XIII. KAFLI Enginn heima

Á meðan þessu fór fram sátu dvergarnir eftir í myrkrinu steinhljóðir. Þeir höfðu litla matarlyst og töluðu enn færra. Þeir vissu ekkert hvað tímanum leið og þorðu varla að hreyfa sig. Þeim fannst jafnvel hvíslið af vörum sér bergmála og glymja í göngunum. Ef þeir skyldu festa svefn vöknuðu þeir aftur upp í sama myrkrinu og þögninni. Að lokum, eftir margra daga bið að því er þeim fannst, þegar þeir voru að kafna og lamast af loftleysi stóðust þeir ekki lengur mátið. Þeir hefðu jafnvel fagnað því að heyra þó einhver hljóð að neðan til vitnis um að drekinn væri kominn aftur inn í sitt bæli. Það var í þessari þögn sem þeir nú óttuðust mest slungin svikabrögð hans, en þeir gátu ekki setið hér til eilífðar.

Þorinn tók til máls: Látum reyna á dyrnar!“ sagði hann, „ég þarf hið bráðasta að finna fyrir vindinum í andliti mér eða deyja ellegar. Ég held ég vildi heldur láta Smeygin kremja mig til dauðs undir berum himni en að kafna hér!“ Svo nokkrir dverganna risu á fætur og þreifuðu sig til baka þangað sem dyrnar höfðu verið. En þeir komust brátt að því að efsti hluti ganganna hafði verið mölrifinn niður og leiðin lokuð af brotagrýti. Hvorki myndi nú lykillinn né aðrir þeir töfrar sem dyrnar höfðu áður hlýtt, nokkru sinni megna að opna þær dyr aftur.

„Þar með erum við gengnir í gildru!“ stundu þeir. „Þetta eru endalokin. Við deyjum hér.“

En eins og áður þegar dvergarnir voru sem kvaldastir, fann Bilbó til einkennilegs léttis fyrir brjósti, eins og þungri byrði hefði verið létt undan faldi hans.

„Svona nú, svona nú!“ sagði hann. „Hvar sem líf er finnst von,“ eins og faðir minn var vanur að segja og líka „Allt er þá þrennt er.“ Ég er að hugsa um að fara niður um göngin enn einu sinni. Ég fór það áður tvisvar, þegar ég vissi að drekinn var niðri, hví þá ekki að hætta á það nú í þriðja sinn, þegar ég er ekki einu sinni viss um að hann sé á staðnum. Þetta er nú einu sinni orðin eina leiðin til að komast út. Ég held líka að í þetta skipti ættuð þið allir að fylgja mér.“

Þeir féllust á það í ráðaleysi sínu og Þorinn steig fyrstur fram við hlið Bilbós.

„En farið nú varlega!“ hvíslaði hobbitinn, „og eins hljóðlega og þið framast megið! Það gæti verið að enginn Smeyginn lægi niðri, en á hinn bóginn gæti hann líka legið þar í leyni. En við skulum alls ekki taka neina óþarfa áhættu!“

Neðar og neðar þokuðust þeir. Dvergarnir jöfnuðust auðvitað ekki á við hobbitann í hljóðlæti, þeir voru símásandi og blásandi og alltaf að rekast á og bergmálið virtist magna hættulega öll þeirra búkhljóð. En þó Bilbó væri alltaf öðru hvoru að nema staðar og hlusta, heyrðist ekki bofs að neðan. Þegar nálgaðist botninn setti Bilbó upp hringinn og fór á undan. En hann hafði eiginlega enga þörf fyrir hringinn: niðri var algjört myrkur og þeir því allir ósýnilegir, hvort sem þeir höfðu hring eða ekki. Raunar var myrkrið svo algjört að hobbitinn kom óvænt fram í opið, fálmaði með hendinni út í tómið, valt fram yfir sig og á hausinn niður í salinn!

Þar lá hann á grúfu og þorði sig ekki að hræra og varla að anda. En ekkert bærði þar á sér. Og þar var ekki neina ljósglætu að sjá — jú, nema þegar hann reisti upp höfuðið, þá sá hann föla skímu fyrir ofan sig en langt úti í myrkrinu. Svo mikið var víst að það var ekki glóð úr drekaeldi, þó ekki vantaði ormastybbuna allt í kring og brennibragðið af loftgufum á tungu.

