VII. KAFLI Undarleg gisting

Morguninn eftir vaknaði Bilbó með sólina í augunum. Hann stökk á fætur til að gá hvað tímanum liði og til að setja ketilinn á — en hann var þá ekki heima hjá sér. Svo hann gat ekki annað gert en að setjast niður og lifa í óskhyggjunni um þvottaskál og bursta. En hann fékk hvorugt og hvorki te né ristað brauð né svínafleskju í morgunverð, aðeins kalt kindakjöt og kanínu. Og strax á eftir skyldi lagt af stað á ný.

Nú var hann látinn klífa upp á bakið á erni og bæla sig niður milli vængjanna. Svo fann hann vindinn hvína um sig og lokaði augunum. Hann heyrði dvergana kalla kveðjuorðum en þeir lofuðu að þeir skyldu endurgjalda Arnarkonunginum einhverju einhvern tímann, ef þeir gætu. Og svo hófu allir þessir fimmtán voldugu fuglar sig á loft upp af klettunum. Sólin var enn lágt á himni í austri og náttsvalinn ríkjandi með þéttri þoku í dölum og dældum en sumsstaðar teygðist hún líka upp um núpa og tinda. Bilbó opnaði annað augað varlega og sá að fuglarnir flugu svimandi hátt, heimurinn var langt fyrir neðan og fjöllin þegar langt að baki. Hann sá það ráð vænst að loka aftur augunum og ríghalda sér.

„Ekki klípa mig!“ sagði örninn, „þú þarft ekki að vera svona hræddur eins og kanína, þó þú helst líkist henni. Nú er fegursti morgunn með litlum andblæ. Hvað er líka til betra en að fljúga?“

Bilbó hefði viljað svara honum: „Heitt bað og síðbúinn morgunverður á grasflötinni á eftir,“ en kaus að þegja og slakaði aðeins á takinu.

Eftir góða stund virtust ernirnir hafa fundið staðinn sem þeir stefndu að, úr þessari svimandi hæð, því að þeir byrjuðu að hringsóla í sísveigum niður á við. Þannig sveimuðu þeir lengi og loks opnaði hobbitinn augun aftur. Hann sá jörðina miklu nær og fyrir neðan uxu tré líkust eikum eða álmi og þar voru víðar gresjur með rennandi fljóti. En í miðjum bugðóttum straumi gnæfði klettur svo heljarstór að hann hefði mátt kallast fell, útvörður hinna fjarlægu fjalla og hægt var að ímynda sér að einhver ferlegur risi meðal allra risa hefði varpað honum margar mílur út á sléttuna.

Skyndilega steyptu ernirnir sér niður og settust hver á eftir öðrum á klettahöfðann og skiluðu farþegum sínum af sér.

„Fararheill!“ hrópuðu þeir, „hvert sem leið ykkar liggur þar til þið snúið aftur heim í hreiður ykkar í ferðalok.“ En þetta þykja hinar bestu árnaðaróskir meðal arna.

„Megi vindur undir vængjum bera ykkur hátt þangað sem sólin siglir og tunglið töltir,“ svaraði Gandalfur og lét ekki standa upp á sig um kurteisleg andsvör.

Þar skildust leiðir. Og þótt Konungur arnanna yrði síðar Konungur allra fugla og bæri gullna kórónu og fimmtán ráðgjafar hans fengju gullin hálsbönd (sem dvergarnir gáfu þeim), þá sá Bilbó þá ekki framar — nema svífandi hátt og í fjarska yfir Fimmherjaorustunni. En frá henni verður skýrt nánar í sögulok og ástæðulaust að fara út í þá sálma að sinni.

Slétt flöt var efst á þessum mikla klettahamri og niður frá henni lá vel troðinn stígur með mörgum þrepum niður á árbakkann en vel varðað vað með stórum stikusteinum lá yfir ána að graslendinu austan fljótskvíslarinnar. Svolítill hellir (hreinlegur með smámöl í botninum) var fyrir neðan þrepin nálægt hinu stikaða vaði. Hér kom nú allur hópurinn saman og ráðgaðist um hvað gera skyldi.

„Það vakti fyrir mér að koma ykkur heilum (ef mögulegt væri) yfir fjöllin,“ sagði vitkinn, „og nú hefur mér tekist það með góðri stjórn og heppni. Við erum raunar komnir austar en ég ætlaði að fylgja ykkur, því að þegar allt kemur til alls, er þetta ekki mitt ævintýri. Má vera að ég líti til ykkar áður en lýkur, en nú þarf ég að sinna öðrum brýnum erindum.“



Dvergarnir byrjuðu strax að mögla og urðu mjög áhyggjufullir en Bilbó grét fögrum tárum. Þeir voru farnir að halda að Gandalfur ætlaði að fylgja þeim alla leið og vera ætíð viðbúinn að koma þeim til hjálpar ef eitthvað á bjátaði. „Jæja, ég skal þá ekki hverfa burt á stundinni,“ sagði hann. „Ég get gefið ykkur einn eða tvo daga í viðbót. Sjálfsagt er að hjálpa ykkur út úr þeim ógöngum sem þið eruð nú í og um leið þarf ég raunar að bjarga sjálfum mér. Við höfum nefnilega engan mat, engan farangur og enga hesta til reiðar. Auk þess hafið þið ekki hugmynd um hvar þið eruð nú staddir. Ég skal nú greina ykkur frá því. Þið eruð enn alllangt norðan vegarins sem við hefðum átt að fylgja, ef okkur hefði ekki verið kippt svo snögglega út af rétta fjallaskarðinu. Hér býr fátt fólk nema því hafi fjölgað síðan ég var hér síðast á ferð, en það var fyrir mörgum árum. Þó veit ég um einn sem býr hér skammt frá. Það var einmitt hann sem hjó niðurgönguþrepin í stóra klettinn — Karkaklettur held ég að hann kalli hann. Hann kemur ekki oft hingað, allra síst að degi til og þýðir ekkert að bíða hans hérna. Þvert á móti væri það mjög hættulegt. Við verðum að fara og leita hann uppi og ef vel fer á með okkur, held ég að mér yrði óhætt að fara og óska ykkur „fararheillar hvert sem leið ykkar liggur“ eins og ernirnir orða það!“

Þeir sárbáðu hann um að yfirgefa sig ekki. Þeir buðu honum drekagull og silfur og dýrgripi, en hann lét ekki undan. „Við sjáum nú til, sjáum til!“ sagði hann, „ég held nú líka að ég hafi þegar unnið fyrir einhverjum hlut í drekagulli ykkar – þegar þið hafið náð því.“

Við það hættu þeir að kvabba á honum. Þeir fóru úr og böðuðu sig í árkvíslinni sem var þar grunn og tær, með möl í botninn á vaðinu. Eftir að hafa þerrað sig í sólinni sem nú var orðin sterk og hlý voru þeir orðnir miklu hressari, þó þeir væru enn sárfættir og nokkuð svangir. Brátt óðu þeir yfir vaðið (báru hobbitann) og héldu svo áfram að vaða hávaxinn graspuntinn innan um raðir af baðmstórum eikum og hávöxnum álmum.

„Hví er hann kallaður Karki?“ spurði Bilbó sem gekk við hlið vitkans.

„Hann kallaði hann víst Karka, af því að karki er á hans máli notað yfir svona kletta. En þetta er Karkinn hans af því að hann er sá eini sem stendur nálægt bústað hans og hann þekkir hann vel.

„Hver kallar hann það? Hver þekkir hann?“

„Nú, það er þessi einhver sem ég talaði um – mikill maður. Þið verðið allir að gæta fyllstu kurteisi þegar ég kynni ykkur fyrir honum. Ég verð að fara mjög gætilega í það og aðeins kynna ykkur hægt og hægt, tvo og tvo saman, held ég, og þið verðið að gæta þess að espa hann ekki upp, því hver veit hvað af því gæti leitt. Hann getur orðið hræðilegur, ef hann reiðist, en ósköp góðlátlegur ef hann kemst í gott skap. Samt vara ég þig við því að hann er mjög uppstökkur.“

Dvergarnir þyrptust nú kringum vitkann til að heyra á tal hans við Bilbó. „Er það þá þessi hræðilegi náungi sem þú ert að leiða okkur til?“ spurðu þeir. „Væri ekki hægt að finna einhvern góðlyndari? Vildirðu ekki útskýra þetta svolítið nánar fyrir okkur?“ — o.s.frv.

