XIV. KAFLI Eldur og vatn

Nú er ykkur, eins og dvergana, sjálfsagt farið að lengja eftir að vita, hvað orðið hafi um Smeygin. Við verðum þá að taka til við þar sem frá var horfið, þegar hann hafði knasað leynidyrnar og flogið burt í ofsareiði fyrir tveimur dögum.

Íbúar vatnaborgarinnar Ásgerðis héldu sig flestir innan dyra því að vindurinn stóð úr svarta Austrinu og var nístingskaldur. Þó voru fáeinir á ferli á bryggjunum, sem þótti gaman að fylgjast með stjörnunum speglast í lygnu skjóli víkurinnar eftir því sem þær birtust á himninum. Frá Vatnaborg var útsýni að mestu byrgt til Fjallsins eina, af lágum hæðum meðfram norðurenda vatnsins, þar sem Hlaupá rann út í það úr norðri. Menn gátu venjulega aðeins greint hátindinn þó í alheiðu veðri væri og jafnvel þá vildu menn heldur forðast að líta þangað, því að fjallið var eitthvað svo óhugnanlegt og hryllilegt, jafnvel í morgunbirtu. En nú sást ekkert til þess, það lá hulið í myrkrinu.

En skyndilega kom tindurinn í ljós glampandi, þegar snöggur blossi reið yfir það og slokknaði aftur.

„Sko!“ sagði einhver. „Aftur þessi ljósagangur! Síðustu nótt sáu varðmennirnir þessa blossa sífellt vera að kvikna og slokkna frá miðnætti til morguns. Eitthvað er á seyði þar upp frá.“

„Kannski er Konungurinn undir Fjalli byrjaður að móta gullið,“ sagði annar. „Það er nú nokkuð um liðið síðan hann lagði af stað norður. Kominn tími til að gömlu söngvarnir fari að rætast.“

„Hvor kóngurinn?“ spurði annar beiskri röddu. „Það er eins líklegt að þessi ljósagangur sé ekkert annað en eyðandi eldur drekans, eina Konungsins undir Fjalli sem við höfum nokkurn tímann þekkt.“

„Skelfingar óheillakráka geturðu verið!“ sögðu hinir. „Þú boðar nú líka flóð og eitraðan fisk. Geturðu ekki heldur reynt að finna upp á einhverju skemmtilegra?“

Þá gaus allt í einu upp mikið bál langtum neðar og nær yfir hlíðunum svo norðurendi vatnsins endurspeglaðist gullroðinn. „Konungurinn undir Fjalli!“ hrópuðu þeir. „Auðlegð hans er sem sólin, silfrið sem gosbrunnar og árnar renna í gullstrengjum! Áin hleypur í gulli út frá Fjallinu!“ hrópuðu þeir fagnandi og alls staðar voru menn að spenna upp glugga og fótatak heyrðist tifa hlaupandi til og frá.

Það var kominn upp gífurlegur spenningur og hrifning. En harðneskjulegi karlinn æddi sem fætur toguðu til Borgarstjórans. „Drekinn er á leiðinni nema ég sé kolruglaður!“ hrópaði hann. „Brjótið niður brýrnar! Til vopna! Til vopna!“

Þá voru viðvörunarlúðrar í skyndi knúnir og hljómarnir bergmáluðu um klettóttar strendur. Fagnaðarlætin þögnuðu og gleðin breyttist í skelfingu. En fyrir bragðið kom drekinn ekki að þeim alveg varbúnum.

Ekki þurfti þó lengi að bíða, þvílíkur var hraðinn á honum. Þeir sáu hann nálgast eins og þjótandi eldglæringar og vaxa og verða æ skærari eftir því sem nær dró og nú var ekki annað að sjá en að spádómar gömlu sagnanna hefðu farið eitthvað úrskeiðis. Enn var þó að vísu nokkur tími til undirbúnings. Öll ílát í borginni voru fyllt vatni, sérhver stríðskappi vopnaðist, sérhver bogaör og kastspjót höfð viðbúin og brúin til lands brotin niður og henni steypt í sjóinn, áður en hvininn frá hræðilegu aðflugi Smeygings bar yfir borgina og vatnið gáraðist rautt sem eldur undir skelfilegum vængjatökum hans.

