IV. KAFLI Yfir holt og undir hæðir

Fjölmargar leiðir lágu upp að fjöllunum og yfir mörg fjallaskörð. En flestir stígarnir voru aðeins villuvegir til ginningar og enduðu í vegleysu eða lentu út í algerum ófærum og flest fjallaskörðin voru full af ófreskjum og hræðilegum hættum. En dvergarnir og hobbitinn, sem þeim fylgdi, þurftu engu að kvíða eftir hollráð Elronds ásamt þekkingu og minni Gandalfs. Þeir áttu að geta hitt á rétta veginn upp að rétta fjallaskarðinu.

Langalengi eftir að þeir höfðu klifið upp úr dalnum og lagt Hinstuhöllina margar mílur að baki, áttu þeir enn stöðugt á brattann að sækja. Leiðin var erfið og hættuleg, öll í krákustígum, einmanaleg og óendanleg. Því hærra sem þeir komu því betra útsýni höfðu þeir yfir landið sem þeir voru að kveðja langt fyrir neðan. Lengst, lengst í fjarska í vestrinu, þar sem allt var í blámóðu, vissi Bilbó að leyndist hans eigið land með öllum sínum lífsþægindum og öryggi í litlu hobbitaholunni hans. Hrollur fór um hann. Það var að verða svo nístandi kalt eftir því sem þeir komu hærra upp í fjöllin og vindurinn tekinn að hvína við kletta. Stundum kom líka hnullungsgrjót skoppandi niður fjallshlíðina, sólin hafði losað um það með snjóbráðinni, stundum fór grjóthrunið framhjá þeim (sem þó var betra) eða beint yfir höfðum þeirra (sem var ískyggilegra). Næturvistin var ónotaleg og hrollköld og nú þorðu þeir hvorki að syngja né tala upphátt, því að bergmálið var svo uggvænlegt, engu líkara en þögninni væri meinilla við að láta rjúfa sig — þeir máttu ekki trufla nið lækjanna, gnauð vindanna eða skruðning steinanna.

„Þarna fyrir neðan er ennþá sumar,“ hugsaði Bilbó, „þar eru menn í heyönnum eða lautarferðum. Kornuppskeran og berjatínslan verða með þessu áframhaldi sjálfsagt hafin áður en við komum niður af fjöllunum hinum megin.“ Og hinir voru sjálfsagt jafn daufir í dálkinn, þótt þeir hefðu við kveðjur Elronds talað af galsa um að skreppa yfir fjallaskörðin og þeysa ríðandi um landið handan þeirra. Þeir höfðu ímyndað sér að þeir kæmust að leyndum dyrum Fjallsins eina strax á næsta hausttungli — „Kannski einmitt á þessum Durinsdegi,“ höfðu þeir sagt. En Gandalfur hafði staðið álengdar og hrist höfuðið og þagað. Það voru nú víst orðin mörg ár síðan nokkrir dvergar höfðu farið þessa leið, en Gandalfur hafði nýlega farið hana og vissi hvernig hin illskufláu öfl og allar hætturnar höfðu aukist og þrifist í óbyggðunum, síðan drekarnir höfðu hrakið menn burt af þessum lendum og dríslarnir breiðst út á laun eftir orustuna við Moríanámurnar. Og vita máttu þeir að jafnvel góðar áætlanir vitringa eins og Gandalfs og góðra vina eins og Elronds gátu stundum farið úrskeiðis í hættulegum ævintýrum á hjara veraldar, og sjálfur var Gandalfur nógu skynsamur til að gera sér grein fyrir því.

