Þeir fengust ekki til aÐ syngja neitt það sem eftir var dagsins né segja sögur og það þótt veðrið skánaði, og ekki heldur daginn eftir né þar næsta. Þeim var órótt því að þeir fóru að gera sér grein fyrir því hvílíkar hættur vofðu yfir þeim til beggja handa. Þeir gerðu sér náttból undir stjörnum en hestarnir höfðu nóg að bíta, meðan stöðugt minnkaði matarforðinn, þótt þeir hefðu tekið sér vænan skammt af birgðum tröllanna. Einn morguninn fóru þeir á vaði yfir fljót eitt þar sem það var breitt og grunnt en þó niðaði hátt og freyddi við steina. Hinum megin var brattur og háll bakki. Þegar þeir komust upp á hann og teymdu hesta sína, fannst þeim allt í einu að voldug fjöllin hefðu tekið viðbragð og færst snöggt á móti þeim. Nú fannst þeim varla meira en svo sem ein auðveld dagleið að næstu fjallsrótum. Þau sýndust dimm og drungaleg, þó sólblettir lýstu hér og þar í brúnum hlíðunum og hátt yfir fjallsöxlunum glampaði á snævi þakta tinda.
„Er þetta Fjallið eina?“ spurði Bilbó alvarlegri röddu og horfði á þetta fyrirbæri galopnum augum. Hann hafði aldrei litið neitt svo hrikalega stórt sem þetta.
„Fráleitt!“ sagði Balinn. „Þetta er nú ekki nema byrjunin á Þokufjöllum og við verðum einhvern veginn að komast gegnum þau, yfir þau eða undir þau, áður en við komumst á Villulöndin þar fyrir handan. Þó við yfirstígum Þokufjöll, er enn geysi löng leið að Fjallinu eina í austri, þar sem Smeyginn liggur á fjársjóðnum okkar.“
„Ó!“ var það eina sem Bilbó gat stunið upp við þessu og um leið fann hann til meiri þreytu en hann hafði nokkurn tímann áður fundið. Aftur hvarflaði hugur hans til þægilega stólsins við hliðina á logandi arninum í eftirlætissetustofunni í hobbitaholunni og blístursins í katlinum. Og það var heldur ekki í síðasta sinn!
Nú fór Gandalfur fyrir þeim. „Við megum ekki tapa veginum, þá villumst við og er úti um okkur,“ sagði hann. „Við þörfnumst í fyrsta lagi matar og í öðru lagi hvíldar í viðunandi öryggi — þvínæst er líka nauðsynlegt að ráðast til atlögu við Þokufjöll eftir réttum stíg, annars myndum við villast í þeim og verða að snúa við til að byrja upp á nýtt (ef við nokkurn tímann komum aftur).“
Þeir spurðu hann þá, hvert hann væri nú að fara og hann svaraði: „Við erum á leið út úr Óbyggðunum eins og sumir ykkar sjálfsagt vitið. Hulinn framundan bíður okkar hinn fagri Rofadalur, þar sem Elrond býr í sinni Hinstuhöll. Ég sendi boð um komu okkar með þessum vinum mínum sem ég hitti og það er beðið eftir okkur.“
Þetta hljómaði svo sem nógu skemmtilega og uppörvandi, en ekki var þó bitið úr nálinni með það, því að enn voru þeir ekki komnir þangað og var heldur ekki eins auðvelt og ætla mætti að finna Hinstuhöllina vestan Fjallanna. Hér var ekki að sjá nokkurt tré né dal né upphækkun til að sérgreina neitt við landið sem beið þeirra. Framundan virtist ekkert nema einn aflíðandi slakki ofar og ofar að rótum nálægasta fjallsins, víðáttur með lyngi og urðum og hér og þar grasgrænir og mosagrænir blettir og af þeim mátti ráða hvar deiglendi væru undir.
Morgunninn leið og komið var fram á dag. En í allri þessari þöglu auðn sáust engin merki um byggð. Þeir fóru að verða áhyggjufullir því að þeir botnuðu ekkert í því hvar húsið gæti hulist milli þeirra og fjallanna. En þá komu þeir fram á brúnir óvæntra dala, þröngra og með bröttum hlíðum sem opnuðust skyndilega fyrir fótum þeirra, og þeir horfðu undrandi niður fyrir sig og sáu trjágróðurinn og streymandi árnar. Og þeir komu að gjám svo þröngum að þeim virtist næstum hægt að stökkva yfir þær en þær voru hyldjúpar með niðandi fossum. En líka komu þeir að stórum dimmum gljúfrum sem hvorki var hægt að stökkva yfir né klífa niður þverhnýpta klettana. Og þarna voru dý, sum þeirra svo fagurlega skærgræn að unun var á að horfa þakin blómgróðri björtum og hávöxnum, en ef klyfjaður hestur villtist út á þau, kæmist hann aldrei aftur upp úr þeim.
