og af hundruðum rauðra stjarna. Og fram hlupu Skógarálfar vopnaðir bogum og spjótum og skipuðu dvergunum að staðnæmast.

Um viðnám var ekki að ræða. Dvergarnir voru svo illa á sig komnir að þeir voru því fegnastir að láta handtaka sig, og auk þess hefðu litlir kutar þeirra, einu vopnin sem þeir höfðu, komið að litlu haldi gegn örvaskeytum álfanna sem voru svo markvissir að þeir hefðu getað hæft fuglsauga í kolamyrkri. Þeir félagarnir námu því einfaldlega staðar, settust niður og biðu þess sem verða vildi — allir nema Bilbó sem smeygði hringnum á fingur sér og laumaðist ósýnilegur útundan. Því var það að meðan álfarnir bundu dvergana í langa lest hvern aftan í annan og töldu þá, fundu þeir hvergi hobbitann né gátu talið hann með.

Ekki gátu þeir heldur heyrt til Bilbós né orðið hans á neinn hátt varir, þegar hann trítlaði áfram góðan spöl fyrir aftan logandi blys þeirra, þar sem þeir leiddu fangana gegnum skóginn. Þeir bundu fyrir augu allra dverganna, sem skipti þó litlu máli, því að ekki einu sinni Bilbó með sínum opnu augum, gat gert sér neina grein hvert þeir voru að fara. Fyrir nú utan það líka að hvorki hann né hinir höfðu hugmynd um, hvaðan þeir voru að koma. Bilbó mátti hafa sig allan við að halda í við blysferðina, því að álfarnir ráku dvergana áfram eins hratt og þeir komust, veika og uppgefna eins og þeir voru. Konungurinn hafði skipað þeim að hraða sér. Skyndilega stöðvaðist flokkurinn og hobbitinn náði þeim áður en þeir fóru yfir brúna. Hún lá yfir ána að hliðum konungs. Áin streymdi fram dimm og stríð og þegar yfir brúna var komið, blöstu voldug hliðin við fyrir framan stóran hellismunna sem gekk inn í bratta brekku, klædda trjágróðri. Hérna teygðist hinn mikli beykiskógur allt niður á árbakkann og sum trén stóðu jafnvel með ræturnar úti í ánni.

Álfarnir ráku nú fanga sína yfir brúna, en Bilbó hikaði við fyrir aftan. Honum leist ekki allskostar á útlit hellismunnans, og loks ákvað hann þó á síðustu stundu að skiljast ekki við vini sína, heldur skjótast yfir brúna á hæla síðustu álfanna, áður en hinar miklu hliðgrindur konungsins lokuðust aftan við þá með þungu glamri.

Fyrir innan tóku við gangar upplýstir af röðum rauðra kyndilljósa og álfaverðirnir tóku að kyrja göngulög þar sem þeir þrömmuðu áfram eftir sveigðum, krókóttum og bergmálandi göngum. Þau voru allt öðruvísi en í dríslabyggðinni, lágu grynnra niður í jörðina og um þau lék nóg af fersku lofti. Komið var í stórsal sem súlurnar voru höggnar út úr lifandi berginu og þar sat álfakóngurinn á hásæti úr útskornum við. Á höfði sér bar hann kórónu með berjum og roðnuðu laufi, því nú var farið að svífa að hausti. Á vorin bar hann aftur á móti kórónu úr skógarblómum. Í hendi sér hafði hann útskorinn eikarstaf.

Fangarnir voru leiddir fram fyrir hásætið og þó hann horfði illúðlega á þá, sagði hann mönnum sínum að leysa þá úr böndum, því að þeir væru svo illa til reika og þreyttir. „Við þurfum heldur engin bönd á þá hérna,“ sagði hann. „Það sleppur enginn út um töfradyr mínar, sem einu sinni er kominn inn fyrir þær.“

Hann yfirheyrði dvergana lengi og lævíslega um erindi þeirra, hvert þeir hefðu verið að fara og hvaðan þeir kæmu. En hann fékk lítið meira upp úr þeim en Þorni áður. Þeir voru þurrir á manninn og beiskir yfir því hvernig komið var fram við þá og reyndu ekki einu sinni að sýna kurteisi.

„Hvað höfum gert af okkur, herra konungur?“ spurði Balinn sem nú var elstur fyrir hópnum. „Er það eitthvert afbrot að villast í skógi, verða svangur og þyrstur og lenda í kasti við risakóngulær? Eru þessar kóngulær kannski tamin húsdýr ykkar eða gæludýr, úr því að þið reiðist okkur svo fyrir að við drápum þær í hrönnum.“

Við slíkum málflutningi brást konungurinn hinn versti og svaraði: „Það er alvarlegt brot að ryðjast án leyfis inn í mitt ríki. Gleymið ekki að þið voruð í konungsríki mínu og þið notuðuð þann veg sem þjóð mín lagði? Þrisvar sinnum eltuð þið og réðust á þjóð mína í skóginum og ærðuð upp kóngulærnar með uppnámi ykkar og gauragangi: Eftir alla þá röskun sem þið hafið valdið á ég kröfu á að fá að vita hvað þið eruð að flækjast hér, og ef þið segið mér ekki allt af létta, verð ég að halda ykkur öllum í fangelsi, þangað til þið hafið lært að sýna meiri skilning og mannasiði!“

Síðan gaf hann vörðunum fyrirmæli um að hver dvergur um sig skyldi innilokaður í sínum einangrunarklefa, þeir skyldu njóta matar og drykkjar, en fengju ekki að fara út úr holu sinni, fyrr en einhver þeirra að minnsta kosti fengist til að leysa frá skjóðunni um allt sem hann vildi vita. En hann leyndi þá því að Þorinn væri líka fangi hans. Það varð hlutverk Bilbós að komast að því.

