XII. KAFLI Merkilegar upplýsingar

Dvergarnir stóðu nú þarna langalengi í gættinni, störðu inn í dimmuna og ráðslöguðu fram og aftur, þangað til Þorinn loks tók til máls:

„Nú er tími til kominn fyrir okkar mikilsmetna herra Bagga, sem hefur reynst okkur svo góður félagi á langri leið, hobbitann sem er svo fullur af hugrekki og þreki langt fram yfir það sem ætla mætti af hans líkamsstærð, og ef mér leyfist að bæta því við — hefur til að bera óvenjulega heppni langt fram yfir venjulegan skammt, — já, hvar var ég? jú, nú er kominn tími til fyrir hann að framkvæma loksins þá þjónustu sem varð þess ráðandi að hann var valinn til þátttöku í flokki okkar, að eins og ég segi — nú er kominn tími til fyrir hann að vinna til sinna verðlauna.“

Jæja, þið ættuð öll að vera farin að þekkja ræðustíl Þorins á mikilvægum tímamótum, svo ég læt þetta nú nægja, þó hann ætlaði að vísu að halda töluvert lengra áfram en þetta. Vissulega var hér komið að mikilvægum tímamótum, en Bilbó lét sér fátt um finnast. Því að hann var nú líka farinn að þekkja á Þorin og vissi mæta vel að hverju hann stefndi.

„Ef þú átt við og ætlar að segja að mér beri fyrstum að læðast inn í leyniganginn, Ó Þorinn Þráinsson Eikinskjaldi, mætti skegg þitt vaxa æ síðan,“ sagði hann súr á svip, „ljúktu því þá af og láttu því vera lokið! Kannski neita ég því. Ég hef þegar lent í tveimur meiriháttar vandræðum, sem tæplega fylgdu með í upprunalega samkomulaginu, svo ég held að ég eigi nú þegar inni hjá ykkur töluverð verðlaun. En „allt er þá þrennt er,“ hafði faðir minn að orðtaki og ég held að ég geti einhvern veginn ekki fengið mig til að neita ykkur um neitt. Kannski er ég nú líka farinn að treysta meira á heppnina en ég gerði í gamla daga,“ — þar átti hann við síðasta vor, áður en hann lagði af stað að heiman, en það virtist nú hafa verið fyrir heilmörgum öldum — „hvað um það, þá held ég bara að ég slái til og sé reiðubúinn að fara og gægjast inn svo illu sé best aflokið. En hver ætlar að koma með mér?“

Hann bjóst nú sosum ekki við að undir tæki heill kór sjálfboðaliða, svo hann varð heldur ekki fyrir neinum sérstökum vonbrigðum. Fjalar og Kjalar voru hreinlega ámátlegir þar sem þeir stóðu báðir á einum fæti, pass! en hinir reyndu ekki einu sinni að bjóða sig fram — nema gamli Balinn, vörðurinn, sem alltaf kunni svo vel við hobbitann. Hann kvaðst reiðubúinn að fylgja honum eftir inn fyrir, að minnsta kosti smáspöl og skyldi vera viðbúinn að kalla á hjálp ef á þyrfti að halda.

Það verður þó að segja dvergunum það til afsökunar, að þeir voru vissulega ákveðnir í að greiða Bilbó örlátlega fyrir þjónustu hans. Víst höfðu þeir tekið hann með sér til að framkvæma leiðindaverk og þeim fannst ekki nema sjálfsagt að hann ynni það ef hann gæti. En þeir hefðu allir verið reiðubúnir að leggja sig í líma til að bjarga honum úr vandræðum ef hann rataði í þau eins og þegar hann lenti í tröllahöndum í byrjun ævintýrisins, án þess að þeir hefðu þá enn nokkra ástæðu til að vera á nokkurn hátt skuldbundnir honum.

Þannig er það nú einu sinni. Dvergar eru engar hetjur, heldur út undir sig og hafa mikið álit á gildi peninga. Sumir eru brögðóttir og prettóttir og geta raunar verið mestu óhræsi. Aðrir eru það hinsvegar ekki, heldur heiðarlegir og góðir drengir eins og Þorinn og félagar hans, ef ekki eru gerðar of miklar kröfur til þeirra.

Stjörnurnar voru byrjaðar að kvikna fyrir aftan hann á fölum himni þó nætursortinn sækti að, þegar hobbitinn skreiddist inn um töfradyrnar og laumaðist þar með inn í fjallið. Það var miklu auðveldara en hann hafði búist við. Þetta var enginn inngangur drísildjöfla né heldur var hann neitt líkur grófri gangagerð Skógálfanna. Þessi göng höfðu hagleiksdvergar grafið á hátindi veldis síns og hæfileika. Þráðbein eins og reglustrika með sléttu gólfi og sléttum veggjum lágu þau með jöfnum og aflíðandi halla beint áfram —að einhverju fjarlægu innra opi í myrkrinu einhvers staðar fyrir neðan.

Brátt kom að því að Balinn bað Bilbó að láta sér „Ganga vel!“ og ákvað að þar við skyldi sitja sem hann enn gat séð móta dauft fyrir dyrunum og heyrt, vegna einhvers einkennilegs hljómburðar ganganna, hvíslið frá hinum sem orðið höfðu eftir fyrir utan. Svo setti hobbitinn á sig hringinn og niður bergmálsins varð honum sem áminning um að sýna enn meiri hobbitavarkárni en venjulega, þegar hann þokaðist hljóðlaust neðar og neðar í myrkrið. Hann skalf af ótta en ósýnilegur svipur hans var alveg ákveðinn og óhagganlegur. Hann var nú orðinn breyttur frá því hann fyrst hljóp af stað vasaklútslaus frá Baggabotni endur fyrir löngu. Nú hafði hann ekki notað neinn vasaklút langa lengi. Hann losaði um sverðið í slíðrunum, spennti beltið fastar og hélt áfram.

„Nú liggurðu á endanum laglega í því, Bilbó minn Baggi,“ sagði hann við sjálfan sig. „Þú steigst beint út í foræðið þarna um kvöldið í undarlega heimboðinu og nú verðurðu að hafa þig upp úr því og gjalda dýru verði fyrir það! Hjálpi mér hvað ég var og er mikill bjáni!“ sagði sú ættkvíslin í honum sem hafði minnst Tókablóð í sér. „Ég hef ekki nokkra minnstu þörf fyrir einhverja drekafjársjóði og ég gæti verið fullkomlega laus við allt þetta drasl og unað mér ágætlega alla ævi, ef ég aðeins gæti vaknað upp af draumi og uppgötvað að þessi fjandans göng væru ekki annað en forstofan heima hjá mér!“

Auðvitað vaknaði hann ekki, heldur hélt lengra áfram og áfram, þangað til hann sá ekki glitta hið minnsta í dyrnar fyrir aftan sig. Hér var hann allsendis aleinn. En bráðlega fannst honum verða hlýrra. „Skyldi þetta vera ylur af einhverri glóð sem virðist koma hérna á móti mér?“ hugsaði hann.

