XVI. KAFLI Þjófur á nóttu

Dagarnir liÐu hægt og í leiðindum. Margir dverganna vörðu tíma sínum í að umstafla og flokka fjársjóðina og nú ræddi Þorinn við þá um Erkistein Þráins og bað þá umfram allt að svipast um eftir honum í hverju horni.

„Því að Erkisteinn föður míns,“ sagði hann, „er dýrmætari í sjálfu sér en nokkuð gullfljót, og fyrir mig er hann algjörlega ómetanlegur. Þennan eina dýrgrip úr öllum fjársjóðnum eigna ég sjálfum mér, og ég skyldi hefna mín grimmilega á hverjum þeim sem fyndi hann og leyndi honum fyrir mér.“

Bilbó heyrði þessi ummæli hans og brá mjög í brún. Hvað skyldi gerast, ef steinninn fyndist — vafinn inn í vöndul með alls kyns dóti og smáhlutum sem hann notaði gjarnan sem kodda undir höfuðið? Samt gaf hann það ekki upp, því að eftir því sem leiði daganna þyngdist, fór svolítil hugmynd að mótast í huga hans.

Þannig stóðu málin um stund, þangað til hrafnarnir báru fréttir af því að Dáinn með meira en fimm hundraða liði dverga sem farið hefði hraðfari frá Járnhólum, nálgaðist úr landnorðri og væri nú aðeins tveggja daga hergang frá Dal.

„En þeir komast aldrei óséðir að Fjallinu,“ sagði Hróki, „og þá óttast ég mest að ljósti saman í orustu niðri í dalnum. Það þykir mér ekki vel ráðið. Þótt þeir séu harðskeyttir, er ólíklegt að þeir geti yfirbugað umsátursherina, og jafnvel þó þeir gerðu það, hver er þá ávinningurinn? Með vetrinum mun brátt fenna í spor þeirra. Á hverju ætlið þið svo að lifa án vináttu og góðvildar nágrannanna? Þá gæti fjársjóðurinn orðið banabiti ykkar og þyrfti engan dreka til!“

En Þorinn var óhagganlegur. „Vetrarharðindi munu ekki síður bitna á mönnum og álfum,“ sagði hann, „og víst verður það þá engin sæla fyrir þá að hafast við úti á víðavangi. Þegar vinir mínir koma aftan að þeim og vetur er að skella á, verða þeir eftirgefanlegri í samningum.“

Kvöldið eftir þetta gerði Bilbó upp hug sinn. Himinninn var dimmur og ekkert tungl á lofti. Þegar komið var svartamyrkur læddist hann inn í skot á litlum klefa rétt innan við hliðið. Þar tók hann upp úr pússi sínu svolítið reipi ásamt Erkisteininum sem hann vafði inn í klút og setti í hnýti. Svo klifraði hann upp á varnarvegginn. Þar stóð Vambi einn síns liðs, því að nú var hans vakt og dvergarnir létu aðeins einn vera á verði í einu.

„Það er hræðilega kalt!“ sagði Vambi. „Ég vildi óska að ég gæti kynt bál hérna uppi eins og þeir í herbúðunum fyrir neðan.“

„En það er svo ágætlega hlýtt hér fyrir innan,“ sagði Bilbó.

„Sjálfsagt er það. En ég stend hér bundinn í báða skó á verðinum til miðnættis,“ stundi feiti dvergurinn. „Æ, þetta er ferlega leiðinlegt allt saman. Ekki svo að ég myndi dirfast að mæla í gegn Þorni, megi skegg hans vaxa og dafna. En hann hefur nú alltaf verið stífur á meiningunni.“

„Ekki þó eins stífur og fæturnir á mér,“ sagði Bilbó. „Ég er orðinn dauðuppgefinn á öllum þessum steinstigum og steingöngum. Ég vildi gefa mikið fyrir að mega aftur finna gras undir fótum.“

„Ég vildi gefa mikið fyrir að finna rammbeiskan drykk í kverkum og fyrir mjúkt rúm eftir góðan kvöldverð!“

