II. KAFLI Kindakrof

Bilbó Þaut upp úr rúminu, brá sér í sloppinn sinn og hélt fram í borðstofuna. Þar var engan að sjá en næg ummerki um morgunverð í ógnarlegum flýti. Allt var í rusli í stofunni og staflarnir af óhreinu leirtaui í eldhúsinu. Svo var að sjá, að hver einasti pottur og panna í öllu húsinu hefði verið tekinn til handargagns. Uppþvotturinn sem nú beið Bilbós var svo hrikalega raunverulegur að hann neyddist til að trúa því, að þetta undarlega samkvæmi kvöldið áður hefði ekki aðeins verið vondur draumur, sem hann var þó að vona. En svo létti honum við þá notalegu tilfinningu að nú væru þeir allir farnir og hefðu skilið hann eftir, ekki nennt að hafa fyrir því að vekja hann (ekki mikið að þakka fyrir sig, hugsaði hann), en það undarlegasta var þó að honum fannst hann í og með sakna þeirra. Sú tilfinning kom honum mjög á óvart.

„Láttu nú ekki eins og bjáni Bilbó Baggi!“ sagði hann við sjálfan sig, „að þú skulir láta þér detta í hug að vera að hugsa um dreka og aðrar slíkar endemis vitleysur og það á þínum aldri!“ Hvað um það, hann setti á sig svuntu, kveikti eldinn, hitaði upp vatnið og þvoði allt upp og tók til í húsinu. Að svo búnu fékk hann sér sjálfur þægilegan morgunverð áður en hann loftaði út úr borðstofunni. Þá var sólin komin á loft og skein yfir landið og hann opnaði útidyrnar og hleypti inn hlýrri vorgolunni. Bilbó fór að blístra hástöfum með sjálfum sér til að gleyma öllu sem gerðist kvöldið áður. Já, ef satt skal segja var hann að setjast niður í borðstofunni við opinn gluggann til að fá sér seinni skattinn, þegar inn gekk Gandalfur.

„Kæri drengurinn minn,“ sagði hann. „Ertu ekkert að koma? Hver var að tala um að leggja snemma af stað? — og hér situr þú við að háma í þig morgunmatinn og klukkan orðin hálf ellefu! Þeir skildu eftir orðsendingu til þín, — gátu ekki beðið.“

„Hvaða orðsendingu?“ spurði vesalings herra Baggi og vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið.

„Hjálpi mér allir flekkóttir fílar!“ sagði Gandalfur, „þú ert ekki með sjálfum þér í dag — ertu ekki einu sinni búinn að þurrka af arinhillunni!“

„Hvað kemur arinhillan málinu við? Heldurðu að það hafi ekki verið nóg verk að þvo upp eftir fjórtán!“

„Ef þú hefðir þurrkað rykið af arinhillunni, hefðirðu fundið þetta undir klukkunni,“ sagði Gandalfur og rétti Bilbó orðsendingu (auðvitað skrifaða á hans eigin bréfsefni).

Og hann las eftirfarandi:

Frá Þorni og félögum til Brjótaþjófsins Bilbós! Kærar þakkir fyrir gestrisni og tilboð þitt um faglega sérfræðiaðstoð sem við tökum með þökkum. Samningskjör: Staðgreiðsla við afhendingu, allt upp að en ekki yfir fjórtánda hluta af öllum ágóða (ef nokkur). Ábyrgð tekin á öllum ferðakostnaði hvað sem í skerst. Við – eða fulltrúar okkar – tökum á okkur útfararkostnað, ef þörf gerist og málið verður ekki með öðrum hætti leyst.

Þar sem vér töldum óþarft að raska þínum virðulega svefni, héldum við af stað á undan til að vinna að nauðsynlegum undirbúningi, og bíðum eftir þinni virðulegu persónu á kránni Græna Drekanum á Árbakka, á mínútunni ellefu stundvíslega. Við treystum því að þú verðir stundvís.

Við höfum þann heiður að

vera þínir innvirðulegu

Þorinn og félagar.

„Það eru aðein s tíu mínútur til stefnu. Þú verður þá að bregða undir þig betri fætinum,“ sagði Gandalfur.

„En –,“ sagði Bilbó.

„Það er enginn tími til þess,“ sagði vitringurinn.

„En –,“ sagði Bilbó enn.

„Enginn tími heldur fyrir það! Af stað með þig!“

Alla sína lífstíð sem hann átti eftir, var Bilbó það hulin ráðgáta, hvernig hann komst út í snarhasti, hattlaus, staflaus og peningalaus, og allslaus við allt sem hann var vanur að taka með sér á ferðalögum, eða hvernig hann hrökklaðist upp frá seinni morgunmatnum hálfkláruðum og óuppþvegnum, hvernig hann þeytti húslyklunum í hendur Gandalfs og hljóp svo hratt sem kafloðnir fæturnir toguðu hann niður stíginn framhjá stóru Myllunni og yfir Ána og skrönglaðist áfram á harðahlaupum heila mílu í viðbót eða lengra.

Það var því engin furða, þótt hann væri lafmóður þegar hann kom að Árbakka rétt í því að klukkan sló ellefu og uppgötvaði að hann hafði ekki einu sinni munað eftir að taka með sér vasaklút.

„Húrra!“ sagði Balinn sem stóð við kráardyrnar skimandi eftir honum.