Jú, raunar, því lengra sem hann hélt óx það og óx, þangað til enginn vafi lék á því lengur. Framundan eygði hann roðaljós sem varð æ rauðara. Og nú var heldur enginn vafi á því að heitt var orðið í göngunum. Litlar rakatjásur svifu upp í móti framhjá honum og hann fór að svitna. Þá tóku að berast að eyrum hans mallandi hljóð eins og búbblaði af bólum í bullsjóðandi potti, en saman við blönduðust þó skruðningshljóð eins og risavaxinn köttur væri að mala. Það breyttist síðan, svo enginn vafi var á, í gúlgrandi kverkahljóð frá einhverju feiknarlegu dýri, hrjótandi í fastasvefni þarna niðri í rauðu glóðinni beint fyrir framan hann.

Þá sagði Bilbó hingað og ekki lengra. Og þegar honum skömmu síðar tókst að þoka sér aftur úr sporunum, var það sú mesta hetjudáð sem hann nokkru sinni vann. Í öllum þeim stórkostlegu viðburðum sem yfir hann dundu næst á eftir var engin sambærileg við þessa. Hér háði hann hið virkilega stríð, aleinn í ganginum, áður en hann hafði einu sinni augum litið þá gífurlegu ógn sem beið hans. Sem sagt, eftir stuttan stans, hélt hann áfram og þið skuluð bara ímynda ykkur hvernig hann kom út úr enda gangsins með samskonar opi, eins að stærð og lögun og efri dyrnar. Út um það gægðist lítill hrokkinkollur hobbitans. Fyrir neðan sig sá hann blasa við hinn voldugasta og dýpsta sal eða dyflissu-höllina, eins og hann var kallaður, sem hinir fornu dvergar höfðu holað út beint undan rótum fjallsins. Salurinn var að mestu hulinn myrkri svo að varla var hægt að ímynda sér gífurlega víðáttu hans, en hérna nærmegin á klettagólfinu bjarmaði af mikilli glóð. Glóð Smeygins!

Og þar lá hann raunar endilangur þessi líka tröllaukni roðagullni dreki, og var steinsofandi. Það ólgaði út frá kjafti hans og nösum og sluppu við og við út reykjarhnoðrar, en eldar hans lágu í dái. Fyrir neðan hann, undir öllum útlimum og risavöxnum upphringuðum hala og raunar allt í kringum hann til allra hliða lágu ósegjanlegir haugar af dýrgripum, smíðagulli og hráu gulli, gimsteinum og skartgripum og silfrinu í hrúgum í roðalituðum bjarmanum.



Smeyginn hafði brotið saman leðurvængina eins og ómælanlega voldug leðurblaka. Hann hallaði sér nokkuð á aðra hliðina svo að hobbitinn gat auðveldlega séð niður með síðum hans og í langan fölleitan kviðinn allan stráðan gimsteinum og brotagulli af því að liggja svo lengi og fast á sínum dýra beði. Fyrir aftan hann á nálægustu veggjum mátti óljóst greina brynjur, skjaldarmerki, hjálma og axir, sverð og spjót hangandi og hvarvetna stóðu raðirnar af stórum kerum og fötum fullum af svo miklum auðæfum að ómögulegt væri að reikna þau út.

Það lýsir svo sem ekki neinu að segja að Bilbó hafi staðið á öndinni. Það eru einfaldlega engin orð lengur til í málinu til að lýsa steingerðri furðu hans, síðan Menn breyttu tungumálinu sem þeir áður höfðu lært af álfum á unaðsdögum heimsins. Bilbó hafði oft heyrt sungið og sagt frá drekagulli, en dýrðin, glitið, frægð slíks fjársjóðs hafði aldrei fyrr komið honum til hugar. Hjarta hans var barmafullt og gripið sömu heillun og þrá dverganna eftir gulli. Og hann starði hreyfingarlaus, hafði næstum steingleymt hinum hræðilega varðliða fyrir neðan sig, við þessa sýn gullsins svo ómetanlegs og óteljanlegs.

Hann starði að því er virtist óstöðvandi á gullið þar til hann skreið, næstum gegnum vilja sínum, út úr skugga dyraopsins yfir gólfið að næsta jaðri fjársjóðahaugsins. Fyrir ofan hann lá sofandi drekinn, hræðileg ógn jafnvel þó í svefni væri. Bilbó greip stóran bikar tvíhentan, svo þungan að hann gat varla borið hann, gaut svo skelfdu auga upp fyrir sig. Smeyginn hreyfði væng, opnaði kló, og hriktið í hrotum hans breytti um tón.

Þá lagði Bilbó á flótta. En drekinn vaknaði ekki — ekki ennþá — heldur skipti yfir í aðra drauma græðgi og ofbeldis, liggjandi þarna í salnum á öllu því sem hann hafði sjálfur stolið, meðan litli hobbitinn stautaði smástígur upp eftir löngum göngunum. Hjartað í brjósti hans hamaðist, fæturnir titruðu og skulfu ennþá meira undir honum en áður á niðurleiðinni. Hann ríghélt þó bikarnum og hugsaði ekki annað en: „Mér tókst það! Þetta skal sýna þeim það og sanna! Líkari auðkýfingi en innbrjóti, verð ég að segja! Þeir skulu ekki heldur lengur kalla mig það!“

Sem þeir heldur ekki gerðu. Balinn var yfir sig glaður að sjá hobbitann sinn aftur. Og hann var ekki aðeins undrandi heldur miklu fremur fagnandi glaður að sjá hann þannig heilan á húfi. Hann lyfti Bilbó upp og bar hann síðasta spölinn út undir bert loft. Þá var miðnætti og skýin höfðu hulið stjörnurnar, en Bilbó lá með augun lokuð, gapti og naut þess svo að anda aftur að sér ferska loftinu að hann tók varla eftir æsingnum í dvergunum né hvað þeir lofuðu hann upp í hástert, klöppuðu á bakið á honum og lýstu ekki aðeins sjálfa sig, heldur allar ættir sínar um ókomnar aldir, honum þjónustufúsar.

Dvergarnir voru enn að láta bikarinn ganga á milli sín hönd úr hönd og tala hástemmt og dásamlega um björgun þessa mikla dýrgrips, þegar allt í einu fór að braka í berginu fyrir neðan þá eins og þetta væri gamalt eldfjall sem hefði ákveðið að byrja aftur að gjósa. Dyrnar fyrir aftan þá voru næstum aftur en þó stór steinn í kverkinni milli stafs og hurðar. En út um langan ganginn heyrðist þessi líka hræðilegi undirgangur, langt neðan úr djúpinu, með öskrum og trampi svo jörðin titraði undir fótum þeirra.

Þá gleymdu dvergarnir aftur gleði sinni og sjálfhælnu grobbi stundinni áður og koðnuðu niður í máttvana skelfingu. Þeir urðu enn að reikna með Smeygni. Það gengur ekki að taka ekkert tillit til heils dreka í áætlunum sínum, allra síst ef hann er rétt á næsta leiti.