Hann sveimaði hátt yfir æpandi og veinandi og hrópandi mannsöfnuðinum. Þá steypti hann sér yfir brýrnar en þar var leikið á hann! Brúin var horfin og allir óvinir hans vörðust nú úti á sækringdri eyjunni með hyldýpi allt í kring — of djúpt, dimmt og kalt fyrir hans smekk. Ef hann lenti í vatninu, myndi rísa upp nóg móða og gufa til að hylja allt landið í þoku í marga daga. En vatnið var honum voldugra, það myndi slökkva í honum áður en hann kæmist aftur upp úr því.

Öskrandi sveigði hann aftur yfir borgina. Svört örvahríð þusti upp móti honum, örvarnar skullu og glömruðu á brynplötum hans og gimsteinahúðuðum kviði og féllu aftur logandi niður út úr brennandi andardrætti hans og steyptust hvissandi í vatnið. Engin flugeldasýning sem þið gætuð ímyndað ykkur í öllum heiminum kæmist í hálfkvisti við þessa sjón í náttmyrkrinu. Við smellina frá bogastrengjunum og glyminn frá lúðrunum varð drekinn óður. Hann ærðist og blindaðist af þessum endemum. Enginn hafði þorað að berjast við hann í margar aldir, og þeir hefðu ekki heldur þorað það nú, ef ekki hefði gripið í taumana þessi náungi með rámu röddina (Bárður hét hann), sem var sífellt á þönum milli bogliðanna og Borgarstjórans að biðja hann um að skipa þeim að berjast til hinsta manns.

Eldspýjurnar gengu blossandi út frá skoltum drekans. Hann hringsólaði nokkra stund hátt í lofti yfir borginni og lýsti upp allt vatnið en trén á bökkunum skinu eins og látún eða blikuðu sem blóð og bar við æðandi kolsvart skuggaflökt fyrir neðan trjástofnana. Svo steypti hann sér niður, beint í gegnum örvahríðina, tillitslaus í reiði sinni, hirti ekki einu sinni um að snúa brynvörðu hliðunum á sér gegn óvinunum, aðeins að setja alla borgina í bál og brand.

Eldur gaus upp af stráþekjunum og viðarsperrunum þar sem hann steypti sér niður og framhjá og aftur í kring, þó búið væri að gegnbleyta öll húsin áður en hann kom. Enn skvettu hundrað hendur meira vatni á húsin hvar sem neisti kviknaði. Aftur hóf drekinn sig á loft. Hann sveiflaði halanum og þakið á Stóra húsinu brast og skall niður. Óslökkvandi bál risu hátt til himins í náttmyrkrinu. Önnur sveifla og enn ein og annað hús og enn eitt stóðu í björtu báli og hrundu. Enn gat engin ör stöðvað Smeygin, það verkaði ekki meira á hann en flugubit á mýrunum.

Menn voru þegar farnir að varpa sér í vatnið allt um kring. Konum og börnum var hlaðið í báta á markaðshöfninni. Menn köstuðu frá sér vopnum. Alls staðar var grátur og gnístran tanna, þar sem rétt áður höfðu verið sungnir dýrðarsöngvar um dvergana. Nú formæltu menn nafni þeirra. Sjálfur Borgarstjórinn var á leiðinni að stóra gyllta bátnum sínum, hann vonaðist til að hann gæti látið róa honum burt í öllu þessu uppnámi og bjargað sjálfum sér. Brátt yrði öll borgin gjöreydd og brunnin niður að vatnsborði.

Það var einmitt ætlun drekans. Honum stóð alveg á sama þó allir kæmust í bátana. Á eftir gæti hann skemmt sér við þá íþrótt að veiða þá eða fólkið gæti hafst við í bátunum þangað til þau syltu í hel. Ef þau reyndu að komast í land skyldi hann taka hressilega á móti þeim. Næst ætlaði hann líka að kveikja í öllum skóginum á ströndinni og svíða akra og engi. En fyrst í stað skemmti hann sér betur en nokkru sinni við að eyða sjálfri borginni.

