XVII. KAFLI Fárviðrið brestur á

Snemma daginn eftir kváðu lúðrar við úr búðunum. Brátt sást til staks hlaupara sem hraðaði sér upp eftir þröngum stígnum. Í mátulegri fjarlægð staðnæmdist hann og bar fram kveðjur og spurðist fyrir um það, hvort Þorinn vildi nú ræða við aðra sendinefnd, þar sem nýrra tíðinda væri að vænta sem gætu breytt málum.

„Það hlýtur að vera út af Dáni!“ sagði Þorinn þegar hann heyrði þetta. „Þeir hafa fengið veður af því að þeir nálgast. Já, grunaði mig ekki að þá myndi koma annað hljóð í strokkinn! — Bjóðið þeim að koma fáum saman og vopnlausum, og ég mun hlýða á boðskap þeirra,“ kallaði hann til sendiboðans.

Um hádegisleytið mátti enn sjá fána Skógarins og Vatnabyggðar borna fram. Um tuttugu manna flokkur nálgaðist. Þar sem mjói stígurinn byrjaði lögðu þeir niður sverð og spjót, og nálguðust Hliðið. Sér til furðu sáu dvergarnir að þar í flokki voru þeir nú báðir Bárður og álfakóngurinn en fyrir þeim gekk gamall maður hulinn kufli og hettu sem bar smákistil úr járnspengdum viði.

„Heill sé þér, Þorinn!“ sagði Bárður. „Ertu enn sama sinnis?“

„Hugur minn sveiflast ekki til og frá þó nokkrar sólir rísi og setjist,“ svaraði Þorinn. „Eða komstu bara til að spyrja mig einskisverðra spurninga? Enn hefur álfaherinn ekki horfið á braut eins og ég krafðist! Fyrr en það gerist, þýðir ekkert að ætla að semja við mig.“

„Er þá ekkert sem þú vildir þiggja af okkur fyrir að afsala þér einhverju af gullinu?“

„Ekkert sem þú eða þínir vinir hafa að bjóða.“

„En hvað segirðu þá um Erkistein Þráins?“ mælti Bárður og samstundis opnaði gamli maðurinn kistilinn og hélt dýrgripnum á loft. Það var eins og ljósið gusaðist upp úr lófa hans, bjart og hvítt í dagsbirtunni.

Þá varð Þorinn svo furðu lostinn og ruglaður að hann kom ekki upp nokkru orði. Enginn mælti neitt langa hríð.

Loks rauf Þorinn þögnina, rödd hans rám af reiði, „Þennan stein átti faðir minn og hann er nú mín eign,“ sagði hann. „Hví ætti ég að kaupa mína eigin eign?“ Svo náði tortryggnin valdi á honum og hann bætti við: „En hvernig hafið þið komist yfir erfðagrip ættar minnar — sé nokkuð vit í að spyrja þjófa slíkrar spurningar?“

„Við erum engir þjófar,“ svaraði Bárður. „Við viljum aðeins fá þér það sem þitt er í stað þess sem er okkar.“

„Hvernig komust þið yfir hann?“ öskraði Þorinn í stigmagnandi vonsku.

„Ég fékk þeim hann!“ skrækti Bilbó og gægðist yfir múrinn dauðans skelkaður.

„Þú! Þú!“ æpti Þorinn, sneri sér að honum og þreif í hann með báðum höndum. „Þú ræfils hobbitinn þinn! Þú, þú, þinn dvergvaxni — innbrjótur!“ hrópaði hann en varð svo orðvant, — hristi bara vesalings Bilbó eins og hann væri einhver tuska.

„Ó, við skegg Durins! Ég vildi óska að Gandalfur væri hér til að standa fyrir máli sínu! Bölvun sé yfir honum fyrir að velja þig! Megi skegg hans visna! Og þér, já, þér skal ég kasta út af klettunum!“ æpti hann og hóf Bilbó á loft í örmum sér.