Varla er hægt að segja að drekar hafi mikið gagn af öllum sínum auðæfum, en þeir vita upp á hár um allar sínar eigur, einkanlega ef þeir hafa lengi ráðið yfir þeim og þar var Smeyginn engin undantekning. Hann hafði skipt úr óværum draumi (þar sem hann hafði átt í leiðindum með riddara einn að vísu veimiltítu að vexti, en með fjári hvasst sverð og mikið hugrekki) yfir í blund og upp af blundinum hrökk hann og glaðvaknaði. Hann hafði fundið keiminn af undarlegum andblæ í hellinum. Skyldi vera einhver dragsúgur frá þessu litla gati? Hann hafði aldrei verið ánægður með það, þó að það væri ósköp lítið og nú góndi hann á það tortrygginn og botnaði ekkert í því að hann skyldi ekki hafa lokað því fyrir löngu. Upp á síðkastið var hann heldur ekki frá því að hann hefði heyrt einhver hljóð af daufri barsmíð eða sparki langt fyrir ofan sig, sem barst niður í bæli hans. Hann hreyfði sig og teygði upp hálsinn og reigði í allar áttir til að þefa. Þá sá hann allt í einu að bikarinn var horfinn!

Þjófar! Eldur! Morð! Annað eins hafði aldrei fyrir hann komið alla sína tíð síðan hann tók sér búsetu í Fjallinu! Ofsareiði Smeygins yfirgekk allan þjófabálk — það var sama fólskan sem kemur aðeins yfir ríkt fólk sem á langtum meira en það getur nokkurn tímann notið, skyndilega saknar það einhvers sem það hefur lengi átt en aldrei haft neitt gagn né áhuga á. Eldgusurnar þeyttust fram úr kjaftinum á honum, salurinn fylltist af reyk og hann skók rætur fjallsins. Hann þrýsti hausnum árangurslaust á litlu holuna, svo vatt hann upp á endilangan skrokkinn á sér og öskrandi neðan úr djúpunum æddi hann eins og undirheimaþruma upp úr djúpu bæli sínu út um salardyrnar, volduga ganga berghallarinnar og upp og út um Aðalhliðið.

Eina hugsun hans var að þrælkemba allt fjallið þangað til hann hefði klófest þjófinn til að rífa hann í tætlur og trampa á honum. Hann hlykkjaðist út um Hliðið, vatnið gaus upp í ærandi gufumekki og hann þeyttist í logabáli upp í loftið og settist á fjallstindinn í grænum og rauðglóandi eldtungum. Dvergarnir heyrðu hryllingsþytinn af flugi hans og þrýstu sér inn að klettaveggnum í þeirri von að leynast fyrir hryllilegum glyrnum drekans í veiðiham.

Þar hefðu þeir líkast til allir verið drepnir, ef Bilbó hefði ekki enn einu sinni sýnt snarræði. „Fljótt! Fljótt!“ hrópaði hann gapandi. „Dyrnar! Göngin! Hér getum við ekki verið.“

Þeir brugðu skjótt við orðum hans og voru um það bil að skríða inn í göngin, þegar Bifur æpti upp yfir sig: „Frændur mínir, Vambi og Bógur — við höfum steingleymt þeim. Þeir eru eftir niðri í dalnum hérna fyrir neðan!“

„Þeir verða drepnir og allir hestarnir okkar líka og við missum allar vistir okkar,“ stundu hinir. „Við fáum ekkert að gert.“

„Vitleysa!“ sagði Þorinn og náði aftur að viðhalda virðingu sinni og jafnaðargeði. „Við getum ekki skilið þá eftir. Svona nú herra Baggi og Balinn og þið tveir, Fjalar og Kjalar farið strax inn — Drekinn má ekki ná okkur öllum. En þið hinir, komið með reipin. Fljótir nú!“

Þetta varð ein sú versta stund sem þeir höfðu fram til þessa gengið í gegnum. Hræðileg reiðiöskur Smeygins glumdu yfir háfjallasölunum. Hann gæti hvenær sem er ætt í fossandi logabáli niður hlíðina eða sveimað í kring og fundið þá þarna á snarbrattri hamrabrúninni þar sem þeir voru að hamast við að hífa upp kaðlana. Upp komst Bógur og enn var öllu óhætt. Og upp komst sjálfur Vambi, blásandi og másandi þó vissulega brakaði í og tognaði á tauginni og enn var allt með felldu. Upp komust ýmis verkfæri og pokar af vistum en svo skall líka ógnin yfir þá.

Súrrandi hvinur heyrðist. Rautt ljós litaði toppana á standklettunum. Drekinn steypti sér niður.

Þeir höfðu með naumindum komist inn um gangaopið með alla bögglana, þegar Smeyginn kom þjótandi úr norðri, lét logatungurnar sleikja fjallshlíðarnar og barði stórum leðurvængjunum með ærandi hvin. Logandi andardráttur hans sveið grasið utan dyra og spýttist jafnvel örlítið inn um dyrasmáttina sem þeir höfðu skilið eftir, svo þeir sviðnuðu þar sem þeir lágu í felum. Blossandi eldar gusuðust upp og kolsvartir skuggar dönsuðu um klettana. Aftur féll myrkur yfir þegar hann var farinn hjá. Hestarnir hvinu af skelfingu, slitu upp tjóðrin og hentust burt á harðastökki. Drekinn steypti sér niður til að elta þá og var horfinn.

„Það er úti um vesalings klárana!“ sagði Þorinn. „Ekkert kemst undan Smeygni ef hann hefur fest auga á því. Hér stöndum við eftir og hér megum við dúsa nema einhvern okkar langi til að skakklappast allar þessar vegalengdir um opnar víðáttur niður að ánni með Smeygin yfir höfði sér!“

Það var sannarlega ekki skemmtileg tilhugsun! Þeir skriðu til öryggis lengra niður í göngin og þar lágu þeir og skulfu enda þótt þar væri bæði heitt og loftlaust, þangað til föl dögunin gægðist inn um dyragættina. Alla nóttina höfðu þeir við og við heyrt drunurnar frá fljúgandi drekanum glymja við, fara framhjá og þagna út í fjarskann þar sem hann hringsólaði um fjallshlíðarnar.

Drekinn þóttist mega ráða það af hestunum og leifum tjaldbúðanna sem hann fann, að menn hefðu komið ríðandi upp frá ánni og vatninu og klifið fjallshlíðina upp úr dalnum þaðan sem hestarnir höfðu staðið. En hann kom ekki auga á neitt op í hlíðina hvernig sem hann skimaði og litla vikið undir háum klettunum hafði haldið úti ofsalegustu logatungunum. Lengi sveimaði hann yfir í árangurslausri leit þangað til reiði hans rénaði í dögun og hann sneri aftur inn á gullinn beð sinn og lagðist til svefns — til að safna kröftum á ný. En hann myndi ekki gleyma og aldrei fyrirgefa þjófnaðinn þó að hann yrði á þúsund árum að molnandi steini. Og hann gat svo sem beðið. Hægt og hljóðlega skreið hann aftur inn í bæli sitt og lygndi aftur lævísum glyrnunum.

Þegar birti upp dró úr skelfingu dverganna. Þeir gerðu sér ljóst að einhver hætta hlaut að fylgja því að leita á slíkan rassmalagest og því engin ástæða til að blikna eða blána strax. Auk þess var engin leið fyrir þá að komast undan eins og Þorinn benti svo réttilega á. Hestarnir voru týndir eða drepnir og nú myndu þeir verða að bíða langalengi áður en Smeyginn losaði nógsamlega um varðstöðu sína svo að þorandi væri fyrir þá að fara þessa löngu leið til baka fótgangandi. Sem betur fer hafði þeim tekist að bjarga töluverðum vistum, sem myndu endast þeim lengi enn.