Það tók líka á taugarnar fyrir vesalings herra Bagga að búa þarna aleinn í hellinum, langalengi og alltaf í felum. Hann þorði aldrei að taka af sér hringinn og varla að festa svefn, jafnvel þó hann træði sér inn í dimmustu og fjarlægustu skotin sem hann gat fundið. Til þess að hafa eitthvað fyrir stafni byrjaði hann að ráfa ósýnilegur fram og aftur um höll Álfakonungsins. Hliðunum var lokað með töfrum, en stundum slapp hann út ef hann var snöggur þegar tækifæri gafst. Flokkar Skógarálfa, stundum með konunginn í fararbroddi, riðu við og við út til veiða eða til að sinna einhverjum verkum í skógunum eða í landinu þar fyrir austan. Þá gat Bilbó, ef hann var nógu liðugur, rétt sloppið út fyrir aftan þá, þó það gæti verið hættulegt. Nokkrum sinnum var hann næstum orðinn undir í hliðinu þegar grindurnar skullu niður á eftir síðasta álfinum. Hinsvegar þorði hann ekki að blanda sér inn í hópinn ef ske kynni að skuggi hans sæist (þó hann væri ósköp mjósleginn og þokukenndur í ljósinu frá kyndlunum) eða af ótta við að einhver rækist á hann svo hann uppgötvaðist. Og þegar hann fór út um hliðið, sem ekki var mjög oft, var það til lítils. Hann vildi ekki yfirgefa dvergana og satt að segja vissi hann ekki hvert í heiminum hann ætti að fara án þeirra. Hann gat ekki haft við álfunum ríðandi á veiðum allan tímann sem þeir voru burtu, svo að hann komst aldrei að því hvaða leið lægi út úr skóginum heldur ráfaði bara eymdarlega um skóginn, lafhræddur við að villast áður en hann fengi tækifæri til að snúa aftur inn. Þá sótti líka svengdin að honum, ef hann fór út, því hann var enginn veiðimaður, en inni í hellunum tókst honum alltaf að finna sér eitthvað til viðurværis með því að stela mat úr búri eða af borði, þegar enginn sá til.

„Ég er eins og innilokaður innbrjótur sem kemst ekki burt, en verð stöðugt að halda áfram að stela úr sama húsinu dag eftir dag,“ hugsaði hann. „Þetta er ömurlegasti og leiðinlegasti hluti alls þessa andstyggilega, þreytandi og óþægilega ævintýris! Ég vildi óska að ég væri aftur kominn heim í hobbitaholuna mína og sæti þar við hlýjan arininn og lampaljósið!“ Oft óskaði hann þess líka að hann gæti komið orðsendingu með hjálparkalli til vitkans, en að sjálfsögðu var það gjörsamlega útilokað. Brátt gerði hann sér grein fyrir að ef koma ætti einhverri hreyfingu á málin, þá yrði hann sjálfur að gera það einn og óstuddur.

Loksins eftir eina eða tvær vikur af þessu felulífi, þar sem hann fylgdist með og elti varðmennina út um allar trissur, komst hann að því hvar hinum einstöku dvergum var haldið í prísund . Hann fann alla tólf klefa þeirra sitt í hvorum hluta hallarinnar og bráðlega var hann farinn að rata prýðilega um gangana. Þá kom það honum mjög á óvart eitt sinn er hann hlýddi á tal varðanna, að enn einn dvergur myndi auk þess vera í fangelsi, en hafður í haldi í sérstaklega djúpu og dimmu svartholi. Hann gat sér þess að sjálfsögðu strax til að þar myndi vera Þorinn og bráðlega fékk hann staðfestingu á því. Og eftir margbrotna erfiðleika tókst honum líka að finna dyflissu hans og jafnvel að skiptast á orðum við þennan fyrirliða dverganna, þegar enginn var þar á ferli.

Þorinn var orðinn svo niðurbrotinn að honum var næstum runnin reiðin yfir eigin ógæfu. Hann var jafnvel farinn að gera því skóna að segja kónginum allt af létta um fjársjóðinn mikla, tilgang leiðangursins (og fátt sýnir nú betur hve djúpt hann var sokkinn). En þá heyrði hann allt í einu mjóróma rödd Bilbós gegnum skráargatið. Hann gat varla trúað sínum eigin eyrum. Brátt gerði hann það þó upp við sig að ekki væri um að villast og þrýsti sér að dyrunum og átti langt hvísl við hobbitann hinum megin við hurðina.