Rétt í því birtust allir hinir fyrir hornið á veginum inn í þorpið. Þeir sátu á smáhestum sem auk þess voru klyfjaðir allskyns böggum, pökkum, bögglum og lausadóti. Þar var einn í viðbót sérlega lítill smáhestur, Bilbó ætlaður.

„Á bak með ykkur báða, svo leggjum við í hann!“ sagði Þorinn.

„Því miður, ég get það ekki,“ sagði Bilbó. „Bæði er ég hattlaus, gleymdi vasaklútnum mínum og alveg peningalaus. Ég fékk ekki skilaboðin frá ykkur fyrr en kl. 10.45 — til að vera nákvæmur.“

„Þú þarft nú ekkert að vera upp á púnkt og prik,“ sagði Dvalinn, „og hafðu engar áhyggjur! Ætli þú verðir ekki að venja þig á að vera vasaklútslaus og sjálfsagt laus við ótal margt fleira, áður en ferðinni lýkur. Og hvað hattinum viðvíkur, þá er ég með aukahettu og úlpu í farangri mínum.“

Þeir lögðu af stað á brokki frá kránni á fögrum morgni rétt fyrir maíbyrjun á ofklyfjuðum hestum. Bilbó setti á sig dökkgræna hettu (svolítið upplitaða) og samlita úlpu sem Dvalinn lánaði honum. Allur þessi útbúnaður var alltof stór á hann og hann leit asnalega út í honum. Ég þori varla að ímynda mér hvað Búngó faðir hans hefði sagt, ef hann hefði séð hann. Eina bótin var þó að enginn hefði villst á honum og dverg, þar sem hann var skegglaus.

Ekki höfðu þeir langt riðið þegar Gandalfur náði þeim, ríðandi á glæstum hvítum fáki. Hann hafði tekið með sér fjölda vasaklúta og pípu Bilbós og tóbak með. Eftir það kom upp mikil kátína í hópnum og þeir sögðu sögur eða sungu og þannig riðu þeir áfram allan daginn, nema auðvitað þegar þeir námu staðar til að fá sér að borða. Matartímarnir voru þó ekki alveg nógu margir að áliti Bilbós, en þó fór honum að finnast, þegar öllu var á botninn hvolft, að ævintýri þyrftu ekki að vera svo afleit.

Í fyrstu lá leið þeirra um heimalönd hobbita, víð héruð og virðulega byggð með heiðarlegu fólki, góðum vegum og vegakrám hér og þar. Við og við áttu Dvergar eða bændur leið hjá. Síðar komu þeir í lönd þar sem fólk talaði undarleg tungumál og söng söngva sem Bilbó hafði aldrei heyrt áður. Og áfram var haldið út á Auðnirnar, þar sem engin byggð var lengur og engar krár og vegirnir fóru síversnandi. Skammt framundan sáu þeir skuggalegar hæðir sem risu hærra og hærra, dimmar af skógum. Á sumum þeirra risu gamlir kastalar, illúðlegir eins og eintóm illmenni hefðu reist þá. Allt varð líka drungalegra fyrir það að veðrið hafði versnað. Fram að því hafði það verið eins gott og búast mátti við af veðri í maí, þá lék allt í lyndi, en nú var það orðið kalt og rakt. Meðan þeir voru á Auðnunum höfðu þeir orðið að slá upp búðum sínum hvenær sem hægt var, en þá hafði þó verið þurrt.

„Að hugsa sér að bráðum skuli vera kominn júní,“ tuldraði Bilbó ríðandi í aurbleytunni. Það var á tetíma en regnið gusaðist niður og hafði gert það allan daginn. Bleytan lak í dropatali af hettunni í augu hans og úlpan var orðin gegnsósa. Hesturinn hans var orðinn lúinn og hnaut á steinum. Allir voru komnir í svo vont skap að þeir sögðu ekki aukatekið orð. „Og best gæti ég trúað að raki sé kominn í þurru fötin og matartöskurnar,“ hugsaði Bilbó. „Fari til fjandans öll innbrot og allt sem þeim við kemur! Ég vildi óska að ég væri heima í góðu holunni minni, sæti við eldinn og teketillinn minn að byrja að blístra.“ Það var nú hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem þessi mynd kom upp í huga hans!

En áfram héldu dvergarnir á brokki og horfðu aldrei um öxl né hirtu hið minnsta um hobbitann! Einhvers staðar á bak við gráa skýjaflókana hlýtur sólin að hafa sigið til viðar, því að það dimmdi að skjótt þegar þeir riðu niður í djúpan dal en á rann eftir dalbotninum. Nú jók í vindinn og víðitrén á bökkunum sveigðust og mörruðu. Sem betur fer lá leiðin yfir ána á fornri steinbrú, því að áin gusaðist áfram uppbólgin af úrfellinu og kom beljandi ofan úr hæðum og fjöllum í norðri.

Næstum var skollin á nótt þegar þeir komu yfir ána. Vindurinn greiddi í sundur grá skýin og tunglið birtist yfir hæðunum og óð milli tættra stormskýjanna. Þeir námu staðar og Þorinn tuldraði eitthvað um kvöldmat „og hvar getum við fundið þurran blett til að sofa á?“



Þá fyrst uppgötvuðu þeir að Gandalfur var horfinn. Allt fram að þessu hafði hann orðið þeim samferða, án þess að útlista fyrir þeim hvort honum þætti gaman að svona ævintýrum eða vildi bara halda félagsskap við þá um sinn. Hann hafði étið mest, talað mest og hlegið hæst. En nú var hann þar einfaldlega hvergi að finna.