Þeir ræddu fram og aftur um það hvað nú væri til ráða, en komu alltaf að sama vandamálinu, að engin leið virtist sýnileg til að ryðja Smeygni úr vegi — en þetta hafði alltaf verið veikasti hlekkurinn í áætlun þeirra og gat Bilbó ekki látið hjá líða að benda þeim á það. En þá fór fyrir þeim eins og oft hendir þá sem ekki vita sitt rjúkandi ráð, að þeir skelltu allri skuldinni á hobbitann og fóru nú að skamma hann einmitt fyrir það sem þeir áður voru svo hrifnir og þakklátir fyrir: — Hvað þurfti hann að vera að taka gullbikarinn og reita Smeygin þannig til reiði.

„Hvað annað hefði ég sosum átt að gera sem innbrjótur,“ andmælti Bilbó reiðilega. „Ég var ekki ráðinn til að drepa dreka, það er hlutverk stríðskappa, mitt verk er að stela fjársjóði. Ég byrjaði líka reglulega vel. Eða bjuggust þið kannski við því, að ég kæmi berandi á bakinu til ykkar með alla fjársjóði Þrórs? Ef einhver ætti að vera óánægður, þá held ég að ég mætti nokkuð segja. Þá hefðuð þið þurft að taka fimm hundruð innbrjóta með ykkur en ekki einn. Vissulega er það mikill heiður fyrir afa ykkar að hann skyldi hafa verið svona ofsalega auðugur, en þið gáfuð mér aldrei hið minnsta í skyn, hve gífurlegir fjársjóðir hans voru. Það tæki mig hundrað ár að bera þá hingað út, þó ég væri fimmtíu sinnum stærri en ég er, og Smeyginn fylgdist með spakur eins og kanína.“

Eftir þennan reiðilestur lutu Dvergarnir höfði og báðu hann auðvitað auðmjúkir fyrirgefningar. „En hvað leggur þú til að við gerum, herra Baggi?“ spurði Þorinn kurteislega.

„Ég hef enga hugmynd um það sem stendur — ef þið eigið við, hvernig við eigum að taka með okkur fjársjóðinn. Það getur ekki byggst á neinu öðru en því að heppnin verði með okkur og að við getum með einhverju móti losnað við Smeygin. Það er ekki mitt fag að losna við dreka, en ég skal þó gera allt sem í mínu valdi stendur til að brjóta heilann um það. Sjálfur hef ég alls enga von um það og vildi bara vera kominn heill heim aftur.“

„Látum það nú liggja milli hluta í bili! En hvað eigum við til bragðs að taka núna, á þessari stundu?“

„Jæja, ef þið viljið raunverulega þiggja ráð mín, þá mundi ég segja að við getum ekkert annað gert en haft hægt um okkur þar sem við erum nú. Á daginn væri okkur vafalaust óhætt að skríða út til að anda að okkur hreinu lofti. Kannski væri á það hættandi eftir nokkurn tíma að einn eða tveir okkar yrðu valdir til að fara niður að birgðastöðinni okkar við ána og sækja okkur meiri vistir. En fyrst um sinn ættum við allir að halda okkur vel inni í göngunum að næturlagi.

Og nú skal ég gera ykkur tilboð. Hér er ég með hringinn og ég skal strax í hádeginu skríða þangað niður — hver veit nema Smeyginn sé enn sofandi — og aðgæta annars hvað hann ætlast fyrir. Kannski ég gæti komist á snoðir um eitthvað, hver veit, því að — „allir ormar hafa snöggan blett“ eins og faðir minn var vanur að segja, en ég efast þó um að hann hafi byggt það á eigin reynslu.“

Að sjálfsögðu þekktust dvergarnir ákafir þetta boð. Nú voru þeir þegar farnir að meta Bilbó litla öðrum fremur. Hann var orðinn eins og raunverulegur foringi í ævintýri þeirra. Hann var farinn að hafa sínar eigin hugmyndir og áætlanir. Um hádegisbil lagði hann af stað í annan könnunarleiðangur niður í fjallið. Auðvitað leist honum svo sem ekkert á það, en honum fannst það þó ekki eins afleitt nú, þegar hann vissi undan og ofan af því hvað biði hans. Hefði hann hinsvegar vitað meira en hann vissi um dreka og hvað þeir geta verið fjári slungnir, hefði hann kannski verið enn hræddari og ekki jafn vongóður um að koma að honum sofandi.

Þegar hann lagði af stað skein sól í heiði úti fyrir, en inni í göngunum var myrkt eins og af koldimmri nótt. Ljósið frá hálfopinni dyragáttinni hvarf brátt þegar hann lagði af stað niður. Hann hafði svo hljótt um sig að jafnvel blærinn af blíðustu golu hefði ekki getað verið hljóðari og hann gat ekki að sér gert að vera þó nokkuð hreykinn af sjálfum sér, þegar hann nálgaðist neðri útganginn. Þar sást nú aðeins hinn daufasti bjarmi.

„Jæja, svo gamli Smeyginn er þreyttur og sofandi,“ hugsaði hann. „Hann getur ekki séð mig og hann skal heldur ekki fá að heyra neitt í mér. Vertu nú kátur Bilbó!“ Hann hlýtur að hafa verið búinn að gleyma eða aldrei fengið neitt að heyra um þefskyn dreka. Einnig er það nokkuð óþægileg staðreynd, að þeir geta lygnt aftur auga en þó fylgst með öllu meðan þeir sofa, einkum ef tortryggni þeirra hefur einu sinni verið vakin.

Óneitanlega virtist Smeyginn vera steinsofandi, eins og hann væri dauður og útkulnaður, það heyrðust varla minnstu hrotur frá honum, aðeins smáblástur frá ósýnilegri andgufu, þegar Bilbó gægðist enn einu sinni frá opinu. Hann var rétt í þann veginn að stíga út á gólfið þegar hann varð skyndilega var við örmjóan en hvassan roðageisla undan lygndu augnaloki á vinstra auga Smeygins. Hann þóttist þá aðeins sofa! Hann var að fylgjast með gangaopinu! Bilbó hörfaði undan í skyndi og þakkaði hringnum sínum sæla fyrir. Þá mælti Smeyginn:

„Svona nú, þjófur! Ég finn lyktina af þér og loftinu sem kemur inn með þér. Ég heyri þig líka anda. Komdu nú og gjörðu svo vel! Bjargaðu þér sjálfur, hér er af nógu að taka handa þér!“

En Bilbó var nú ekki alveg svo blár í drekafræðum að hann félli fyrir þessu bragði og hafi Smeyginn ímyndað sér að honum tækist svo auðveldlega að ginna þjófinn nær, þá varð hann ábyggilega fyrir vonbrigðum. „Nei, þakka þér kærlega fyrir, Ó, Smeyginn hinn Hrikalegi!“ svaraði Bilbó. „Ég kom ekki til að þiggja gjafir, heldur langaði mig aðeins til að heimsækja þig og vita hvort þú værir í reynd svo mikill sem sagnirnar herma. Ég trúði þeim ekki.“

„En trúirðu þeim nú?“ spurði drekinn og gekkst upp við hólið, þó hann vissi að þetta væri tómt fals.