Þannig vildi það til að Bilbó gat leynilega borið orð Þorins til allra hinna innilokuðu dverganna, sagt þeim að foringi þeirra væri líka í haldi skammt undan og að enginn þeirra mætti upplýsa konunginn um tilgang ferðarinnar, nema því aðeins að Þorinn gæfi þeim merki um það. Því að hann hafði aftur hert upp hugann, þegar hann frétti hvernig hobbitinn hefði bjargað félögum sínum frá kóngulónum og þar með varð hann jafn staðfastur og áður í að leysa sig ekki úr haldi með loforðum við konunginn um hlutdeild í fjársjóðunum, fyrr en allar vonir um að sleppa burt með einhverjum hætti væru brostnar. Það er að segja þangað til hinn merkilegi herra Ósýnn Baggi (sem hann hafði nú fengið mikið álit á) hefði algjörlega gefist upp á því að finna nokkra útleið.

Hinir dvergarnir voru allir fullkomlega sáttir við orðsendinguna. Öllum fannst þeim að eigin hlutdeild í fjársjóðnum (sem þeir voru þegar farnir að telja sína eign, þrátt fyrir vandræði sín og drekann ósigraðan) myndi rýrna ákaflega ef Skógarálfarnir fengju líka part af honum, og treystu því alveg á handleiðslu Bilbós. Og takið eftir — alveg eins og Gandalfur hafði spáð! Kannski var þetta líka ástæðan fyrir því að vitkinn hafði yfirgefið þá, að hann vildi láta á þetta reyna.

Bilbó var aftur á móti ekki nærri eins bjartsýnn og þeir. Sérstaklega var honum meinilla við að hinir allir skyldu þannig á hann treysta. Hann vildi ekki taka á sig slíka ábyrgð. Þá óskaði hann sér þess innilega að vitkinn væri einhvers staðar liðtækur. En slíkt var náttúrulega út í hött. Sjálfsagt var Gandalfur langt í burtu handan við skuggalegar fjarlægðir Myrkviðar. Og Bilbó sat og braut og braut heilann í þúsund stykki, þangað til höfuðið á honum var að því komið að springa, en aldrei kviknaði á perunni. Svona ósýnilegur töfrahringur var að vísu þarfaþing en hann gat ómögulega gagnast til að frelsa þá alla fjórtán. En auðvitað, eins og þið hafið sjálfsagt getað ímyndað ykkur, bjargaði hann vinum sínum að lokum og nú segir frá því hvernig það gerðist.

Dag nokkurn þegar Bilbó var á ferli og snuðrandi um allt, komst hann á snoðir um merkilegan hlut. Stórhliðið var ekki eini inngangurinn að hellunum. Vatnsrás rann undir neðsta hluta hallarinnar og sameinaðist Skógánni nokkru austar, fyrir neðan bröttu hlíðina við aðalmunna hellanna. Þar sem hún kom út úr fjallinu var vatnshlið. Þar náði klettaloftið næstum niður að yfirborði vatnsins og mátti fella hliðgrind alveg niður á botn rásarinnar til að hindra að nokkur kæmist þar í gegn. En oft var grindin höfð opin því að töluverðir aðdrættir og flutningar fóru fram um þetta vatnshlið. Ef einhver kæmi inn um opið hefði blasað við honum dimm grófhöggin neðanjarðarrás djúpt inn í bergið. En á einum stað þar sem rásin rann undir hellana hafði gat verið höggvið í loftið og þar komið fyrir stórum fellihlerum úr eik. Þeir opnuðust upp á við inn í vínkjallara konungsins. Þar stóðu tunnur í löngum röðum, því að Skógarálfar og sérstaklega konungur þeirra, voru sólgnir í vín, þótt enginn vínviður yxi í skóginum. Því varð að flytja vínið og ýmsan annan varning inn langt, frá frændliði þeirra í Suðri eða frá vínekrum Manna í fjarlægum löndum.

Úr felum bak við eina stærstu ámuna uppgötvaði Bilbó fellihurðirnar og hvernig þær verkuðu og þar lá hann á hleri og heyrði á mál þjónustumanna konungsins og komst þannig að því, hvernig vínið og annar varningur var fluttur upp árnar eða landleiðis til og frá Langavatni. Svo virtist sem þar stæði enn Mannaborg, sem væri reist á brúm eða stólpaundirstöðum langt úti í stöðuvatninu til varnar gegn hverskyns óvinum og sérstaklega drekanum í Fjallinu. Frá Vatnaborginni eins og hún var kölluð, voru tunnurnar fluttar upp eftir Skógá. Stundum voru þær aðeins bundnar saman í stóra sjálffljótandi flota sem stjakað var eða róið upp eftir ánni, stundum hlaðið á flatbytnur.

Þegar tunnurnar höfðu hinsvegar verið tæmdar, köstuðu álfarnir þeim niður um fellidyrnar, opnuðu vatnshliðið og þær flutu með vatnsrásinni og skoppuðu áfram með henni þangað til straumurinn bar þær niður ána að stað þar sem nes myndaðist í bakkann, nálægt austurjaðri Myrkviðar. Þar var þeim safnað saman, bundnar í flota og fleytt áfram áleiðis til Vatnaborgar sem stóð nálægt ósi Skógár í Langavatn.