„Þegar þörfin er mest, lætur vitkinn sig hverfa,“ nöldruðu þeir Dóri og Nóri (en þeir voru sammála hobbitanum, um að máltíðir ættu að vera sem tíðastar og ríkulegastar).

Loks komust þeir að þeirri niðurstöðu að best mundi vera að búa sér náttból þar sem þeir voru niður komnir. Þeir færðu sig inn undir trjáþyrpingu af því að þeir héldu að þurrara væri í skjóli þeirra, en vindurinn hristi vætuna af laufunum og dropafallið var mjög óþægilegt. Það var líka eins og einhver fjandinn hefði hlaupið í brennið. Dvergar geta kveikt upp eld næstum hvar sem er og úr hverju sem er og skiptir engu máli hvort það er vindur eða vindleysa en þessa nótt var það svo merkilegt að það vildi ekkert brenna, ekki einu sinni hjá Óni né Glóni sem þó voru sannkallaðir uppkveikjumeistarar.

Þá fældist einn jálkurinn út af engu og æddi af stað. Hann lenti úti í ólgandi ánni áður en þeim tækist að stöðva hann og þegar þeir voru að bjarga honum í land munaði minnstu að Fjalar og Kjalar drukknuðu, en allur farangurinn sem hann bar kastaðist af honum og flaut niður flauminn. Auðvitað voru það að mestu leyti matvæli svo nú var ósköp lítið afgangs til að hafa í kvöldmat, hvað þá í morgunmat.

Þar sátu þeir allir daufir í dálkinn, hundblautir og nöldrandi, meðan Óinn og Glóinn héldu áfram að reyna að kveikja upp og gátu ekki komið sér saman um hvað til þess þyrfti að gera. Bilbó var dapur að melta það með sér að ævintýri eru ekki eintómir unaðslegir útreiðartúrar í maísólinni, þegar Balinn sem alltaf var þeirra vakandi auga sagði: „Þarna yfir frá er ljós!“ Það kom frá hæð drjúgan spöl í burtu, þéttvaxinni skógi. Út úr miðjum skógarsortanum sáu þeir rofa í ljósið, rauðleitt og notalegt, gæti verið varðeldur eða blaktandi blys.

Eftir að hafa virt ljósið fyrir sér um stund upphófst deila milli þeirra. Sumir sögðu „nei“ aðrir sögðu „víst“. Sumir töldu sjálfsagt að fara og skoða ljósið, það væri þó altént betra en að sitja matarlausir bæði um kvöldið og morguninn eftir og geta ekki þurrkað af sér fötin í heila nótt.

Aðrir settu sig upp á móti því: „Við þekkjum ekkert til hér um slóðir og erum þar að auki alltof nálægt fjöllunum. Hér er fáfarið, gömlu kortin eru gagnslaus: Allt hefur þróast hér til hins verra og enginn fylgist með vegunum. Ekki hefur spurst til neins konungs hér um slóðir. Við ættum sem minnst að skipta okkur af því sem hér er á seyði, svo við lendum ekki í vandræðum.“ Hinir svöruðu þá aftur: „Við erum þó að minnsta kosti fjórtán fílefldir garpar saman.“ Við því var bara svarið: „Hvert hefur Gandalfur farið?“ Og undir það gátu allir tekið. Í því kom hellidemba og Óinn og Glóinn fóru að slást út af íkveikingunni.

Þá fannst þeim nóg komið. „Þegar allt kemur til alls höfum við innbrjót með okkur,“ sögðu þeir; og að svo mæltu lögðu þeir af stað, teymdu hestana (varlega) í áttina að ljósinu. Brátt komu þeir að hæðinni og héldu inn á milli trjánna. Áfram örkuðu þeir upp hlíðina en hvergi var að sjá neinn stíg að húsi eða bændabýli. Þeir gátu ekki komið í veg fyrir glymjandi brak og bresti undir fótum (ásamt bölvi og ragni) þar sem þeir bröltu milli trjánna í kolniðamyrkri.

Allt í einu bjarmaði af rauðu ljósinu milli trjástofna skammt framundan.

„Nú er komið að innbrjótnum,“ sögðu þeir og áttu við Bilbó. „Þú verður að laumast til og gá að ljósinu, hvernig á því stendur og hvort okkur sé óhætt að koma nær,“ sagði Þorinn við hobbitann. „Skjóstu nú af stað og komdu fljótt aftur ef öllu er óhætt. Ef ekki, komdu þá líka aftur ef þú getur! Ef þú átt í vanda skaltu væla tvisvar eins og turnugla og einu sinni eins og brandugla, og við sjáum hvað við getum gert.“

Bilbó átti sér engrar undankomu auðið og fékk ekki færi á að útskýra að hann kynni ekki fremur að væla eins og ugla, en að fljúga eins og leðurblaka. En hitt er víst að hobbitar kunna að læðast hljóðlega um skóga, svo hljóðlega að bókstaflega ekkert heyrist. Þeir eru stoltir af færni sinni í að láta lítið á sér bera og hneykslaðist Bilbó ekki lítið á leiðinni af því sem hann kallaði „dvergagauragang“. Hitt er svo annað mál, að ég get varla ímyndað mér að þú eða ég hefðum á slíkri slagveðursnóttu orðið vitund varir við, þótt allur hópurinn hefði farið rétt framhjá nefinu á okkur. En Bilbó fór svo hljóðlega í áttina að rauða ljósinu, að ég býst varla við að einu sinni skógarmús hefði rumskað við það né hreyft minnsta veiðihár. Svo það var í sjálfu sér ekki mikill vandi fyrir hann að komast alveg að eldinum – því að eldur var það – án þess að nokkur yrði hans var. Og hvað haldiði að hann hafi séð?