„Kyrr! Ósk þín er veitt!“ heyrðist rödd segja. Gamli maðurinn með kistilinn varp af sér hettu og kufli. „Hér er Gandalfur! Og það mátti ekki seinna vera. Þó þér líki ekki við Innbrjótinn sem ég valdi þér, máttu ekki skaða hann. Leggðu hann niður og hlustaðu fyrst á, hvað hann hefur að segja.“

„Þið eruð allir í samsæri gegn mér!“ sagði Þorinn en sleppti Bilbó á múrbrúninni. „Aldrei framar skal ég eiga samskipti við neinn vitka eða vini hans. Hvað hefurðu þá að segja, þú afkomandi rotta?“

„Ó, hjálpi mér! Hjálpi mér!“ sagði Bilbó. „Víst er þetta er allt ósköp vandræðalegt. En manstu ekki þegar þú sagðir, að ég mætti sjálfur velja mér og stinga út minn fjórtánda part! Ef til vill tók ég það of bókstaflega — og svo hefur mér líka verið sagt að dvergar séu stundum kurteisari í orði en á borði. En þetta var nú víst einhvern tímann, þrátt fyrir allt, þegar þér fannst ég hafa orðið að einhverju liði. Jæja, og svo er ég afkomandi rotta, einmitt! eru það svo öll launin sem þú og fjölskylda þín lofuðuð mér, Þorinn? Jæja, það má þá fara þannig að ég hafi þar með tekið út allan minn hlut eins og ég óskaði!“

„Víst má það fara þannig,“ sagði Þorinn grimmúðlega. „Og þú skalt líka fara þannig — og við skulum aldrei framar hittast!“ Svo sneri hann sér við og hrópaði yfir múrinn. „Ég hef verið svikinn,“ sagði hann. „Og víst er það rétt til getið að nú á ég engra kosta völ, ég gæti aldrei annað en innleyst Erkisteininn, dýrgrip ættar minnar. Ég vil þá afhenda fjórtánda part fjársjóðsins í silfri og gulli og þar á meðal líka gimsteina og skal á það líta sem greiðslu hins fyrirheitna hlutar svikarans, og með þann hlut skal hann hafa sig á braut, en þið getið skipt honum milli ykkar eins og þið kjósið. Þið fáið honum sjálfsagt einhverja hungurlús, ég efast ekki um það. Takið hann þá ef hann skal lifa, en engin vinátta frá minni hendi skal fylgja honum.“

„Snautaðu þá niður til vina þinna!“ sagði hann við Bilbó, „eða ég kasta þér niður.“

„En hvar er þá gullið og silfrið?“ spurði Bilbó.

„Það mun á eftir fylgja samkvæmt síðari ráðstöfun„“ sagði hann. „Niður með þig!“

„Þangað til höldum við steininum,“ hrópaði Bárður.

„Ekki er hægt að segja, Þorinn, að þú byrjir veglega þinn konungdóm undir Fjalli,“ sagði Gandalfur. „Þó gæti enn skipast veður í lofti.“

„Ætli það ekki!“ sagði Þorinn. En hann átti við það að liðsauki Dáins nálgaðist. Og svo var hann forhertur af tryllingi ágirndarinnar að það sem hann hafði í huga var að endurheimta Erkisteininn með valdi, svo að hann þyrfti ekki að greiða hinn útdeilda hlut.

Því næst var Bilbó sveiflað niður af múrnum og varð hann að hafa sig á braut, slyppur og snauður, án þess að fá nokkuð fyrir sitt framlag að undanskilinni brynjunni sem Þorinn hafði þegar fært hann í. Sumum dverganna fannst þetta smánarlegt og fundu til einlægrar samúðar með honum.