Um stund sat Bilbó kyrr og velti fyrir sér þessu vatnshliði og hvort hægt væri að skipuleggja undankomu vina hans um það og smámsaman fór að kvikna örvæntingarfullur neisti að flóttaáætlun.

Búið var að færa föngunum kvöldmatinn. Verðirnir fóru um gangana og tóku niður blysin svo allt var í svarta myrkri. Bilbó heyrði þá til ráðsmanns konungs sem bauð foringja varðliðanna góða nótt.

„En skrepptu nú með mér,“ sagði hann „og smakkaðu nýja vínið sem var að koma inn. Ég á heilmikið verk fyrir höndum í nótt að koma frá mér tómum tunnum, svo við skulum fá okkur sopa til þess að verkið gangi betur.“

„Ágætt,“ sagði varðliðsforinginn. „Ég skal smakka á víninu með þér til að sjá hvort það hæfir konungsborði. Það á að vera mikil veisla í kvöld og það gengur ekki að senda þangað lélegt vín!“

Þegar Bilbó heyrði þetta varð hann óður og uppvægur, því að þetta var ótrúleg heppni. Óvænt sá hann allt í einu opnast möguleika á að reyna fífldjarfa flóttaáætlun. Hann fylgdi álfaforingjunum tveimur eftir er þeir fóru inn í lítinn kjallaraklefa og settust við borð en á því stóðu tvær stóreflis drykkjarkönnur. Brátt fóru þeir að drekka, urðu háværir og hlógu mikinn. Aftur var Bilbó merkilega heppinn. Helst þyrfti vínið að vera sterkt svo að svefninn sækti á skógarálfana. Og þetta vín reyndist einmitt vera sérlega höfug uppskera úr stórum vínekrum Dúrvinju, sem ekki var ætlað óbreyttum hermönnum eða þjónustufólki, heldur aðeins veislum konungsins og þar skyldi það sopið úr litlum staupum en ekki úr stórum vínkönnum ráðsmannsins.

Brátt fór aðalvarðforinginn að dotta og draga ýsur, svo laut hann fram á borðið og steinsofnaði. Matráðsmaðurinn hélt þó áfram að tala og hlæja með sjálfum sér um stund, án þess að taka eftir að hinn var sofnaður en brátt kom svefninn líka yfir hann og hann seig niður á borðið og fór að hrjóta við hliðina á vini sínum. Þá læddist hobbitinn að þeim og áður en við var litið var yfirvörðurinn laus við lyklakippu sína en Bilbó á hlaupum eins hratt og hann þorði eftir göngunum í áttina að fangaklefunum. Lyklakippan var hinsvegar æði þung fyrir veikbyggða arma hans og um leið var hann sífellt með lífið í lúkunum. Þótt hringurinn gerði hann ósýnilegan, skall hátt og glamraði í lyklunum, og var hann skjálfandi á beinunum um að rekast á einhvern.

Fyrst opnaði hann fangadyr Balins og læsti þeim strax vandlega aftur, þegar dvergurinn var kominn út. Balinn varð steinhissa eins og þið getið ímyndað ykkur, en feginn var hann að komast úr þrengslunum. Hann vildi doka við, spyrja allskyns spurninga og fá að vita hvað Bilbó væri að bralla og allt um það.

„Til þess er enginn tími nú að fara neitt að rökræða um hlutina!“ sagði hobbitinn. „Fylgdu mér bara! Við verðum allir að halda saman og ekki hætta á það að missa hver af öðrum. Við verðum allir að komast sameiginlega undan eða enginn, og þetta er eina tækifærið. Ef upp kemst um okkur, má hamingjan vita, hvar konungurinn næst læsir ykkur inni, hlekkjaða bæði á höndum og fótum, býst ég við. Vertu því ekkert að þrefa og þvæla heldur hlýddu mér!“

Og þannig hélt Bilbó áfram frá einum dyrum til annarrar þar til þeir voru orðnir tólf sem fylgdu honum — enginn þeirra var þó til neinna stórræðanna nýstignir út úr myrkrinu og langri fangavist. Hjartað í Bilbó tók kipp í hvert skipti sem einhver þeirra rak sig á eða ræskti sig eða þeir voru að pískra eitthvað í myrkrinu. „Fjandans læti eru alltaf í þessum asnalegu dvergum!“ hugsaði hann með sjálfum sér. En allt fór þó vel og engir verðir urðu á leið þeirra. Það vildi einmitt svo vel til að þetta kvöld var haldin mikil hausthátíð í skóginum og þá einnig í höllinni fyrir ofan. Næstum allir kóngsins menn voru að skemmta sér.

Að lokum eftir mikið fum og fát komu þeir að svartholi Þorins langt niðri í djúpinu, en sem betur fer þó ekki mjög langt frá vínkjallaranum.