Hann vissi að alltaf gat eitthvað óvænt gerst, og hann þorði varla að vona að þeir kæmust klakklaust yfir þessi miklu og reginháu fjöll með eyðilegum tindum og dölum sem engir konungar stýrðu, án þess að eitthvað hræðilegt hlyti að koma yfir þá. Enda átti það ekki svo að verða. Allt var þó í góðu gengi þar til dag einn að þrumuveður skall yfir þá, já meira en venjulegt þrumuveður, það var hreinasti þrumuofsi. Þið hafið kannski einhvern tímann séð mikið þrumuveður yfir sléttlendi og í árdölum, það getur orðið hrikalegt, einkum ef tvö þrumusvæði rekast á og sameinast. En ennþá miklu stórfenglegri eru þrumurnar og eldingarnar í fjöllum að næturlagi, þegar reiðarstormarnir geysast að úr austri og vestri og lendir saman í orustu. Eldingarnar smella á tindunum og klettarnir nötra og ofsafengnar sprengingar kljúfa loftið og fara þrumandi og ærandi inn í hvern helli og hverja skoru og náttmyrkrið fyllist af yfirgnæfandi öskrum og blossaleiftrum.

Bilbó hafði aldrei séð né getað ímyndað sér neitt þessu líkt. Þeir voru hátt uppi á mjórri syllu og hræðilegt hyldýpi niður í koldimman dal á aðra hönd. Þar höfðu þeir látið fyrir berast um nóttina í skjóli undir hengiklettum og Bilbó lá þar undir ábreiðu skjálfandi frá hvirfli til ilja. Þar sem hann einblíndi út í loftið í blossaleiftrunum sá hann að hinum megin í dalnum voru steintröllin komin á stjá og köstuðu klettum hvert að öðru að gamni sínu og gripu þá og létu þá svo dúndra niður í myrkrið þar sem þeir skullu niður milli trjánna langt fyrir neðan og splundruðust með smellum í ótal mola. Á eftir fylgdi slagviðri, þar sem rokið þeytti regninu og haglinu kringum sig í allar áttir, svo það varð þeim engin vörn að liggja þarna undir slútandi bjarginu. Brátt voru þeir orðnir mígandi blautir og hestarnir stóðu í höm með hausana niðri og taglið milli fótanna og sumir hvinu af ótta. Þeir heyrðu öskrin og óhljóðin í tröllunum úr öllum fjöllunum.

„Þetta gengur ekki lengur!“ sagði Þorinn. „Ef vindurinn ekki þeytir okkur, regnið ekki drekkir okkur eða elding ekki klýfur okkur, kemur vísast eitthvert tröllið, þrífur okkur og sparkar okkur hátt í loft upp eins og fótbolta.“

„Jæja, ef þú veist af einhverjum betri stað, ættirðu að vísa okkur á hann!“ sagði Gandalfur sem var orðinn heldur en ekki argur og svo sem ekkert hrifinn af þessum tröllum sjálfur.

Til þess að binda endi á þessa þrætu, voru þeir Fjalar og Kjalar sendir af stað í leit að betra skjóli. Þeir voru glöggir unglingar, allt að fimmtíu árum yngri en hinir dvergarnir, og þótti því sjálfsagt að nota þá í svona vosverk (þegar allir sáu hvort eð var að það var ekki til neins að senda Bilbó). Galdurinn er bara sá að horfa vel í kringum sig, ef maður vill finna eitthvað (eða svo sagði Þorinn við ungu dvergana). Það er nokkuð öruggt að maður finnur venjulega eitthvað ef maður hefur augun opin, en það þarf ekki að vera að maður finni alltaf einmitt það sem maður er að leita að. Og svo var heldur ekki í þetta skipti.

Ekki leið á löngu áður en Fjalar og Kjalar komu skríðandi til baka og urðu að halda sér í klettana til að fjúka ekki. „Við fundum þurran helli,“ sögðu þeir, „hérna rétt handan við næsta klettanef og við kæmumst þar allir inn og hestarnir líka.“

„Hafið þið kannað hann vandlega?“ spurði vitkinn, sem vissi að fáir hellar í fjöllunum fengu að standa ónotaðir.