Loks þoldi herra Baggi ekki lengur við. „Fjandans maðkurinn þinn, Smeyginn!“ skrækti hann upphátt. „Hættu þessum feluleik. Láttu mig heldur fá ljós og ljúktu því af að éta mig ef þú getur náð mér!“

Dauft bergmál barst um ósýnilegan salinn, en hann fékk ekkert svar.

Bilbó reis á fætur, en nú hafði hann misst allar áttir og vissi ekki hvert hann ætti að snúa sér.

„Nú er ég alveg hættur að botna í því hvað Smeyginn er að leika sér með mig,“ sagði hann. „Það er bara enginn heima, að ég held, í dag (eða í kvöld, eða hvaða tími sólarhringsins sem er). Ef Óinn og Glóinn hefðu nú tinnuboxið með sér, gætu þeir kannski kveikt ljós og við fengið tækifæri til að litast um, áður en allt fer aftur til fjandans.“

„Ljós!“ hrópaði hann. „Getur ekki einhver kveikt ljós?“

Dvergunum hafði að sjálfsögðu orðið mikið um, þegar Bilbó féll fram yfir sig niður þrepin og lenti með rassaköstum á salargólfinu. Þeir sátu því í hnipri ráðalausir þar sem hann hafði skilið við þá í gangaopinu.

„Siss, suss!“ dussuðu þeir á hann þegar þeir heyrðu köllin í honum, og þó að það hjálpaði honum til að gera sér grein fyrir í hvaða átt þeir væru, leið enn langur tími áður en hann fékk nokkuð annað út úr þeim. En þegar Bilbó á endanum fór að láta eins og galinn og öskra og stappa í gólfið og heimta „ljós!“ á skrækustu tónunum, lét Þorinn undan og sendi þá Óin og Glóin af stað aftur efst upp í göngin til að leita í farangrinum.

Eftir nokkurn tíma sáust þeir snúa aftur með blaktandi ljós. Óinn var með svolítið furublys logandi í hendi, en Glóinn með knippi af blysvafningum undir hendinni án þess að kveikja á þeim. Bilbó skundaði hratt til móts við þá að gangaopinu og tók við blysinu. En það var ekki hægt að aka dvergunum til að kveikja á hinum vafningunum, né fá þá til að koma til hans niður á gólfið. Þorinn útskýrði það hógværlega og afsakandi, með því að herra Baggi væri ennþá hinn opinberi sérfræðilegi innbrjótur þeirra og snuðrari. Ef hann vildi hætta á að kveikja ljós, þá væri það hans mál. Þeir ætluðu að bíða í göngunum eftir að fá skýrslu frá honum. Svo þeir sátu áfram í sínum sessi nálægt útganginum og fylgdust með.

Nú sáu þeir litla skuggamynd hobbitans halda ljósinu á lofti og leggja af stað út á gólfið. Meðan hann var næst þeim sáu þeir öðru hvoru glampa eða glitra á eitthvað þegar hann rak tærnar í gullmuni. En það dró úr ljósstyrknum eftir því sem hann færðist fjær í víðáttumiklum salnum. Svo sýndist þeim að hann lyftist, færðist upp á við í rykkjum og dansaði eða sveiflaðist í loftinu. Bilbó var þá að klifra upp á hinn volduga fjársjóðshaug. Brátt komst hann upp á toppinn en hélt áfram að færa sig til og frá. Svo sáu þeir hann allt í einu nema staðar og lúta niður sem snöggvast en vissu ekki hvers vegna.

Það var Erkisteinninn, Fjallshjartað. Eða Bilbó réði þannig í það eftir lýsingu Þorins, enda var það augljóst að ekki gátu verið tveir þvílíkir gimsteinar, jafnvel ekki í svo stórkostlegum fjársjóði, jafnvel hvergi í heiminum. Þegar hann var að klöngrast um uppi á haugnum hafði sama hvíta blikið og hann fyrst sá, farið að lýsa fyrir framan hann og líkt og dregið fætur hans að sér. Þegar nær dró birtist svolítil kúla með daufum innsæjum bjarma. Og nú þegar hann kom alveg að henni hverfðist hún í neistum síflikrandi lita á yfirborðinu, sem endurspegluðust og greindust í sundur við flöktandi ljósið frá blysi hans. Og þegar hann loks laut niður, stóð hann á öndinni. Þessi voldugi gimsteinn skein nú fyrir fótum hans af sínu innra ljósi, og þannig hafði hann verið skorinn og slípaður af hinum miklu meisturum dverganna, sem grófu hann út úr hjarta Fjallsins endur fyrir löngu, að hann drakk einnig í sig allt það ljós sem féll utan á hann og ummyndaði það í tugþúsund neista hvítrar ljósadýrðar saman við dreift sindur regnbogans.