„Veriði sælir!“ hrópaði hann til þeirra. „Ég vona að við megum hittast aftur sem vinir.“

„Snáfaðu burt!“ hrópaði Þorinn. „Þú ert í brynju, handaverki minnar þjóðar og er hún alltof góð fyrir þig. Á hana bíta engar örvar, en ef þú ekki snautar burt hið bráðasta, get ég skotið í fæturna á þér. Svo flýttu þér!“

„Ekkert liggur á!“ sagði Bárður. „Við gefum þér frest til morguns. Um hádegi komum við aftur til að sjá hvort þú hefur reitt fram þann útdeilda skerf af fjársjóðnum sem á að ganga á móti steininum. Sé það gert undanbragðalaust, munum við hverfa á braut og álfaherinn halda aftur inn í skóginn. Á meðan köstum við kveðjum á þig!“

Með það sneru þeir aftur til herbúða sinna. En Þorinn fékk sendiboða hrafnsins Hróka til að fara til móts við Dáin og segja honum hvað í hefði skorist og biðja hann að hraða sér sem mest hann mætti en fara þó varlega.

Sá dagur leið að kvöldi og nóttin með. En daginn eftir snerist vindurinn í vestrið og himinninn varð dimmur og drungalegur. Árla morguns heyrðist hrópað í herbúðunum. Hlauparar komu með þau tíðindi að sést hefði til dvergahers handan austurrana Fjallsins sem nálgaðist óðum á Dal. Dáinn var þar kominn með allt sitt lið. Hann hafði hraðað för og gengið alla nóttina svo að hann kom fyrr en þeir höfðu búist við. Allir voru þeir búnir brynserkjum úr stálhringjum sem náðu niður að hnjám, og fæturnir líka varðir hosum úr afar fíngerðu og teygjanlegu málmneti, en gerð þeirra var leyndarmál brynjugerðarmanna Dáins. Dvergar eru afar sterkir eftir stærð, og í þessu liði voru eintómir afrenndir kappar. Í orustum beittu þeir tvíblaða öxum, en báru einnig breiðar sverðbreddur við hlið sér og höfðu brugðið hringlaga skjöldum yfir öxlina. Skeggjum sínum höfðu þeir tjúgað í tvær fléttur sem þeir festu undir belti sér. Hjálma höfðu þeir af járni og voru járnskæddir til fótanna, en svipur þeirra var harðskeyttur sem grjót.

Lúðrar kvöddu menn og álfa til vopna. Brátt sást til dverganna koma upp úr dalnum á fleygiferð. Meginher þeirra nam staðar milli árinnar og austurranans, en nokkrir drógu sig þó út úr, óðu yfir ána nálægt búðunum, og lögðu niður vopn sín og réttu upp hendur að friðartákni. Bárður fór á móti þeim og Bilbó fylgdi honum.

„Við erum fulltrúar Dáins Náinssonar,“ sögðu þeir, þegar þeir höfðu verið spurðir til heitis. „Við erum á hraðri ferð til ættmenna okkar í Fjallinu, þar sem við höfum frétt að hið forna konungsríki Dverga hafi verið endurreist. En hví hafið þið búist fyrir á sléttunni sem óvinir framan við varða múra?“ Þetta var auðvitað bara kurteisleg en fremur gamaldags ræða við slík tækifæri, og þýddi einfaldega: „Hvað eruð þið að flækjast hér fyrir okkur. Við viljum fá að halda áfram, víkið því frá eða við verðum að grípa til vopna!“ Það virtist ætlun þeirra að halda áfram förinni milli fjallsranans og árbugðunnar, því að þröng landræman þar á milli virtist lítt varin.

Bárður þverneitaði dvergunum að sjálfsögðu för að Fjallinu. Hann var staðráðinn í að hleypa þeim ekki lengra, fyrr en gullið og silfrið hefði verið fram reitt í skiptum fyrir Erkisteininn, því að hann grunaði að það myndi farast fyrir, eftir að virkið yrði mannað af svo miklum og herskáum liðsafla. Dvergaherinn hafði líka tekið með sér mikið af birgðum því að dvergar eru ótrúlegir burðarjálkar og nærri allir í sveit Dáins höfðu, þrátt fyrir hraðferðina, mikla vistabagga á bakinu auk vopnanna. Ef þeir kæmust í Fjallið gætu þeir haldið út margra vikna umsátur og þá yrðu fleiri dvergar komnir á vettvang og aftur enn fleiri, því að Þorinn átti fjölda ættingja í öllum áttum. Þá hefðu þeir liðsafla til að opna og hafa varðstöðu á fleiri hliðum, svo að umsátursliðið yrði að króa af allt fjallið og til þess hefðu þeir ekkert bolmagn.