„Já, já!“ svöruðu þeir undireins, þó auðvitað væri, að þeir hefðu ekki getað kannað neitt á þeim stutta tíma sem þeir voru í burtu. „En þetta er bara svolítill skúti og nær áreiðanlega ekki langt inn.“

En það er nú einmitt það hættulegasta við hella, að stundum veit maður ekki hvað langt inn þeir ná, og stundum getur líka verið inn af þeim gangur og enginn veit hvert hann liggur eða hvað þar bíður manns. En nú stóð svo á, að þeim fannst þessi uppgötvun Fjalars og Kjalars vera einmitt það sem þá vantaði svo þeir voru ekkert að tvínóna við þetta, heldur tóku sig tafarlaust upp og komu sér af stað. Vindurinn hvein og enn voru öskrandi þrumur að bresta á. Það var aðeins með herkjum að þeir kæmust áfram með hestana. En nú var þetta ekki nema spottakorn og fyrr en varði komu þeir að stórum kletti sem skagaði fram úr þvert út í stíginn. Það var ekki annað til ráða en að smeygja sér fram hjá honum og þeir komu að opinu sem var svo þröngt, að þeim tókst ekki að teyma hestana í gegn, fyrr en þeir höfðu tekið farangurinn af þeim. Þegar innfyrir kom fannst þeim heldur en ekki notalegt að heyra dyninn í storminum og regninu útifyrir en finna það ekki brotna á sjálfum sér, auk þess sem þeir fundu til öryggis fyrir tröllunum og klettakasti þeirra. En vitkinn vildi þó ekki taka neina áhættu. Hann lýsti upp veggina með stafnum sínum — með sama hætti og áður í borðstofu Bilbós, að því er nú virtist fyrir svo langalöngu, ef þið munið eftir því — og við ljósið grannskoðuðu þeir allan hellinn frá opi til enda.

Hellirinn virtist meðalstór, hvorki of stór né dularfullur. Gólfið var þurrt og þar mátti finna þægileg skot. Í öðrum endanum var næglegt rúm fyrir hestana. Þar stóðu þeir (ánægðir yfir umskiptunum) og móðaði af þeim meðan þeir rótuðu í múlpokunum sínum. Óinn og Glóinn vildu kveikja bál við hellisopið til að þurrka föt sín, en Gandalfur harðbannaði það. Þess í stað breiddu þeir úr blautum fötum sínum á gólfinu en fengu þurr föt úr farangrinum. Svo breiddu þeir teppi undir sig, drógu upp pípur sínar og byrjuðu að blása reykjarhringjum sem Gandalfur brá mismunandi litum á og lét þá dansa um hellisloftið þeim til afþreyingar. Og nú þurftu þeir heldur betur að masa og masa og snerist tal þeirra mest um það, hvað hver og einn ætlaði að gera við sinn skerf af Drekagullinu (þegar þeir kæmust yfir það, og þessa stundina fannst þeim það nú hreint ekki svo fráleitt). Síðan sofnuðu þeir út af hver af öðrum. En þetta var nú í síðasta skipti sem þeir gátu notað hestana, baggana, farangurinn, verkfærin og allt það fjölbreytilega lausadót sem þeir höfðu haft með sér.

Þá um nóttina kom í ljós, hve gagnlegt það var fyrir þá að hafa litla Bilbó með sér, þrátt fyrir allt. Einhvern veginn fór það svo að hann átti lengi erfitt með að sofna og þegar hann loksins sofnaði, kom yfir hann andstyggilegur draumur. Honum fannst sem sprunga rifnaði í sundur aftast í hellinum, stækkaði og víkkaði, og hann varð lamaður af skelfingu svo hann gat hvorki hrópað upp né aðhafst neitt nema legið hreyfingarlaus og horft á þetta. Þá var sem hellisgólfið léti undan og kæmi halli á það svo að hann fór að renna niður og niður á við og hrapa og hrapa, guð mátti vita hvert.

Þá hrökk hann upp með andfælum og komst að því að hluti draumsins var raunverulegur. Sprunga hafði virkilega opnast aftast í hellinum og var orðin að allvíðum gangi. Í því sá hann í taglið á síðasta hestinum hverfa inn í raufina. Að sjálfsögðu rak hann upp skerandi neyðaróp, eins hvellt og hátt og hobbitar geta gefið frá sér, sem er furðu hávært miðað við stærð þeirra.