Þrír feiknarlegir beljakar sátu þar í kringum stórt bál úr beykikubbum. Þeir voru að steikja kindakrof á löngum trjáteini og sleiktu feitina með puttunum. Steikarilmurinn var gómsætur og þeir höfðu með sér ámu af öli og drukku úr krúsum. Þetta voru tröll. Greinilega ekkert annað en tröll. Bilbó var ekki í nokkrum vafa um það, þótt hann hefði sjaldan farið langt heiman af bæ. Hann þekkti þau af stórskornu andlitinu og líkamsstærðinni og klunnalegum löppunum og ekki síst af málfarinu, sem var ekkert hispursmeyjatal, öðru nær.

„Rollukjöt í gær, rollukjöt í dag og fjandinn hafi það, ætli það verði ekki sami rollurassinn á morgun,“ sagði eitt tröllið.

„Aldrei höfum við fengið langalengi minnsta bita af almennilegu mannakjöti ,“ sagði annar. „Hvern fjandann sjálfan var Villi að gera með að draga okkur inn á þessar slóðir, það er óskiljanlegt — og það sem verra er, það er farið að minnka um drykkinn,“ sagði hann og hnippti í olnbogann á Villa, sem var að súpa á kollunni sinni.

Villa svelgdist á. „Haldiði kjafti!“ sagði hann þegar hann náði andanum. „Þú getur nú ekki búist við því að fólk bíði hér endalaust eftir ykkur, bara til þess að láta þig og Berta éta sig. Ég veit heldur ekki betur en að þið hafið fengið heilt þorp og hálft í viðbót í svanginn, síðan við komum niður úr fjöllunum. Hvað meira getiði heimtað? Ég man nú ekki betur en þið hafið fyrst verið ánægðir og sagt „þakka þér Villi“ fyrir spikfeitar Dalarollur eins og þetta krof.“ Svo tók hann sér slummungsbita úr læri kindarinnar sem hann var að steikja og þurrkaði sér um varirnar á erminni.

Já, ég er nú hræddur um að tröll hegði sér svona, jafnvel þau sem aðeins eru einhöfða. Eftir að Bilbó hafði heyrt þetta til þeirra, þurfti hann að bregða skjótt við. Hann átti um tvo kosti að velja: Annaðhvort átti hann að snúa aftur til baka hljóðlega og vara vini sína við, að hér væru talsvert stór tröll í svo leiðu skapi, að þau væru vís til að vilja steikja dverg eða hest til að fá tilbreytingu í mataræði. Eða ætti hann kannski að sýna innbrjótshæfileika sína með því að stela einhverju frá tröllunum. Fyrsta flokks þjófur í þjóðsögunum myndi stela einhverju úr vösum tröllanna — alltaf er eitthvað upp úr því að hafa, ef vel tekst til, eða ætti hann að hnupla kjötinu af teininum, eða labba sig burt með ölið, án þess að þeir tækju eftir því. Aðrir hagsýnni og óskammfeilnari alvöruþjófar hefðu sjálfsagt stungið tröllin rýtingi á hol, án þess að þau yrðu þess vör. Þá gæti orðið glatt á hjalla hjá þeim um nóttina.

Bilbó vissi það allt af þjóðsögum. Hann hafði lesið um svo ótal margt sem hann hafði hvorki séð né upplifað. Hann var bæði dauðhræddur við tröllin og hafði ógeð á þeim. Hann vildi óska að hann væri hundrað mílur í burtu, og þó – og þó, einhvernveginn gat hann ekki fengið sig til að snúa beint aftur til Þorins og félaga tómhentur. Svo hann stóð kyrr og dokaði við í skugganum. Af þeim spurnum sem hann hafði af þjófnaðar- og hvinnskufræðum, var það auðvitað auðveldasta kúnstin að stela úr vösum trölla, svo loksins ákvað hann að laumast á bak við tréð sem Villi þessi hallaði sér upp að.

Berti og Þumbi gengu að ámunni. Villi var í miðju kafi að súpa á. Þá herti Bilbó sig upp og þreifaði með smárri hendinni í risastóran vasa Villa. Víst fann hann buddu í honum, á stærð við heila tösku að því er Bilbó fannst. „Haha!“ hugsaði hann með sér og naut þess hvað hann stóð sig vel í þessu nýja starfi um leið og hann lyfti buddunni varlega upp. „Þetta er þó altént góð byrjun!“

Já, víst var það byrjun, en gallinn er bara sá að buddur trölla eru mestu ólíkindatól og þessi var engin undantekning. „Hæ! Hver ert þú?“ skrækti buddan upp yfir sig um leið og hún kom upp úr vasanum. Og Vilhjálmur sneri sér snöggt við og þreif Bilbó hálstaki, áður en hann gæti skotist bak við tréð.