„Ótrúlegt!“ sagði Þorinn þegar Bilbó hvíslaði að honum að koma út og slást í vinahópinn. „Gandalfur hafði sannarlega rétt fyrir sér eins og venjulega! Þú ert sá langsamlega mesti snilldar innbrjótur sem hægt er að hugsa sér, og stendur þig einmitt best þegar mest liggur við. Við munum vissulega verða þér til eilífðar þjónustufúsir hvað sem í skerst hér eftir. En hvað er næst til ráða?“

Bilbó sá nú að hann komst ekki lengur hjá því að útskýra hugmynd sína eins og hann best gæti í stuttu máli. Hann var þó ekki viss um hvernig dvergarnir tækju áætlun hans. Ótti hans reyndist heldur ekki ástæðulaus, því að þeim leist hreint ekkert á blikuna og fóru hástöfum að malda í móinn, þrátt fyrir hættuna.

„Við verðum allir meiddir og marðir og sjálfsagt drukknaðir líka!“ nöldruðu þeir. „Við héldum að þú hefðir einhverja skynsamlega lausn, úr því að þú komst yfir lyklana. En þetta er alger fásinna!“

„Jæja, þið um það!“ sagði Bilbó miður sín og móðgaður. „Jæja, komið þá, ég skal fylgja ykkur aftur í notalegu fangaklefana ykkar, og loka ykkur tryggilega inni aftur svo þið getið setið þar í náðum og haft nægan tíma til að velta aftur upp betri lausnum — en hitt er ég hræddur um, að ég fái seint annað tækifæri til að ná lyklunum, jafnvel þó ég reyndi.“

Þetta dugði, svo þeir létu róast. Á endanum urðu þeir að sjálfsögðu að gera allt eins og Bilbó ætlaðist til, því að það var augljóslega vonlaust að þeir gætu ratað upp á efri hæðirnar og farið að berjast og brjótast út um hlið sem lokuðust af töfrum. Og það var síst vænlegra að halda áfram þessu nöldri niðri í göngunum þangað til þeir yrðu aftur gripnir. Þeir áttu því einskis annars úrkosta en skreiðast á eftir hobbitanum niður í neðsta kjallarann. Þeir fóru út um dyr og komu þar auga á varðliðsforingjann og ráðsmanninn hrjótandi, hamingjusama með sælunnar gleðisvip á andliti. Dúrvinjuvínið veitir sannarlega djúpan og skemmtilegan dúr. Annar svipur yrði á andliti yfirvarðliðans daginn eftir, enda þótt Bilbó, af einskærri góðmennsku læddist inn til hans og festi lyklakippuna aftur við belti hans, áður en þeir héldu áfram.

„Kannski gæti það bjargað honum út úr hluta af þeim vandræðum sem bíða hans,“ sagði herra Baggi við sjálfan sig. „Hann er ekkert slæmur náungi, og hefur komið vel fram við fangana. Nú þegar lyklakippan er óhreyfð, botna þeir ekkert í því hvað hefur gerst. Þeir halda þá sjálfsagt að einhverjum svartagaldri hafi verið beitt svo allir fangarnir gætu gengið í gegnum lokaðar dyr og horfið. Já horfið! En við verðum að hafa hraðar hendur, ef það dæmi á að geta gengið upp!“

Balni var skipað á vörð yfir foringjanum og ráðsmanninum til að vara hina við ef þeir rumskuðu. Hinir fóru allir niður í vínkjallarann að fellihurðunum. Þeir máttu engan tíma missa. Bilbó vissi að áður en langt um liði myndi fjöldi álfa koma niður til að hjálpa ráðsmanninum að koma tómu tunnunum gegnum dyrnar og út í vatnsrásina. Tunnurnar stóðu þarna þegar tilbúnar í röðum á miðju gólfinu og átti aðeins eftir að ýta þeim út. Sumt voru víntunnur en þær komu ekki að miklu gagni því að erfitt var að ná botninum úr þeim nema með miklum hávaða og engu auðveldara að festa botnana aftur í nema með díxilhöggum. En þar voru líka margar tunnur sem notaðar höfðu verið undir ýmsan annan varning svo sem smjör, epli og hvaðeina annað sem þurfti til hallar konungs.

Þeir fundu strax þrettán slíkar tunnur nógu stórar til að taka einn dverg. Sumar þeirra voru raunar í stærra lagi og þegar dvergarnir skriðu ofan í þær höfðu þeir mestar áhyggjur af hvað þeir myndu kastast og skella til inni í þeim og það þó Bilbó gerði allt sem hann gat til að troða hálmi og öðru stoppi til að búa sem þægilegast um þá í skyndi. Loks hafði tólf dvergum verið komið fyrir en af þeim var erfiðast að eiga við Þorin, sem velti sér og iðaði á alla kanta í sinni tunnu, urrandi eins og stór hundur í alltof litlum hundakofa. Síðastur kom svo Balinn af vaktinni og var með eilífðar múður út af því að það vantaði loftgöt, sagðist vera að kafna jafnvel áður en lokið var sett á. Bilbó hafði gert allt hvað hann gat til að stífla göt á hliðum tunnanna og festa lokin eins örugglega á og hægt væri, og nú stóð hann einn eftir, hlaupandi til og frá við að leggja síðustu hönd á innpökkunina og vonaði gegn öllum líkum að áætlunin tækist.

Ekki mátti það heldur tæpara standa. Aðeins um mínútu eða svo eftir að lok Balins hafði smollið í heyrðist ómur af röddum og sáust blaktandi ljós. Nokkrir álfar komu hlæjandi og rausandi niður í vínkjallarana og sungu hendingar úr gamansöngvum. Þeir komu úr glöðum fagnaði í einum salanna og vildu sem skjótast snúa aftur í gleðskapinn.