Út þustu dríslarnir, stórir dríslar, voldugir hörmulega ljótir dríslar, heil hersing af dríslum áður en nokkur gæti sagt skrattinn hafi það! Þeir voru sex um hvern dverg að minnsta kosti og jafnvel tveir um Bilbó. Allir voru þeir gripnir og dregnir inn um skoruna áður en nokkur gæti sagt farðu til fjandans! Allir nema Gandalfur. Þar kom neyðaróp Bilbós að haldi. Því að Gandalfur vaknaði upp við það á broti úr sekúndu, og þegar dríslarnir komu og ætluðu að grípa hann brá fyrir blindandi leiftri eins og eldingu inni í sjálfum hellinum og gaus upp púðurlykt og margir þeirra féllu dauðir niður.

Skoran small saman og því miður voru Bilbó og dvergarnir þá öfugu megin við hana! En hvað skyldi hafa orðið að Gandalfi? Það höfðu hvorki þeir né dríslarnir minnstu hugmynd um og dríslarnir töfðu ekkert við að ganga úr skugga um það. Þeir héldu Bilbó og dvergunum heljartökum og hrintu þeim áfram. Þarna var kolniðamyrkur sem aðeins dríslar geta vanið sig við, sem búa djúpt undir í fjöllunum, og sjá í gegnum myrkrið. Gangarnir lágu þvers og kruss í allar áttir, en dríslarnir áttu í engum vanda með að rata um þá, ekki meira en ef þú ferð út á næsta pósthús. Leiðin lá neðar og neðar og loftið varð hræðilega þungt. Dríslarnir voru mjög harðhentir og skemmtu sér við að kreista fangana miskunnarlaust og flissuðu og hlógu með hræðilega rámum strigarómi. Bilbó leið nú enn verr en þegar tröllið tók hann upp á tánum. Hann óskaði sér þess aftur og aftur að hann væri kominn heim í fallegu björtu hobbitaholuna sína. Og ekki í síðasta sinn.

Nú rofaði fyrir rauðu ljósi framundan. Dríslarnir fóru að syngja eða réttara sagt að krunka í takt við slyttulegt flatfótatak sitt á steingólfinu um leið og þeir hristu fanga sína eftir hljóðfallinu.

Klappa, stappa! Kremja og lemja!

karla þessa látum við emja.

Berjum þá og bindum á grindum,

bölvum þeim og lemjum og pyndum.

Dumpum þeim í dríslavítin,

drögum þá í versta skítinn.

Skratta, patta, skrukka og pukka!

skulum við í búkinn á þeim krukka.

Pumma, lumma! potum í þá stöngum!

Pínum þá og klípum með töngum!

Bönkum þá og berjum með hömrum,

byrgjum þá í for undir kömrum.

Svissa hvissa! Hrynja og stynja!

svipuhöggin látum á þeim dynja.

Þrjótar þessir vel mega þræla,

þýðir lítið fyrir þá að skæla.

Ropa, gopa, rumpa og prumpa!

ræfla þessa látum í holræsin dumpa.

Þetta hljómaði ömurlega. Og klettaveggirnir bergmáluðu svo undir tók viðlagið um að kremja og lemja og andstyggilegan hlátur þeirra sem á eftir fylgdi potum í þá stöngum! og klípum þá með töngum! Þeir fengu líka að kenna á raunverulegri merkingu orðanna, því að síðast tóku dríslarnir fram svipur sínar og létu höggin dynja á þeim sviss, hviss og ráku þá á harðahlaupum á undan sér og þá voru nú fleiri en einn af dvergunum farnir að hrína og jarma eins og ég veit ekki hvað, þegar þeir hrökkluðust undan þeim niður í víðari hellisgeim.