„Skrattinn sjálfur, Berti, sjáðu hvað ég klófesti!“ sagði Vilhjálmur.

„Hvað er það?“ sögðu hinir og færðu sig nær.

„Skrattinn ef ég veit það! Hvað ertu?“

„Bilbó Baggi, og ég er Innbr — hobbiti,“ sagði vesalings Bilbó skjálfandi á beinunum og velti því mest fyrir sér hvernig hann ætti að fara að því að væla eins og ugla, áður en þeir kyrktu hann.

„Hva, innbrobbiti?“ sögðu þeir undrandi. Tröll eru sein að skilja en ákaflega tortryggin á allt sem er nýtt og óþekkt.

„Hvað er innbrobbiti að flækjast oní mínum vösum,“ sagði Villi.

„Ætli sé hægt að sjóða það?“ spurði Þumbi.

„Það má reyna það,“ sagði Berti og rétti honum pott

„Þetta er nú ekki einu sinni munnfylli,“ sagði Villi, sem áður var orðinn pakksaddur af ágætum kvöldverði, „ekki þegar búið er að flá það og úrbeina.“

„En kannski eru fleiri á næstu grösum svo við getum gert úr þeim kássu,“ sagði Berti. „Heyrðu þú þarna, eruði fleiri að læðast um hér í skóginum, bölvað litla nagdýrið þitt,“ sagði hann og varð litið á loðna fætur hobbitans og þreif hann upp á tánum og hristi hann.

„Já, margir,“ slapp út úr Bilbó áður en honum hugnaðist að hann mátti ekki koma upp um vini sína, „nei, engir neinir,“ tók hann sig strax á.

„Hvað meinarðu?“ sagði Berti og hafði nú endaskipti á honum og hélt honum uppi á hárinu.

„Það sem ég segi,“ sagði Bilbó og tók andköf. „Og ekki sjóða mig, góðu herrar! Ég er sjálfur alvanur matreiðslumaður og það er betra að láta mig sjóða en að vera soðinn sjálfur, ef þið skiljið hvað ég meina. Ég skal matreiða dásamlega fyrir ykkur, gera ykkur frábæran morgunmat, ef þið bara hafið mig ekki í kvöldmat.“

„Vesalings litli ræfillinn,“ sagði Villi. Sjálfur var hann pakksaddur og hafði auk þess svolgrað bjórinn stíft. „Vesalings ræfillinn, sleppum honum bara!“

„Ekki fyrr en hann útskýrir hvað hann á við með að margir og engir neinir, séu á sveimi hér í kring,“ sagði Berti. „Ég kæri mig ekkert um að láta skera mig á háls í svefni. Stingum tánum á honum í eldinn, svo hann leysi frá skjóðunni.“

„Ég vil ekki hafa það,“ sagði Villi. „Það var nú einu sinni ég sem klófesti hann.“

„Þú ert nú bara feitur fábjáni Villi,“ sagði Berti, „eins og ég sagði áður í kvöld.“

„Og þú ert bölvaður asnakjálki!“

„Ég sætti mig nú ekki við annað eins frá þér Villi Hlunkur,“ sagði Berti og rak hnefann í augað á Vilhjálmi.

Nú upphófst stórfengleg rimma. Bilbó átti enn til nóg snarræði, þegar Berti sleppti honum til jarðar, til að krafla sig burt frá fótunum á þeim, áður en þeir fóru að slást eins og hundar og kalla hver annan hárri raust allskyns meira og minna réttum ónefnum. Brátt ultu þeir læstir í fangbrögðum næstum inn í eldinn, sparkandi og berjandi, meðan Þumbi lét höggin dynja á þeim með trjágrein til að stilla þá — sem varð auðvitað aðeins til að gera þá enn brjálaðri.

Þá hefði Bilbó kannski átt að nota tækifærið til að koma sér undan. En hann hafði kramist illa á litlu spóafótunum sínum í fastri greip Berta og gat auk þess varla náð andanum og snarsvimaði, svo hann lá þarna bara lafmóður rétt utan við eldbjarmann.

Rétt þegar áflogin stóðu sem hæst kom Balinn á vettvang. Dvergarnir höfðu heyrt einhvern hávaða í fjarska. Þeir biðu um sinn eftir því hvort Bilbó sneri aftur, eða gæfi frá sér ugluvælið, en síðan tóku þeir hver á eftir öðrum að mjaka sér nær bálinu eins hljóðlega og þeir gátu. Ekki hafði Þumbi fyrr séð Balin koma inn í birtuna en hann rak upp ógurlegt öskur. Tröll eru með þeim ósköpum gerð, að þau þola ekki að sjá dverga (ósoðna). Og eins og við tröllið mælt steinhættu Berti og Villi að slást, og „komdu með poka Þumbi, strax!“ sögðu þeir. Og Balinn, sem var aðeins að skyggnast um eftir Bilbó í öllu þessu þvargi, vissi ekki af sér fyrr en poka var steypt yfir hausinn á honum, síðan höfð endaskipti á og bundið fyrir.