Sú var einmitt ráðagerð þeirra dverganna (og höfðu þeir haft samráð um hana fyrir milligöngu hrafnanna sem voru stöðugt á ferðinni milli Þorins og Dáins). En nú var leiðin lokuð, og eftir að heitingar höfðu gengið á milli urðu dvergsendiboðarnir frá að hverfa en bölvuðu niður í skeggið. Bárður lét sendiboða þá þegar fara upp að hliðinu, en þeir fundu ekkert gull né neina útborgun. Þess í stað dundi örvahríðin á þeim strax og þeir komu í færi, og þeir sneru frá í ofboði. Allt var nú í uppnámi og búist til bardaga, því að dvergaher Dáins sótti fram eftir austurbakkanum.

„Fáráðlingar!“ sagði Bárður glottandi, „að ætla sér að sækja þannig inn með fjallsrananum. Þeir virðast ekki kunna neina stríðslist ofanjarðar, kunna líklega að berjast niðri í námum. Fjöldi bogmanna okkar og spjótliða leynist nú bak við klettana á hægri armi. Dvergabrynjur eru sjálfsagt góðar, en það fær nú að reyna á það. Nú ráðumst við til atlögu á þá frá báðum hliðum, áður en þeir ná að hvíla sig!“

En álfakonungurinn sagði: „Lengi vil ég láta á reyna, fyrr en ég byrja þetta stríð út af eintómri ágirnd í gull. Dvergarnir komast ekki framhjá án okkar vilja, né geta neitt það gert sem við höfum ekki gagnráð við. Reynum heldur að lifa í voninni um að eitthvað færi okkur saman í sátt. Ofurefli okkar í liði ætti alltaf að nægja, ef að lokum kæmi til ógæfuátaka.“

En hann reiknaði ekki með svæsnu innræti dverganna. Vitneskjan um að Erkisteinninn væri í höndum umsátursliðsins brann þeim logaheitt í hamsi. Ef til vill grunaði þá líka að Bárður og vinir hans myndu hika, og ákváðu því að láta til skarar skríða óvænt, meðan hinir væru enn í viðræðuskapi.

Skyndilega og fyrirvaralaust réðust þeir fram til atlögu. Það small í bogum og örvar þutu. Orustan var að hefjast.

Enn sneggri urðu þó umskiptin í lofti þegar myrkrið skall yfir ótrúlega skjótt! Kolsvart ský þandi sig yfir himininn. Vetrarþrumur ultu yfir með ofsaroki og drundu og þrumuðu í Fjallinu meðan eldglæringar lýstu upp tindinn. Og undir þrumufleygnum komu í ljós aðrir sortahnútar sem hnykluðust áfram yfir landið, en undarlegt að þá bar ekki undan vestanstorminum, heldur komu þvert á hann úr norðri undir risavöxnu fuglageri, svo þéttu að engin ljósglæta fékk smogið milli vængja þeirra.

„Hættið!“ hrópaði Gandalfur. Nú birtist hann skyndilega og tók sér stöðu aleinn með útrétta arma í víglínunni mitt á milli dverganna sem sóttu fram og herskaranna sem biðu þeirra. „Hættið tafarlaust!“ kallaði hann með þrumuraust og stafur hans blossaði með leiftri sem af eldingu. „Skelfingin vofir yfir öllum! Því miður skellur hún nú yfir skjótar en ég bjóst við. Dríslarnir æða yfir ykkur. Belgur* sækir fram úr norðri, Ó, Dáinn! sonur þess sem þú vóst í Moría. Sjá! leðurblökurnar fljúga yfir fylkingum hans eins og engisprettur. Þeir ríða á úlfum og Vargar eru í liði þeirra.“

Undrun og fát greip þá alla. Jafnvel á þeim stutta tíma meðan Gandalfur var að mæla þessi orð, mátti sjá mun á hve myrkrið óx. Dvergarnir létu bogana síga og störðu upp í loftið. Álfarnir ráku upp margradda óp.