„Já, þetta er hann! Nei, ég get ekki fundið neinn annan betri. Og ég var að útskýra það mjög svo vandlega,“ svaraði vitkinn hálf afundinn. „Ef þið viljið fá að vita meira, þá heitir hann Björn Birningur. Hann er hamrammur að kröftum og er það sem kallað er skinn-skiptingur.“

„Hvað segirðu! Þú átt þá við skinnaveiðimann af þeirri gerð sem kallar kanínur feldínur, ef hann ekki heldur því fram að skinnið af þeim sé af íkornum?“ spurði Bilbó.

„Nei, hjálpi mér, nei, nei, NEI, NEI!“ sagði Gandalfur. „Vertu nú ekki að heimska þig eins og kjáni, herra Baggi, þú ert ekki svo skyni skroppinn og í guðanna bænum í nafni allrar óbrjálaðrar skynsemi minnstu ekki framar á skinnaveiðimenn meðan þú ert innan hundrað mílna hringferils frá húsi hans, minnstu heldur ekki á feld eða loðskinn, herðaskjól né handskjól eða loðdúsk, né nokkra slíka hættulega hluti við hann! Hann er eins og ég sagði skinn-skiptingur, sem þýðir að hann getur breytt um ham, stundum er hann voldugur svartbjörn, en þess á milli svarthærður maður en óskaplegur beljaki með flennistórar lúkur og mikið skegg. Ég get ekki sagt þér mikið meira, en þetta ætti líka að vera nóg. Sumir halda að hann sé í rauninni skógarbjörn, kominn af hinum voldugu og fornu fjallabjörnum sem lifðu hér áður en tröllin komu fram á sviðið. Aðrir halda að hann sé maður kominn af fyrstu mönnum sem uppi voru löngu fyrir daga Smeygins og annarra dreka í þessum hluta heims og áður en dríslarnir komu úr norðri og settust að í fjöllunum. Ég veit ekkert af þessu með vissu, en hef ímyndað mér að seinni útgáfan sé rétt. En hann er ekki þannig, að maður komist upp með að spyrja hann margra spurninga.

Svo mikið er þó víst að hann hlítir engum álögum nema sínum eigin. Hann býr í eikiskógi í stóru timburhúsi og hefur sem maður bæði kýr og hesta, engu síður furðuleg dýr en hann sjálfur. Þau vinna fyrir hann og tala við hann. Hann hefur þau ekki sér til matar og ekki veiðir hann heldur né étur nein villt dýr. En hann á fjölda býflugnabúa með stórum og vígalegum býflugum og lifir mest á rjóma og hunangi. Í líki bjarnarins æðir hann vítt og breitt um landið. Eitt sinn sá ég hann sitjandi að næturlagi einan uppi á toppi Karkans og hann horfði í tunglið þegar það var að síga niður að Þokufjöllum og ég heyrði hann urra á tungumáli bjarna og segja: „Sá dagur kemur að þeir munu tortímast og ég get snúið aftur!“ En af þeim ummælum þykist ég mega ráða að hann hafi sjálfur upphaflega komið ofan úr fjöllunum.“

Bilbó og Dvergarnir höfðu nú fengið nóg til að hugsa um, svo þeir sáu ekki ástæðu til að spyrja fleiri spurninga. Enn áttu þeir drjúga leið eftir. Áfram örkuðu þeir upp brekkur og niður í lægðir. Það var orðið steikjandi heitt. Stundum hvíldu þeir sig undir eikitrjánum og Bilbó var orðinn svo svangur að hann hefði getað hámað í sig akörnin, ef þau bara hefðu verið orðin nógu þroskuð til að falla til jarðar.

Það var komið fram um miðjan dag áður en þeir tóku eftir því að stórir flákar af blómum voru farnir að spretta upp, allt sömu tegundar í skipulegum hvirfingum eins og þeim hefði verið sáð. Sérstaklega gilti það um smárann, bylgjandi breiðurnar af refasmára og rauðsmára og líka breiðir flákar af lágvaxnari hvítum sætilmandi hunangssmára. Og þeir heyrðu suð og hvin og drunur í lofti. Allsstaðar voru býflugur önnum kafnar. Og hvílíkar býflugur! Bilbó hafði aldrei áður séð neinar þvílíkar hlussur.

„Ef einhver þeirra mundi stinga mig,“ hugsaði hann, „er ég hræddur um að ég mundi allur bólgna upp tvöfaldur.

Þær voru stærri en geitungar, druntarnir sverir sem þumalfingur og á gular rendur á kolsvörtum bol glampaði eins og glóandi gull.

„Nú förum við að nálgast,“ sagði Gandalfur. „Við erum hér í útjaðri býflugnabeitar hans.“

Eftir nokkra stund komu þeir að heilli röð afar stórra og fornra eikitrjáa og að baki þeirra var hátt þyrnigerði sem hvorki varð séð í gegn né skrönglast yfir.

„Nú er best að þið bíðið hérna,“ sagði vitkinn við Dvergana. „Og þegar ég kalla eða blístra, eigið þið að koma á eftir mér — og takið nú eftir hvaða leið ég fer — en komið aðeins tveir og tveir saman, munið það, og látið líða svo sem fimm mínútur á milli ykkar. Vambi er feitastur og á við tvo, svo það er best að hann komi einn og sér síðastur. En fylgdu mér nú fyrstur herra Baggi. Einhvers staðar hérna ætti hliðið að vera.“ Og þar með hélt hann af stað áleiðis meðfram gerðinu og tók dauðskelfdan hobbitann með sér.

Brátt komu þeir að tréhliði, afar háu og breiðu, og á bak við það komu þeir auga á garða og þyrpingu lágra timburhúsa, sum voru með þekju og mæni og hlaðin úr óhöggnum viðarbolum: þar voru hlöður, útihús, skúrar og langbygging lág, öll úr timbri gjör. Sunnan megin í gerðinu voru endalausar raðir af býflugnabúum með bjöllulaga toppum gerðum úr hálmi. Dynurinn frá risabýflugunum glumdi í loftinu, þar sem þær flugu til og frá og skriðu inn og út um búin.

Vitkinn og hobbitinn ýttu við og opnuðu þungt marrandi hliðið og héldu áfram eftir breiðum stíg í átt að húsinu. Nokkrir hestar sérlega spengilegir og vel kembdir komu töltandi á móti þeim eftir grasflötinni og horfðu greindarlega á þá, en tóku síðan á rás heim að húsunum.

„Þeir gera honum viðvart um heimsókn ókunnugra,“ sagði Gandalfur.

Brátt komu þeir inn í húsagarð og myndaði miðbyggingin ásamt tveimur framstæðum álmum umgjörð á þrjá vegu. Á miðju hlaðinu lá digur eikarstofn með mörgum afhöggnum greinum sitt hvorum megin. Þar hjá stóð fílefldur karlmaður, svarthærður og svartskeggjaður, áberandi vöðvastæltur á handleggjum og fótum. Hann var klæddur hnésíðum vaðmálskufli og hallaði sér fram á gríðarmikla viðaröxi. Hestarnir stóðu hjá honum og lögðu múlana á axlir honum.

„Huhu! Já, hér eru þeir komnir!“ sagði hann við hrossin. „Þeir virðast nú ekkert vera hættulegir. Þið megið fara.“ Svo rak hann upp glymjandi hrossahlátur, lagði frá sér öxina og gekk til móts við þá.

„Hverjir eruð þið og hvað viljið þið?“ spurði hann illyrmislega, stillti sér upp fyrir framan þá og gnæfði yfir Gandalf. Bilbó hefði auðveldlega getað trítlað í gegnum klofið á honum og ekki einu sinni þurft að beygja sig til að rekast ekki á fald kuflsins.

„Ég er Gandalfur,“ sagði vitkinn.

„Aldrei heyrt þig nefndan,“ urgaði í manninum. „Og hver er þessi litli kútur?“ spurði hann og laut niður til að gretta sig framan í hobbitann og ygla loðnar og kolsvartar brýnnar.