Skyndilega færðist armur Bilbós fram líkt og togaður af töfrunum. Smágerð hönd hans gat þó ekki gripið utan um steininn, því að hann var óvanalega stór og þungur. En hann lyfti honum upp, lokaði augunum og stakk honum í dýpsta vasa sinn.

„Nú er ég þó sannkallaður þjófur!“ hugsaði hann með sér. „En samt verð ég auðvitað að skýra dvergunum frá því — einhvern tímann. Þeir sögðu líka að ég mætti sjálfur stinga út og velja minn hluta!“ En samt hafði hann óþægilega á tilfinningunni að útstunga og val gæti líklega ekki gilt um þennan dýrðlega gimstein og af því kynnu að hljótast vandræði.

Áfram hélt hann. Og nú fór hann hinum megin niður dýrgripahauginn og neistinn frá blysi hans hvarf úr augsýn dverganna. En aftur kom Bilbó í ljós, langt fyrir handan á kreiki á salargólfinu.

Þannig hélt hann áfram þar til hann kom að stóru dyrunum á andspænni hlið. Þegar hann opnaði þær kom súgur á móti honum og hressti hann við en munaði minnstu að hann slökkti ljósið. Hann gægðist varlega út um dyrnar og sá glytta í mikla ganga og dimma og víða stigafætur sem lágu upp í hálfrökkur. Enn var ekki hægt að finna nein ummerki né hljóð frá Smeygni. Bilbó var um það bil að snúa við og fara aftur inn í salinn þegar eitthvert kolsvart flygsi steypti sér yfir hann og straukst við vangann. Hann skrækti og ætlaði að víkja sér undan, hnaut aftur fyrir sig og féll. Hann missti blysið á hausinn niður á gólfið og það slokknaði á því!

„Það hefur bara verið leðurblaka, býst ég við og vona,“ sagði hann eymdarlega. „En hvað á ég nú að gera? Hvar eru nú áttirnar Austur, Suður, Norður og Vestur?“

„Þorinn! Balinn! Óinn! Glóinn! Fjalar! Kjalar,“ hrópaði hann eins hátt og hann gat — en það hljómaði þó ósköp mjóróma í allri þessari kolsvörtu víðáttu. „Ljósið slokknaði! Getur ekki einhver ykkar komið að hjálpa mér.“ Sem snöggvast hafði hann misst allan móð.

Dvergarnir heyrðu dauf hróp hans, þó þeir greindu engin orðaskil nema „Hjálp!“

„Hvað í ósköpunum á jörð og undir skyldi hafa komið fyrir?“ sagði Þorinn. „Það hefur þó víst ekki verið drekinn, úr því að herra Baggi getur haldið áfram að æpa.“

Enn vildu þeir bíða af sér allan grun í nokkur andartök, en heyrðu engin drekahljóð, nei, raunar engin hljóð nema fjarlæg vein Bilbós. „Komið hingað einn eða tveir með eitt eða tvö ljós!“ Þá tók Þorinn af skarið. „Ætli við megum ekki til með að fara og hjálpa innbrjótnum okkar!“

„Þá er komið að okkur að hjálpa,“ sagði Balinn, „og ég er líka reiðubúinn að fórna mér. Enda held ég að það sé óhætt nú sem stendur.“

Glóinn kveikti þá á fleiri blysum og svo laumuðust þeir allir af stað hver á eftir öðrum, skutust meðfram veggnum eins hratt og þeir gátu. Það leið heldur ekki á löngu áður en þeir mættu Bilbó sjálfum sem kom til móts við þá. Hann hafði verið fljótur að ná sér af hræðslunni þegar hann sá ljósin nálgast og koma til sín.