„Sannlega komast söngvar og sagnir eigi í hálfkvisti við raunveruleikann, Ó, Smeyginn, Æðstur og Voldugastur af öllum Plágum,“ svaraði Bilbó.

„Það kalla ég að þú sért kurteis af þjófi og lygara að vera,“ sagði drekinn. „Þú þykist þekkja vel nafn mitt, en ég kem ekki lyktinni af þér fyrir mig. Leyfist mér að spyrja hver ertu og hvaðan kemurðu?“

„Víst máttu það! Ég kem undan hæð og undir hæð og yfir hæð lá leið mín og um lofthæðir. Ósénn geng ég.“

„Því get ég vel trúað,“ sagði Smeyginn, „en varla er það venjulegt nafn þitt.“

„Ég er gátugreiðir, vefskeri, flugstingur. Svo var ég valinn sem einskonar happatala.“

„Dálagleg nöfn!“ hnussaði í drekanum. „En happatölur hitta ekki alltaf á hnappinn.“

„Ég gref vini mína lifandi og drekki þeim og dreg þá síðan aftur á lífi upp úr vatninu. Ég var bundinn fast í bagga en þó fékk enginn baggi bundið mig.“

„Ekki virðist það nú trúlegt,“ sagði Smeyginn háðslega.

„Ég er bjarnvinur og arngestur. Ég er Hringfari, Lukkugapi og Tunnuknapi,“ hélt Bilbó áfram og var nú orðinn meira en lítið grobbinn af gátum sínum.

„Það var þó eitthvað betra!“ sagði Smeyginn. „En láttu nú ekki hugmyndaflugið hlaupa alveg með þig í gönur!“

Svona á einmitt að tala við Dreka, ef maður vill ekki segja þeim til síns rétta nafns (sem auðvitað á aldrei að gera), en heldur ekki að espa þá upp með neinni þverúð (og það er heldur ekki skynsamlegt). Enginn dreki stenst ánægjuna af gátuleikjum og það gildir hann einu hvað hann eyðir löngum tíma í að ráða þær. Og hér var komið saman heilmikið gátuefni sem Smeyginn botnaði ekki nokkurn skapaðan hlut í (þó ég sé viss um að þið skiljið það öll, sem kannist nú við ævintýrin sem Bilbó hafði lent í). En hann þóttist þó strax geta ráðið í sitt hvað og því klúkkaði illyrmislega í honum.

„Ég þóttist vita það strax í gærkvöldi,“ glotti hann með sjálfum sér. „Skyldu það ekki einmitt vera þessir Vatnabúar með eitthvert andstyggilegt ráðabrugg, þessir vesælu tunnumangarar að mér heilum og lifandi, nema ég sé einhver eðla. Það er nú orðið æði langt síðan ég hef litið inn til þeirra, það er tími til að kippa því í lag!“

„Jæja, einmitt það, Ó Tunnuknapi!“ sagði hann upphátt. „Áttu kannski við að hesturinn þinn hafi heitið Tunna, og þó svo sé kannski ekki, þá var hann samt nógu spikfeitur. Má vera að þú gangir nú ósénn, en svo mikið er víst að þú ert ógenginn hingað. Því ég vildi bara láta þig vita að ég át sex jálka í gærkveldi og hina skal ég líka hesthúsa og rífa í mig. Og um leið og ég vildi þakka fyrir þennan ágæta málsverð langar mig til að gefa þér gott ráð:

Hafðu ekki meiri samskipti við dverga en þú kemst hjá!“

„Dverga!“ hrópaði Bilbó í uppgerðarundrun.

„Þú skalt ekki tala við mig í svona tón!“ sagði Smeyginn. „Ég ætti nú að þekkja lyktina (og raunar bragðið líka) af dvergum — enginn þekkir það betur en ég. Og þú skalt heldur ekki ímynda þér að ég geti étið dvergriðinn hest, án þess að vita það! Þú munt hljóta illan endi, ef þú velur þér slíka að vinum. Þjófótti Tunnuknapi, mín vegna máttu fara burt til þeirra og skila þessu frá mér.“ En hann forðaðist að segja Bilbó að einni lyktinni gat hann ómögulega botnað í, það var hobbitalyktin. Hún var gjörsamlega utan við alla hans lífsreynslu og olli honum ógurlegum heilabrotum.

„Það er ekki ólíklegt að þú hafir fengið gott verð fyrir bikarinn sem þú stalst frá mér í gærkvöldi,“ hélt hann áfram. „Svona, viðurkenndu það, fékkstu ekki uppgripaverð fyrir hann? Eða kannski ekki neitt! Jæja, einmitt það, það væri svo sem eftir þeim. Og ætli þeir séu ekki að lúskrast fyrir utan, meðan þú ert látinn vinna allt það hættulegasta og ná í það frá mér, sem þú getur handa þeim, þegar ég er ekki nógu vel á verði? Og þú býst víst við að fá þinn réttlátan skerf? Þú ímyndar þér það þó ekki! Þú mátt vera heppinn ef þú sleppur lifandi burt frá þeim.“

Bilbó var farinn að finna til mestu óþæginda. Hvenær sem skimandi glyrnur Smeygins fóru framhjá honum í myrkrinu varð hann gripinn undarlegum skjálfta og einhverri óskiljanlegri löngun til að gefa sig fram og segja drekanum allan sannleikann. Í raun og veru var hann í mikilli hættu á að komast á vald drekans. En hann reif sig upp úr því og tók aftur til máls.

„Ó, Smeyginn hinn Mikli og Máttugi, fátt virðist þú vita,“ sagði hann. „Því að það var ekki gullið eitt sem hingað togaði okkur.“

„Ha! Ha! Þarna komstu upp um þig, „okkur“, “ sagði Smeyginn og hló við hátt. „Þér hefði alveg verið óhætt að segja „okkur fjórtán“ og ekki vera að leyna mig neinu, Herra Lukkutala! En gaman er að heyra, að þið hafið átt önnur erindi hingað um slóðir en að stela gullinu mínu. Skyldi þá vera að ferðin yrði ekki algjör tímasóun?

Ég veit ekki heldur hvort þú hefur hugsað út í það, að jafnvel þótt þér tækist að stela gullinu frá mér smámsaman — á svo sem hundrað árum — þá kæmistu ekki mjög langt með það? Það er lítið gagn að því í fjallshlíðinni? Einskisnýtt í skóginum? Hjálpi mér! Hefurðu aldrei leitt hugann að þessu? Þú færð fjórtánda hlut, býst ég við, eða eitthvað í þá veruna, ætli það hafi ekki verið skilmálarnir, he, he? En hvað um afhendingarskilmála? Hvað um flutninginn? Hvað um vopnaða landamæraverði og tollgjöld? Hehehe!“ Og Smeyginn skellihló. Hann var illvígur og rotinn og vissi að ágiskanir sínar myndu ekki vera fjarri lagi, þótt hann grunaði að vísu að Vatnabúar stæðu aðallega á bak við þessar áætlanir og að mestur hluti ránsfengsins yrði eftir þar í borginni þarna við vatnsbakkann sem á yngri árum hans nefndist Ásgerði.

