XIX. KAFLI Síðasti áfanginn

Það bar upp á fyrsta maídaginn þegar þeir félagar komu loksins fram á brún Rofadals, þar sem Hinstahöll (eða Fyrstahöll eftir því hvernig á það var litið) heimsins stóð. Komið var fram á kvöld, klárarnir orðnir þreyttir, einkum klyfjahesturinn, og allir voru þeir þurfandi fyrir hvíld. Þegar þeir komu ríðandi niður brattan stíginn, heyrði Bilbó að álfarnir sungu enn í trjánum eins og þeir hefðu ekki gert neitt hlé á síðan hann hvarf á braut. Og strax og riddararnir komu niður í lægri rjóður skógarins hófu þeir líkan kvæðasöng og áður. Eitthvað á þessa leið:

Drekinn er visinn,

bein hans brotin,

brynja hans gisin,

ógn hans þrotin.

Sverðið hið skarða

og hásæti garða,

í herstyrk hins harða,

hátt rís sem varða.

Gras mun þá gróa,

og grænskrúð hlíða

og laufskrúð víða

lifna um skóga.

Kristöllum klingjum

álfar og syngjum

Komið tra-la-lala

niður til dala.

Stjörnur skína skærar

en skart á fögrum fljóðum.

Tunglið lýsir tærar

en silfurspöng í sjóðum.

Eldur logar hlýrri

í arinskuggans glóðum,

en gull úr námu nýrri

í gróðaseggsins skjóðum.

Klukkum við hringjum

álfar og syngjum

Komið tra-la-lala

niður til dala.

Hvert skal núna halda,

hvar ætliði að tjalda.

Árnar áfram renna,

stjörnurnar brenna.

Léttu af öllum þunga,

burt með þennan drunga,

gleðstu meðal ungra

álfa og álfameyja.

– Eitt sinn skal hver deyja!

Vín á glösum klingjum

álfar og syngjum

Komið tra-la-lala

niður til dala.

Því næst komu álfarnir úr dalnum fram og heilsuðu þeim og fylgdu þeim yfir ána að húsi Elronds. Þar var þeim tekið tveim höndum og mörg voru forvitnu eyrun til að hlýða á frásagnirnar af ævintýrum þeirra. Bilbó var orðinn þegjandalegur og syfjaður svo að Gandalfur sagði frá. Sjálfur hafði Bilbó lítinn áhuga á að hlusta á það flest, því að hann gjörþekkti það, hafði sjálfur staðið í eldinum og þurfti því ekki að láta segja sér neitt. Enda hafði vitkinn það mestallt frá honum, því að Bilbó hafði rakið það allt fyrir honum á leiðinni eða í viðdvölinni í húsi Bjarnar. En við og við rifaði þó í annað augað á honum og áhuginn vaknaði, ef vitkinn skaut inn einhverjum atvikum sem hann vissi ekki um.

Þannig komst hann að því hvar Gandalfur hefði haldið sig allan tímann sem hann var í burtu, því að hann lýsti því fyrir Elrond. Af því mátti skilja að Gandalfur hefði setið mikla ráðstefnu hvítu vitkanna, höfðingja fornra fræða og meinlausra hvítagaldra og að þeir hefðu loksins afrekað það að hrekja Násuguna úr sínu dimma bæli í suðurhluta Myrkviðar.

„Áður en langt um líður,“ sagði Gandalfur, „ætti eitthvað heilbrigðara að fara að vaxa í Skóginum. Ég vona þá að öll Norðursvæðin losni endanlega við allan þann hrylling. Helst hefði ég óskað þess að seiðskrattinn hefði verið bannfærður úr víðri veröld.“

„Víst væri það landhreinsun,“ sagði Elrond, „en hræddur er ég um að það takist ekki á þessari öld heimsins og varla á mörgum öldum þar á eftir.“

Þegar ferðasagan hafði verið rakin, var tekið til við aðrar frásagnir og enn aðrar sögur, sem gerðust endur fyrir löngu og aðrar alveg nýjar og tímanlausar sögur, þar til höfuð Bilbós hneig niður á bringuna og hann hraut svo notalega í horninu sínu.

Þegar hann vaknaði lá hann í drifhvítu rúmi og tunglið skein inn um opinn glugga. Fyrir neðan á árbakkanum sungu margir álfar hátt og snjallt.

Syngjum af gleði, syngjum öll saman,

sönginn í trjánum, blæinn í skuggum.

Stjörnur út springa, tunglið í blóma,

næturbirta í himinsins gluggum

Dönsum af gleði, dönsum öll saman,

dúnmjúkt er gras undir fjaðrandi fæti.