„Þetta var ekki nema leðurblaka sem rakst á mig, svo ég missti blysið, ekkert verra en það,“ sagði hann sem svar við spurningum þeirra. Þó þeim létti, voru þeir samt önugir yfir því að hann skyldi vera að hræða þá til einskis, en hitt veit ég ekki hvað þeir hefðu sagt ef hann hefði skýrt þeim þar á staðnum frá Erkisteininum. En við þá lauslegu sýn af fjársjóðnum sem þeir höfðu fengið á leiðinni, lifnaði bál í dvergahjörtum þeirra, og þegar kveikt er upp í hjörtum dverga, jafnvel hinna virðulegustu, með gulli og gimsteinum verða þeir skyndilega djarfir og jafnvel árásargjarnir.

Þar með þurfti ekki lengur að kenna dvergunum tökin. Allir urðu þeir nú logandi af áhuga að skoða allt í salnum meðan tækifæri gæfist og strax reiðubúnir að fallast á þá einföldu skýringu að Smeyginn myndi hafa brugðið sér burt af bæ. Nú vildi hver um annan þveran fá sitt eigið logandi blys og þegar þeir í birtunni frá því horfðu fyrst til annarrar handar og svo til hinnar, hvarf þeim allur ótti, og þeir skelltu jafnvel skollaeyrum við allri varúð. Þeir létu móðan mása og voru með sköll og læti, meðan þeir hófu alls kyns dýrgripi á loft, ýmist af fjárhaugnum eða frá veggjunum, lyftu þeim upp í ljósið, gældu við þá og fóru fingrum um þá.

Fjalar og Kjalar urðu gleiðir af gáska og þegar þeir komu auga á margar gullhörpur sem héngu þar á vegg strengdar silfurstrengjum, tóku þeir þær niður og slógu tóninn. Og þar sem þetta voru töfrahörpur (og drekinn hafði aldrei snert þær, enda ekki sérlega tónelskur) þá voru enn fegurstu samhljómar í þeim. Og salurinn sem svo lengi hafði verið þögull ómaði nú af tónlist. En flestir dverganna voru hagsýnni og hugsuðu meira um þessa heims gæði: Þeir sópuðu saman gimsteinum og fylltu vasana og sáldruðu því sem þeir ekki gátu tekið með, niður á milli fingranna og stundu við. Þorinn var þar fremstur í flokki en hann var alltaf að svipast um eftir einhverju sem hvergi fannst. Það var Erkisteinninn, en hann minntist þó ekki á það við neinn þeirra.

Þá tóku dvergarnir brynjur og stríðstól ofan af veggjunum og vopnuðust þeim. Vissulega sýndist Þorinn konunglegur þegar hann var kominn í hringabrynju úr gylltum hringum, með silfurskefta öxi og mittisgjörð alsetta skarlatssteinum.

„Herra Baggi,“ hrópaði hann. „Hér er fyrsta afborgun af þínum hlut! Farðu úr gömlu úlpunni og klæddu þig í þessa!“

Þar með færði hann Bilbó í litla hringabrynju sem hafði sýnilega verið smíðuð fyrir ungan álfaprins endur fyrir löngu. Hún var úr silfurstáli, sem álfar kalla míþríl og fylgdi henni belti með perlum og kristöllum. Á höfuðið fékk hobbitinn léttan hjálm úr stöppuðu leðri með stálspöngum og kinnbjargir alsettar hvítum gimsteinum.

„Mikið er ég ánægður með þetta,“ hugsaði Bilbó, „en hræddur er ég um að ég líti út eins og bjáni. Hvað þeir myndu nú hlæja að mér heima á Hólnum ef þeir sæju mig! Gaman væri samt að hafa nú spegil við hendina til að sjá hvernig ég lít út.“

Þrátt fyrir það hélt herra Baggi betur höfði en dvergarnir undan álögum fjársjóðsins. Meðan dvergarnir héldu endalaust áfram að skoða og dásama dýrgripina, varð hann fljótt leiður á því. Hann settist á gólfið og fór áhyggjufullur að hyggja að framhaldinu. „Ég vildi gefa marga svona gullbikara,“ hugsaði hann „fyrir hressandi drykk úr trékönnu Bjarnar bónda!“