„Það get ég víst ekki veitt þér meðan umsátrið stendur. En nú er orðið svo langt síðan ég hef verið á verði, á ég ekki að taka vaktina fyrir þig, ef þú vilt? Ég er ekki vitund syfjaður í kvöld.“

„Þú ert góður vinur í raun, herra Baggi, og ég vil glaður þiggja boð þitt. Ef eitthvað skyldi á bjáta, vildirðu þá vera svo góður að vekja mig fyrst! Ég ætla að leggja mig í innri klefanum til vinstri, hér rétt fyrir innan.“

„Farðu bara!“ sagði Bilbó. „ég skal vekja þig um miðnætti og þú getur þá vakið þann næsta á vaktinni.“

Strax og Vambi var farinn, setti Bilbó upp hringinn, festi reipið, lét sig renna út af veggnum og var horfinn. Hann hafði um fimm stundir til stefnu. Hann var viss um að Vambi myndi allan tímann sofa værum svefni (hann gat sofið hvenær sem var og eftir ævintýrið í skóginum sóttist hann alltaf eftir að komast aftur inn í draumana). Allir hinir voru önnum kafnir með Þorni. Það var afar ólíklegt að nokkur þeirra, ekki einu sinni Fjalar og Kjalar, kæmu út fyrr en að þeirra vakt kæmi.

Það var niðdimmt og þó hann hefði farið þarna um áður, var hann ókunnugur neðri hluta árinnar eftir að stígurinn beygði út af nýja veginum. Loks kom hann að bugðunni þar sem hann varð að vaða yfir ána, ef hann átti að komast í herbúðirnar. Farvegurinn var þar að vísu grunnur en mjög breiður og ekki auðvelt fyrir lágvaxinn hobbita að vaða strauminn. Hann var þó kominn langleiðina yfir þegar hann missti fótanna á ávölum steini og féll með gusugangi í kalt vatnið. Varla hafði hann skreiðst upp á bakkann skjálfandi og spýtandi út úr sér vatninu, þegar nokkrir álfar birtust út úr myrkrinu með logandi luktum og leituðu að orsökum þessara hljóða.

„Þetta var þó enginn fiskur,“ sagði annar. „Kannski er njósnari að læðast hér um. Byrgið ljósin! Þau myndu gagnast honum meira en okkur, ef það væri nú þessi litli skrýtni sem sagður er vera þjónn þeirra.“

„Þjónn, einmitt það!“ snörlaði í Bilbó og í miðju snörlinu hnerraði hann hátt og álfarnir voru fljótir að ganga á hljóðið.

„Kveikið ljósin aftur!“ hrópaði Bilbó. „Ég er hérna, ef þið viljið ná mér!“ sagði hann um leið og hann tók hringinn af sér og lét sem hann kæmi í ljós undan kletti.

Þeir voru fljótir að handsama hann, þótt þeir væru furðu lostnir. „Hver ertu? Ertu kannski þessi dvergahobbiti? Hvað viltu? Hvernig komstu svona langt framhjá vörðunum?“ Þannig létu þeir spurningar dynja á honum.

„Ég er Bilbó Baggi,“ svaraði hann, „félagi Þorins ef þið viljið fá að vita það. Ég þekki konung ykkar vel í sjón, þó að hann hafi víst aldrei séð mig. En Bárður ætti að muna eftir mér, og hann vil ég sérstaklega hitta.“

„Einmitt það!“ sögðu þeir, „og hvaða erindi áttu?“

„Hvert sem það er, þá er það mitt erindi, mínir kæru álfar. En ef þið viljið nokkurn tímann fá að snúa aftur heim í ykkar eigin skóg, burt úr þessum kalda eymdarinnar stað,“ svaraði hann hríðskjálfandi, „væri ykkur nær að fara strax með mig og lofa mér að þerra mig við eldinn — og síðan að tala við foringja ykkar eins fljótt og auðið verður. Ég hef aðeins einn eða tvo tíma til stefnu.“

Og þannig atvikaðist það að um tveimur klukkustundum eftir að Bilbó lét sig síga niður af múrnum sat hann við hlýjan eld framan við stórt tjald og þar hjá honum sátu þeir báðir og störðu forvitnilega á hann, álfakóngurinn og Bárður. Og sú sjón sem við þeim blasti, hobbiti í spegilfagurri álfabrynju og þar utan yfir vafinn í gamalt teppi, var óneitanlega nokkuð nýstárleg fyrir þá.