„Þetta er herra Baggi, hann er Hobbiti af góðum ættum og með flekklaust mannorð,“ sagði Gandalfur. Bilbó hneigði sig kurteislega en verst þótti honum að hafa engan hatt til að taka ofan og var sér mjög meðvitaður um alla hnappana sem hann vantaði. „Sjálfur er ég vitki,“ hélt Gandalfur áfram. „Ég hef heyrt af þér, þó að þú hafir ekkert frétt af mér. En kannski þekkirðu eitthvað til ágæts frænda míns Ráðagests sem býr víst hér rétt fyrir sunnan Myrkvið?“

„Já, rétt er það, ekki sem verstur náungi af vitka að vera, að ég held. Áður var ég vanur að hitta hann við og við,“ sagði Björn. „Nújæja, þá veit ég hverjir þið eruð, eða hverjir þið segist vera. En hvað viljiði mér?“

„Ef satt skal segja höfum við misst allan okkar farangur og villst, svo við hefðum fremur þörf fyrir hjálp, að minnsta kosti ráðleggingar. Ég verð að viðurkenna að við lentum illa í því með dríslana í fjöllunum.“

„Dríslana?“ sagði beljakinn og varð hann nú strax mildari á manninn. „Ohohoho! Svo þið lentuð illa í þeim? En hvað voruð þið líka að abbast upp á þá?“

„Það var alls ekki ætlun okkar. Þeir komu óvænt yfir okkur í fjallaskarði sem við áttum leið um. Við vorum á leiðinni úr Landinu að vestan og hingað — en það væri löng saga að segja frá því öllu.“

„Þá er best fyrir ykkur að koma inn fyrir og segja mér undan og ofan af því sem gerðist, þó það þurfi ekki að taka allan daginn,“ sagði stóri maðurinn og fór á undan þeim inn um dökkar dyrnar á húsinu.

Þeir fylgdu honum eftir og komu inn í mikinn skála með eldstæði á miðju gólfi. Þótt nú væri hásumar logaði viðareldur í stónni og reykinn lagði upp að sótugum röftunum og út um op á þakinu. Þeir gengu í gegnum þennan skuggaríka skála sem var aðeins lýstur upp af eldinum og gatinu í rjáfrinu og um aðrar minni dyr út á einskonar verönd með skyggni sem haldið var uppi af viðarsúlum úr heilum trjábolum. Veröndin sneri móti suðri og var enn hlý og full af geislum vesturhallandi sólar sem féllu skáhallt niður á hana og báru birtu yfir garðinn sem var fullur af blómum og náði allt upp að þrepunum.

Hér settust þeir á trébekki meðan Gandalfur hóf frásögn sína, en Bilbó dinglaði fótum og barði fótastokkinn og virti fyrir sér blómin í garðinum og velti fyrir sér hvað þau skyldu heita, en hann hafði aldrei séð helming tegundanna áður.

„Sem sagt, ég var þarna á leiðinni yfir fjöllin með einum eða tveimur vinum . . .“ sagði vitkinn.

„Hvað meinarðu með — tveimur? Ég sé nú ekki nema einn og hann er mesta písl,“ sagði Björn.

„Jæja, ef ég á að segja eins og satt er, þá vildi ég ekki trufla þig með okkur öllum, fyrr en ég sæi hvort þú værir mjög önnum kafinn. Má ég þá gefa hinum merki um að koma.“

„Endilega, kallaðu þá á hann!“

Svo að Gandalfur blístraði hvellt og lengi og samstundis komu Þorinn og Dóri í ljós fyrir húshornið eftir garðstígnum og stóðu þar og hneigðu sig djúpt fyrir hinum.

„Ég sé að þú áttir við einn eða þrír!“ sagði Björn. „En þetta eru þó ekki hobbitar, heldur dvergar!“

„Þorinn Eikinskjaldi, þjónustufús! Dóri, þjónustufús!“ sögðu dvergarnir hver á eftir öðrum og hneigðu sig aftur.

„Ég þarfnast nú engrar þjónustu ykkar, takk fyrir,“ sagði Björn, „hitt væri heldur að þið þarfnist minnar. Ég er nú ekkert sérlega hrifinn af dvergum, en sé það rétt skilið að þú sért Þorinn (sonur Þráins, sonar Þrórs að því er mig grunar), og ef félagar þínir eru virðingarverðir og þið eruð ekki að brugga nein vandræði á mínu landi – ja, hvað ætlist þið eiginlega fyrir?“

„Þeir eru á leiðinni að heimsækja land feðra sinna fjærst í austri handan Myrkviðar,“ tók Gandalfur fram í, áður en þeir fengju nokkru svarað, „og það er tilviljun ein að við komum inn á þitt land. Við vorum á leiðinni yfir Háskarðið og hefðum átt að koma niður sunnar, ef fjandans dríslarnir hefðu ekki ráðist á okkur — eins og ég ætlaði að fara að segja þér.“

„Jæja, haltu þá áfram frásögninni!“ sagði Björn, sem var ekki vanur að viðhafa nein kurteisislæti.

„Hræðilegur stormur skall á okkur. Steintröllin voru allsstaðar á ferðinni að kasta klettum og í háskarðinu leituðum við hælis í hellisskúta, ég ásamt hobbitanum og hópi dverga . . .“

„Kva? Kallarðu tvo hóp?“

„Ó, nei, það er rétt. Ef satt skal segja voru þeir fleiri en tveir.“

„Hvað varð af þeim? Voru þeir drepnir, étnir eða sneru þeir við aftur?“

„Ó, neinei. En ég skil ekkert í þessu. Þeir virðast ekki allir hafa komið, þegar ég blístraði. Feimnir, líkast til. Og afsakaðu, við erum svo hræddir um að við séum of margir að trufla þig.“

„Hvað er þetta, blístraðu þá bara aftur! Það er ekki annað að sjá en að efnt sé til veislu, og einn eða tveir til viðbótar breyta engu,“ urraði Björn.

Gandalfur blístraði aftur en Nóri og Óri komu inn jafnvel áður en blístrinu lauk, því eins og þið munið kannski, hafði Gandalfur sagt þeim að koma inn tveir og tveir með fimm mínútna millibili.

„Hæ, hvað var þetta!“ sagði Björn. „Þið voruð ótrúlega fljótir — hvar földuð þið ykkur? Komið inn sprelligosar.“

„Nóri, þjónustufús, Óri, þjón . . .“ byrjuðu þeir. En Björn tók fram í fyrir þeim.

„Þakka ykkur fyrir! Ég skal gera ykkur viðvart ef ég þarfnast nokkuð þjónustu ykkar. Setjist heldur niður og reynum að halda áfram sögunni eða henni verður ekki lokið fyrir kvöldmat.“

„Þar lágum við steinsofandi,“ hélt Gandalfur áfram, „þegar sprunga opnaðist í bergið aftan til í skútanum. Út um hana flykktust dríslarnir og gripu hobbitann og dvergana og allan hestahópinn okkar —“

„Allan hestahópinn ykkar? Hvað eruð þið — kannski farandleikhús? Eða höfðuð þið svona mikinn farangur með ykkur. Þið kallið þó varla sex klára allan hestahópinn ykkar!“

„Ó nei! Ef satt skal segja, voru hestarnir nokkru fleiri en sex — jú, og einmitt, hérna koma tveir í viðbót.“ Á sama augnabliki birtust þeir Balinn og Dvalinn fyrir hornið og hneigðu sig svo djúpt að þeir hreinlega sópuðu steinstéttina með hökuskegginu. Stóri maðurinn gretti sig fyrst í stað, en þeir gerðu allt sem þeir gátu til að vera yfirmáta kurteisir og héldu áfram að kinka kolli og beygja sig og hneigja og veifa húfum sínum í sveiflum neðan fyrir hnjánum (að réttum dvergasið), þangað til hann hætti að gretta sig en veltist um af hlátri. Þeir voru svo skringilegir.

„Allur hestahópurinn er þá rétt,“ sagði hann. „Þeir eru skemmtilega kúnstugir þessir. Komið þá bara inn kátu karlar og segið mér hvað þið heitið. Ég hef ekkert með þjónustu ykkar að gera, ef þið vilduð aðeins segja mér hvað þið heitið, setjast svo niður og hætta að dilla ykkur!“

„Balinn og Dvalinn,“ sögðu þeir og gættu þess að láta ekki á sjá að þeir tækju þetta nokkuð illa upp, heldur settust flötum beinum á gólfið, dálítið hissa.

„Jæja, ætlarðu ekki að koma þér aftur að sögunni!“ sagði Björn óþolinmóður við vitkann.