Það kom nú í ljós að landið var miklu víðara frá vaðinu og austur að fjöllunum en þeim hafði áður sýnst. Bilbó var steinhissa á því. Aðeins þessi eini vegur lá um óbyggðirnar og var markaður með hvítum steinum, en erfitt að fylgja þeim því að sumir voru mjög litlir, aðrir huldir mosa og lyngi. Því var víðast ákaflega tafsamt að fylgja veginum, jafnvel þótt Gandalfur færi fyrir þeim og hann virtist þaulkunnugur hér um slóðir.
Hann skimaði höfðinu til og frá og skeggið liðaðist og hristist til í leitinni að stikusteinunum, hinir fylgdu á eftir en þeim fannst þeir ekkert vera farnir að nálgast það sem þeir leituðu að þótt dagur væri að hníga. Komið var langt fram yfir tetímann og eins virtist ætla að fara fyrir kvöldmatartímanum. Fiðrildi flögruðu framhjá og það tók að skyggja, því að tungl var ekki enn komið upp.
Hestur Bilbós var farinn að hnjóta um rótartægjur og steinnibbur. Þeir komu fram á brún brattrar hlíðar svo skyndilega að minnstu munaði, að hestur Gandalfs ylti fram af.
„Loksins erum við komnir!“ hrópaði hann, og hinir allir hópuðust í kringum hann og gægðust fram af brúninni. Þeir sáu dalinn langt fyrir neðan sig. Þeir heyrðu niðinn frá beljandi fljóti í klettóttum farvegi, fundu trjáilm í lofti og sáu ljós í dalnum handan árinnar.
Bilbó gat aldrei síðan gleymt hvernig hestarnir runnu til og skrikuðu í hverju fótmáli um brattan stíginn í stöðugum sneiðingum niður í leyndan Rofadal. Það hlýnaði í lofti eftir því sem neðar dró og furuilmurinn var svæfandi, svo að hann dottaði við og var næstum siginn á slig, eða laut fram yfir sig og rak nefið í makka hestsins. En hinir urðu æ kátari eftir því sem þeir komu neðar og neðar. Brátt urðu beyki og eikur ráðandi í trjágróðrinum og þægileg tilfinning fór um þá í ljósaskiptunum, hálfrökkrinu. Græni liturinn var að hverfa af grasinu inn í myrkrið þegar þeir komu í opið rjóður rétt fyrir ofan árbakkann.
„Hmmm! Hér ilmar eins og frá álfum!“ hugsaði Bilbó og rétt í því varð honum litið upp til stjarnanna. Þær blikuðu á himninum bjartar og bláar. Þá kom á móti þeim söngbylgja líkust hlátri í trjánum.
Velkomnir verið þið
vinir úr ferð.
Komnir frá tröllum,
og trunttrunt í fjöllum,
klárarnir lúnir,
veifa þeir töglum,
hófarnir snúnir,
herða þarf skeifur
með hestskónöglum
Velkomnir verið þið
vinir í hlað.
Gangið í bæinn
Baggi úr Botni,
Balinn og Dvalinn
og dvergaskegg lafa
sem snúninginn hafa
langt niður á tær.
Velkomnir verið þið
vinir að borðum.
Ilmar af brenni
og bökuðu brauði.
Borð er ykkur búið
af spikfeitum sauði
sem á teini er snúið.
Krásir til að seðja
og glasavín að gleðja
Velkomnir verið þið
vinir að gista.
Leggist í lundinn
um lágnættið blíða,
lúann úr beinum
látið þið líða.
Svefn gefur hvíld
í húmi nætur
uns þið farið á fætur.
Þannig var hlegið og sungið í trjánum, um einhvern furðu fagran fáránleika, býst ég við að ykkur finnist það. En það þýddi ekkert um það að tala, þeir færu bara því meira að hlæja ef maður benti þeim á það. Auðvitað voru þetta bara álfar. Brátt fór Bilbó að koma auga á þá, því betur eftir því sem skyggði. Hann dáði álfana þó þeir yrðu sjaldan á vegi hans, en hann var um leið ofurlítið smeykur við þá. Dvergum semur heldur ekki vel við álfa. Jafnvel velmetnum dvergum eins og Þorni finnst allt þeirra athæfi eitthvað kjánalegt (þó það sé í sjálfu sér kjánalegt að ímynda sér það), þeir fara í taugarnar á þeim. Sumir álfar eru líka alltaf að stríða þeim og hlæja að þeim og sérstaklega finnst þeim taðskeggin á þeim hlægileg.