„Fleiri fylgja á eftir,“ sagði Þumbi, „annars er ég illa svikinn. „Nú skil ég margir og engir neinir,“ sagði hann. „Engir fleiri svona Innbrobbitar, en margir svona dvergar. Þar hitti ég naglann á hausinn.“

„Vísast er það rétt,“ sagði Berti. „og við ættum þá að fara út úr birtunni og sitja fyrir þeim í skugganum.“

Og svo gerðu þeir. Þeir tóku nokkra poka sem þeir annars notuðu til að bera í sauði eða annan ránsfeng og lögðust í leyni. Svo þegar dvergarnir nálguðust hver á eftir öðrum, gláptu í eldinn og sáu ekkert nema bjórkollurnar sem lágu á hliðinni og hálfnagaðar hnúturnar, urðu þeir fyrir heldur en ekki óvæntri reynslu, plúmp! og daunillum myglusekk var skellt yfir þá og snúið við og bundið fyrir. Brátt lágu þeir saman Dvalinn og Balinn, Fjalar og Kjalar og Dóri og Nóri og Óri allir í einni bendu og enn bættust við Óinn og Glóinn og Bifur og Bógur og Vambi og var þeim síðustu kastað niður ónotalega nærri eldinum.

„Það er líka rétt á þá,“ sagði Tröllið Þumbi, því að Bifur og Vambi höfðu verið sérstaklega erfiðir viðureignar og barist sem brjálaðir eins og margir dvergar gera þegar þeir komast í hann krappan.

Síðastur allra kom Þorinn – og hann lét ekki koma sér í opna skjöldu heldur var viðbúinnöllu hinu versta og þurfti ekki annað en að sjá fæturna á félögum sínum standa út úr pokum til þess að gera sér grein fyrir að eitthvað væri öðruvísi en það ætti að vera. Hann stóð í skugganum álengdar og sagði með sjálfum sér: „Hvaða ósköp eru hér á seyði? Hver hefur verið að misþyrma mínu fólki?“

„Það eru tröll!“ hvíslaði Bilbó þaðan sem hann leyndist bak við tré, en tröllin voru nú alveg búin að gleyma honum. „Þau leynast í kjarrinu og hafa poka með sér,“ sagði hann.

„Ó, er það virkilega?“ sagði Þorinn og stökk í einu vetfangi að eldinum, áður en hinir gátu gómað hann. Þar tók hann upp trjágrein logandi í endann og keyrði glóðina í aðra glyrnuna á Berta, áður en hann gæti vikið sér undan, svo hann var úr leik í bili. Bilbó lét þá heldur ekki sitt eftir liggja. Hann greip í löppina á Þumba eftir því sem hann gat, en hún var gild sem trjábolur — en samstundis endasentist hann fljúgandi upp trjálimið, þegar Þumbi ætlaði að sparka logandi gneistunum í andlitið á Þorni.

Fyrir vikið fékk Þumbi trjágreinina á kjaftinn svo úr honum brotnaði ein framskeglan. Við það fór hann að væla ógurlega eins og aumingi, það segi ég satt. En í sama bili bar Vilhjálm að aftan frá og hann smeygði poka beint yfir hausinn á Þorni og alla leið niður að tám. Þannig endaði sá bardaginn. Nú lágu þeir aldeilis í súpunni, eða réttara sagt pokunum, allir rækilega bundnir með þrjú fárreið tröll (og sum áttu þeim bruna og barsmíðar að gjalda) standandi yfir sér og voru þau nú aðeins farin að deila um það hvort fremur ætti að steikja þá yfir hægum eldi, höggva þá í spað og sjóða þá eða einfaldlega að hlamma sér niður á þá hvern á fætur öðrum og kremja þá í kássu. Á meðan sat Bilbó uppi í trjáliminu rifinn á fötum og skinni og þorði sig ekki að hræra af ótta við að tröllin myndu eftir honum.

Á þeirri stundu sneri Gandalfur aftur, án þess að nokkur yrði hans var. Þá voru tröllin loksins búin að koma sér saman um að réttast væri að steikja dvergana snöggvast og éta þá seinna — það var upphaflega hugmynd Berta og eftir miklar deilur féllust hinir á það.

„Onei, það er lítið gagn í að steikja þá núna, það tekur alla nóttina,“ sagði rödd. Berti hélt að það væri Vilhjálmur.

„Farðu nú ekki aftur að rífast, Villi,“ sagði hann, „það tekur alla nóttina.“

„Hver er að rífast?“ sagði Villi, sem hélt að Berti ætti röddina.

„Það ert þú,“ sagði Berti.

„Þú lýgur því,“ sagði Villi og þannig byrjaði rifrildið upp á nýtt. Eftir mikið jag urðu þeir þó ásáttir um að höggva þá í smáspað og sjóða úr þeim súpu. Svo að þeir drógu fram stóran svartan pott og drógu fram söxin.

„Nei, það er ómögulegt að sjóða þá! Við höfum ekkert vatn og það er svo langt í brunninn og allt ómögulegt,“ sagði röddin. Berti og Villi héldu að það væri Tumbi Þumbi.

„Haltu þér saman!“ sögðu þeir, „eða við komumst aldrei að verki. Og þú getur sjálfur sótt vatnið, ef þú ert alltaf með kjaftinn upp í raftinn.“

„Haldiði sjálfir kjafti,“ sagði Þumbi sem hélt að þetta væri rödd Vilhjálms. „Hver er nú að rífast nema þú. Það þætti mér gott að vita.“

„Þú ert alger blábjáni,“ sagði Villtruntur.