Enn var þó dálítill flokkur bogliða sem hélt uppi vörnum inn á milli brennandi húsanna. Foringi þeirra var Bárður sá hinn harðleiti, sem áður hafði verið hæddur fyrir að spá allskyns óförum eins og flóðum og eitruðum fiski, þótt þeir vissu að hann væri mikilsháttar maður og hugrakkur. Hann var afkomandi að langfeðgatali frá Girion höfðingja á Dal, en eiginkona hans og barn höfðu sloppið úr rústunum niður eftir Hlaupá, endur fyrir löngu. Hann hélt uppi stöðugri örvahríð af stórum ýviðarboga sínum, þangað til hann var búinn með allar örvar nema eina. Eldarnir bárust óðfluga nær úr öllum áttum. Félagarnir voru að yfirgefa hann. Nú spennti hann bogann í hinsta sinn.

Skyndilega kom eitthvað flaksandi út úr myrkrinu og settist á öxl hans. Honum brá við — en það var þá bara gamall þröstur. Alls ósmeykur settist fuglinn við eyra hans og tók að hjala við hann. Mikið varð hann glaður þegar hann komst að því að hann skildi mál fuglsins, þetta var þá einn af þröstunum af Dal.

„Bíddu við! Bíddu við!“ sagði fuglinn. „Máninn rís. Miðaðu á holkrikann undir vinstra brjóstinu þegar drekinn flýgur og snýr sér við yfir þér!“ Og meðan Bárður dokaði við af undrun sagði fuglinn honum fleiri fregnir ofan frá Fjalli og allt sem hann hafði heyrt.

Svo spennti Bárður boga sinn aftur og í þetta skipti alveg aftur að eyra. Drekinn var að venda sér til baka á lágflugi og rétt þegar hann nálgaðist, birtist máninn upp yfir austurbakkanum og varpaði silfruðu gliti um risavaxna vængi hans.



„Örin mín góð!“ sagði bogmaðurinn. „Svarta örin mín! Þig hef ég geymt mér til síðasta skots. Aldrei hefurðu brugðist mér og alltaf hef ég fengið þig aftur. Ég erfði þig frá föður mínum og hann frá forfeðrum sínum. Hafirðu nokkurn tímann komið úr dvergasmiðjum hins sanna Konungs undir Fjalli, þá farðu nú og dugðu mér vel.“

Drekinn steypti sér nú enn neðar en nokkru sinni og þegar hann vatt sér til í loftinu og renndi sér niður, blasti við kviðurinn á honum allur glitrandi af gimsteinasalla í tunglskininu — nema á einum bletti. Stórboginn small. Svarta örin þeyttist beint af streng og hitti í holkrikann á vinstra brjósti undir framfætinum sem hann hafði glennt langt til hliðar. Inn skall hún og hvarf, jafnt oddur, skaft sem fanir, slíkur ægikraftur var á henni. Með glymjandi skræk svo menn misstu heyrn, tré ultu um koll og klettar sprungu, skaust Smeyginn spúandi eldi hátt í loft upp, tók kollsteypu og hrapaði niður úr háalofti sem logandi þrumufleygur.

Drekinn skall beint niður á borgina. Í síðustu fjörbrotum hans splundraðist öll byggðin í óttalegu neistaflugi og spýtnabraki. Og vatnið gusaðist upp. Feikilegur gufustrókur þyrlaðist upp og var hann skjannahvítur í myrkrinu undir tungl að sjá. Það heyrðist hvissandi hviss, þjótandi gusugangur og svo hljóðnaði allt. Það voru endalok Smeygins og borgarinnar Ásgerðis, en eigi Bárðar.

Vaxandi tungl reis hærra og hærra á himninum og kaldur vindur hvein. Hann tætti hvíta þokuna í tilbjagaðar súlur og æðandi ský og hrakti hana burt til vesturs slitna í sundur í ótal tjásur yfir mýraflóunum miklu lengst vestur undir Myrkvið. Hér og þar mátti sjá stóran bátaflota eins og ótal dökka díla á víð og dreif um yfirborð vatnsins og frá þeim bar vindurinn harmakvein íbúa Ásgerðis yfir eyddri borg, týndum eigum og rústuðum húsum. En þó mátti þetta fólk prísa sig sælt, ef það hefði hugsað út í það, en til þess var varla hægt að ætlast á þeirri stundu. Um þrír fjórðungar íbúanna höfðu að minnsta kosti sloppið lifandi, skógar þeirra, akrar og engi, allir nautgripir og flestir báta þeirra voru óskemmdir og drekinn var dauður. En fólk var í rauninni ekki enn farið að gera sér neina grein fyrir hvaða þýðingu það hafði.