„Æ, hvar var ég? Ó, já — Þeir náðu mér ekki. Ég drap þar einn eða tvo drísla með töfraleiftri —“

„Ágætt!“ rumdi í Birni. „Þá er eitthvað gagn í svona vitkum.“

„— og tókst að smeygja mér inn um rifuna, áður en hún lokaðist. Ég fylgdi svo á eftir þeim niður í aðalsalinn sem var fullur af Dríslum. Þar sat sjálfur Stórdrísillinn með þrjátíu eða fjörutíu vopnaða verði. Ég hugsaði með mér „hvað gætu vinir mínir svo sem gert jafnvel þó þeir væru ekki hlekkjaðir svona saman? Hvað getur ein tylft gert á móti svona mörgum andstæðingum?“

„Tylft! Þetta er nú í fyrsta skipti sem ég heyri átta kallaða tylft! Eða ertu kannski með fleiri gosa í spilinu sem enn eru ekki komnir út?“

„Jæja, jú, líklega, mér sýnast koma þarna tveir í viðbót — Fjalar og Kjalar, held ég,“ sagði Gandalfur um leið og þeir komu fyrir hornið brosandi og buktandi.

„Þetta er nóg!“ sagði Björn. „Setjist niður og hafið hljótt um ykkur. Og haltu nú áfram sögunni Gandalfur!“

Og Gandalfur hélt áfram að rekja söguna, þangað til hann kom að orustunni í myrkrinu, og hvernig þeir komust út um neðra hliðið og skelfingu þeirra þegar þeir komust að því að herra Baggi hafði eitthvað misfarist. „Við töldum okkur alla og í ljós kom að þar vantaði hobbitann. Við vorum þá aðeins fjórtán okkar eftir!“

„Nei, heyrðu mig nú, fjórtán! Þetta er nú í fyrsta skipti sem ég veit til þess að tíu mínus einn séu fjórtán. Þú hlýtur að eiga við níu, nema þú hafir ekki enn sagt mér nöfn allra þátttakendanna!“

„Já, æ, auðvitað, þú hefur ekki enn séð Óin og Glóin. Og detta mér nú allar . . . , þarna koma þeir, ég vona að þú afsakir þá, ef þeir trufla þig.“

„O, ho, ho, láttu þá alla koma! En flýtið ykkur! Komið inn þið tveir og tyllið ykkur! En heyrðu mig Gandalfur, ég fer nú að ruglast í þessu, en ég held að við höfum enn aðeins fengið þig og tíu dverga og þennan hobbita sem týndist. Það gerir nú aðeins ellefu (plús þennan sem misfórst) en ekki fjórtán, nema vitkar telji öðru vísi en annað fólk. En hvað um það, reyndu nú að koma þér áfram með söguna.“ Björn reyndi að láta ekki á því bera, en í rauninni var hann orðinn ólmur í söguna. Sko, sjáiði til, í gamla daga hafði hann einmitt þekkt ákaflega vel þann hluta fjallanna sem Gandalfur var að lýsa. Hann kinkaði og jánkaði, þegar hann heyrði hvernig hobbitinn hefði aftur komið í ljós og þegar þeir klöngruðust niður urðina og komu í úlfahringinn í skóginum.

Þegar kom að því í lýsingu Gandalfs að þeir urðu að klifra upp í trén undan úlfunum, rauk hann á fætur og stikaði fram og aftur urrandi: „Ég vildi að ég hefði verið þar! Ég skyldi hafa látið þá hafa eitthvað annað og meira en flugeldasýningu!“

„Jæja,“ sagði Gandalfur og var hinn ánægðasti þegar hann sá hvað saga hans hafði góð áhrif. „En ég gerði hvað ég gat. Þarna sátum við uppi í trjánum og úlfarnir óðir og uppvægir fyrir neðan okkur og skógurinn farinn að brenna á blettum, þegar dríslarnir komu niður úr fjallshlíðinni og uppgötvuðu okkur. Þeir grenjuðu af grimmdargleði og kættust með kaldhæðnum kersknivísum eins og Smávinir fagrir fimmtán í trjánum.

„Hver ósköpin!“ hrökk upp úr Birni. „Þið ætlið þó ekki að segja mér að dríslar kunni ekki að telja. Ég veit að þeir kunna vel að fara með tölur. Og tólf er ekki sama og fimmtán, það vita þeir mæta vel.“

„Ég kann líka að telja. Þarna voru þeir Bifur og Bógur. Mér hafði bara ekki unnist tími til að kynna þá fyrir þér. Hér koma þeir blessaðir.“

Inn komu Bifur og Bógur. „Og ég líka!“ hrópaði Vambi másandi fyrir aftan þá. Hann var akfeitur og bálreiður yfir því að vera skilinn einn eftir síðastur og ófáanlegur til að bíða fimm mínútur í viðbót.

„Nú, jæja,“ sagði Björn Birningur. „Ég sé nú að þið eruð komnir upp í fimmtán og þar sem ég þykist vita að dríslarnir kunni að telja, býst ég við að komin sé full tala allra sem sátu uppi í trjánum. Vonandi fáum við nú að heyra söguna án frekari truflana og frátafa.“

Bilbó gerði sér grein fyrir hvað snillingurinn Gandalfur hafði verið að fara. Við öll þessi innískot hafði Björn orðið æ æstari í frásögnina um leið og þau komu í veg fyrir að hann sendi alla dvergana burt sem tortryggilegt sníkjulið. Hann var ekki vanur að bjóða neinum inn í hús sitt, ef hann fengi því ráðið. Hann átti fáa vini og þeir bjuggu langt í burtu og var varla að þeir kæmu nema svo sem tveir til hans í einu. Og nú sátu hvorki meira né minna en fimmtán aðkomugestir á veröndinni hjá honum!

Þegar vitkinn lauk frásögn sinni með björgunaraðgerð arnanna og hvernig þeir hefðu síðan borið þá til Karkakletts, var sólin horfin á bak við tinda Þokufjalla og skuggarnir orðnir langir og mjóir í garði Bjarnar.

„Ágætis saga!“ sagði hann. „Sú besta sem ég hef heyrt um langan aldur. Ef allir flækingar kynnu að segja svona góðar sögur, yrði ég mýkri á manninn við þá. Það má vera að þið séuð að skálda þetta allt upp, en þó eigið þið skilið vænan kvöldverð. Fáum okkur eitthvað að borða!“

„Já, gerum það!“ hrópuðu þeir allir í kór. „Þökk sé þér margfaldlega!“

Næstum aldimmt var orðið inni í skálanum. Björn Birningur lét smella í lófa og inn brokkuðu fjórir undurfagrir hvítir gæðingar og hópur háfættra hunda sem Björn ávarpaði á einhverju furðulegu máli. Það var eins og dýramál fært í reglulega setningaskipan. Þeir fóru aftur út úr salnum en komu að vörmu spori til baka með blysvendi í kjaftinum, kveiktu í þeim við eldinn og stungu þeim síðan í lágar höldur á súlunum allt í kringum miðeldstæðið. Hundarnir gátu gengið á tveim fótum, hvenær sem þá lysti og borið allskyns hluti í framfótunum. Þeir voru snöggir að taka fram borð og búkka frá hliðarveggjunum og raða þeim upp nálægt eldinum.

Þá kvað við jarmur mikill me–me–me og inn trítlaði hópur drifhvítra kinda, en á undan þeim fór þó stór svartur hrútur. Ein ærin hafði meðferðis hvítan borðdúk með útsaumuðum dýramyndum. Hinar báru bakka á bakinu með allskyns skálum og diskum, hnífum og tréspónum. Hundarnir tóku jafnóðum við þessum borðbúnaði og lögðu hann umsvifalaust á borðið, sem var svo lágt að það var jafnvel þægilegt fyrir Bilbó að sitja við það. Einn hesturinn ýtti fram tveimur lágum bekkjum með riðnum tágasetum og lágum og digrum fótum handa Gandalfi og Þorni en hinum megin var stillt svörtu sæti Birnings sömu gerðar, en miklu stærra. (Þar settist hann og gengu ferlegar bífur hans langt inn undir borðið). Þetta voru allir stólar hans í salnum og þeir voru hafðir lágir eins og borðin til þæginda fyrir öll hin ágætu dýr sem þjónuðu honum. En á hverju fengu þau að sitja? Þeim var heldur ekki gleymt. Hestarnir komu og renndu inn sívölum viðarbútum hefluðum og fáðum og voru þeir nógu lágir jafnvel fyrir Bilbó. Brátt voru allir sestir að borðum Bjarnar Birnings og var það meiri veisla en þar hafði sést árum saman.