„Þú ert bjáni sjálfur!“ svaraði Þumbi.

Og þannig magnaðist rifrildið stig af stigi og varð æstara en nokkru sinni, þangað til þeir komu sér saman um að hlamma sér bara á pokana hvern á fætur öðrum og kremja þá fyrst og sjóða þá einhvern tímann seinna.

„Hvern eigum við þá fyrst að setjast á?“ sagði röddin.

„Réttast væri að setjast fyrst á þann síðasta,“ sagði Berti, en Þorinn hafði einmitt sviðið hann á auganu. Hann hélt að Þumbi hefði verið að tala.

„Vertu ekki að tala við sjálfan þig!“ sagði Þumbi. „En ef þú vilt setjast á þann síðasta, blessaður gerðu það. En hver þeirra er hann?“

„Það var þessi í gulu sokkunum,“ sagði Berti.

„Vitleysa, það var sá í gráu sokkunum,“ sagði röddin og hermdi eftir Vilhjálmi.

„Nei, það er áreiðanlegt að þeir voru gulir,“ sagði Berti

„Auðvitað voru þeir gulir,“ sagði Vilhjálmur.

„Hvað varstu þá að segja að þeir væru gráir?“ spurði Berti.

„Ég gerði það aldrei. Það var Þumbi sem sagði það.“

„Ég sagði það aldrei,“ gall við í Þumba. „Það varst þú.“

„Tveir á móti einum, svo þú skalt steinhalda þér saman!“ sagði Berti.

„Hvern heldurðu að þú sért að tala við?“ sagði Villi.

„Nei, hættu nú alveg,“ sögðu Þumbi og Berti í kór. „Það er nú farið að líða á nóttina og dögunin að nálgast. Ættum við ekki að reyna að koma okkur að verki!“

„Dögun taki ykkur alla og standið og verðið að steini!“ sagði rödd sem líktist rómi Vilhjálms. En það var ekki hann. Því að á sama augnabliki gægðist dagsbirtan yfir hæðina og allt komst á ið inn á milli trjágreinanna og Villi var ekki lengur fær um að svara þeim, því að hann varð að steini þar sem sem hann laut niður og Berti og Þumbi urðu líka standandi að steini þegar þeim varð litið á hann. Og þar standa þeir allt til þessa dags, einir og út af fyrir sig, nema hvað stöku fuglar setjast á þá. Því að tröll eru með þeim eðlishætti gerð, eins og þið sjálfsagt vitið, að þau verða að skríða sér í skjól niður í jörðina fyrir sólarupprás, eða þau umbreytast aftur í það grágrýti sem þau eru upphaflega gerð af og geta sig aldrei framar hreyft. Og einmitt þetta varð að koma fram yfir þá Berta, Þumba og Villa.

„Ágætt!“ sagði Gandalfur og steig framundan trénu þar sem hann hafði leynst og hjálpaði Bilbó að klifra niður úr laufþykkninu. Þá rann allt upp fyrir Bilbó. Það var þá rödd vitkans sem hafði espað tröllin upp og fengið þau til að þrefa og þræta, þangað til dögun reis og batt enda á allt saman.



Þeir urðu nú að hafa hraðar hendur á að leysa böndin af pokunum og hleypa dvergunum út. Þeir voru nærri kafnaðir sumir hverjir og varla von að þeir væru í góðu skapi, því það hafði ekki verið nein skemmtun fyrir þá að liggja þarna og hlusta á allar ráðagerðir tröllanna um, hvernig þeir ætluðu að steikja þá eða kremja eða höggva í spað. Þeir höfðu allt á hornum sér og voru ekki ánægðir fyrr en Bilbó hafði tvisvar sinnum endurtekið lýsinguna á því, hvað komið hefði fyrir hann.

„Bjánalegt við þessar aðstæður að fara að æfa sig í vasaþjófnaði, sagði Vambi, „þegar það eina sem okkur vanhagaði um var eldur og eitthvað ætilegt.“

„En þið hefðuð heldur aldrei fengið neinn eld eða æti frá þessum tröllum bardagalaust,“ sagði Gandalfur. „Þið eruð ekki betri en tröllin að fara nú sjálfir að eyða tímanum í rifrildi. Þið ættuð þó að gera ykkur grein fyrir að einhvers staðar hér nálægt hljóta tröllin að eiga helli eða holu til að leita skjóls í fyrir sólinni. Við verðum að leita að henni.“

Þeir fóru líka að skimast um eftir holunni og ekki vantaði að nóg var um troðnar slóðir eftir steinskó tröllanna allsstaðar á milli trjánna. Þeir fylgdu slóðunum eftir upp hæðina, þar til þeir fundu á bak við þétt trjáþykkni miklar steindyr fyrir hellismunna. En þeir fengu með engu móti opnað þær hvort sem þeir beittu öllu afli, eða Gandalfur fór með allskyns töfraþulur.

„Skyldi þessi koma að nokkru gagni?“ sagði Bilbó allt í einu, þegar hinir voru bæði orðnir uppgefnir og fokillir. „Ég fann hann á jörðinni, þar sem þeir veltust um í slagsmálum.“ Hann hélt á loft heljarstórum lykli, þótt sjálfsagt hafi Vilhjálmi trölli aðeins þótt hann lítill og óásjálegur. Líkast til hafði lykillinn dottið úr vasa hans og sem betur fer áður en hann steingerðist.