Brátt safnaðist fólkið saman í sorgmæddum hópum á vesturbakkanum, það skalf í nöprum vindinum og beindi umkvörtunum sínum og reiði fyrst gegn Borgarstjóranum, sem hafði orðið of fljótur á sér að hlaupast burt úr borginni meðan enn voru þó nokkrir sem vildu verja hana.

„Hann kann að vera góður til kaupmangs — einkum eigin kaupmangs,“ muldruðu sumir, „en hann er til einskis nýtur ef eitthvað alvarlegt bjátar á!“ Á hinn bóginn gátu þeir ekki nógsamlega lofað hugrekki Bárðar en einkum þó síðasta volduga örvarskot hans. „Ef hann hefði ekki fallið,“ sögðu þau öll, „myndum við gera hann að konungi okkar. Bárður Drekabani af ætt Girions. Æ, hvaða vandræði að hann skyldi farast!“

En í miðju tali þeirra, steig stór maður fram úr skugganum. Hann var holdblautur, svart hárið lafði rennvott fram yfir andlit hans og herðar og hörkulegur glampi var í augum.

„Bárður er ekki fallinn!“ hrópaði hann. „Hann steypti sér á kaf út af Ásgerði, þegar óvinurinn var veginn. Ég er Bárður af ætt Girions. Ég er drekabaninn!“

„Bárður konungur! Bárður konungur!“ æptu allir í kór, en Borgarstjórinn gnísti skjálfandi tönnum.

„Girion var höfðingi á Dal, en aldrei konungur af Ásgerði,“ sagði hann. „Hér í Vatnaborg höfum við ætíð haft þann hátt á að kjósa okkur borgarstjóra úr hópi hinna öldnu og vitru, og aldrei viljað sætta okkur við völd einfaldra stríðsmanna. Lofum „Bárði konungi“ að snúa aftur til síns konungsríkis — á Dal sem nú mun frelsast fyrir hans eigin hetjudáð, svo enginn fær aftrað heimför hans. Og hverjir sem kjósa geta fylgt honum ef þeir vilja heldur lifa við kalda kletta í skugga Fjallsins en á grænum bökkum vatnsins. En skynsamlegra tel ég þó fyrir alla að verða hér eftir og taka þátt í endurreisn borgar okkar og njóta hér síðan velsældar í friði og auðlegð.“

„Við viljum Bárð konung!“ hrópaði fólkið sem næst stóð og svaraði Borgarstjóranum fullum hálsi. „Við höfum fengið nóg af gamlingjum og gróðapungum!“ Og fólkið sem fjær stóð tók undir: „Upp með Bogmanninn, niður með gróðapungana,“ þangað til hrópin kváðu við um alla bakkana.

„Ég skal verða síðastur til að vanmeta Bárð Bogmann,“ sagði Borgarstjórinn en varlega (því að nú stóð Bárður sjálfur við hlið hans). „Hann hefur í kvöld unnið sér einstakan sess sem velgerðarmaður borgar okkar og um hetjudáð hans mætti kveða marga söngva. — En hversvegna, Ó, þér samborgarar mínir?“ — og hér reis Borgarstjórinn á fætur og talaði mjög hátt og skýrt — „já, hversvegna að skella allri skuldinni á mig? Hvað hef ég gert af mér til þess að ég verði settur af? Hver vakti drekann af svefni, má ég spyrja? Hverjir hlutu dýrar gjafir og mikla hjálp frá okkur og töldu okkur trú um að hinir fornu söngvar myndu rætast? Hverjir spiluðu á velvilja okkar og fagra drauma? Hvernig gull hafa þeir nú sent niður eftir ánni til að launa okkur? Drekaeld og rústir! Frá hverjum eigum við að krefjast bóta fyrir allt okkar tjón eða heimta hjálp við ekkjur og munaðarleysingja?“