„Komið!“ kallaði Gandalfur. „Enn er tími til samráðs. Biðjið Dáin Náinsson að koma strax til ráðagerða við okkur!“

Þannig hófst sú orusta sem enginn hafði búist við. Hún varð fræg í sögunni sem Fimmherjaorustan og var alveg óskapleg. Annars vegar voru Dríslarnir og villtu Úlfarnir, hinum megin Álfar, Menn og Dvergar. Þannig bar hana að. Allt frá því Stórdrísillinn í Þokufjöllum féll, hafði hatur dríslanna á dvergum blossað upp í offorsi. Sendiboðar voru sífellt á þönum fram og aftur um allar borgir þeirra, nýlendur og virki. Nú voru þeir ákveðnir í að beita samræmdu átaki til að ná fullkomnum yfirráðum yfir öllum Norðurslóðum. Þeir öfluðu sér upplýsinga á laun og um leið hófu þeir í laumi mikla vopnasmíð í allsherjar vígbúnaði undir öllum fjöllum. Svo héldu fylkingar þeirra af stað til liðsafnaðar um hæðir og dali, en mest drógu þeir liðið þó saman í jarðgöngum eða í myrkri nætur, þar til gífurlegur her þeirra var saman kominn undir hinu mikla Gundabað-fjalli nyrst í Þokufjöllum sem var einskonar höfuðsetur þeirra, og þaðan bjuggust þeir til að steypa sér óvænt í rjúkandi fárviðri suður á bóginn. Þá fréttu þeir af dauða Smeygins og fylltust fögnuði yfir þessu gullna tækifæri og hröðuðu sér nótt eftir nótt eftir fjallaleiðum og komu að lokum skyndilega út úr Norðrinu rétt á eftir Dáni og sveitum hans. Þeir fóru svo leynt að ekki einu sinni hrafnarnir vissu af ferð þeirra, þangað til þeir komu út á auðnirnar að baki Fjallsins eina og milli hæðanna þar fyrir aftan. Ekki er ljóst hve mikið Gandalfur vissi, en þó verður að telja ólíklegt að hann hafi búist við svo skyndilegri framrás þeirra.

Gandalfur setti nú fram áætlun í samráði við herráðið, en í því voru álfakóngurinn, Bárður og Dáinn, því að dvergahöfðinginn gekk nú þegar til liðs við þá. Dríslarnir voru sameiginlegir fjendur þeirra allra og við atlögu þeirra voru allar aðrar deilur gleymdar og grafnar. Helsta von þeirra var að ginna dríslana í gildru inn í dalinn milli Fjallsrananna, en þá yrði að koma fyrir á laun miklu liði í hlíðum rananna til suðurs og austurs. En þetta gæti orðið mjög hættulegt, ef sóknarlið dríslanna væri svo fjölskipað að þeir næðu að dreifa sér um allt Fjallið, en ætlunin var að ráðast aftan á þá í dalnum og ofan úr hlíðunum. En enginn tími var til frekari viðbúnaðar né til að sækja nokkurn liðsauka.

Þrumuveðrið gekk yfir og vall drunandi til landssuðurs, en leðurblökuþykknið flugsaðist suður á bóginn, lágt yfir öxl Fjallsins og sveimaði svo þétt yfir þeim að þær yfirskyggðu allt ljós og fylltu þá skelfingu.