„Hæhæ!“ heyrðist álfarödd segja. „Að hugsa sér! Hobbitinn Bilbó ríðandi á hesti! Hæhæ! Elskan mín, er það ekki dásamlegt!“
„Jú, furðulega frábærlegt!“
Og áfram var haldið inn í annan söng fáránlegan eitthvað í líkingu við þann sem ég skráði hérna í heild að framan. Þar kom þó að lokum að álfur einn, ungur og hávaxinn steig fram úr trjánum og hneigði sig fyrir Gandalfi og Þorni.
„Velkomnir í dalinn!“ sagði hann.
„Ég þakka fyrir!“ sagði Þorinn nokkuð þurr á manninn. En Gandalfur var þegar stiginn af baki. Hann blandaði sér í hóp álfanna og talaði kátlega við þá.
„Þið hafið aðeins vikið út af réttri leið,“ sagði álfurinn, „það er að segja ef þið ætluðuð að fylgja þjóðveginum yfir ána og áfram að höllinni handan árinnar. Við skulum vísa ykkur til vegar, en best væri að þið teymduð hestana yfir brúna.
En vilduð þið nú kannski doka aðeins við og syngja undir með okkur, eða ætlið þið að halda rakleitt áfram? Það er verið að undirbúa kvöldmáltíð handa ykkur hinum megin,“ sagði hann. „Ég finn ilminn af logandi viðarkurlinu í hlóðunum.“
Þótt Bilbó væri dauðþreyttur, hefði hann gjarnan viljað staldra við. Álfasöng vildi maður ekki missa af og allra síst á miðsumri undir blikandi stjörnum, það er að segja, ef manni fellur hann. Bilbó hefði líka viljað skiptast á orðum við þetta fólk sem virtist þekkja nafn hans og vita allt um hann, þó hann hefði aldrei séð það fyrr. Hann hefði viljað spyrja þau álits hvað þeim fyndist um allt þetta ferðalag þeirra og ævintýraleit. Álfar eru margvísir og venjulega ekki í geitarhús að fara að leita eftir fréttum frá þeim, það er eins og þeir viti um allt sem er á seyði meðal fólks í öllum löndum og fljótari að fá vitneskju um það en streymandi vatn.
En dvergarnir höfðu ekki áhuga á neinu öðru en að komast sem allra fyrst í matinn og voru því ófáanlegir til að eyða tímanum hérna. Svo áfram héldu þeir allir og teymdu hesta sína þar til þeir komu á greiðan veg sem lá loks fram á árbakkann. Fljótið streymdi fram óðfluga og með háværum klið eins og fjallaár gera á sumarkvöldi eftir mikla sólbráð á fjöllum. Brúin var örmjó án grindverks, rétt nógu breið til að einn hestur gæti farið um hana og yfir hana urðu þeir að fara hægt og varlega og teyma hver sinn hest yfir. Álfarnir komu á móti þeim með björt ljósker fram á bakkann og sungu gleðisöngva meðan ferðalangarnir voru að mjakast yfir.
„Dýfðu ekki moðskegginu í froðuna, gamli minn!“ hrópuðu þeir til Þorins sem næstum skreið á fjórum fótum yfir brúna. „Það er orðið nógu sítt, þó ekki sé verið að vökva vöxtinn.“
„Varið ykkur bara á því að Bilbó éti ekki allar kökurnar,“ kölluðu þeir næst. „Þessi innbrjótur er orðinn alltof feitur til að komast í gegnum nokkur skráargöt!“
„Suss, suss! Góða fólk! og góða nótt!“ hastaði Gandalfur á þá um leið og hann fór síðastur yfir. „Sumir dalir hafa heyrandi eyru og sumir álfar of lausar tungur. Góða nótt!“
Og þannig komust þeir loksins allir til Hinstu hallarinnar og dyrnar á henni stóðu þeim opnar upp á gátt.