Eins og þið sjáið hafði Borgarstjórinn ekki fengið stöðu sína út á ekki neitt. Og sá varð árangurinn af ræðu hans að í bili hætti fólkið alveg að hugsa um að eignast kóng, en beindi allri reiði sinni að Þorni og félögum hans. Hent voru á lofti æsileg og beisk orð úr öllum áttum og sumir þeirra sem áður höfðu galað hæst forna söngva, heyrðust nú yfirgnæfa öll hróp með ásökunum um að dvergarnir hefðu vísvitandi spanað drekann gegn þeim.

„Bjánaskapur!“ mælti Bárður. „Hvað ætli þið náið ykkur niðri á þessum vesalingum? Vafalaust hafa þeir farist fyrstir allra í eldunum í Fjallinu, áður en Smeyginn réðist á okkur.“ Og þá allt í einu í miðju kafi, meðan hann var að tala, læddi að honum hugsuninni um hina frægu fjársjóði undir Fjalli sem lágu þar nú eigandalausir og gæslulausir, og hann þagnaði skyndilega. Hann íhugaði betur orð Borgarstjórans um viðreisn á Dal, þar sem gullnar klukkur skyldu aftur hringja, ef hann bara fengi einhverja menn til fylgdar við sig.

Loksins tók hann aftur til máls: „Nú er, herra Borgarstjóri, ekki rétti tíminn til að vera með nein brígsl, né framkvæma stjórnarfarslegar umbyltingar. Nú hafa allir fyrst og fremst verk að vinna. Meðan svo er, mun ég áfram þjóna þér, þó svo kunni að fara — eftir nokkurn tíma að ég hugsi aftur til orða þinna og vilji flytja mig aftur til heimkynna minna í Norðri með þeim sem vilja fylgja mér.“

Að svo mæltu þrammaði hann burt til að hefja uppsetningu búða til að annast sjúka og særða. En Borgarstjórinn glotti honum á bak og sat eftir á jörðinni. Hann hugsaði margt en sagði fátt, nema hvað hann skipaði mönnum með harðri hendi að sækja handa sér eld og mat.

Hvert sem Bárði varð nú gengið meðal fólksins heyrði hann, líkt og eld í sinu, alla vera að rausa og velta fyrir sér hinum miklu auðæfum sem nú stóðu gæslulaus. Menn sáu í hillingum að þar myndu þeir geta fengið fullar bætur fyrir allan sinn missi og mikinn afgangsauð til kaupa á alls kyns neysluvarningi úr Suðri og sú hugsun varð til að létta þeim mjög í skapi í öllum þeirra nauðum. Það veitti heldur ekki af, því að nóttin var bæði köld og ömurleg. Skýli fundust aðeins handa fáum (eitt fékk Borgarstjórinn) og matur var af skornum skammti (ekki einu sinni Borgarstjórinn fékk nóg). Þá nótt urðu margir svo veikir af vosbúð, kulda og harmi að þeir dóu, þótt þeir hefðu sloppið ómeiddir úr rústum borgarinnar og næstu daga voru þar mikil veikindi og hungur.

Bárður tók að sér framkvæmdir og skipaði öllu fyrir eftir sínu höfði, þótt hann segðist ætíð gera það í nafni Borgarstjórans. Það var mesta puð að stjórna öllu þessu fólki og sjá um að tryggja velferð þess og undirbúa húsagerð. Líkast til hefðu flestir farist um veturinn, sem skall á svo skyndilega upp úr veturnóttum, ef hjálp hefði ekki borist utan að. En hjálpin kom svo fljótt af því að Bárður sendi þegar í stað hraðboða upp eftir Skógánni til að biðja álfakónginn liðveislu, og svo vildi til að hraðboðarnir þurftu ekki langt að fara, því að þeir mættu hersveitum hans á miðri leið, aðeins þremur dögum eftir fall Smeygins.