„Hversvegna í ósköpunum minntistu ekki á það fyrr?“ hrópuðu hinir stórhneykslaðir. En Gandalfur þreif lykilinn, stakk í skráargatið og hann gekk undir eins að. Samstundis sveifluðust dyrnar upp á gátt í einum rykk og þeir paufuðust allir inn. Á gólfinu lágu beinin á víð og dreif og ógeðslegur þefur var í lofti. Þar voru heilmiklar matarbirgðir sem hafði verið hent kæruleysislega á hillur eða á gólfið, innan um hverskyns rusl og ránsfeng, þar voru hrúgurnar af látúnshnöppum og heilu pottarnir fullir af gullpeningum í einu horninu. Þar var líka mikið af fatnaði sem hengdur var upp á veggi — fötin voru alltof lítil fyrir tröll, svo hræddur er ég um að þau hafi verið af fórnarlömbunum — og þar innan um voru allnokkur sverð af ólíkri gerð, lögun og stærð. Tvö þeirra báru þó af, því að þau voru í svo fögrum slíðrum og með gimsteinagreyptum hjöltum.

Gandalfur og Þorinn tóku sitt hvort þeirra sér til handargagns, en Bilbó valdi sér myndarlegan hníf í leðurslíðrum. Hann hefur nú varla verið nema eins og vasahnífur fyrir tröll, en fyrir hobbitann var hann á við fullkomið sverð.

„Virðast vera ágætis sverðsblöð,“ sagði vitkinn. Hann dró þau til hálfs úr slíðrum og horfði forvitinn á þau. „Þessi hafa ekki verið smíðuð af neinu trölli, né neinum mönnum sem uppi eru hér um slóðir nú á dögum. Þegar við gefum okkur tíma til að lesa rúnirnar á þeim, fáum við meira að vita um uppruna þeirra.“

„Komum okkur út úr þessum hræðilega ódaun!“ sagði Fjalar. Svo það varð úr að þeir báru út krúsirnar með peningunum og dálitlu af matvælum sem virtust ósnert og ætileg, þar var líka öltunna sem enn var full. Þegar þeir höfðu borið þetta út, fannst þeim kominn tími til morgunverðar og þar sem þeir voru glorhungraðir, voru þeir ekkert að fúlsa við því sem kom úr búri tröllanna. Það var líka orðið lítið eftir af matnum sem þeir höfðu með sér. En nú höfðu þeir brauð og ost og nóg af öli og svínafleskju til að rista í eldsglóðinni.

Að málsverði loknum fóru þeir að sofa, þeim veitti ekki af eftir rugl og svefnleysi næturinnar og annað aðhöfðust þeir ekki fyrr en leið á daginn. Þá sóttu þeir hestana, fluttu burt á þeim gullkrukkurnar og grófu þær í jörð á laun skammt frá stígnum meðfram ánni og bundu í bann heitstrenginga, ef svo skyldi fara að þeir hefðu einhverntímann tækifæri síðar til að snúa við og ná þeim upp aftur. Að svo búnu stigu þeir aftur á bak og skokkuðu áfram eftir stígnum í austurátt.

„Hvert fórstu, þegar við söknuðum þín, ef mér leyfist að spyrja?“ mælti Þorinn við Gandalf, er þeir riðu áfram.

„Til að horfa fram um veg,“ svaraði hann.

„Og hvað fékk þig til að snúa við á síðustu stundu?“

„Til að horfa um öxl,“ svaraði hann.

„Nú, einmitt það!“ sagði Þorinn. „En gætirðu ekki talað svolítið skýrar?“

„Fyrst fór ég til að kanna hvað væri á veginum framundan. Ég veit að hann er að verða hættulegur og erfiður. Líka var ég áhyggjufullur yfir því að matarbirgðir okkar færu óðum þverrandi. En ég hafði ekki farið langt, þegar ég hitti nokkra vini mína frá Rofadal.“

„Hvar er þessi Rofadalur?“ spurði Bilbó.

„Vertu ekki alltaf að taka fram í fyrir mér!“ sagði Gandalfur. „Við eigum aðeins nokkurra daga ferð eftir þangað, ef heppnin er með okkur og þá kynnistu því öllu. En eins og ég var að segja, hitti ég tvo af mönnum Elronds. Þeir voru á hraðri ferð af ótta við tröllin. Þeir sögðu mér einmitt að þrjú tröll hefðu nýlega komið niður úr fjöllunum og sest að í skóginum rétt utan við veginn. Þau höfðu vakið slíka ógn að allir höfðu flúið burt úr héraðinu. Auk þess var sagt að þeir hefðu legið í launsátri fyrir ferðamönnum á veginum.

„Mér brá heldur en ekki í brún og óttaðist að þið mynduð þarfnast mín. Þegar ég leit til baka sá ég bjarma af báli í fjarska og stefndi þangað tafarlaust. Nú vitið þið þetta. En gerið það nú fyrir mig að sýna aðgát næst, eða við komumst aldrei á leiðarenda.“

„Þakka þér fyrir!“ sagði Þorinn.

Загрузка...