Salurinn var lýstur upp af rauðu báli á miðju gólfi og blysum á veggjunum og þar var allt morandi af dríslum. Þar ríkti mikil kátína. Allir hlógu þeir, stöppuðu niður fótum og klöppuðu saman höndum, þegar dvergarnir (með vesalings Bilbó aftastan og næst undir svipunum) voru reknir inn, meðan drísilrekarnir hóuðu hátt og létu svipurnar smella yfir þeim. Þarna voru hestarnir þeirra líka komnir og allar klifjarnar lágu á víð og dreif og byrjað að rífa upp bögglana, því dríslarnir voru áfjáðir í að komast í ránsfenginn, þefa af honum, káfa á honum og rífast um hann.

Hræddur er ég um að þetta hafi verið í síðasta sinn sem þeir félagar fengu að líta þessa ágætu hesta sína, þar á meðal sterkbyggða hvíta burðarhestinn sem Elrond hafði léð Gandalfi í stað fyrra fáksins sem ekki taldist hentugur í fjallaferðir. Því að Dríslar éta jafnt stóra stríðsfáka, smáhesta og asna (og margt ennþá hræðilegra) enda eru þeir alltaf glorhungraðir. En þessa stundina höfðu fangarnir meiri áhyggjur af sjálfum sér. Dríslarnir bundu hendur þeirra fyrir aftan bak, hlekkjuðu þá saman í eina lest og teymdu yfir í fjarlægari enda hellisins, en aftastur í röðinni eins og venjulega var Bilbó dreginn.

Þarna í skugganum sat beljaki mikill, höfuðstór drísill á stórri steinhellu og allt í kringum hann stóðu vopnaðir skrattar og hristu axir og skeglusverð sem þeir eru vanir að bera. Þessir drísildjöflar eru ofboðslega grimmir og þar eftir siðlausir og illfýsnir. Þeir skapa aldrei neitt fagurt en eru því snjallari í að úthugsa ýmiskonar vélabrögð. Þeir standa engum að baki í að grafa jarðgöng og námur, nema kannski færustu dvergum, en ótrúlegt er hvað þeir geta atað sig út við það. Þeir smíða sjálfir ýmiskonar gróf áhöld, svo sem hamra, axir, sverð og rýtinga, haka og tangir og allskyns pyntingartæki en fá aðra, fanga og þrælavinnuafl, til að framleiða þau í stærri stíl. Þeir fara hraksmánarlega með fanga sína, píska þá áfram og pína í neðanjarðarsmiðjum sínum uns þeir láta þar lífið unnvörpum í myrkri og kafna af loftleysi.

Eigi er ólíklegt að frá þeim hafi upphaflega komið sum af þeim hryllingstækjum sem síðan hafa hrellt heiminn, einkum hin hugvitssamlegu tæki til að drepa sem allra flesta í einu, en þeir voru svo snoknir yfir hverskyns vélum og tólum og sprengiefnum að þeir máttu varla vatni halda. Hinsvegar nenntu þeir ekki að vinna meira með höndunum en hægt var að komast af með. En í þá daga og úti á auðnum hafði tækni þeirra þó ekki þróast (sem svo er kallað) eins langt og síðar varð. Það var ekki hægt að segja að þeir hötuðu dverga umfram allt annað, nema þá helst þá sem ráðsettir voru og vel efnum búnir. Þess voru jafnvel dæmi að verstu drísildjöflarnir gerðu bandalag við dverga. Samt var þeim sérstaklega illa við Þorinsþjóð vegna styrjaldarinnar við hana sem minnst hefur verið á, en kemur annars ekki þessari sögu við. Þar fyrir utan gera dríslar engan greinarmun á hverja þeir handsama, en þeim finnst mikið varið í að framkvæma það á lævísan og snjallan hátt og án þess að fangarnir fái varið sig.

„Hvaða ræflalýður er þetta?“ spurði Stórdrísillinn.