„Þorinn!“ hrópaði hann loks hátt. „Hvað tekur nú við? Víst erum við nú vel vopnaðir en hvaða gagn er okkur að vopnum gegn Smeygni hinum Ógurlega? Við þurfum ekki að ímynda okkur að við höfum unnið fjársjóðinn aftur. Við erum ekki einu sinni að leita að gulli, heldur einungis að reyna að sleppa út héðan og nú höfum við ögrað gæfunni nógu lengi!“

„Þú hefur lög að mæla!“ svaraði Þorinn og var eins og hann kæmi til sjálfs sín. „Við verðum víst að koma okkur burt! Ég get vísað ykkur leiðina út. Þó þúsund ár liðu, myndi ég aldrei gleyma þessum húsakynnum.“ Svo hrópaði hann til hinna að þeir skyldu safnast saman og með blysum hátt upp lyftum yfir höfði sér, héldu þeir út um galopnar dyrnar en gátu þó ekki stillt sig um að horfa ágirndaraugum um öxl.

Þeir höfðu aftur farið í gömlu kuflana sína utan yfir skínandi brynjurnar og tjásulegar hettur yfir bjarta hjálma, og þannig fylktu þeir liði að baki Þorins og mynduðu beina röð blysa í myrkrinu. Þeir stöðvuðu þó oft, hlustandi í máttvana ógn á einhver hljóð sem boðuðu komu drekans.

Þó allar gömlu skreytingarnar væru illa farnar og allt brotið og bramlað eftir hamaganginn í ófreskjunni, þekkti Þorinn hér hvern gang og beygju. Þeir fetuðu sig upp langa stiga og héldu eftir víðum göngum glymjandi af bergmáli, sneru enn við og upp enn meiri stiga og aftur meiri stiga. Þrepin voru slétt, höggvin beint í bergið, breið og glæsileg. Áfram hærra og hærra héldu dvergarnir en engin lifandi vera varð á vegi þeirra, aðeins hvimandi skuggar sem flýðu ljósin blaktandi í súgnum.

En öll þessi þrep voru ekki ætluð fyrir hobbitafætur og Bilbó þreyttist ákaflega á þeim og var að því kominn að gefast upp, þegar voldug þekja opnaðist skyndilega yfir höfði þeirra, svo há og víð að blysin drógu ekki til að lýsa upp hvelfinguna. En daufa hvíta skímu lagði inn um eitthvert op, langt fyrir ofan og loftið var svo dásamlega ferskt. Og lengra framundan barst dauft ljós inn um stórar dyr sem héngu allar kolbeyglaðar á lömunum og hálfbrenndar.

„Þetta er hinn mikli salur Þrórs,“ sagði Þorinn, „salur mikilla veisluhalda og ráðsfunda. Nú eigum við skammt eftir að Framhliðinu.“

Þeir fóru í gegnum salinn þar sem allt var brotið og bramlað, fúnandi borð og allt í niðurníðslu, stólar og bekkir liggjandi í kös á hvolfi, splundrað og fúið. Þar lágu hauskúpur og beinagrindur á víð og dreif út um allt gólf innan um drykkjarkönnur og skálar og brotin drykkjarhorn og allt á kafi í ryki. Þegar leiðin lá út um fleiri dyr á fjarlægari enda salarins, barst vatnsniður til eyrna þeirra og það tók að birta upp í ljósgrámann.

„Hér eru upptök Hlaupár,“ sagði Þorinn. „Héðan vellur hún fram af miklum krafti og út um Hliðið. Fylgjum henni eftir.“

Þeir sáu gat í berginu og út úr því spýttist ólgandi vatnsflaumur sem rann síðan hratt í iðuköstum eftir mjórri rás sem hafði verið höggvin bein og djúp af fornum meistarahöndum. Eftir bakkanum lá steinlagður vegur svo víður að margföld fylking gæti farið eftir honum. Þeir hlupu á harðastökki og komu fyrir beygju — og sjá! við þeim blasti skínandi dagsljósið. Fyrir framan þá reis voldugur hliðbogi og mátti greina á honum brotnar slitrur af úthöggnum skreytingum, allar kvarnaðar og grómteknar. En sólin sendi föla birtu sína gegnum móðuna inn á milli Fjallrananna og gullgeislar hennar lituðu steinlögnina undir þröskuldinum.