„Hvar er gamli Galíon ráðsmaður?“ sagði einn þeirra. „Ég sá hann ekki við borðið í nótt. Hann ætti að vera kominn til að segja okkur fyrir verkum.“

„Það væri ljótan ef sú letibykkja yrði of sein,“ sagði annar. „Mig langar ekkert til að dóla hérna niðri meðan söngurinn ómar uppi!“

„Ha, ha!“ var hrópað. „Hérna er gamli þrjóturinn með hausinn ofan í krús! Hann hefur verið hérna að halda sína eigin hátíð með vini sínum varðliðsforingjanum.“

„Skekið hann! Vekið hann!“ hrópuðu hinir óþolinmóðir.

En Galíon var síður en svo hrifinn af því að láta skekja sig og vekja og ekki batnaði það við að þeir hlógu að honum. „Þið komið alltof seint,“ nöldraði hann. „Hér látið þig mig bíða og bíða eftir ykkur, meðan þið sitjið uppi að sumbli, skemmtið ykkur og gleymið skylduverkum ykkar. Það er engin furða þótt ég sofni útaf í biðinni.“

„Nei, vissulega er það engin furða,“ svöruðu þeir, „þegar skýringarnar liggja hér á borðinu hjá þér í vínkönnunni! Svona lofaðu okkur nú að smakka á svefnlyfinu áður en við dettum líka út af! Engin þörf að vekja lyklapéturinn þarna. Hann virðist hafa fengið meira en sinn skammt eftir útlitinu að dæma.“

Svo drukku þeir einn hring og urðu skjótt afar kátir og galsafengnir. Þeir misstu þó ekki alveg stjórn á sér. „Hvað er nú þetta Galíon!“ æptu sumir, „þú hefur byrjað þína hátíð æði fljótt og drukkið vitið frá þér! Þú hefur sett hér nokkrar fullar tunnur í stað tómra, þær eru að minnsta kosti þyngri.“

„Hvaða vitleysa, haldið bara áfram með verkið!“ urraði ráðsmaðurinn. „Það er ekkert að marka þó svona hífaðir og hálffullir lyppingar þykist finna þyngdina meiri. Þetta eru allt tunnur sem eiga að fara og engar aðrar. Gerið eins og ég segi!“

„Jæjaþá, jæjaþá,“ svöruðu þeir og veltu tunnunum að opinu. „Það verður þá á þína ábyrgð ef fullum smjörtunnum og besta víni konungsins er varpað í ána, svo að Vatnabúar geti haldið veislu í því ókeypis!“

Veltum og veltum og vöggum

vínámum og köggum.

Tökum þennan tunnufans,

tómar skulu þær stíga dans.

Látum þær léttar gossa,

niður flúðir og fossa,

fljótandi hoppa og hossa

á farleið til framandi lands.

Þessa vísu sungu þeir með fyrstu tunnunni og veltu síðan þeirri næstu að dimmu opinu og létu hana gossa fram af brúninni út í ískalt vatnið nokkrum fetum neðar. Sumar tunnurnar voru raunverulega tómar, aðrar með einum dvergi í hnipri, en allar duttu þær niður hver á eftir annarri og rákust saman með skellum og smellum. Það glumdi í þeim þegar þær komu niður á tunnum sem á undan voru komnar, skvompuðu í vatninu eða rákust utan í klettaveggi rásarinnar, hver um aðra þvera og hoppuðu og skoppuðu niður strauminn.

Þá allt í einu uppgötvaði Bilbó veika hlekkinn í allri áætlun sinni. Líkast til eruð þið fyrir löngu búin að sjá hann og byrjuð að hlæja að mistökum hans. Samt er ég ekki viss um að þið hefðuð staðið ykkur eins vel í stykkinu í hans sporum. Auðvitað var hann sjálfur ekki í neinni tunnu, enda enginn til að pakka honum niður, þó hann hefði haft hana. Og nú rann það upp fyrir honum að ekki var annað sýnt en að hann myndi missa af öllum vinum sínum í þetta skiptið (þeir voru næstum allir horfnir niður um dimmar fellidyrnar).

Hann væri þá sjálfur algjörlega einn og yfirgefinn og yrði víst að sitja eftir í felum sem eilífur innbrjótur í álfahellinum. Því að enda þótt hann slyppi út um efra hliðið í skyndi, voru harla litlar líkur á að hann gæti haft upp á dvergunum aftur. Hann rataði heldur ekki landleiðina út á nesið þangað sem tunnunum væri safnað saman. Líka hafði hann áhyggjur af því hvernig í ósköpunum færi þá fyrir dvergunum án hans, því að hann hafði ekki haft tíma til að segja þeim nema undan og ofan af öllu því sem hann hafði komist að, eða hvað hann hafði í hyggju þegar þeir væru allir komnir út úr skóginum.