„Dvergar og þetta eitthvað í viðbót!“ svaraði einn pískaranna og kippti í keðjuna á Bilbó svo hann skall niður á hnén. „Við komum að þeim þar sem þeir höfðu skriðið í skjól í Anddyrinu okkar.“

„Hvaða skýringu gefurðu á því?“ spurði Stórdrísillinn og sneri sér að Þorni. „Af þér er einskis góðs að vænta, ætla ég! Voruð þið kannski að njósna um einkahagi þjóðar minnar. Já ætli ekkí! Þjófar, það kæmi mér ekki á óvart! Morðingjar og álfavinir! Ekki er ólíklega til getið! Svona nú! Hverju svararðu því?“

„Ég er Þorinn dvergur, þjónustufús!“ svaraði hann – en þetta voru auðvitað einskær kurteisisorð og ekkert annað. „Við könnumst ekki hið minnsta við þær sakir sem þú berð á okkur. Við leituðum aðeins skjóls undan storminum. Okkur sýndist þetta þægilegur og ónotaður hellisskúti, ekkert var okkur fjær úr huga en að valda dríslum minnstu óþægindum með nokkrum hætti.“ Þetta var auðvitað sannleikurinn í málinu.

„Hummhumm!“ sagði Stórdrísillinn. „Þú heldur því fram! En má ég þá spyrja hvern fjandann þið voruð yfirleitt að flækjast uppi í fjöllunum, hvaðan bar ykkur að og hvert átti að fara? Ég vil einfaldlega fá að vita allt um ykkur. Ekki svo að útskýringar þínar komi ykkur að neinu gagni, Þorinn Eikinskjaldi, því að ég veit þegar nógu mikið um þína þjóð. En þú skalt leysa frá skjóðunni eða ég skal láta þig fá að reyna eitthvað alveg frámunalega óþægilegt!“

„Við vorum nú bara á leiðinni til að heimsækja skyldfólk okkar, bróðursyni og bróðurdætur og afsprengi þeirra í þriðja og fjórða lið og aðra afkomendur sameiginlegra forfeðra okkar sem búa austan þessara ógnarlegu ógestrisnu fjalla,“ sagði Þorinn en var í vandræðum með hvernig hann ætti að haga orðum sínum, því að augljóst var að hann mátti umfram allt ekki segja sannleikann.



„Hann lýgur! Skelfing er hann lyginn!“ sagði einn af drífurunum. „Margir úr okkar hópi voru slegnir eldingu í skútanum, þegar við buðum þessum skepnum að koma inn í bergið. Margir okkar manna liggja þar steindauðir. Og ætli hann geti gefið skýringu á þessu!“ Gaurinn lyfti upp sverðinu sem Þorinn hafði borið, því sem hann hafði fundið í bæli tröllanna.

Stórdrísillinn rak upp hræðilegt reiðiöskur þegar honum varð litið á sverðið og allir liðsmenn hans gnístu tönnum, börðu skildi sína og stöppuðu í gólfið. Þeir þekktu þetta sverð samstundis sem hafði orðið hundruðum drísla að bana á sínum tíma, þegar hinir kröftugu fagurálfar af Gondolín hundeltu þá um allar hæðir og réðust til atlögu undir múrum þeirra. Álfarnir höfðu kallað það Orkrist eða drísilkljúf, en dríslarnir Bít eða Bítarann. Þeir hötuðu það og enn meira hvern þann sem nokkurn tímann bar það.

„Morðingjar og álfavinir!“ öskraði stórdrísillinn og réði sér ekki lengur. „Lemjið þá! Kremjið þá! Bítið þá! Slítið þá! Farið með þá í myrkraholurnar fullar af snákum og látið þá aldrei framar sjá dagsins ljós!“ Hann var í þvílíku ofsalegu illskukasti að hann stökk sjálfur upp af sæti sínu og þusti að Þorni með galopið gin.

En á samri stundu slokknuðu öll ljósin í hellinum og stóra bálið drapst eins og blásið hefði verið á kerti. Eftir stóð aðeins svolítill hraukur hulinn bláum glóandi reyk sem liðaðist upp í hellisloftið og dreifði hvítu neistaflugi yfir alla dríslaþvöguna.