„Að sjálfsögðu gerið þið ykkur grein fyrir því,“ sagði Bilbó og setti upp sitt besta sölumennskubros, „að þetta er allt að lenda í tómu klúðri. Sjálfur er ég orðinn dauðþreyttur á þessu öllu. Ég vildi bara fá að fara heim aftur í vestrið, þar sem fólk er miklu tillitssamara. En ég á töluverðra hagsmuna að gæta, — nánar til tekið ber mér fjórtándi hlutinn af öllu, samkvæmt bréfi sem ég held að mér hafi enn tekist að varðveita.“ Hann dró upp úr vasanum á gamla kuflinum (sem hann var enn í utan yfir brynjunni), velktan og krumpaðan miða, með bréfi Þorins sem hann hafði á sínum tíma lagt undir klukkuna á arinhillunni í maí síðastliðnum!

„Ójá, þar segir hluta í ágóða eins og þið sjáið,“ hélt hann áfram. „Ég geri mér grein fyrir því. En sjálfur er ég reiðubúinn að skoða allar ykkar kröfur vandlega og draga fyrst frá það sem ykkur ber, áður en ég set fram mínar kröfur. En á hinn bóginn þekkið þið Þorin Eikinskjalda ekki eins vel og ég hef nú kynnst honum. Og ég fullvissa ykkur um það að hann er tilbúinn að sitja á gullhrúgunni og svelta, svo lengi sem þið sitjið hér.“

„Jæja, geri hann það þá og veri!“ sagði Bárður. „Það er bara rétt á slíkan þverhaus.“

„Vissulega,“ sagði Bilbó. „Og ég skil vel ykkar sjónarmið. En nú sest vetur óðfluga að. Áður en langt um líður fer að snjóa og hvaðeina, og það verður erfitt að flytja vistir — jafnvel fyrir álfa held ég. En þið lendið í fleiri erfiðleikum. Hafiði ekkert heyrt um Dáin og dvergana í Járnhólum?“

„Jú, fyrir langalöngu, en hvað koma þeir þessu máli við?“ spurði kóngurinn.

„Datt mér ekki í hug. Ég veit sem sagt nokkuð sem þið hafið ekki hugmynd um. Dáinn þessi, skal ég segja ykkur, er nú aðeins í tveggja dagleiða fjarlægð og honum fylgja að minnsta kosti fimm hundruð harðskeyttir dvergar — margir þeirra með langa reynslu úr styrjöldunum við dríslana, sem þið hafið vafalaust heyrt getið um. Þegar þeir koma hingað, geta af því hlotist stórvægileg vandræði.“

„Hví ertu að segja okkur þetta? Ertu að svíkja vini þína eða ertu að ógna okkur?“ spurði Bárður illúðlega.

„Góði Bárður minn!“ skrækti Bilbó. „Vertu ekki svona bráður á þér. Ég hef aldrei hitt tortryggnara fólk! — Ég er einfaldlega að reyna að forða öllum deiluaðilum frá vandræðum. Og til þess ætla ég nú að gera ykkur tilboð!“

„Lát heyra!“ sögðu þeir.

„Já, sjáið þá þetta!“ sagði hann. „Hér er það!“ og hann tók upp Erkisteininn og svipti utan af honum umbúðunum.

Álfakonungurinn sjálfur sem þó var vanur ýmsum undraverðum og fögrum hlutum, reis upp furðu lostinn. Og jafnvel Bárður starði þögull sem heillaður á það. Þetta var eins og hnöttur fylltur tunglsljósi hefði verið hengdur upp fyrir framan þá í þéttriðnu neti frostkaldra stjarna.

„Þetta er Erkisteinn Þráins,“ sagði Bilbó, „sjálft Fjallshjartað, en um leið er það hjarta Þorins. Hann metur það meira en nokkuð rennandi gullfljót. Ég fæ ykkur það í hendur. Það ætti að koma ykkur að haldi í samningaumleitunum.“ Síðan afhenti Bilbó, — ekki laus við skjálfta, ekki laus við eftirsjá — Bárði þennan dýrðlega stein — sem áður en hann vissi hélt á honum í hendinni, líkt og lamaður væri.