Silfurá flýtur í flöktandi straumi.

Fagnandi maí-tíð með gleðinnar læti.

Fögnum af gleði, fögnum öll saman,

friðsælan blíða draumum oss vefur,

vaggar í svefninn í fagnaðar faðmi.

förusveininum hvíldina gefur.

Sofðu rótt, sofðu rótt,

hljóðni hlynur og reynir.

Sofðu rótt, sofðu rótt,

þagni álmur og einir.

Blíða nótt, sofðu rótt,

aðeins andblær á vegi,

uns birtir af degi

„Jæja, kátu vinir!“ sagði Bilbó og horfði út til þeirra. „Hvaða tími tunglsins er nú? Vögguljóð ykkar eru svo hávær að þau gætu vakið drukkinn drísil! Samt þakka ég ykkur fyrir.“

„Og hroturnar í þér gætu vakið steingerðan dreka — samt þökkum við þér fyrir,“ svöruðu þeir hlæjandi. „Nú nálgast dögun og þú hefur sofið allt frá náttmálum. Ef til vill líður þreytan úr þér á morgun.“

„Svolítill blundur er besta lækningin í húsi Elronds,“ svaraði hann, „og ég þarf að verða mér úti um alla þá lækningu sem fáanleg er. Og þá í annað skipti, góða nótt, fögru vinir!“ Og þar með sneri hann aftur inn í rúm sitt og svaf langt fram á dag.

Brátt hvarf öll þreyta af honum í þessu húsi og hann átti þar margar góðar stundir við leik og dans, jafnt ár og síð með álfum úr dalnum. En jafnvel þessi staður fékk ekki lengi tafið hann, því að alltaf voru heimaslóðirnar efst í huga hans. Eftir aðeins viku kvaddi hann Elrond og færði honum einhverjar þær smágjafir sem hann vildi þiggja og reið enn af stað með Gandalfi.

Varla voru þeir fyrr komnir út úr dalnum, en það dimmdi að í vestri og vindurinn og regnið börðust í andlit þeirra.

„Mætur er maí!“ sagði Bilbó, þegar slagviðrið lamdi hann í framan. „Við höfum nú snúið baki við öllum ævintýrum og komum heim. Ætli þetta veðurlag sé ekki forsmekkurinn að því.“

„Enn er löng leið eftir,“ sagði Gandalfur.

„Já, en þetta er síðasti áfanginn,“ svaraði Bilbó.



Þeir komu að ánni sem myndaði síðustu markalínu óbyggðanna og að vaðinu undir háa bakkanum sem þið ættuð að minnast. Áin var uppbólgin bæði af hláku vorkomunnar og af daglöngu úrhelli. En þeir komust yfir hana, þó ekki alveg vandræðalaust, og greikkuðu sporið fram að fyrstu kvöldkomunni í þessum síðasta áfanga ferðarinnar.

Ferðin gekk eins og áður, nema ferðalangarnir voru færri og þögulli. Nú rákust þeir heldur ekki á nein tröll. Hvar sem þeir fóru um veginn rifjuðust upp fyrir Bilbó ótal atvik og orð sem gerst höfðu fyrir ári — nema honum fannst þau jafnast á við tíu ár — þannig mundi hann glöggt hvar hesturinn hafði dottið í ána og þeir höfðu beygt út af veginum og lent í hinu háskalega ævintýri með Þumba og Berta og Villa.

Rétt utan við veginn fundu þeir tröllagullið sem þeir höfðu grafið. Þar lá það enn falið og ósnert. „Ég hef nóg gull fyrir mig að leggja alla mína lífstíð,“ sagði Bilbó, eftir að hafa grafið það upp. „Þú ættir nú að taka þetta handa þér, Gandalfur. Þú hlýtur að geta eitthvað notað það.“

„Víst væri það enginn vandi,“ sagði vitkinn. „En jafnt skulu sáttir skipta! Þú munt hafa meiri þörf fyrir það en þú heldur.“

Þeir settu því gullið í poka og lögðu það á hestana sem þó voru lítt hrifnir af þessari þungahleðslu. Nú hægði á ferð þeirra, því að þeir urðu að teyma hestana lengst af. Hér var landið svo yndislega grænt og grasloðið hvar sem hobbitinn óð ánægður um það. Hann þurrkaði sér í framan með rauðum silkiklút – nei, enginn, ekki einn einasti af öllum klútunum hans var eftir, þennan léði Elrond honum Nú var júní og sumarið komið sólbjart og heitt.