Nú er það svo undarlegt að góðir atburðir og góðir og notalegir dagar eru fljótfrásagðir og óvarið í að heyra af þeim, meðan á hinn bóginn óþægileg, skelfileg og jafnvel hryllileg atvik eru ágætlega frásagnarverð og má oft spinna um þau langa sögu. Þarna dvöldust þeir í góðu yfirlæti að minnsta kosti í hálfan mánuð og vildu helst ekki fara þaðan aftur. Bilbó hefði verið fús til að dveljast þar áfram og áfram — og ekki einu sinni dottið í hug að notfæra sér ósk, þótt hann hefði átt hana, um að hverfa þegar í stað heim í hobbitaholuna sína. Þrátt fyrir það er ósköp fátt að segja af dvöl þeirra í Rofadal.
Húsráðandinn þarna var það sem kallað er álfvinur – og höfðu forfeður hans verið þátttakendur í goðsögnunum miklu frá því áður en Sögur hófust, styrjöldunum milli hinna andstyggilegu drísla og álfanna og fyrstu mannanna á Norðurslóð. Á tímum þessarar frásagnar var enn uppi margt fólk sem gat rakið ættir sínar til álfanna og hetjanna í Norðri og fremstur þeirra var Elrond húsbóndi í Hinstuhöll.
Hann var eins göfugur og bjartur yfirlitum og álfakonungur, voldugur sem herskörungur, spakur sem vitringur, virðulegur sem dvergakonungur og ljúfur eins og sjálft sumarið. Hans er getið í ótal sögnum en hlutur hans í þessu mikla ævintýri Bilbós er ekki stór, og þó mikilvægur, eins og koma mun í ljós, ef við nálgumst nokkurn tímann sögulokin. Allur aðbúnaður í húsi hans var hinn besti, hvort sem við kom mataræði eða svefni, eða vinnuaðstöðu eða sagnamennsku og söngva, eða einfaldlega hvað það var gott að mega sitja þar og hugsa, eða hæfilegt sambland af þessu öllu. Ekkert illt fékk eirt þar í dalnum.
Ég vildi óska að ég gæti sagt þér þó ekki væri nema fáeinar af öllum sögunum eða sungið einn eða tvo af öllum söngvunum sem ómuðu þar í höllinni. Allir sem þar dvöldust og þar með taldir hestarnir, hresstust og endurnýjuðust. Þar voru klæðin bætt, meiðslin grædd, skapið lyftist og vonirnar glæddust. Þar voru malpokarnir fylltir af matvælum og hverskyns birgðum, en klyfjarnar þó hafðar sem léttastar til að bera yfir fjallaskörðin. Áætlanir voru efldar með hollum ráðum og ábendingum. Og svo kom Jónsmessunótt og þeir hugðust halda förinni áfram með upprisusólinni á sjálfum miðsumarsmorgni.
Elrond virtist allt vita í fornum rúnafræðum. Þann daginn skoðaði hann sverðin sem þeir höfðu með sér úr tröllabælinu og mælti: „Víst er þetta engin Tröllasmíði. Gömul eru þau, já afar forn smíði Háálfanna í Vestri, frænda minna. Þau voru görv til forna í Gondólín í Dríslastríðunum miklu. Annaðhvort hljóta þau að hafa komið úr drekasjóði eða dríslaránsfeng, því það voru drekar og dríslar sem eyddu Gondólínsborg fyrir mörgum öldum. Á þessu sverði stendur, skal ég segja þér, Þorinn, að það heiti Orkristir, sem þýðir að það sé til þess ætlað að kljúfa dríslana í herðar niður, á hinni fornu tungu Gondólíns. Það var frægt sverð í þá daga. Og þetta, Gandalfur, er Glamdringur eða Fjandhöggur, sverðið sem sjálfur konungur Gondólíns eitt sinn bar. Varðveitið þau vel!“
„Hvernig skyldu tröllin þá hafa komist yfir þau, það hefði ég gaman af að vita,“ sagði Þorinn og horfði í eggina á sverði sínu af enn meiri áhuga en áður.