Og aðra eins máltíð höfðu þeir ekki fengið síðan þeir kvöddu Elrond í „Hinstuhöllinni í Vestri“, eins og þeir kölluðu Rofadal. Ljósið frá kyndlunum flökti um þá og á borðinu stóðu tvö stór kerti úr býflugnavaxi. Þeir héldu áfram að háma í sig góðgætið og Björn sagði þeim með dimmri og hrjúfri rödd ýmislegt af því sem var að gerast í óbyggðunum hérna megin við fjöllin. Einkum þó úr hinum dimma og hættulega skógi sem teygðist langar leiðir bæði til norðurs og suðurs, en var nú aðeins um dagleið á hesti framundan og mikil hindrun á leiðinni austur eftir. Það var hinn hræðilegi Myrkviður.

Dvergarnir hlustuðu grannt og hristu skeggin, því að þeir vissu að brátt yrðu þeir að hætta sér inn í skóginn. Hann var mesta hættusvæðið, næst á eftir Þokufjöllum sem þeir urðu að fara í gegnum, áður en þeir kæmust að höfuðvirki drekans. Að kvöldverði loknum fóru dvergarnir líka að segja sínar sögur, en þá var Björn farinn að dotta og hafði lítinn áhuga á þeim. Þeir töluðu líka varla um annað en gull og silfur og gimsteina og hvernig gera mætti allskonar skartgripi úr þeim með smíðalistinni, en Björn virtist ekki hafa neinn áhuga á slíku. Engir hlutir úr gulli né silfri voru sjáanlegir í skála hans og raunar voru sárafáir hlutir gerðir úr málmi, nema helst hnífarnir.

Þarna sátu þeir lengi yfir borðum með drykkjarmál sín sem gerð voru úr tré og full af ljúffengasta miði. Úti fyrir var komin myrk nótt. Bætt var nýjum lurkum á eldana í miðjum salnum, en slökkt á blysunum, þótt þau sætu áfram í höldunum í flöktandi bjarma frá dansandi bálinu upp um súlurnar sem teygðust upp í rjáfrið eins og skógartrén upp í limið. Hvort sem einhverjir voru þar að verki eða ekki, þá fannst Bilbó eins og hann heyrði vindgnauð blása um rafta eða fjarlægt væl í uglum. Höfuð hans hneig niður á bringuna og honum fannst hann heyra raddir úr fjarlægð, þar til hann hrökk allt í einu upp.

Það hafði marrað í stóru dyrunum og þær skollið aftur. Björn var horfinn úr hópnum. Dvergarnir sátu með krosslagða fætur á gólfinu kringum eldinn, og tóku nú til við að syngja hástöfum. Hér koma nokkur erindi, en þau voru miklu fleiri og söngurinn ætlaði aldrei að þagna.

Þó vindur rísi á Visnuheiðum

varla bærist í skóginum grein.

Í skjólinu felast skepnur latar

og skuggabaldrar liggja við stein.

En ef hann upp rýkur á rangala fjalla

og rokinu kastar frá háfjallageim,

úti er friður og fururnar stynja

og fölnandi laufin þjóta á sveim.

Ef aftur fer vindur úr vestri í austur,

þá varlega kyrrist greinanna fálm.

Í stað þess hann reiðist með rjúkandi blístri

og rífur af akri upp flaksandi hálm.

Í grasinu hvín hann og hviðurnar þeytast,

um hvanngróna velli fer hann á ið.

Á mýrum og fenjum hann ránshendi reytir

reyrstangaþykknin árbakka við.

Illviðragnýr fer um Einafellsstindinn,

undir þar dreki í holinu býr.

Vindur frá klettum svörtum af sóti

og sviðnum hlíðum hið bráðasta flýr.

Svo kveður hann fold og fýkur í burtu

um fjarlægt næturhiminsins haf.

En máninn hann grípur og setur í seglin

og siglir á braut undir stjarnanna traf.

Aftur seig Bilbó blundur á brá. Skyndilega reis Gandalfur á fætur.

„Það er kominn tími til að fara í háttinn,“ sagði hann, „já fyrir okkur, en víst ekki fyrir Björn bónda. Hér í skála hans getum við hafst við í hvíld og öryggi, en ég vara ykkur við að gleyma ekki því sem Björn sagði áður en hann yfirgaf okkur. — Þið megið ekki undir neinum kringumstæðum fara út úr húsinu fyrr en sólin er risin. Þá er það á ykkar ábyrgð.“

Bilbó sá að búið hafði verið um þá til hliðar í skálanum á upphækkuðum pöllum milli súlnanna og ytra veggbyrðis. Honum var fengin svolítil dýna úr hálmi og ullarvoð. Hann smeygði sér glaður undir voðina þótt nú væri sumar. Eldurinn var að kulna út og hann sofnaði strax. Samt vaknaði hann upp einu sinni um nóttina — þá var eldurinn aðeins orðinn að fáeinum daufum glæðum, dvergarnir og Gandalfur steinsofandi eftir andardrætti þeirra að dæma. Hvítur ljósflekkur féll á gólfið frá fullu tungli sem gægðist niður um reykopið í þekjunni.

Þá heyrði hann fyrir utan einhver urrandi hljóð og síðan eins og stórt dýr væri að þruska við dyrnar. Bilbó velti því fyrir sér hvað það gæti væri, kannski Björn í álagaham og hvort hann kæmi inn í bjarnarlíki og dræpi þá alla. Þá sökkti hann sér undir teppið og huldi höfuðið og sofnaði aftur þrátt fyrir hræðsluna.

Það var kominn bjartur dagur þegar hann vaknaði. Einn dverganna hnaut um hann í skugganum, þar sem hann lá og hafði oltið með dynk fram úr rúminu og niður á gólfið. Það var Bógur og var hann eitthvað að tauta yfir honum, þegar Bilbó opnaði augun.

„Á fætur með þig purka,“ sagði hann, „eða það verður enginn morgunmatur eftir handa þér.“

Upp rauk Bilbó. „Morgunmatur!“ hrópaði hann. „Hvar er morgunmaturinn?“

„Mest af honum er nú komið niður í magann á okkur,“ svöruðu dvergarnir sem voru á rölti í skálanum, „en leifarnar eru úti á veröndinni. Við höfum annars verið á ferli frá því sólin kom upp, að leita að Birni bónda, því hann er hvergi að finna, en okkur mætti dúkað morgunverðarborð á veröndinni, þegar við komum þangað út.“

„Hvar er þá Gandalfur?“ spurði Bilbó um leið og hann rölti af stað til að gá sem fyrst að, hvað eftir væri ætilegt.

„Ó, Gandalfur! Hann hefur farið eitthvað út í góða veðrið,“ sögðu þeir. En svo urðu þeir ekkert varir við vitkann allan þann dag fram á kvöld. Rétt fyrir sólarlag labbaði hann sig inn í skálann, eins og ekkert hefði ískorist þar sem hobbitinn og dvergarnir sátu að kvöldmat og blessuð dásamlegu dýrin hans Bjarnar þjónuðu þeim eins og þau raunar höfðu gert allan daginn. Til Bjarnar höfðu þeir hvorki séð né heyrt neitt frá kvöldinu áður og fannst það meira en lítið skrýtið.

„Hvar skyldi gestgjafi okkar vera og hvar hefurðu sjálfur alið manninn allan daginn?“ hrópuðu þeir hver um annan þveran.

„Ein spurning í einu er nóg – og engin svör fyrr en eftir kvöldmat. Ég hef ekki fengið ætan bita síðan í morgun.“

Loks hafði Gandalfur lokið sér af og ýtti frá sér diski og kollu — hann hafði þá hámað í sig tvo heila brauðhleifa (með helling af smjöri og hunangi og kekkjuðum rjóma) og drukkið að minnsta kosti kvartil af miði — og nú tók hann fram pípu sína.

„Ég ætla þá að svara seinni spurningunni fyrst,“ sagði hann, „en hjálpi mér, þetta er frábær staður til að blása reykjarhringi.“ Og því leið enn langur tími, áður en þeir gátu togað nokkuð upp úr honum nema reykjarhringi, sem hann sendi frá sér til að hringsóla um allar súlurnar í salnum og lét þá taka á sig allskyns form og liti, þangað til þeir ultu síðast í eltingarleik hver á eftir öðrum út um reykopið á þekjunni. Það hlýtur að hafa verið kyndug sjón að sjá utan frá, þegar þeir smullu upp í loftið hver á fætur öðrum, grænir, bláir, rauðir, silfurgráir, gulir, hvítir, stórir og litlir. Þeir litlu hringsóluðu í gegnum þá stóru eða þeir sameinuðust og mynduðu áttatöluna og allir svifu þeir síðan eins og fuglahópar langt burt í fjarlægð.