Öskrinu og veininu, urginu og ískrinu, bölvinu og ragninu, orginu og garginu sem á eftir fylgdi verður ekki með orðum lýst. Þótt mörg hundruð villikettir og úlfar væru steiktir saman lifandi yfir hægum eldi, hefði það ekki komist í hálfkvisti við alla þessa skræki. Neistarnir brenndu göt á húð dríslanna og reykurinn sem lagði niður úr loftinu var jafnvel of þéttur til þess að dríslar sæju í gegnum hann. Þeir rákust saman og skullu og féllu hver um annan þveran og ultu í hrúgum á gólfinu, bítandi, sparkandi og lemjandi allt og alla eins og þeir væru gengnir af göflunum.

Skyndilega leiftraði sverð í eigin ljóma. Bilbó sá það stingast beint í gegnum Stórdrísilinn þar sem hann stóð furðu lostinn mitt í eigin geðvonsku. Hann hneig niður dauður og drísildátarnir flýðu æpandi undan sverðinu sem sveif í myrkrinu.

Sverðið var aftur slíðrað.„Fylgið mér fljótt nú!“ sagði rödd bæði í senn æst og róleg og áður en Bilbó fengi áttað sig á, hvað væri á seyði, tók hann á rás aftur, eins hratt og fætur toguðu, eins og áður aftastur í lestinni niður fleiri dimma ganga meðan hávaðinn í drísilsalnum fjarlægðist og dofnaði. En fölt ljós fór fyrir þeim.

„Hraðar, hraðar!“ sagði röddin. „Þeir verða ekki lengi að kveikja aftur á blysunum.“

„Bíðið aðeins við!“ sagði Dóri sem var aftarlega í lestinni næst á undan Bilbó, besti náungi. Hann bauð hobbitanum að klifra upp á axlir sér eftir því sem hann gæti með báðar hendur bundnar og síðan fóru þeir á harðahlaupum fastir í glamrandi keðjunum og margir hnutu þar sem þeir höfðu ekki hendurnar til að styðja sig með. Langalengi hlupu þeir áfram án þess að nema staðar og hljóta þá að hafa verið komnir lengst inn í iður fjallsins.

Þá loksins kveikti Gandalfur á stafnum sínum. Auðvitað var þetta enginn annar en Gandalfur, en nú voru allir svo uppteknir af að komast undan, að þeir hreinlega gleymdu að spyrja hann hvernig hann hefði farið að þessu. Nú dró hann sverð sitt aftur úr slíðrum og enn leiftraði það af sjálfu sér í myrkrinu. Það logaði venjulega því bjartara sem fleiri dríslar voru í nánd en nú blossaði það upp í bláum loga af gleði yfir að hafa drepið sjálfan stórhöfðingja hellisins. Það hafði ekki mikið fyrir því að sneiða í sundur dríslakeðjurnar og leysa alla fangana í snarhasti úr fjötrum. Þetta var sverðið Glamdringur eða Fjandhöggur, ef þið munið eftir því. En dríslarnir kölluðu það einungis Höggarann og hötuðu hann enn meira en Orkristann ef hægt væri að komast hærra en það. En nú höfðu þeir líka aftur náð Orkristi, því að Gandalfur var líka með hann í fórum sínum, hafði hrifsað hann af einum dauðskelkuðum dríslinum. Það mátti því segja að Gandalfur hugsaði fyrir flestu, og þó hann gæti kannski ekki hugsað fyrir öllu, var hann vinum sínum sannkölluð hjálparhella í neyð.

„Eru þá allir mættir?“ spurði hann og rétti Þorni sverðið Orkrist með hátíðlegu látbragði. „Látum okkur sjá — hér er Þorinn, tveir, þrír, fjórir, fimm, sex, sjö, átta, níu, tíu, ellefu — hvar eru Fjalar og Kjalar? Jú þarna eru þeir! tólf og þrettán og þá eru þeir allir komnir og þarna er herra Baggi sá fjórtándi. Jæja, jæja, verra gæti það verið, en líka gæti það verið talsvert betra. Engir hestar, enginn matur, vitum ekki einu sinni hvar við erum og flokkar bandóðra drísla á hælum okkar! Áfram nú!“

Og áfram héldu þeir. Gandalfur vissi hvað hann söng. Brátt fóru að berast að eyrum þeirra allskyns óhljóð úr dríslum og hræðileg öskur úr fjarska aftan úr göngunum sem þeir fóru um. Þeir urðu að auka hraðann sem mest þeir máttu og þá var nú verra með Bilbó. Hann gat ekki haldið í við þá — því að það er ótrúlegt hvað dvergar geta hlaupið hratt, skal ég segja ykkur — ef mikið við liggur — svo nú urðu þeir að skiptast á um að bera Bilbó á bakinu.