Ykkur finnst það kannski ótrúlegt, en vesalings Bilbó brá mjög illa við allar þessar bollaleggingar. Fram að þessu hafði hann beint allri sinni hugarorku og einbeitni að því einu að komast sem fyrst til Fjallsins og finna leyniganginn. Hann hafði aldrei nennt einu sinni að hugsa út í það, hvernig ætti að flytja fjársjóðinn burt og allra síst hvernig hann ætti að fara að því að koma sínum hlut burt alla leið í Baggabotn, undir Hólinn.

Og nú fór líka ótuktarleg tortryggni að grafa um sig í huga hans — höfðu dvergarnir líka gleymt þessu mikilvæga atriði, eða var það með ráðum gert og höfðu þeir hann allan tímann að fífli? Þannig áhrif hafði drekaræðan á þann sem var svo óreyndur. Bilbó hefði auðvitað átt að vera skynsamari en þetta, en sannleikurinn var sá að Smeyginn var ákaflega drottnandi persónuleiki.

„Ég skal bara segja þér,“ hélt hann nú áfram að malda í móinn til að vera trúr vinum sínum og halda sínu fram, „að gullið var aðeins aukaatriði hjá okkur. Við komum hingað yfir hæð og undir hæð, bárumst fyrir vofum og vindum til Hefnda. Já vissulega, Ó, Smeyginn ótaldra auðæva, þú ættir að skilja að í allri auðsæld þinni hefurðu eignast fjölda hatrammra óvina?“

Þá brast út hláturinn hjá Smeygni — ofboðslegur glymjandi hávaði sem hristi Bilbó svo hann féll á gólfið en lengst uppi í ganginum brá dvergunum við og þeir hjúfruðu sig saman og ímynduðu sér auðvitað að hobbitinn hefði beðið þar snögg og hörmuleg endalok.

„Hefnd!“ snörlaði í honum og glampinn úr glyrnum hans lýsti upp allan salinn eins og í eldrauðu leiftri. „Hefnd! Hvaðan ætti sú hefnd að koma? Kóngurinn undir Fjalli er dauður og hvar ættu hans afkomendur að vera sem dirfðust að leita hefnda? Girion höfðingi á Dal er dauður og ég hef rifið í mig þegna hans eins og úlfurinn étur sauðina og hvar ættu þeir sonarsynir hans að vera sem dirfðust að koma nálægt mér? Ég drep hvar sem mér sýnist og enginn þorir að sýna mér mótspyrnu. Ég lagði lágt að velli hina voldugu fornu stríðskappa og nú fyrirfinnst enginn þeirra líki í öllum heimi. Þá var ég nú bara ungur og óhertur. Nú er ég gamall og sterkur, sterkur, sterkur. — Þjófur á Nóttu!“ þrumaði hann og kunni sér ekki læti, „brynja mín er á við tíu skildi, tennurnar flugbeitt sverð, klærnar sem spjót, halahögg mitt þrumufleygur, vængirnir ofsaveður og andardráttur minn dauði!“

„En mér hefur nú alltaf skilist,“ dirfðist Bilbó að gefa andsvör, en ósköp mjóróma samt, „að drekar séu eitthvað mýkri að neðanverðu, sérstaklega á, hérna, já, — á brjóstinu. En svo mikill bryndreki sem þú ert, hefur sjálfsagt hugsað út í það.“

Við þetta snarstöðvaðist drekinn í öllu sjálfhóli sínu, og var fljótur að taka við sér. „Upplýsingar þínar eru nú allsendis úreltar,“ hreytti hann út úr sér. „Ég er brynvarinn hátt sem lágt með járnplötum og hörðustu gimsteinum. Ekkert sverðsblað fær neins staðar unnið á mér.“

„Ég hefði getað sagt mér það sjálfur,“ sagði Bilbó. „Vissulega finnst hvergi líki Smeygins hins ógegnumstinganlega. Hvílík tign að klæðast vesti úr fínustu demöntum!“

„Já, víst er það sjaldgæft og undursamlegt,“ sagði Smeyginn yfir sig skjallaður. En hann vissi ekki að í fyrri ferðinni, meðan hann lá sofandi á fjársjóðnum, hafði hobbitinn þegar séð hina óvenjulegu undirbrynju, en sárlangaði að skoða hana nánar af sérstakri ástæðu. Drekinn velti sér á bakið. „Sjáðu!“ sagði hann. „Hvað segirðu við þessu?“

„Stórkostlegt, dásamlegt! Fullkomið! Lýtalaust! Yfirþyrmandi!“ hrópaði Bilbó hátt yfir sig, en með sér hugsaði hann: „Gamli bjáninn! Að hugsa sér, þarna er stór blettur í krikanum vinstra megin undir bringunni jafn húðnakinn og snigillinn út úr kuðungnum!“

Eftir að herra Baggi hafði fengið þessar upplýsingar, hafði hann aðeins áhuga á að komast burt sem allra fyrst. „Jæja, mér þykir það leitt, en ég vil ekki lengur halda yðar Tignarleika uppi á svona snakki,“ sagði hann, „né hindra þig í að njóta vel verðskuldaðrar hvíldar. Ég veit að það hefur ekki verið auðhlaupið hjá þér að handsama hestana á hlaupunum, eins og þú hlýtur að hafa verið stirður á öllum liðamótum eftir miklar innisetur. Og ekki er heldur auðvelt að grípa innbrjóta,“ bætti hann við sem lokakveðju um leið og hann skaust til baka upp í göngin.

Þetta hefði hann betur látið ósagt, því að drekinn rauk til og spúði hræðilegum eldbólstrum á eftir honum, og þó Bilbó hlypi sem fætur toguðu upp eftir göngunum var hann ekki kominn nærri nógu langt til að hollt væri fyrir hann, þegar Smeyginn tróð ógeðslegum hausnum að opinu fyrir aftan hann. Sem betur var hausinn og þar með kjafturinn of stór til þess að hann gæti troðið þeim inn, en út um nasirnar stóð eld- og gufustrókurinn á eftir Bilbó svo hann var næstum búinn að vera. Hann ráfaði áfram blindandi í miklum sviða og skelfingu.

Hann hafði verið svo ánægður með allt samtal sitt við Smeygin að hann gleymdi sér undir lokin, en hann áttaði sig á mistökum sínum, hrökk við og sá að sér.

„Dragðu aldrei dár að drekum, Bilbó bjáninn þinn,“ sagði hann við sjálfan sig og þetta átti einmitt eftir að verða eitt af uppáhalds orðatiltækjum hans á síðari árum og næstum því máltæki. „Ekki erum við víst alveg búnir að bíta úr nálinni með þetta ævintýri,“ bætti hann við og það var líka nokkuð til í því.