Meðan allar þessar hugsanir hringluðu í huga hans, héldu kátir álfarnir áfram að syngja sína gleðisöngva við falldyrnar út að ánni. Sumir voru farnir að undirbúa að toga í kaðlana sem lyftu upp fallgrindunum við vatnshliðið til að hleypa tunnunum út, eftir að þær væru allar komnar á flot.

Látum fljóta um svalan seim,

siglið nú til baka heim.

Kveðjið falda konungs höll,

kveðjið norræn bröttufjöll.

Burt úr helli grettum, grám

greiðið för und skógi hám,

– og nú liggur leiðin hvert?

Loftið undir vítt og bert.

Framhjá sefi og framhjá reyr,

framhjá bökkum líður þeyr.

Í þokumóðu augum blínd

ætli hún verði alveg týnd.

Horfið upp um stjörnu stig,

í straumi mættu þær spegla sig.

Dreymið þegar dagur rís

um dýrðarinnar paradís

En þá er sveigt í suðurátt,

þar sólin skín á himni hátt.

Þangað sem allar þagna þrár

og þrungna gullin tár

Látið fljóta um svalan seim,

siglið nú til baka heim.

Kveðjið falda konungs höll

kveðjið norræn bröttufjöll.

Nú voru þeir að velta síðustu tunnunni að falldyrunum! Í örvæntingu sinni og algeru ráðaleysi um hvað hann ætti til bragðs að taka, greip vesalings litli Bilbó til þess ráðs að ná taki á henni og láta sig gossa með henni þegar henni var ýtt fram af brúninni. Svo féll hún niður í vatnið, splass! niður í kuldann og dimmuna og auðvitað lenti hann undir henni.

Hann kom aftur úr kafi spúandi og frussandi og hélt traustataki í tunnukantinn eins og rotta, en hvað sem hann reyndi gat hann ekki klöngrast upp á tunnuna. Í hvert skipti sem hann reyndi það, snerist hún um koll og kaffærði hann aftur. Tunnan var raunverulega tóm og flaut létt sem korktappi á öldunum. Þó hann væri með hlustirnar fullar af vatni, heyrði hann enn til álfanna syngjandi í kjallaranum fyrir ofan. Þá var fellidyrunum skyndilega skellt aftur með dynk og raddirnar þögnuðu. Hann var í dimmum neðanjarðarfarvegi, fljótandi í ísköldu vatni, aleinn, því að ekki var treystandi á vini sem pakkað hafði verið niður í tunnur.

Brátt móaði fyrir grámabletti í stað myrkurs framundan. Hann heyrði ískrið í vatnshliðinu þegar byrjað var að hífa hliðgrindurnar upp og hann var allt í einu í miðri hringiðu innan um hoppandi og skoppandi tunnur sem þyrptust saman áður en þeim var sleppt undir bogann og út í opinn strauminn. Hann mátti standa í ströngu til að forðast árekstra og meiðsli, en loksins fór þessi hriktandi hrúga að leysast í sundur og tunnurnar að dreifast hver á eftir annarri undir steinbogann og síðan burtu. Þá sá hann að það hefði ekki verið hollt fyrir hann ef honum hefði tekist að klifra upp á tunnuna, því að svo var lágt undir brún hliðopsins að alls ófullnægjandi hefði verið jafnvel fyrir lítinn hobbita.

Út komust þeir og bárust með straumnum milli slútandi trjágreina á báðum bökkum. Bilbó reyndi að gera sér í hugarlund hvernig dvergunum liði og hvort mikið vatn hefði komist í tunnur þeirra. Sumar sem skoppuðu áfram við hlið hans sátu æði lágt í og taldi hann víst að í þeim sætu dvergarnir.

„Ég vona bara að ég hafi fest lokin nógu þétt á!“ sagði hann, en eftir það hafði hann meiri áhyggjur af sjálfum sér, svo hann gleymdi dvergunum. Honum tókst að halda höfðinu upp úr ánni en hríðskalf af kulda og var farinn að óttast að hann myndi deyja áður en úr rættist eða hvort hann ætti kannski að hætta á að sleppa taki á tunnunni og reyna að svamla upp að bakkanum.

En brátt vænkaðist hagur hans, þegar hvirfilstraumur bar margar tunnur upp að bakkanum á einum stað og þær stóðu fastar á einhverri falinni rót. Bilbó greip þá tækifærið og klöngraðist upp hliðina á sinni tunnu meðan hún studdist stöðug við aðra tunnu. Hann krafsaði sig upp eins og hálfdrukknuð rotta og lagðist endilangur á lokið til að halda jafnvægi eftir bestu getu. Vindurinn var kaldur en þó ekki eins napur og vatnið og hann vonaðist til að velta ekki út af, þegar þær færu aftur af stað.

Áður en langt um leið losnuðu tunnurnar og snerust og rugguðu með straumnum niður ána og út í aðalstrenginn. Þá varð hann aftur að hafa sig allan við að halda sér uppi, og tókst það einhvern veginn, þó ekki færi vel um hann. Sem betur fer var hann mjög léttur og þetta var auk þess óvenjulega stór og mikil áma, svolítið lek og búin að taka í sig dálítið vatn. Allt að einu var þetta einna líkast því að reyna að halda sér án beislis eða ístaða á bakinu á belgmiklum smáhesti sem var að fara að velta sér í grasinu.