Eins og allt fram streymir að sínum endalokum og þar sem þessi saga er því heldur ekki undanþegin, þá reis nú sá dagur þegar þeir komu í augsýn við landið þar sem Bilbó var fæddur og uppalinn, þar sem hann þekkti lögun landsins og skóganna eins vel og hendurnar og tærnar á sér. Af svolítilli upphækkun á veginum eygði hann sinn eigin Hól í fjarska og hann nam skyndilega staðar og mælti fram:

Vegir liggja langt í allar áttir

um eyðifjöll og myrkurdimman skóg,

um heiðalönd og kaldar klettagáttir,

um kvísl sem aldrei framrás fær í sjó.

Langförull þú glímdir við snævi þaktar þrautir,

en þekktir líka vorsins sól í maí.

Bar þig yfir blómum vafðar lautir

og blésu vindar ljúfum sunnanblæ.

Vegir liggja langt í allar áttir

óralöng var orðin vegferð þín.

Aftur loksins heim þó halda máttir

til hólsins þar sem fegurst sólin skín.

Eld þú hafðir reynt og hjörva hríðir

og hrylling þann er fossar banablóð.

En gott er að mega höfði halla um síðir

og hlýja sér við arineldsins glóð.

Gandalfi varð litið undrandi á hann. „Kæri Bilbó!“ sagði hann. „Það hlýtur eitthvað að hafa komið fyrir þig. Þú ert ekki sami hobbitinn og áður.“

Svo héldu þeir yfir brúna og framhjá myllunni á árbakkanum og komu beint að heimadyrum Bilbós.

„Hjálpi mér! Hver ósköpin ganga á?“ hrópaði hann. Þarna var svo mikil ös, alls kyns fólk, virðulegt og óvirðulegt, standandi í hnapp kringum dyrnar og margir á randi inn og út um þær — án þess einu sinni að þurrka sér um fæturna á mottunni, og Bilbó var stórhneykslaður á því.

Væri hann eitthvað undrandi varð allt þetta fólk þó enn furðu lostnara. Hann kom inn í mitt uppboð. Á hliðið var fest stór auglýsing í svörtu og rauðu, þar sem tilkynnt var að tuttugasta og annan júní myndu Hrl. Grubbur, Grubbur og Bubbur framkvæma uppboð á öllum eftirlátnum eigum Bilbós Bagga heitins óðalsbónda í Baggabotni, Undirhóli í Hobbtúni. Uppboðið skyldi hefjast á slaginu klukkan tíu. Og nú var komið fram undir hádegi og flest selt á allrahanda verði, sumt fyrir næstum ekki neitt, annað voru gamlir söngvar (eins og títt er á uppboðum). Og Skjóðu-Baggarnir frændur Bilbós voru í óða önn að mæla upp herbergin hjá honum til að kanna hvort húsgögnin þeirra pössuðu. Sem sagt Bilbó var „talinn af“ og ekki virtust allir neitt ókátir með þá niðurstöðu.

Heimkoma herra Bilbós Bagga olli því töluverðu uppnámi, bæði undir Hól og yfir Hól og handan Ár. Og þau vandræði urðu ekki leyst á einni viku. Lagaþræturnar stóðu raunar í mörg ár. Það tók óratíma að fá það viðurkennt að herra Baggi væri enn á lífi. Einkum var erfitt að sannfæra fólk, sem hafði gert sérlega góð kaup á uppboðinu, um það, og til að spara tíma varð Bilbó síðast að kaupa aftur mikið af sínum eigin húsgögnum. Margar af silfurskeiðunum hans hurfu með dularfullum hætti og fundust aldrei aftur. Sjálfan grunaði hann Skjóðu-Baggana. Þeir aftur á móti vildu eiginlega aldrei viðurkenna að sá Baggi sem sneri við væri ósvikinn og gátu aldrei litið Bilbó réttu auga eftir þetta. Þau höfðu haft svo fastan augastað á að setjast að í fallegu hobbitaholunni hans.

En brátt komst Bilbó að því að hann hafði fleiru glatað en skeiðum — hann hafði glatað áliti. Sannleikurinn er sá, að æ síðan var hann álfvinur og í miklu áliti meðal dverga, vitka og annarra sem áttu leið hjá. En hann naut ekki lengur virðingar samborgara sinna. Allir hobbitar í nágrenninu álitu hann eitthvað skrýtinn, nema systkinabörn hans af Tókaættinni og þó hvöttu ekki einu sinni foreldrar þeirra þau til að umgangast hann.