Grúi af leðurblökum sem rokið höfðu upp af svefni fyrir reykjandi blysum þeirra, flygsuðust yfir höfði þeirra. Þegar þeir hlupu áfram runnu þeir til á stéttinni enda var hún bæði öll slípuð og í slími eftir ferðir drekans. Fyrir framan þá rann áin í freyðandi boðaföllum í áttina niður að dalnum. Þeir losuðu sig við föl blysin og stóðu og störðu frá sér numdir. Þeir voru komnir að Framhliðinu og horfðu út á Dal.

„Jahérna!“ sagði Bilbó. „Aldrei bjóst ég nú við að ég myndi horfa framar út um þessar dyr. Og ég vissi ekki heldur að ég yrði svo yfir mig glaður af því að fá að sjá aftur sólina og finna vindinn í andlitinu. En, úff! Hvað gusturinn er kaldur!“

Vissulega! Bitur austanstrekkingur fór um loftið eins og ógn um komandi vetur. Hann sveigði út fyrir Fjallranana inn á dalinn, stynjandi meðal kletta. Eftir að þeir félagar höfðu verið lengi í steikjandi hita drekabælisins, sótti kuldahrollur að þeim í sólinni.

Allt í einu gerði Bilbó sér grein fyrir að hann var ekki aðeins þreyttur heldur líka banhungraður. „Það virðist vera liðið á morguninn,“ sagði hann, „svo að ég býst við að það ætti að vera kominn morgunverðartími — ef nokkur morgunverður er fáanlegur. En ég býst hins vegar ekki við að fordyraþröskuldur Smeygins sé vænlegasti staðurinn til að matast. Eigum við ekki heldur að fara eitthvert þangað sem við getum setið í friði um sinn!“

„Rétt segir þú!“ mælti Balinn. „Og ég held að ég viti af góðum stað sem við ættum að fara á. Það er gamli varðstaðurinn á suðvesturhorni Fjallsins.“

„Hvað skyldi vera langt þangað?“ spurði hobbitinn.

„Fimm klukkustunda gangur, myndi ég ætla. Og nú virðist mér leiðin ekki auðveld yfirferðar. Sjáið veginn þarna niður frá Hliðinu eftir vinstri bakka árinnar, hann virðist allur upprifinn og tættur. Og sko þarna! – þar sem áin vendir sér skyndilega í bugðu austur um Dal fyrir framan rústaborgina — þar var einu sinni brú og frá henni lágu þrep upp háan hægri bakkann og þaðan vegurinn í áttina að Hrafnaborg. Þar er (eða var) stígur frá veginum upp eftir hlíðinni að varðstöðinni. Það verður líka töluvert klifur, þótt gömlu þrepin standi þar enn.“

„Hjálpi mér!“ stundi Hobbitinn. „Endalaus ganga og endalaust klifur án matar í maga! Hvað skyldum við nú vera búnir að sleppa úr mörgum morgunverðum og öðrum máltíðum meðan við húktum inni í þessari andstyggðarinnar tímanlausu holu?“

Í rauninni höfðu tvær nætur og einn dagur liðið á milli (og ekki við algert matarleysi) síðan drekinn maskaði galdradyrnar og lokaði þá inni, en Bilbó hafði misst allt tímaskyn og fyrir honum hefði það jafnt getað verið ein nótt eða heil vika.

„Hættu nú alveg!“ sagði Þorinn hlæjandi — enda var honum farið að líka lífið með fulla vasa af glamrandi dýrum steinum. „Kallaðu nú ekki höllina mína andstyggðarinnar holu! Bíddu bara þangað til ég er búinn að hreinsa hana og gera upp!“

„Það verður nú varla fyrr en að Smeygni dauðum,“ sagði Bilbó daufur í dálkinn. „Og hvar skyldi hann líka vera niður kominn? Ég vildi gefa heilan morgunverð fyrir að fá að vita það. Ég vona bara að hann sé ekki uppi á Fjallstindinum að horfa niður til okkar!“

Sú nýstárlega hugmynd kom miklu róti á dvergana, og þeir féllust strax á hugmyndir Bilbós og Balins um að færa sig um set.