„Upp í hlíðarnar!“ hrópaði Bárður. „Upp í hlíðarnar! Tökum okkur stöðu meðan enn gefst tími til!“

Álfarnir bjuggust fyrir í Suðurrananum, í lághlíðum og klettum undir skriðufótum. En á Austurranann skipuðu sér menn og dvergar. Bárður og nokkrir hinna röskustu manna og álfa klifu alla leið upp á Austuröxlina til að fá yfirsýn til Norðurs. Brátt sáu þeir að landið fyrir neðan Fjallið var svartmorandi af iðandi mergð. Áður en langt um leið komu forvarðsveitir óvinanna æðandi út fyrir hálsranann og askvaðandi inn á Dal. Þar í hópi voru spretthörðustu úlfriðarnir og þegar mátti heyra öskur þeirra og ýlfur úr fjarskanum. Fáeinir hraustir kappar stóðu þar á móti þeim til að veita sýndarmótspyrnu, en margir þeirra létu þó lífið, áður en þeir gætu látið undan síga eða kæmust undan til beggja hliða. En það fór eins og Gandalfur hafði vonað, að allur dríslaherinn hrúgaðist á bak við forvarðsveitirnar þegar sókn þeirra tafðist og nú þegar undan brast, rann æðandi flaumur þeirra inn í dalinn, þeir þustu trylltir inn á milli Fjallsrananna og leituðu óvinanna. Herfánar þeirra voru óteljandi svartir og rauðir og þeir ullu fram eins og flóðalda í æði og skipulagsleysi.

Þetta varð hörmuleg orusta. Hún var það skelfilegasta af öllu sem Bilbó hafði upplifað og á sínum tíma hafði mesta andstyggð á — þótt hann löngu síðar yrði hreyknastur af og þætti skemmtilegast að minnast hennar. Að vísu varð þáttur hans í orustunni ósköp smár, því að sannleikurinn var sá, að snemma í öllum þessum látum setti hann upp hringinn og lét sig hverfa úr augsýn, þó ekki væri hann þar fyrir úr allri hættu. Slíkur töfrahringur veitir í sjálfu sér enga vörn gegn harðskeyttri atlögu drísla, ekki stöðvar hann heldur örvaskot eða spjótalög. En hann getur verið gagnlegur til að laumast burt úr sjálfri orustunni og þá er heldur ekki sama hættan á því að einhver drísildjöfsi taki upp á því með hnitmiðaðri sveiflu að höggva af manni höfuðið.

Álfarnir lögðu fyrstir til atlögu. Þeir hata drísla beisklega. Spjót og sverð þeirra blikuðu í drunganum með nöprum loga, svo miskunnarlaus var reiði þeirra sem á héldu. Þegar fjandaflokkarnir voru hvað þéttastir í dalnum sendu þeir óslitna örvahríð yfir þá og skeytin gneistuðu á fluginu eins og stingandi eldar. Á eftir örvunum ruddust þúsund spjótliðar þeirra fram til atlögu. Heróp þeirra voru ærandi. Klettarnir lituðust svartir af dríslablóði.

Rétt þegar dríslarnir ætluðu að fara til og beita sér gegn þeirri atlögu og stöðva framrás álfanna, reis upp margradda rámur kór handan dalsins. Með öskrum um „Moría!“ eða „Dáinn, Dáinn“ steyptu dvergarnir frá Járnhólum sér niður úr hlíðinni og hjökkuðu tvíblaða axarbryðjum sínum á þeim frá hinni hliðinni og þeim við hlið sóttu fram Vatnamenn og sveifluðu voldugum langsverðum sínum.



Dríslarnir urðu gripnir ofsahræðslu. Þegar þeir ætluðu að snúa við til að mæta þessari síðari árás, hófu álfarnir aðra hrinu sín megin með auknu liði. Margir dríslanna flýðu nú aftur niður með ánni til að sleppa úr gildrunni. Og úlfar þeirra urðu óðir og réðust nú jafnt á þá sjálfa og rifu í sig dauða og særða. Sigur virtist í höfn, þegar mikil öskur kváðu við frá hæðunum að ofan.