Gallinn var bara, að honum stóð nákvæmlega á sama um það. Hann var hinn ánægðasti og fannst nú pípið í katlinum á hlóðunum miklu hljómfegurra en það hafði verið á hinum hljóðlátu dögum áður en hinir Óvæntu boðsgestir komu í heimsókn til hans. Hann hengdi sverðið sitt yfir arinhilluna. Hringabrynjuna festi hann á stand í forstofunni (þar til hann léði hana á safn). Gulli sínu og silfri eyddi hann mest í gjafir, sumar gagnlegar en aðrar tómt bruðl, sem skýrir nokkuð hvað hann varð einmitt vinsæll meðal ungra frænda og frænkna. En töfrahringnum leyndi hann stranglega fyrir öllum og notaði hann raunar mest til að láta sig hverfa ef einhverjir leiðindapúkar voru að koma í heimsókn.

Hann fór að yrkja ljóð og heimsækja álfa. Margir hristu höfuðið og bentu á ennið á sér og sögðu „Vesalings gamli Baggi“ og þótt fáir tækju neitt mark á frásögnum hans af ævintýrum sínum, var hann hamingjusamur alla ævi, sem heldur ekki var neitt stutt.

Haustkvöld eitt nokkrum árum síðar sat Bilbó í bókaherbergi sínu og var að rita endurminningar sínar — hann var að hugsa um að kalla þær „Út og heim aftur. Heimsreisa hobbita“ — þegar dyrabjöllunni var hringt. Þar var á ferð Gandalfur og með honum dvergur. Og dvergurinn var enginn annar en Balinn.

„Komið inn! Blessaðir komið inn!“ sagði Bilbó og brátt voru þeir sestir í djúpa stóla við logandi arineldinn. Balinn þóttist taka eftir því að vesti herra Bagga væri eitthvað stærra en áður (og með ósvikna gullhnappa), meðan Bilbó sýndist tjúguskegg Balins hafa síkkað um þó nokkra þumlunga og gimsteinum greypt belti hans væri stórglæsilegt.

Að sjálfsögðu fóru þeir að rifja upp allar ánægjustundirnar sem þeir höfðu átt saman og að því loknu spurði Bilbó hvernig ástandið væri í héruðunum undir Fjalli. Allt virtist ganga ágætlega. Bárður hafði endurreist borgina á Dal og fjöldi landnema hafði flutt til hans frá Vatni og líka úr suðri og vestri. Allur Dalur hafði verið plægður og akrar huldu völl og menn vissu ekki aura sinna tal. Jafnvel auðnirnar voru morandi af fuglum, blómskrúði á vorin og aldinum og veisluhöldum á haustin. Vatnaborg hafði verið endurreist blómlegri en nokkru sinni áður og ótalin auðæfi bárust í förmum upp og niður eftir Hlaupá. Þar um slóðir ríkti vinátta og gagnkvæmt traust milli álfa, dverga og manna.

En illa fór fyrir gamla Borgarstjóranum. Bárður hafði fengið honum digra gullsjóði til hjálpar Vatnafólkinu, en hann var einn af þeim sem smituðust af drekaveikinni, hrifsaði sjálfur mestallt gullið undir sig, strauk með það og dó úr hungri í Auðninni og höfðu þá allir félagar hans yfirgefið hann.

„Nýi Borgarstjórinn er vitrari,“ sagði Balinn, „og auðvitað mjög vinsæll, því að honum er mest þökkuð núverandi velmegun. Nú yrkja menn söngva um að á hans dögum renni allar ár fullar af gulli.“

„Þá hafa líka spádómarnir í gömlu söngvunum ræst, að sínu leyti!“ sagði Bilbó.

„Auðvitað!“ sagði Gandalfur. „Hví ættu þeir líka ekki að rætast? Ég vona bara að þú sért ekki orðinn vantrúaður á spádómsorð hinna fornu söngva, þú sem þó áttir mestan þátt í því sjálfur að láta þá rætast. Þú ætlar þó ekki að halda því fram að öll ævintýrin og undankomurnar sem þú lentir í, hafi verið eintóm hundaheppni þín, og auðvitað alltaf á hentugustu augnablikunum fyrir þig? Þú ert nú alveg prýðilegur náungi, herra Baggi minn og mér þykir ósköp vænt um þig. En gættu að því, að þú ert aðeins ósköp lítið peð í henni víðu verslu!“

„Sem betur fer!“ sagði Bilbó hlæjandi og ýtti að honum tóbakskrukkunni.


Stærri útgáfu af kortinu má nálgast hér.

Загрузка...