„Ég var að rekja bjarnaspor,“ tók hann loks til máls. „Hér fyrir utan hlýtur að hafa verið haldið sannkallað bjarnaþing í nótt. Ég sá brátt að það var útilokað að allt væru þetta spor eftir Björn bónda: til þess voru þau alltof mörg og auk þess af ýmsum stærðum. Ég sá ekki betur en þar hefðu verið á ferðinni litlir birnir, stórir birnir, venjulegir birnir og risavaxnir birnir og var engu líkara en þeir hefðu dansað þar frá myrkri og næstum fram í dögun. Þeir sýndust hafa safnast þangað saman úr öllum áttum, nema þó ekki vestan yfir ána frá Fjöllunum. En þangað í áttina lágu aftur á móti aðeins ein spor — engin til baka, það voru þau einu sem ég sá þar. Ég fylgdi þeim alla leið að Karkakletti. Þau hurfu í fljótið, en þar var flaumurinn of djúpur og þungur til að ég kæmist yfir kvíslina handan við klettinn. Það er auðvelt eins og þið munið að komast á vaðinu yfir eystri kvíslina frá bakkanum hérna megin að Karkakletti, en hinum megin stendur kletturinn upp úr ógurlegum flaumi.

Ég varð að sveima margar mílur meðfram ánni áður en hún breiddi úr sér og varð nógu grunn til þess að ég gæti vaðið eða svamlað yfir hana og síðan aftur margar mílur til baka til að komast aftur á slóðina. En þá var orðið of áliðið til þess að ég gæti fylgt þeim mikið lengra eftir. Sporin héldu áfram beint upp í furuskógana í austurhlíðum Þokufjalla, þangað sem við áður áttum svo skemmtilega samfundi við Vargana í fyrrinótt. Og þá held ég að ég hafi um leið svarað fyrri spurningu ykkar um ferðir mínar,“ sagði Gandalfur að lokum og sat lengi þögull sem gröfin.

Bilbó þóttist skilja hvað vitkinn ætti við. „Hvað eigum við þá að gera,“ hrópaði hann, „ef Björn sækir alla Vargana og dríslana og leiðir þá hingað? Við verðum allir gripnir og drepnir. Ég hélt að þú hefðir sagt að hann væri enginn vinur þeirra.“

„Já, víst sagði ég það. Og láttu ekki eins og bjáni! Þá væri betra fyrir þig að fara í háttinn. Það er orðið freðið fyrir vit þitt af syfjum.“

Bilbó var alveg settur út af laginu með þessu og vissi ekkert hvað hann ætti af sér að gera, svo hann fór bara að hátta. Og meðan dvergarnir kyrjuðu söngvasyrpur hástöfum var hann í svefnrofunum enn að brjóta heilann um Björn og hvað hann hefði verið að gera, þangað til hann fór að dreyma að hundruð svartbjarna dönsuðu hring eftir hring í húsagarðinum í tunglskininu. Svo vaknaði hann upp um miðja nótt, meðan aðrir sváfu, og heyrði sama skrapið, þruskið, hnusið og urrið og nóttina áður.

Morguninn eftir vakti sjálfur Björn Birningur þá. „Svo þið eruð hér allir enn!“ sagði hann. Hann lyfti litla hobbitanum upp á arm sér og hló: „Jæja, ekki hefurðu enn verið étinn af Vörgum, dríslum eða vondum björnum að mér sýnist.“ Hann potaði af fullkomnu virðingarleysi í magann á herra Bagga. „Litli kútur er farinn að líta betur út og fitna aftur á brauði og hunangi,“ klúkkaði í honum. „Komið og fáið ykkur ábót!“

Allir settust nú með honum að morgunmatnum. Áberandi breyting hafði orðið á Birni bónda, hann var orðinn léttur og kátur. Hann lék sem sagt á alls oddi og þeir fóru allir að skellihlæja þegar hann byrjaði að reyta af sér brandara og grínsögur. Þeir þurftu nú heldur ekki að velkjast lengi í vafa um, hvar hann hefði verið, því að hann sagði þeim það sjálfur. Hann hafði farið yfir fljótið og áfram viðstöðulaust upp í fjöllin – og mátti af því ráða að hann hlyti að hafa farið hratt yfir og þá líklega í bjarnarlíki. Þegar hann kom í kolbrunnið úlfarjóðrið sá hann strax að hluti sögu þeirra studdist við staðreyndir. En hann gerði betur, hann klófesti einn Varg og annan drísil sem voru þar á ferð í skóginum og af þeim fræddist hann um þá atburði sem gerst höfðu. Þeir ljóstruðu því upp að herflokkar drísla væru ásamt Vörgunum enn út um allt að leita að dvergunum. Þeir væru þeim bálreiðir fyrir að drepa Stórdrísillinn, en líka fyrir að skaðbrenna höfðingja úlfanna á snoppunni og gera út af við marga af helstu þjónum hans. Þetta fékk hann upp úr þeim með því að ganga á þá en hann grunaði, að eitthvað verra væri í bígerð, þeir væru líkast til að undirbúa heljarmikla atlögu dríslaliðsins og úlfastóðsins á allt héraðið austan undan fjöllunum og þannig gætu þeir um leið fundið dvergana og hefnt sín á þeim mönnum og dýrum sem hefðu skotið skjólshúsi yfir þá.

„Víst var sagan ykkar góð,“ mælti Björn, „en þó finnst mér hún helmingi betri þegar ég hef komist að því að hún er sönn. Þið verðið að afsaka mig, að ég skyldi ekki taka ykkur trúanlega í fyrstu. En ef þið byggjuð í næsta nágrenni við Myrkvið, mynduð þið heldur ekki treysta orðum neins, sem þið ekki tryðuð sem bróður ykkar eða betur. En eitt er víst að þegar ég frétti af þessu, hraðaði ég mér heim aftur sem mest ég mátti til að ganga úr skugga um hvort þið væruð enn heilir á húfi og bjóða fram alla þá aðstoð sem ég get veitt. Já, það segi ég satt, að héðan í frá skal ég hugsa betur til dverga. Drápuð sjálfan Stórdrísilinn, drápuð Stórdrísilinn! Stórkostlegt!“ klúkkaði hann í hrifningarglennu við sjálfan sig.

„En hvað gerðirðu við drísilinn og Varginn sem þú handsamaðir?“ spurði Bilbó allt í einu.

„Komdu og sjáðu það sjálfur!“ sagði Björn og þeir fylgdu honum í kringum húsið. Þar komu þeir að afhöggnum drísilhaus sem var stungið upp á spík utan við hliðið og úlfshúð var spýtt á trjábol þar fyrir aftan. Víst gat Björn verið óvæginn óvinur. En nú var ljóst að hann var skeleggur vinur þeirra og því taldi Gandalfur óhætt að segja honum alla söguna og tilganginn með ferðinni, svo að þeir gætu allir gert sér betur grein fyrir, hvernig hann gæti best orðið þeim að liði.

Og hér er það sem hann hét að gera fyrir þá:

Hann ætlaði að útvega þeim öllum hæfilega smáhesta, nema Gandalfur fengi fák, til ferðalagsins til skógarins og hestarnir yrðu klyfjaðir farangri, mestmegnis matvælum, sem myndu endast þeim í margar vikur, ef þeir héldu spart á og búið yrði þannig um þessar vistir að sem auðveldast væri að bera þær á bakinu — hnetur, mjöl, innsiglaðar dósir af þurrkuðum ávöxtum, hunang í rauðum leirkrukkum og tvíbakað skonrok sem gat geymst lengi og á þeirri næringu myndu þeir geta komist langt. Það var hans einkaleyndarmál, hvernig hann fór að því að baka kökurnar, en hunang var í þeim eins og í flestu sem þar var á borðum. Skonrokið var gott til átu, þótt þeir yrðu nokkuð þyrstir af því. Vatn kvað hann þá ekki þurfa að flytja með sér hérna megin skógarins, því að allsstaðar væru lækir og uppsprettur meðfram veginum.