„Við verðum að fara héðan,“ sagði Dóri. „mér finnst eins og hann stari aftan á hnakkann á mér.“

„Þetta er ósköp kaldur og ömurlegur staður,“ sagði Vambi. „Jú, víst er hér nóg af vatni til að drekka en ég sé engan mat. Ósköp hlýtur drekinn oft að hafa verið svangur hérna.“

„Komum okkur! Komum okkur burt!“ hrópuðu allir hinir. „Finnum leiðina hans Balins!“

Engin fær leið virtist undir klettaveggnum á hægri bakkanum, svo þeir afréðu að þramma urðina niður eftir vinstri bakka árinnar og þar var auðnin svo yfirþyrmandi að Þorinn missti alveg góða skapið. Þeir komu að brúnni sem Balinn hafði minnst á, hún var löngu hrunin og steinbrotin úr henni lágu á víð og dreif í grunnri en hávaðasamri ánni. Þeir óðu þó auðveldlega yfir hana, fundu fornu þrepin upp á háan bakkann. Eftir nokkurn spöl viku þeir út af gamla veginum og komu brátt í djúpa laut í skjóli við kletta. Þar hvíldu þeir sig um sinn og snæddu morgunverð eftir því sem aðstæður leyfðu, en mest var það bara kram og vatn. (Þið viljið kannski fá að vita, hvað kram er, en ég get fáu svarað, því að ég þekki ekki uppskriftina. Það er einna líkast kexi, geymist endalaust og talið gefa góða næringu, en ekki er það lystarlegt, lítið gaman að borða það nema til að tyggja. Vatnabúar bökuðu það til að hafa með sér á löngum ferðalögum).



Og enn lögðu þeir af stað. Vegurinn sveigði nú til vesturs og fjarlægðist ána, en þeir nálguðust háöxl suðurrana Fjallsins. Loks komu þeir á krókóttan fjallastíginn upp í brattann og urðu að stauta sig silalega hver á eftir öðrum upp eftir honum, þangað til þeir komu síðla kvölds upp á hrygginn og sáu vetrarsólina síga niður í vestri.

Hér komu þeir að flötum palli opnum til þriggja átta en norðan megin lá hann upp að klettavegg með dyrum á. Frá dyrunum var mikið útsýni til austurs, suður og vesturs.

„Hérna,“ sagði Balinn, „var í gamla daga varðstöð og inn af dyrunum er klefi úthöggvinn í bergið sem var varðliðsstofa. Nokkrar slíkar varðstöðvar voru allt í kringum Fjallið. En það sýndist ekki hafa neitt upp á sig að standa vörð um neitt á velmektardögum okkar, og verðirnir nutu slíkra þæginda að sjálfsagt hafa þeir orðið andvaralausir — annars hefði okkur ef til vill gefist lengri frestur til viðvörunar um komu drekans og allt farið öðru vísi. Samt ættum við að geta legið hér í felum og í öruggu skjóli um sinn og fylgst vel með öllu sem er að gerast.“

„Ég sé nú ekki að neitt gagn sé í því, ef sést hefur til okkar fara hingað,“ sagði Dóri sískimandi í áttina að Fjallstindinum eins og hann byggist við að sjá Smeygin sitjandi þar eins og fugl á kirkjuturni.

„Við verðum nú samt að taka þá áhættu,“ sagði Þorinn. „Við komumst ekki lengra í dag!“

„Heyr, heyr!“ hrópaði Bilbó og henti sér flötum á jörðina.

Í varðliðastofunni hefði verið nóg rúm fyrir hundrað manns, og þar inn af var annar klefi, betur einangraður frá kuldanum úti. Staðurinn var með öllu yfirgefinn. Villt dýr sýndust ekki einu sinni hafa notfært sér hann á yfirráðatíma Smeygins. Þarna lögðu þeir nú frá sér bagga sína og sumir köstuðu sér niður og duttu samstundis út af, en aðrir settust við ytri dyrnar og töluðu um hvað nú væri helst til ráða. En hvernig sem þeir veltu því fyrir sér, komu þeir alltaf aftur að því sama: — Hvar var Smeyginn? Þeir horfðu í vestur og þar var ekkert, í austur og ekkert heldur, og í suður og engin merki sáust um drekann, en hinu tóku þeir eftir að ótrúlega mergð fugla dreif þar að og flykktust saman í stórum hópum. Þeir horfðu á þetta undarlega fyrirbæri, en urðu engu nær, þegar fyrstu svalköldu stjörnurnar birtust á festingunni.

Загрузка...