„Um það get ég ekkert vitað,“ svaraði Elrond, „en ætla mætti að tröllin ykkar hafi rænt aðra ræningja, eða fundið af tilviljun leifar annars ránsfengs í einhverri holu í fornum fjöllum. Heyrt hef ég því líka fleygt að enn leynist gleymdir fjársjóðir í yfirgefnum hellum Moríanámanna, frá því á dögum stríðsins milli dverga og drísla.“
Þorinn varð hugsi við þessi orð. „Vissulega mun ég varðveita þetta sverð af virðingu,“ sagði hann. „Megi ég brátt kljúfa drísla með því sem óðast aftur í herðar niður.“
„Eigi er ólíklegt að sú ósk þín rætist brátt, þegar þið komið upp í fjöllin!“ mælti Elrond. „En sýnið mér nú landabréfið!“
Hann tók við því og starði lengi á það, svo hristi hann höfuðið dapurlega. Því að þótt honum væri lítt um dverga gefið og fjálgleika þeirra í gull, þá hataði hann þó hálfu meira drekana og miskunnarlausa illsku þeirra. Og hann fylltist sorg í minningunni um eyðingu borgarinnar á Dal með öllum hennar skærgjallandi bjöllum og yfir sviðnum bökkum Hlaupár. Skarður silfurmáni var á lofti. Þá lyfti hann kortinu upp og hvítt tunglsljósið lýsti í gegnum það. „Hvað er nú þetta?“ sagði hann. „Hér er líka mánaletur við hliðina á hinum rúnunum, þeim sem segja: „Fimm fea háar dyrnar og þrír mega ganga hlið við hlið.“
„Hvað er mánaletur?“ spurði hobbitinn og var strax orðinn spenntur. Hann elskaði landabréf, eins og áður var á minnst, og eins þótti honum mikið varið í hverskyns rúnir og aðrar leturgerðir og snjalla handskrift, þó að hans eigin rithönd væri nókkuð grönn, í kóngulóarstíl.
„Mánaletur er í rauninni venjulegar rúnir, en sá er munurinn að það er ósýnilegt,“ sagði Elrond, „þó horft sé beint á það. Það sést aðeins ef tunglið er látið skína gegnum það, en oft þó meira en það, ef ritarinn er fær og beitir kænsku sinni verður það að vera samskonar tungl, af sömu lögun og á sömu árstíð og daginn sem það var ritað. Dvergarnir fundu þessa skrift upp og rituðu hana með silfurpennum, eins og vinir þínir ættu að geta sagt þér. Þetta letur hlýtur þá að hafa verið ritað á miðsumarnótt þegar skarður máni var á himni endur fyrir löngu.“
„Og hvað segir þar?“ spurðu þeir Gandalfur og Þorinn samtímis, hálf vandræðalegir yfir því að Elrond skyldi hafa orðið fyrstur til að uppgötva þetta, þótt enginn möguleiki hefði verið til þess áður og yrði ekki fyrr en einhvern tímann eftir ómunatíð.
„Standið við gráa steinhelluna þegar þrösturinn knýr dyra,“ las Elrond, „og hnígandi sól í hinsta ljósi Durinsdags mun skína á skráargatið.“
„Hvað segirðu, Durinn! Durinn!“ hrópaði Þorinn upp yfir sig. „Hann sem var elstur allra forfeðra elsta kynþáttar Dverganna, Langskeggjanna, og fyrsti forfaðir minn: Ég sem er réttborinn erfingi hans.“
„Veistu þá hvað er Durinsdagur?“ spurði Elrond.
„Hvort ég veit! Það er fyrsti dagur dverganna, okkar Nýársdagur,“ svaraði Þorinn, „og sá dagur er eins og allir dvergar ættu að vita, fyrsti dagur hinsta Hausttungls á mörkum Vetrarnátta. Við köllum það raunar enn Durinsdag þegar síðasta tungl haustsins og sólin eru á lofti á sama tíma. En hræddur er ég um að það komi okkur ekki að miklu liði, því að við erum ekki eins færir að spá í himintunglin og þeir gerðu í gamla daga og ráða í það, hvenær rétti tíminn er.“
„Við eigum nú eftir að sjá það,“ sagði Gandalfur. „Stendur nokkuð meira skrifað þar?“
„Ekkert sem séð verður í þennan mána,“ ansaði Elrond. Hann fékk Þorni aftur kortið og þeir gengu niður að vatninu til að horfa á Álfana stíga dans og hlýða á söng þeirra á Jónsmessunótt.
Aftur dagaði á miðsumarsmorgni, eins björtum og tærum og hugsast gat: — himinninn heiðblár og hvergi sást í skýhnoðra en sólin dansandi á vatninu. Og af stað riðu þeir undir ómandi kveðjusöngvum og árnaðaróskum um fararheill. Í brjóstinu voru þeir reiðubúnir að mæta hverjum þeim ævintýrum sem að höndum mundi bera en auk þess vissu þeir nú glöggt, hvaða veg best væri að taka yfir Þokufjöllin til hinna fjarlægu landa að baki þeim.