„En hvaða rétt hefur þú til að gefa hann?“ spurði Bárður loksins með herkjum.

„Ó, það er nú það!“ sagði hobbitinn og varð dálítið vandræðalegur. „Það er kannski ekki alveg rétt, en jæja, ég er reiðubúinn að láta hann ganga upp í allar kröfur mínar, skiljið þið ekki hvað ég á við? Ég kann að vera innbrjótur — eða svo segja þeir. Sjálfum finnst mér ég aldrei hafa verið það — en sé ég innbrjótur, þá er ég að minnsta kosti sæmilega heiðarlegur innbrjótur, eða það vona ég að mestu leyti. Svo mikið er víst að ég ætla nú ekki að laumast á brott, heldur snúa aftur inn í hellinn og dvergarnir geta þá gert við mig, hvað sem þeim sýnist. Ég vona að hann komi ykkur að gagni.“

Álfakonungurinn horfði á Bilbó í nýrri undrun og aðdáun. „Bilbó Baggi!“ sagði hann. „Þú ert þess verðari að klæðast brynju álfaprins, en margir sem hafa tekið sig betur út í henni. En skyldi Þorinn Eikinskjaldi líta svo á? Ég þekki dverga almennt líklega betur en þú. Ég vildi eindregið ráða þér til að verða eftir með okkur og hér skaltu enda verða heiðraður og þrefaldlega velkominn.“

„Það veit ég vel en það er sama og þegið,“ svaraði Bilbó og hneigði sig. „En ég get ekki fengið mig til að yfirgefa vini mína þannig eftir allt sem við höfum gengið í gegnum saman. Og ég lofaði því líka að vekja Vamba gamla um miðnættið! Ég verð að fara til baka og það hið bráðasta.“

Hvað sem þeir sögðu, fékk ekkert stöðvað hann, svo þeir skipuðu honum samfylgd og þegar hann lagði af stað risu báðir, konungurinn og Bárður, úr sætum og kvöddu hann með virktum. Þegar hann átti leið um herbúðirnar reis gamall maður vafinn dökkum kufli upp frá einni tjaldskörinni þar sem hann hafði setið og gekk til þeirra.

„Vel af sér vikið, herra Baggi!“ sagði hann og klappaði Bilbó á bakið. „Alltaf stendurðu þig betur en búist er við!“ Þetta var þá enginn annar en Gandalfur.

Í fyrsta skipti í marga daga, lyftist heldur en ekki brúnin á Bilbó. En það gafst enginn tími fyrir allar þær spurnir sem hann langaði til að spyrja.

„Allt hefur sinn tíma!“ sagði Gandalfur. „Nú fer að nálgast lokin, ef mér skjátlast ekki. Þú átt óskemmtilega reynslu fyrir höndum, en hertu þig bara upp. Ef til vill gengur þetta allt upp hjá þér. Nú eru ný tíðindi í aðsigi, sem ekki einu sinni hrafnana órar fyrir. Góða nótt!“

Undrandi en glaður hraðaði Bilbó sér áfram. Honum var fylgt að öruggu vaði og leiðbeint þurrum fótum yfir, svo kvaddi hann álfana og hélt varlega áfram upp að hliðinu. Mikil þreyta seig yfir hann, en hann kom tímanlega vel fyrir miðnætti, handstyrkti sig upp reipið aftur — það var þar enn á sínum stað, þar sem hann skildi við það. Svo leysti hann það, stakk því á sig, settist niður á múrinn og beið áhyggjufullur þess sem verða vildi.

Um miðnætti fór hann og vakti Vamba, og hringaði sig sjálfur upp í sínu horni og vildi ekki hlusta á þakklæti gamla dvergsins (sem honum fannst hann heldur varla verðskulda). Brátt var hann steinsofnaður og laus við allar áhyggjur fram á morgun. Satt að segja var hann þá að dreyma um egg og fleskjur.

Загрузка...