Degi var tekið að halla þegar hann kom aftur út úr dyrunum og féll í yfirlið út yfir „dyraþrepið“. En dvergarnir tóku vl á móti honum, lífguðu hann við og græddu sviðasárin eftir því sem þeir gátu. Langur tími leið áður en hárið á hnakkanum óx aftur og brunablettirnir á hælunum greru. Vinir hans gerðu allt hvað þeir gátu til að hressa hann við, en þeir biðu líka spenntir eftir að fá að heyra sögu hans, sérstaklega voru þeir ákafir að fá að vita af hverju drekinn hafði verið með þessi ógnar læti og hvernig Bilbó hefði sloppið frá honum.

En hobbitinn var áhyggjufullur og önugur, svo þeim ætlaði ekki að takast að ná neinu upp úr honum. Þegar hann fór yfir það í huganum sem hann hafði látið út úr sér við drekann, iðraðist hann margs af því og langaði ekki til að fara að endurtaka það. Gamli þrösturinn sat þarna á kletti skammt frá og hallaði undir flatt eins og hann væri að hlusta á allt sem sagt var. Og það er til sannindamerkis um hvað Bilbó var í afleitu skapi að hann þreif upp stein og kastaði honum að þrestinum sem gerði ekki annað en að flögra snögglega til hliðar og setjast aftur.

„Skrattans fuglinn!“ sagði Bilbó fúll. „Mér finnst hann vera að hlusta á okkur og mér er ekkert um hann gefið.“

„Láttu hann í friði!“ sagði Þorinn. „Þrestir eru góðir og vinalegir fuglar — mér sýnist þessi líka vera mjög gamall, kannski er hann síðasti afkomandi stofnsins sem hér lifði áður, en þeir voru svo gæfir að þeir settust á hendur föður míns og afa. Þetta var langlífur stofn einhvers konar töfrafugla og hver veit nema þessi hafi þá verið á lífi og hann sé nú orðinn tvö hundruð ára eða meira. Dalverjar komust upp á lagið með að skilja tungumál þeirra og notuðu þá sem sendiboða til Vatnabyggðar og víðar.“

„Jæja, þá ætti hann að hafa tíðindi að færa til Vatnaborgar, eftir allt sem hér hefur á gengið, ef hann er á höttunum eftir slíku,“ sagði Bilbó. „Þó býst ég varla við að þar séu margir eftir sem hafa mikinn áhuga á þrastamáli.“

„Nú, en hvað var það þá sem gerðist?“ hrópuðu dvergarnir. „Haltu nú áfram með sögu þína!“

Svo að Bilbó leysti frá skjóðunni um allt sem hann gat munað, og hann viðurkenndi meira að segja að sér liði bölvanlega yfir því að drekinn myndi hafa ráðið um of í gátur hans, þegar hann gat nú líka stuðst við tjaldbúðaleifarnar og hestana til viðbótar. „Ég er næstum viss um að hann veit nú að við komum frá Vatnaborg og fengum liðsinni þaðan. Því hef ég það hryllilega á samviskunni að hann muni næst láta til sín taka þar. Ég vildi óska að ég hefði aldrei nefnt það í galsanum að ég væri Tunnuknapi. Það getur nú hver blindur héri hér um slóðir séð, að þar er vísað til Vatnabúa.“

„Svona, svona! Það verður nú ekkert við því gert, og það er líka alltaf hætta á að mönnum verði það á að tala af sér við dreka, eða svo hef ég heyrt,“ sagði Balinn og vildi umfram allt hughreysta hann. „Ég get ekki betur séð en að þú hafir staðið þig mjög vel, ef ég á að segja eins og er — svo mikið er víst að þú hefur komist að merkilegum upplýsingum og sloppið aftur lifandi, og það er meira en flestir geta sagt sem hafa átt orðaskipti við Smeygin. Það getur vissulega verið blessun og komið sér vel að vita að það er varnarlaus snöggur blettur á demantsbrjóstbrynju gamla ormsins.“

Svo viku þeir við umræðuefninu og fóru að ræða alls kyns sagnir af drekadrápum, sumum sögulegum, öðrum vafasömum og goðsagnakenndum og að lýsa hinum margvíslegustu stungum og sverðalögum, kviðristum og alls kyns herbrögðum, tækjum og tólum sem beitt hefði verið til að koma þeim fyrir kattarnef. En almennt kom fram sú skoðun að það myndi ekki vera eins auðvelt og það virtist að koma drekum að óvörum. Ef menn reyndu að stinga einhvern eða berja á þeim sofandi, væru meiri líkur á að allt misheppnaðist, fremur en djörf árás beint framan að þeim. Allan tímann hlýddi þrösturinn áhugasamur á tal þeirra, þar til að stjörnurnar fóru að lokum að gægjast fram, þá þandi hann vængi sína hljóðlega og flaug burt. En allan tímann meðan þeir töluðu og skuggarnir lengdust varð Bilbó órólegri og ónotalegt hugboð náði valdi á honum.

Loks gat hann ekki orða bundist. „Mér finnst við vera algerlega andvaralausir hérna,“ sagði hann, „og ég skil ekki hversvegna við þurfum endilega að sitja hér fyrir utan. Þið sjáið að drekinn hefur þegar sviðið allan fallega græna gróðurinn, það er komin nótt og orðið kalt. En ég finn það einhvern veginn á mér, gegnum merg og bein, að hann á eftir að gera aðra árás hérna. Smeyginn veit nú mæta vel hvernig ég komst niður í salinn og þá þarf ekki að sökum að spyrja, að hann gerir sér grein fyrir hvar útgangurinn er. Hann gæti malað alla fjallshlíðina niður í sand og salla, ef hann teldi þess við þurfa, til að loka innganginum okkar, og ef honum tækist í leiðinni að lemja okkur í klessu, því ánægðari yrði hann.“

„Ósköp ertu eitthvað svartsýnn, herra Baggi!“ sagði Þorinn. „En hvers vegna hefur Smeyginn þá ekki lokað fyrir neðra opið, ef honum er svo mikið í mun að loka fyrir göngin? Hann hefur ekki gert það, eða ættum við þá ekki að hafa frétt eitthvað frá honum?“

„Ég veit það ekki, nei, satt að segja veit ég það ekki — því að fyrst í stað vildi hann einmitt nota göngin til að ginna mig inn, að því er ég býst við. Kannski vill hann ekki raska neinu, af því að hann ætlar að fara á veiðar í kvöld, eða vegna þess að hann vill ekki spilla svefnskála sínum ef hægt er að komast hjá því. — En hver sem ástæðan er, bið ég ykkur um að vera ekki lengur að þrefa um þetta við mig. Smeyginn kemur nú yfir okkur á hverri stundu og eina von okkar til að fá lífi haldið er að koma okkur vel inn í göngin og loka dyrunum.“

Bilbó var svo mikil alvara að loksins létu dvergarnir undan óskum hans. Þó voru þeir alls ófáanlegir til að loka dyrunum — það fannst þeim alltof viðurhlutamikið, því að enginn þeirra hafði hugmynd um hvort eða hvernig þeir ættu þá að opna þær aftur að innanverðu, og sú tilhugsun var þeim ekki að skapi að lokast inni svo að engin leið væri að komast út, nema í gegnum bæli drekans. Þar við bættist að allt virtist svo kyrrlátt hvort sem var úti fyrir eða inni í göngunum. Því héldu þeir enn lengi vel kyrru fyrir og töluðust við inni í göngunum rétt fyrir innan opnar dyrnar.