Álfakonungurinn hafði fengið fréttirnar frá flugumönnum sínum og frá fuglum sem voru vinir álfa og því vissi hann þegar margt af því sem gerst hafði. Allt sem vængi hafði var nú líka á ferð og flugi kringum auðnir drekans. Loftið var iðandi af fuglahópum með örum vængjaslætti og hraðfleygum sendiboðum fram og aftur um himininn. Yfir jöðrum Myrkviðar þagnaði ekki blístrið, vælið og kvakið, og fréttirnar bárust langt út yfir skóginn: „Smeyginn er dauður!“ Laufið suðaði, eyru voru hvesst. Jafnvel áður en Álfakóngurinn reið af stað höfðu fréttirnar borist alla leið vestur í furuskóga Þokufjalla. Björn heyrði þær í bjálkahúsi sínu og dríslarnir settust að ráðstefnu í hellum sínum.

„Nú spyrst víst ekki meira til Þorins Eikinskjalda, er ég hræddur um,“ sagði Álfakóngurinn. „Honum hefði verið nær að gerast gestur minn. Samt er þetta illra hóta stormur,“ bætti hann við, „sem engu blæs góðu.“ Því að hann hafði heldur ekki gleymt sögnunum um auðlegð Þrórs. Því var það einmitt sem sendiboðar Bárðar mættu honum á miðri leið með fjölmenni spjótliða og bogliða og þéttum krákuhópum sveimandi yfir, því að þær héldu að nýtt stríð væri að brjótast út, meira en þekkst hafði á þeim slóðum langalengi.

En þegar konungurinn heyrði hjálparbeiðni Bárðar sýndi hann einstakt göfuglyndi, því að hann var í rauninni höfðingi góðrar og hjálpsamrar þjóðar. Því beindi hann göngunni sem fyrst hafði stefnt beint á fjallið, niður með Skógánni í áttina að Langavatni. Nú hafði hann hvorki næga báta né fleka fyrir allan herinn, svo að þeim seinkaði á landleiðinni, en þó sendi hann miklar birgðir af matvælum niður eftir ánni. Álfar eru annars léttir á fæti og þó þeir væru þá lítt vanir fenjunum eða hinu svikula landi milli Skógarins og Vatnsins, gekk ferð þeirra greiðlega. Aðeins fimm dögum eftir fall drekans komu þeir fram á vatnsbakkann og sáu rústir borgarinnar. Þeim var vel fagnað við komuna eins og við mátti búast og borgarbúar ásamt Borgarstjóra voru reiðubúnir að semja um sanngjarnt endurgjald í framtíðinni fyrir hjálp álfakonungsins.

Brátt höfðu þeir ráðið ráðum sínum. Borgarstjórinn skyldi verða eftir með konum og börnum, hinum öldnu og vanhæfu og auk þess með fjölda smiða og hagleiksálfa. Og þeir fóru í óða önn að fella tré og fleyta þeim niður úr skóginum. Svo var farið að reisa fjölda kofa á bakkanum til varnar gegn vetrarkuldunum og þá var byrjað undir stjórn Borgarstjórans að skipuleggja nýja borg sem skyldi verða ennþá fegurri og stærri en sú gamla, en hún skyldi þó ekki rísa á sama stað og áður. Hún átti að standa norðar upp með ströndinni, því að æ síðan höfðu þeir ímugust á vatninu þar sem hræ drekans lá. Hann fengi aldrei snúið aftur á sinn gullna beð, heldur lá skrokkurinn þarna kaldur sem grjót, í hlykkjum á grynningum. Þar mátti öldum saman sjá risavaxin skinin bein hans í logni innan um rústahrúgur gömlu borgarinnar. En fáir þorðu að sigla yfir þann bölvaða stað og engir þorðu að kafa þar niður í hryllingsvatnið, ekki einu sinni til að tína upp gimsteinana sem hrundu utan af rotnandi hræi hans.

En allir vopnfærir menn sem enn voru uppistandandi, þar á meðal flestir úr fylgdarliði álfakonungsins, bjuggu sig undir mikinn leiðangur að Fjallinu eina. Þannig gerðist það aðeins ellefu dögum eftir að Vatnaborg var lögð í rúst að fyrsta framvarðarfylkingin hélt gegnum klettahliðin við vatnsenda og upp um auðnirnar miklu.

Загрузка...