„En leið ykkar um Myrkvið verður sannarlega myrk, hættuleg og ákaflega erfið,“ sagði hann. „Ekki er auðvelt að finna þar drykkjarhæft vatn né heilnæma fæðu. Nú er ekki enn kominn hnotskógur (þó honum gæti eins verið lokið áður en þið komist út úr skóginum hinum megin), en hnetur eru eiginlega það eina sem þar finnst ætilegt. Í skóginum er allt hið villta svo myrkt, annarlegt og grimmúðlegt. Ég fæ ykkur létta skinnbelgi til að taka með ykkur vatnsbirgðir inn í skóginn og þið fáið líka boga og örvar. En ég efast stórlega um að þið finnið þar nokkra bráð eða drykkjarvatn hæft til neyslu. Hitt veit ég að það rennur ein á um skóginn, svört og kröftug og fer yfir stíg ykkar. En þið ættuð umfram allt ekki að drekka af henni, né heldur baða ykkur í henni, því að ég hef heyrt að hún búi yfir álögum og slái menn deyfð og gleymsku. Og ég er hræddur um að þið skjótið ekkert kvikt, hvorki til hollustu né óhollustu, án þess að ráfa út af stígnum. Og það megið þið ekki FYRIR NOKKURN MUN gera.

Þetta eru þau helstu ráð sem ég get gefið ykkur. En eftir að þið eruð komnir inn í skóginn, get ég ekki margt gert ykkur til hjálpar. Þá verðið þið að treysta á gæfuna og hugrekki ykkar og þær matarbirgðir sem ég fæ ykkur. Við innganginn að skóginum verð ég að biðja ykkur um að skila mér aftur öllum hestunum. Ég óska ykkur góðrar ferðar og hús mitt mun ætíð standa ykkur opið, ef þið eigið hér leið um.“

Þeir þökkuðu honum að sjálfsögðu fyrir með ótal hneigingum og hattsveiflum og „þjónustufúsum Ó, þú mikli höfðingi hátimbraðra sala.“ Þó hætti þeim að lítast á blikuna við alvörufengin viðvörunarorð hans og þóttust nú mega skilja að ævintýrið væri miklu hættulegra en þeir höfðu áður haldið og síðast myndi sjálfur drekinn bíða þeirra við leiðarenda þótt þeir næðu að yfirstíga allar ógnir þangað til.

Þeir voru allan morguninn að undirbúa brottför sína. Upp úr hádegi mötuðust þeir í síðasta sinn með Birni og að því búnu stigu þeir á bak hestunum sem hann lánaði þeim, báðu hann að vera margfaldlega blessaðan og riðu af stað út um hliðið á góðu skokki.

Þegar þeir voru komnir út fyrir háa limgerðið á austurhlið hins girta lands hans, sveigðu þeir til vinstri í stefnu norðvest. Að ráðum Bjarnar hættu þeir nú við að fara aðalþjóðveginn syðra um skóginn. Ef þeir hefðu áður getað haldið áfram för sinni yfir Háfjallaskarðið, hefði leið þeirra í fyrstu legið meðfram fjallaá sem sameinaðist hinu mikla fljóti langt fyrir sunnan Karkaklett. Þar hefðu þeir komið að djúpu vaði, sem þeir hefðu þó átt auðvelt með að komast yfir, ef þeir hefðu þá enn haft hestana sína. Þegar yfir fljótið mikla væri komið, lá þaðan vegur að skógarjaðrinum og inngangshliði gamla skógarvegarins. En Björn varaði þá við að einmitt þar væru dríslarnir nú mjög á ferli á höttunum eftir þeim. Auk þess væri gamli skógarvegurinn nú orðinn yfirvaxinn og úr brúki austantil þar sem hann lægi út í ófær kviksyndi og allir stígar löngu afmáðir. Austurútgangur hans hefði líka alltaf verið langt fyrir sunnan Fjallið eina, sem þýddi að þeir yrðu enn að þæfa óraleið til norðurs þegar þeir kæmu út úr skóginum hinum megin. Hinsvegar benti hann þeim á að fyrir norðan Karkaklett mjókkaði bilið frá Miklafljóti að jaðri Myrkviðar og þó þeir væru þá að vísu aftur farnir að nálgast fjöllin ískyggilega, ráðlagði Björn þeim að fara þennan veg, því aðeins fáeinar dagleiðir fyrir norðan Karkaklett opnaðist annar lítt þekktur stígur gegnum Myrkvið og hagstætt væri að hann kæmi einmitt norðarlega út úr skóginum að austanverðu, rétt andspænis Fjallinu eina.

„Dríslarnir,“ hafði Björn sagt, „þora ekki að fara yfir Miklafljót meira en hundrað mílur fyrir norðan Karka, né heldur koma nálægt húsi mínu — það er vel varið að næturlagi! — en ég myndi þó í ykkar sporum hraða för sem mest má verða, því ef þeir skyldu nú ráðast til atlögu, munu þeir vafalaust fara sunnar yfir fljótið, en síðan fínkemba allt norður með skógarjaðrinum til að útiloka allar undankomuleiðir ykkar. Varið ykkur líka á því að Vargarnir hlaupa miklu hraðar en smáhestar ykkar. Ég tel öruggara fyrir ykkur að fara þessa nyrðri leið, þó svo hún sýnist nálgast ískyggilega virki þeirra, og byggi ég það á því að þeir munu síst búast við ykkur þar en einnig af því að þá þurfa þeir að ríða lengra til að ná ykkur. Farið hið fyrsta af stað. Hafið hraðann á!“

Því riðu þeir nú áfram í þegjandi þögninni en hleyptu hestunum hvenær sem landið var grösugt og gróðurmjúkt. Þeir höfðu dimm fjöllin á vinstri hönd og í fjarska sáu þeir móta fyrir gróðurrönd Miklafljóts með skógarreinum sínum og nálguðust það æ meir eftir því sem norðar dró. Sólin var rétt að ganga til vesturs þegar þeir lögðu af stað en undir kvöld brá hún gullgliti um himin og hauður. Þá var erfitt að ímynda sér að nokkrir Dríslar gætu verið á hælum þeirra og þegar þeir höfðu svo riðið langt frá húsi Bjarnar, fóru þeir aftur að masa saman og syngja gleðisöngva til að gleyma hinum myrka skógarstíg sem beið þeirra. En um kvöldið þegar rökkrið seig yfir en tindar fjallanna glóðu þó enn í sólarlaginu tóku þeir sér náttból og settu á vörð, en flestir sváfu þeir illa og áttu erfiðar draumfarir með ýlfri veiðiúlfanna og öskri dríslanna.

En morguninn eftir rann þó upp bjartur og fagur. Hvít dalalæða sveipaði landið líkt og á hausti, það var svalt í lofti en brátt reis sólin eldrauð í austri og þokan hvarf. Undir löngum skuggum lögðu þeir enn af stað og þannig riðu þeir áfram tvo daga enn til viðbótar og aldrei urðu þeir varir við annað á vegi sínum en gras og blóm, fugla og stöku tré. Einstaka sinnum brá þó fyrir smáhjörðum hjartardýra, ýmist á beit eða liggjandi í hádegissólinni í forsælu trjánna. Fyrst þegar Bilbó varð var við hjartarhornin standandi upp úr hávöxnu puntgresinu hélt hann að þau væru visnar trjákræklur. Þriðja kvöldið urðu þeir að halda vel á spöðunum, því að Björn hafði sagt að þeir ættu að koma að skógarhliðinu snemma á fjórða degi. Þeir riðu því áfram í kvöldrökkrinu og jafnvel fram á nótt í skini tunglsins. Í ljósaskiptunum þóttist Bilbó sjá, fyrst nokkuð til hægri og síðan til vinstri, skuggann af stórum birni sem fylgdi þeim eftir í sömu átt. En þegar hann safnaði í sig kjarki og minntist á það við Gandalf, svaraði gamli vitkinn: „Suss! Hafðu ekki hátt um það!“

Daginn eftir tóku þeir sig upp fyrir dögun, þótt nætursvefninn hefði ekki orðið langur. Og strax og fór að birta sáu þeir skóginn líkt og koma á móti sér, eða þeim fannst hann bíða eftir þeim eins og svartur og úfinn veggur. Jafnframt fór landið að hækka, þeir áttu upp í móti að sækja og hobbitanum fannst eins og þögnin væri að umkringja þá. Það dró úr fuglakvaki, hvergi sáust hirtir á ferð, ekki einu sinni kanínur. Síðdegis komu þeir undir upsir Myrkviðar og hvíldust þar í skjóli magnaðra slútandi greina ystu trjánna. Trjástofnarnir voru voldugir og hlykkjóttir, greinarnar undnar, laufið dökkt og ílangt. †viður óx á þeim og hengdi slóðann niður að jörð.