Umræðurnar beindust nú að brígslum drekans um dvergana. Bilbó hefði helst aldrei viljað heyra þau orð, eða að minnsta kosti vildi hann geta treyst því að dvergarnir væru algjörlega heiðarlegir, þegar þeir lýstu því yfir að þeir hefðu aldrei hugsað út í, hvað yrði um fjársjóðinn eftir að þeir hefðu unnið hann. „Við litum einungis á þetta sem algjöra örvæntingartilraun,“ sagði Þorinn, „og það gerum við enn. Og enn er það skoðun mín að eftir að við höfum unnið hann, verði nógur tími til að íhuga hvað við eigum að gera við hann. Hvað viðkemur þínum hlut, herra Baggi, vil ég fullvissa þig um að við erum þér yfirmáta þakklátir og þú getur mælt þér út þinn fjórtánda hlut strax og við höfum eitthvað til skiptanna. Hitt þykir mér leitt að þú skulir hafa svona miklar áhyggjur af flutningi fengsins, þar verð ég að viðurkenna að erfiðleikarnir eru miklir — löndin eru ekki orðin síður villt en áður, heldur þvert á móti — en við skulum gera hvað sem við getum og taka okkar þátt í flutningskostnaðinum þegar sá tími kemur. Þú verður auðvitað sjálfur að ráða hvort þú trúir mér eða ekki!“

Út frá þessu fóru þeir að tala vítt og breitt um hinn mikla fjársjóð og Þorinn og Balinn rifjuðu upp hvernig hann hefði verið forðum daga. Þeir veltu því fyrir sér hvort allur fjársjóðurinn lægi enn óskemmdur í djúpa salnum, hvort þar héngju enn uppi spjótin miklu sem dvergarnir höfðu smíðað fyrir heri hins volduga Blaðorðins konungs (sem var löngu dauður). En þau voru öll með þríhertum oddum og sköftin greypt með gullþráðum, en vopn þessi voru aldrei afhent né greitt fyrir þau, þar voru líka skildir smíðaðir fyrir ævaforna stríðskappa og hinn mikli gullbikar Þrórs með tveimur höldum, hamraður og grafinn með myndum af fuglum og blómum og augu fuglanna og frjóhnappar blómanna voru úr gimsteinum. Þar voru spangabrynjur gylltar og silfraðar og algjörlega ógagnfærar. Þar var hálskeðja Girions höfðingja á Dal gerð úr fimm hundruð smarögðum grænum sem grasi, sem hann gaf elsta syni sínum og átti henni að fylgja brynja úr dvergsoðnum hringjum þvílíkum sem höfðu aldrei áður þekkst, því að þeir voru fléttaðir úr hreinu silfri sem þó hafði kraft á við þrefalt stál. En fegurstur af öllu var hinn voldugi hvíti gimsteinn, sem dvergarnir höfðu fundið undir dýpstu rótum Fjallsins — Fjallshjartað, hinn mikli Erkisteinn Þráins.

„Erkisteinninn! Erkisteinninn!“ muldraði Þorinn dreyminn í myrkrinu, sitjandi með hökuna á hnjánum.

„Hann var eins og hnöttur með þúsund fáðum flötum. Hann lýsti eins og silfur í arineldi, eins og vatn í sólskini, eins og mjöll undir stjörnum, eins og regn í tunglskini!“

En Bilbó hafði losað sig undan allri eftirsókn í fjársjóði. Meðan þeir töluðu saman um alla þessa dýrð, heyrði hann varla hvað þeir sögðu. Hann sat yst út við dyrnar og sperrti annað eyrað til að hlusta á hvin að utan, en hitt var viðbúið bergmáli bak við hjal dvergana, fyrir einhverri hreyfingu djúpt að neðan.

Myrkrið varð æ meira og Bilbó æ órólegri. „Lokiði dyrunum!“ grátbændi hann þá. „Ég óttast þennan dreka alveg inn í merg og bein. Mér finnst kyrrðin miklu uggvænlegri en allar drunurnar síðustu nótt. Lokiði dyrunum áður en það verður of seint!“

Eitthvað í rödd hans vakti sérstakan óhug með dvergunum. Rólega reis Þorinn á fætur, hristi af sér draumana og sparkaði steinnibbunni við dyrastafinn frá. Svo ýttu þeir á hurðina og hún féll aftur með skelli og smelli. Enginn vottur um skráargat var sýnilegur að innan. Þeir voru innilokaðir í Fjallinu!

Og það mátti heldur ekki tæpara standa. Þeir höfðu ekki fært sig ýkja langan spöl niður eftir göngunum þegar ægilegt reiðarslag skall á allri Fjallshlíðinni eins og hamagangur úr ótal voldugum slaghömrum, — eins og risavöxnum eikarbolum hefði verið sveiflað af tröllum yfir fjallinu. Klettarnir glumdu, veggirnir sprungu og steinar hrutu úr gangaloftinu yfir höfðum þeirra. Hvað gerst hefði, ef dyrnar hefðu enn staðið opnar, er ekki gott að segja. Þeir flýðu enn lengra niður eftir göngunum, fegnastir því að vera enn á lífi, en áfram heyrðu þeir þrumurnar og dunurnar hamast fyrir utan af óstjórnlegu æði Smeygins. Hann braut heilu björgin í smátt, maskaði veggi og kletta með reiðarhöggum frá risavöxnum halanum, þangað til hályftir hamrar tjaldbúðahvammsins þeirra, sviðin grastóin, þrastarsteinninn, sniglaskriðnu veggirnir og mjóa syllan leystust upp í bendu af grjóti og salla sem rann í hrikalegri jarðskriðu niður í dalinn.

Smeyginn hafði yfirgefið bæli sitt í þögulli leynd, hafið sig hljóðlaust á loft, látið sig svífa þunglega og hægt í myrkrinu eins og óheillakráka, látið berast með vindinum yfir vesturhlíðar Fjallsins, í þeirri von að koma að óvörum að einhverju eða einhverjum sem þarna væru á ferli og ennfremur að njósna um hvar gangaopið væri sem þjófurinn hafði notað. Allur þessi ofboðslegi hamagangur var eins og útrás fyrir reiði hans þegar hann fann engan og sá ekkert, ekki einu sinni þar sem hann ímyndaði sér að opið hlyti að vera.

Eftir að hann hafði hleypt æði sínu út með þessum hætti, leið honum strax miklu betur, því að nú trúði hann því einlæglega að hann yrði ekki fyrir meira ónæði úr þessari átt. Hins vegar átti hann fleiri misgerða að hefna. „Tunnuknapi!“ snörlaði í honum. „Fótspor þín lágu upp frá vatnsbakkanum og vafalaust hefurðu komið upp eftir ánni. Ég þekki ekki þessa lykt af þér, en þó þú sért enginn Vatnabúi, hefurðu vafalaust notið atbeina þeirra. Þeir skulu líka fá að kenna á mér og komast að því hver er hinn raunverulegi Konungur undir Fjalli.“

Svo rauk hann upp í eldkófi og hentist af stað eins og byssubrenndur til suðurs niður með Hlaupá.

Загрузка...