En dríslar komast enn hraðar en dvergar, og auk þess þekktu þeir hér vel til (þeir höfðu sjálfir grafið öll þessi göng) og voru þar að auki bálreiðir, svo það var alveg sama þótt dvergarnir hlypu sem fætur toguðu, þeir heyrðu hrópin og öskrin stöðugt nálgast. Brátt heyrðu þeir jafnvel slabbið frá dríslalöppunum, fjölda fóta sem virtust vera alveg á hælum þeirra. Nú fór jafnvel að bjarma fyrir blysum þeirra í göngunum fyrir aftan, auk þess sem þeir félagarnir voru nú farnir að þreytast.

„Ó, hví í ósköpunum fór ég að yfirgefa þægilegu hobbitaholuna mína!“ sagði vesalings herra Baggi, þar sem hann hossaðist á hrygglengju Vamba.

„Ó, hversvegna í ósköpunum vorum við að taka þennan galómögulega hobbitaræfil með okkur í fjársjóðaleitina!“ svaraði aumingja Vambi sem var svo feitur, að hann rétt rambaði áfram og svitinn bogaði af honum og rann niður nefið á honum í svækju og skelfingu.

Þegar hér var komið sögu lét Gandalfur sig dragast aftur úr og Þorinn með honum. Þeir komu að skarpri beygju á göngunum. „Snú!“ hrópaði Gandalfur. „Sverð úr slíðrum, Þorinn!“

Ekki var um neitt annað að ræða og dríslunum varð heldur ekki um sel. Þeir komu askvaðandi fyrir beygjuna með öskrum og látum en mættu engum öðrum en Drísilkljúf og Fjandhöggvi, skínandi köldum og björtum. Þeir sem fremstir fóru fleygðu blysunum frá sér og ráku upp ógurlegt vein áður en þeir voru drepnir. Þeir sem aftar komu æptu enn hærra og hörfuðu undan og við það skullu þeir saman við þá sem á eftir þeim komu. Bíturinn og Höggvarinn! æptu þeir og brátt varð alger ringulreið meðal þeirra, þar sem hver flýði sem best hann gat aftur þangað sem þeir komu.

Lengi dirfðist enginn þeirra að fara fyrir beygjuhornið. Og þá voru dvergarnir hlaupnir og komnir langar, langar leiðir eftir dimmum ganginum í ríki dríslanna. Þegar dríslarnir loksins tóku sig á, slökktu þeir á blysunum og settu upp skó með mjúkum sólum og þeir völdu úr mestu hlaupagikkina og þá sem skarpasta heyrn og sjón höfðu. Síðan var þeim hleypt á undan, snöggum sem hreysiköttum á nóttu og hljóðlátum sem leðurblökum.

Það var skýringin á því að hvorki Bilbó, né dvergarnir, né jafnvel Gandalfur heyrðu til þeirra. Og ekki gátu þeir heldur séð til þeirra ljóslausra í myrkrinu. En dríslarnir sem komu hlaupandi hljóðlaust á eftir þeim sáu þá hinsvegar greinilega bera í bjarmann af daufu ljósinu á staf Gandalfs sem fór fremstur fyrir dvergunum.

Skyndilega var þrifið í Dóra sem aftastur hljóp með Bilbó á bakinu, aftan frá úr myrkrinu. Hann rak upp óp og féll um koll en hobbitinn valt af öxlum hans niður í sortann, rak höfuðið í harðan klett og vissi ekki meira af sér.

Загрузка...