Þannig bar herra Bagga fram með straumnum þar til trjágróðurinn á bökkunum fór að þynnast og hann fór að sjá til fölari himins inn á milli. Dimm kvíslin opnaðist skyndilega upp á gátt og mætti meginstraumi Skógár í stríðum streng niður frá stórhliði konungs. Við tók dimmur vatnsflötur sem þó var ekki lengur yfirskyggður og í streymandi yfirborðinu var sem dönsuðu og brotnuðu í ljósbroti endurspeglanir skýja og stjarna. Hraðstreym vötn Skógár sendu allan þennan flota af kössum og tunnum áfram undir norðurbakkann þar sem iðan hafði holað út svolítinn flóa eða breiða vík. Fjaran var grýtt undir rofabökkum en að austanverðu stóð fram svolítill höfði úr hörðu bergi. Þar, á grynningum í fjörunni, rak flestar tunnurnar að landi, þó sumar ræki lengra og festust við höfðann.

Á bakkanum var fólk á verði. Þeir notuðu krókstjaka til að raða tunnunum saman á grynningunum, töldu þær, bundu saman en létu þær svo bíða þar til morguns. Vesalings dvergarnir, mikið hlaut þeim að líða illa að mega dúsa þar. En Bilbó hafði það ekki sem verst núna. Hann stökk af sinni tunnu og óð í land, svo laumaðist hann í áttina að einhverjum húsum sem hann kom auga á nálægt bakkanum. Hann hafði ekki lengur neinar vöflur á því að fá sér kvöldmat óboðinn, ef tækifæri gafst, var orðinn svo vanur því úr höllinni, og nú var hann farinn að kynnast því af eigin reynslu hvernig það er þegar hungrið sverfur að. Svo engin matvendni réð lengur ferðinni né siðavandur áhugi matgæðings á því besta úr búrinu. Og þegar hann kom auga á bjarma af útibáli einhvers staðar inn á milli trjánna sótti hann strax í hlýjuna svona rennblautur og hrakinn eins og hann var með fötin köld og slímug loðandi við sig.



Óþarfi er að rekja nánar ævintýri hans um nóttina, því að nú nálgast lok austurferðarinnar gegnum skóginn og þar með fer að hefjast síðasta og mesta ævintýrið svo við skulum fara hratt yfir sögu. Vissulega kom töfrahringurinn honum nú að gagni sem áður, fyrst í stað, en svo urðu blaut fótsporin og slettuslóðin hvar sem hann fór eða settist, til að koma upp um hann. Ekki batnaði það heldur þegar hann byrjaði að hnerra og hvar sem hann reyndi að fela sig komu ægilegar hnerrasprengingar upp um hann, þó hann reyndi að bæla þær niður. Áður en við var litið komst allt í uppnám í þorpinu á árbakkanum, en Bilbó slapp þó inn í skóginn með brauðhleif og vínbelg og kjötböku sem hann stal. Það sem eftir var nætur varð hann að hafast við blautur eins og hann var og fjarri eldinum en best yljaði þá vínbelgurinn. Honum tókst jafnvel að sofna svolítið á þurru laufi þótt liðið væri langt fram á haust og orðið kalt í lofti.

Hann hrökk aftur upp við sérlega háan og glymjandi hnerra í sjálfum sér. Það var að birta af degi og mikið um að vera við ána. Þeir voru sem óðast að tengja tunnurnar saman í flota og brátt myndu flotálfarnir stýra flekanum niður til Vatnaborgar. Aftur hnerraði Bilbó. Hann var ekki lengur votur en var þó kalt inn í merg og bein. Hann skakklappaðist niður bakkann eins hratt og stirðir fæturnir gátu borið hann og tókst rétt á síðustu stundu að klöngrast út á tunnuflekann án þess að eftir honum væri tekið í öllum skarkalanum. Sem betur fer var ekkert sólskin til að birta óþægilegan skugga af honum og til blessunar hnerraði hann ekki aftur lengi vel.

Nú var stjakað sterklega burt frá eyrinni með botnstjökum. Álfarnir sem stóðu á grynningunum lyftu og ýttu. Tunnurnar voru nú allar tengdar saman og brakaði og glumdi í þeim.

„Þær eru furðulega þungar í sér núna,“ sagði einhver nöldurskjóðan. „Þær liggja alltof djúpt í — sumar hafa ekki verið tæmdar. Ef þær hefðu komið upp að bakkanum í dagsljósi, hefðum við átt að skoða í þær,“ sögðu þeir.

„Nei, það er enginn tími til þess!“ hrópaði flotarinn. „†tið mér bara frá!“

Og loks var lagt af stað, silandi hægt í fyrstu, þangað til þeir fóru framhjá klettahöfðanum þar sem fleiri álfar stóðu viðbúnir að ýta þeim frá með stjökum og svo hraðar og hraðar þangað til meginstraumurinn þreif þá og þeir flutu áfram niður í áttina að Vatninu.

Nú voru þeir sannarlega sloppnir úr dyflissu konungsins og burt úr skóginum, en þá var aðeins eftir að sjá, hvort þeir kæmu dauðir eða lifandi upp úr tunnunum.

Загрузка...