Dríslarnir höfðu þá eins og Gandalfur óttaðist, skipt liði og sumir klifið Fjallið frá hinni hliðinni og komu þeir nú skröltandi niður eftir hlíðunum fyrir ofan Hliðið og aðrir létu sig dúndra niður brattann og var ekkert hirt um þótt margir hröpuðu niður kletta og þverhnípta hamra, heldur ruddust þeir niður eftir fjallsrönunum. Fært var frá háfjallinu í miðjunni niður um báða ranana og verjendur voru alltof fáir til að geta hamlað för þeirra að nokkru ráði. Þar með virtist þeim hverfa öll von um sigur. Þeir höfðu fram til þessa aðeins stöðvað hina fyrstu af mörgum kolsvörtum bylgjum.

Dagur leið fram. Dríslar söfnuðu liði sínu að nýju saman í dalnum. Þá sáust hópar Varga koma leitandi að bráð og rífandi allt og tætandi í sig og á eftir þeim fylgdi lífvörður Belgs, en í honum voru risavaxnir dríslar með bjúgsverð úr stáli. Sorti seig um óveðurshimininn, meðan stórleðurblökurnar flyksuðust um höfuð og eyru álfa og manna og bitu sig sem blóðsugur fastar á hina særðu. Bárður og lið hans stóð í ströngu við að verja Austurranann og urðu þó smámsaman að láta undan síga en álfahöfðingjarnir mynduðu skjólhring kringum konung sinn á Suðurrananum, einmitt nálægt varðbyrginu undir Hrafnaborg.

Skyndilega kvað við mikið hróp og út um Hliðið heyrðist lúðraþytur. Þeir höfðu gleymt Þorni! Hluta af varnarmúrnum í Hliðinu steyptu þeir niður með járnkörlum og féll það með braki og skvettum í lónið. Út þusti sjálfur Konungurinn undir Fjalli og félagar hans fylgdu fast á eftir. Nú höfðu þeir kastað af sér hettu og kufli, en glampaði á skínandi brynjur og gneistaði af blóðugu bliki augna þeirra. Í rökkrinu sýndist hinn mikli dvergahöfðingi glóa sem logandi gull í slokknandi báli.

Dríslarnir vörpuðu björgum yfir þá af háhömrum fyrir ofan. En þeir létu ekkert aftra sér, heldur héldu áfram útrásinni, hlupu niður með fossinum og þustu til orustu. Úlfriðar féllu eða flýðu í hrönnum undan þeim. Þorinn hjakkaði stríðsöxinni allt í kringum sig með voldugum höggum og ekkert virtist fá skaðað hann.

„Til mín! Til mín! Álfar og Menn! Komið allir til mín. Og þið Dvergar, allir ættingjar mínir!“ hrópaði hann og rödd hans glumdi við og skalf eins og hornablástur yfir allan dalinn.

Niður, niður, án tillits til skipulags eða reglu þustu allir dvergar Dáins óstöðvandi honum til hjálpar. Þar í hóp bættust líka margir Vatnamenn, því að Bárður gat ekki haldið aftur af þeim og frá hinni hliðinni komu æðandi ótal spjótliðar álfanna. Enn á ný voru dríslarnir í dalnum hraktir og sallaðir niður og þeir hlóðust upp í gnæfandi valkesti þar til allt á Dal varð morandi og mengað af viðbjóðslegum skrokkhræjum þeirra. Öllum Vörgunum var drepið á dreif og Þorinn stefndi markvisst beint að lífverði Belgs. En honum tókst þó ekki að rjúfa skjaldborg þeirra.