„Jæja, þá erum við komnir að Myrkviði!“ sagði Gandalfur. „Mestum allra skóga á Norðurhveli. Ég vona að ykkur lítist vel á hann. En nú verðið þið að skila aftur öllum þessum ágætu smáhestum sem þið fenguð lánaða.“

Dvergarnir byrjuðu strax að nöldra yfir því og vildu ekki sjá af hestunum, en vitkinn sagði þeim að láta ekki eins og bjánar. „Björn er ekki eins langt undan og þið haldið og ykkur er nær að halda loforð ykkar við hann, því að hann gæti orðið ykkur þungur óvinur í skauti. Herra Baggi virðist skarpskyggnari en þið, ef þið hafið ekki á hverju kvöldi eftir náttmál tekið eftir miklum birni sem eltir okkur eða situr álengdar í tunglsljósinu og fylgist með náttbóli okkar. Hann er ekki aðeins að vernda ykkur og leiða á rétta braut, heldur engu síður að fylgjast vel með hestunum sínum. Björn er að vísu orðinn vinur ykkar núna, en hann elskar húsdýrin eins og börnin sín. Þið gerið ykkur enga grein fyrir því hve ótrúlega vinsemd hann sýnir ykkur með því að leyfa dvergum að ríða hestunum sínum og það svona hratt og langt, né heldur hvaða afleiðingar það myndi hafa fyrir ykkur ef þið reynduð að taka þá með ykkur inn í skóginn.“

„En hvað þá um fákinn sem þú ríður?“ spurði Þorinn. „Þú minnist ekki á hvort þú ætlir að senda hann frá þér.“

„Nei, því að ég ætla ekki að sleppa honum.“

„Hvað þá um þitt loforð.“

„Það er mitt mál. Ég skila ekki hestinum, heldur ríð honum áfram!“

Þá varð þeim ljóst að Gandalfur var staðráðinn í að yfirgefa þá þarna í sjálfum jaðri Myrkviðar og þeir urðu felmtri slegnir. En nú varð ákvörðun hans ekki haggað.

„Förum nú ekki að byrja aftur á því sama og þegar við lentum á Karkakletti. Það er til einskis að þrefa um þetta. Ég þarf eins og ég sagði ykkur áður, að sinna áríðandi erindum hér fyrir sunnan og er þegar orðinn of seinn af því að snúast í kringum ykkur. Vel má vera að við hittumst aftur áður en lýkur, en svo þarf þó alls ekki að vera. Það er komið undir heppni ykkar, hugrekki og skynsemi. Og ég sendi herra Bagga með ykkur. Ég hef áður sagt ykkur að hann hefur meira til brunns að bera en þið ímyndið ykkur og þið munuð brátt komast að því. Hresstu þig því upp Bilbó og vertu ekki svona dauðyflislegur. Vertu kátur Þorinn og allir þínir félagar! Þetta er nú einu sinni ykkar leiðangur. Hugsið um fjársjóðinn mikla á leiðarenda, en verið ekki of mikið að velta ykkur upp úr hættum skógarins og drekanum, að minnsta kosti ekki fyrr en í fyrramálið.“

Um morguninn var hann enn sama sinnis. Svo nú var ekki um annað að ræða fyrir þá en að fylla skinnbelgina af vatni úr tærri lind sem þeir fundu rétt við skógarhliðið og taka klyfjarnar af hestunum. Þeir skiptu farangrinum milli sín eins réttlátlega og þeir gátu, þó Bilbó þætti sinn hlutur meira en lítið þungur og litist ekkert á að eiga að þramma óendanlegar vegalengdir með annað eins hlass á bakinu.

„En hafðu engar áhyggjur!“ sagði Þorinn. „Þetta á eftir að léttast alltof snemma. Áður en við er litið, þegar fer að grynnka á birgðunum, myndum við allir kjósa að þær hefðu verið meiri.“

Þá var loks að því komið að þeir segðu skilið við smáhestana og sendu þá heim til sín. Þeir brokkuðu glaðlega af stað, engu líkara en þeir væru því fegnastir að snúa taglinu að skuggum Myrkviðar. Þegar þeir lögðu af stað þóttist Bilbó viss um að eitthvað sem líktist birni hyrfi úr skugga trjánna og skokkaði hratt á eftir hestunum.

Þá var að kveðja Gandalf. Bilbó sat ósköp vansæll á jörðinni og hefði viljað fá að fara með vitkanum á stóra hestinum. Eftir morgunverðinn (heldur lélegan) hafði Bilbó rétt skroppið fáein skref inn í skóginn til að litast þar um og virst hann jafn drungalegur um morguninn og kvöldið áður og eitthvað svo laumulegur. „Það er eins og hann sé að gægjast og gæta að öllu,“ sagði hann við sjálfan sig.

„Farðu vel!“ sagði Gandalfur við Þorin. „Og gangi ykkur öllum vel. Leið ykkar liggur rakleitt í gegnum skóginn. Munið mig bara um að fara aldrei út af stígnum! — ef þið gerið það eru þúsund möguleikar á móti einum að þið finnið hann aldrei aftur og þá komist þið heldur aldrei út úr Myrkviði. Og þá er ég hræddur um að hvorki ég né neinir aðrir muni nokkru sinni hitta ykkur aftur.“

„Er virkilega óhjákvæmilegt að við förum inn í hann?“ stundi hobbitinn.

„Já, það er engin önnur leið!“ sagði vitkinn, „ ef þið viljið komast út hinum megin. Annaðhvort verðið þið að fara í gegnum skóginn eða gefast alveg upp á leit ykkar. Og mér dettur ekki í hug að leyfa þér að draga þig út úr því núna, herra Baggi. Ég skil ekki að þú skulir leyfa þér að hugsa þannig. Og ég sem fékk þig til að hafa hönd í bagga með öllum dvergunum fyrir mig,“ sagði hann kíminn.

„Nei! nei!“ sagði Bilbó. „Ég átti ekki við að ég ætlaði að gefast upp. Ég vildi bara fá að vita, hvort ekki væri fær önnur leið í kringum skóginn?“

„Jú, hún er auðvitað til, ef þig langar til að ferðast fyrst tvö hundruð mílur eða svo í norður og síðan helmingi lengra í suður. En hún er síst öruggari. Það fyrirfinnast engar öruggar leiðir í þessum heimshluta. Mundu að hér erum við á hjara veraldar og getum átt von á margvíslegum óvæntum uppákomum hvert sem við förum. Leiðin norður fyrir Myrkvið liggur næstum undir hlíðum Gráufjalla og þær eru svo að segja morandi af dríslum, skröttum og orkum af verstu gerð. Ef þú hinsvegar hyggðist fara suður fyrir skóginn myndirðu lenda í landi Násugunnar og ég þarf víst ekki að fara mörgum orðum um þann kolsvarta seiðskratta. Ég myndi ekki ráðleggja ykkur að vera neins staðar á ferð í sjónmáli frá svörtum turni hans! Nei, haldið ykkur við skógarstíginn, verið kátir og reifir og vonið það besta og með einstakri hundaheppni gæti verið að þið kæmust út hinum megin og fengjuð að líta fyrir neðan ykkur Löngufen og handan þeirra hátt í austri Fjallið eina, þar sem elsku litli Smeyginn býr, þó ég voni að hann sé ekki að bíða eftir ykkur.“

„Þú ætlar svei mér að stappa í okkur stálinu,“ tautaði Þorinn. „Jæja, vertu þá sæll! Úr því að þú vilt ekki koma með okkur, er best að vera laus við þig án frekari málalenginga!“



„Góða ferð þá, já, ég meina reglulega góða ferð!“ sagði Gandalfur og svo sneri hann við hestinum og reið til vesturs. En alltaf mátti hann þó til með að hafa síðasta orðið. Áður en hann var kominn alveg úr kallfæri sneri hann sér við, gerði lúður úr lófunum og hrópaði til þeirra. Þeir heyrðu rödd hans dauft úr fjarska: „Verið sælir. Gangi ykkur vel, gætið vel að ykkur og VÍKIÐ ALDREI ÚT AF SKÓGARSTÍGNUM!“

Svo hleypti hann á braut og var brátt horfinn úr augsýn. „Já, vertu sæll og komdu þér burt!“ tuldruðu dvergarnir — aldrei reiðari, því að þeim þótti svo fyrir því að hann skyldi yfirgefa þá. Nú voru þeir einmitt að leggja út í hættulegasta áfanga ferðarinnar. Þeir hófu upp á herðarnar þunga bakpokana og vatnsbelgina, hver sinn skerf, sneru baki við birtunni sem lá yfir landinu og létu sig dumpa inn í dimman skóginn.

Загрузка...