Að baki honum inn á milli hinna dauðu drísla lá nú líka fallinn fjöldi manna og dverga, og margur fagur álfurinn sem annars hefði fengið að lifa langt líf í fögnuði í skóginum. Og eftir því sem dalurinn víkkaði út eftir, dreifðist sóknin og hægði á framrásinni. Þorinn var alltof fáliðaður og fylkingararmarnir alltof opnir og óvarðir. Brátt snerist taflið við, sótt var að þeim úr öllum áttum og þeim þröngvað inn í skjaldhring, til að verjast í allar áttir, umkringdir dríslum og úlfum sem sneru við hinir gráðugustu til gagnáhlaups. Og nú kom lífvarðarlið Belgs æðandi að þeim og réðist inn í raðir þeirra eins og haföldur á molnandi sandsteinsklettum. Og nú gátu vinir þeirra ekki komið þeim til hjálpar því að árásirnar ofan af Fjallinu hófust að nýju með margföldum krafti og úr báðum áttum var smám saman verið að saxa niður menn og álfa.

Með öllu þessu fylgdist Bilbó í volæði og vonleysi. Hann hafði komið sér fyrir ósýnilegum við Hrafnaborg meðal álfanna — að sumu leyti af því að þar sýndust honum mestir möguleikar á að komast undan, en einnig þó (eftir Tókaeðli sínu) vegna þess að ef barist yrði til hinsta manns, kaus hann helst að verja álfakonunginn. Var Gandalfur einmitt þar, sitjandi á jörðinni eins og í djúpum þönkum og var, ef ég skil það rétt, líkast til að undirbúa eitthvert töfradúndur áður en yfir lyki.

Endalokin virtust ekki langt framundan. „Já, það líður víst ekki á löngu úr því sem komið er,“ hugsaði Bilbó „að dríslarnir ná Hliðinu á sitt vald og okkur verði öllum slátrað eða hraktir á flótta og handteknir. Það er reglulega grátlegt að svona skyldi þurfa að fara, eftir allt sem ég hafði nú lagt á mig. Og það verð ég nú að segja, að ég vildi miklu heldur að gamli Smeyginn hefði fengið að halda öllum þessum óhræsis fjársjóði, en að þessar ógeðslegu skepnur hreppi hann. Og ég get ekki til þess hugsað, að vesalings vesalings gamli Vambi og Balinn og Fjalar og Kjalar og allir hinir eigi að hljóta svona grimm örlög. Að maður ekki nefni Bárð og Vatnamennina og alla kátu álfana. Æ, hvað þetta getur allt saman verið ömurlegt! Ég sem hef heyrt svo marga orustusöngva og þar er því stundum haldið fram að ósigur sé eitthvað svo afskaplega dýrðlegur. Ég get ekki fundið það nú, þvert á móti finnst mér hann harla óþægilegur, að maður segi ekki vandræðalegur. Ég vildi að ég væri hér hvergi nærri.“

Vindurinn tætti skýin og roðasól kvöldsins litaði Vestrið. Þá fannst Bilbó skyndilega að hann yrði var við eitthvert blik uppi í drunganum og hann leit við. Hann rak upp heljaróp: Það var sjón sem fékk hjarta hans til að hoppa hátt, dimmar útlínur en tignarlegar bar við fjarskaglóðina.

„Ernirnir! Ernirnir!“ hrópaði hann. „Ernirnir eru að koma!“

Bilbó var ekki vanur að láta neinar ofsjónir blekkja sig. Ernirnir komu raunverulega svífandi að undan vindi, þeir komu í löngum röðum, svo miklir himinsins herskarar að því liði virtist hafa verið safnað frá öllum arnarhreiðrum á Norðurslóð.

„Ernirnir! Ernirnir!“ hrópaði Bilbó og dansaði og baðaði út höndunum. Að vísu gátu álfarnir ekki séð hann en þeir gátu vel heyrt í honum. Brátt tóku þeir fullum hálsi undir hróp hans og þau endurómuðu yfir þveran dalinn. Ótal undrandi augu gægðust upp, þó enn sæist ekkert nema frá suðuröxl Fjallsins.

„Ernirnir!“ hrópaði Bilbó enn einu sinni, en á samri stundu skall fljúgandi steinn hart á hjálmi hans og hann féll niður með dynk og vissi ekki meira af sér.

Загрузка...