XI. KAFLI Á þröskuldinum

Í tvo daga reru Þeir linnulaust upp eftir Langavatni og héldu þar á eftir viðstöðulaust upp eftir Hlaupá. Nú sáu þeir allir Fjallið eina, gnæfandi grettið og grátt, fyrir framan sig. Árstraumurinn var strangur svo þeim sóttist seint. Við lok þriðja dags, þegar þeir voru komnir þó nokkrar mílur upp eftir ánni, lögðu þeir að vinstri eða vestari bakkanum og stigu í land. Hér var þeim mætt af klyfjahestum með margvíslegum vistum og nauðsynjum og smáhestunum til eigin nota, en allt hafði það verið sent landleiðina á móti þeim. Þeir félagarnir klyfjuðu hesta sína sem mest þeir máttu en hitt skildu þeir eftir sem vistir í nausti, en engir af þeim sem höfðu fylgt þeim úr borginni voru fáanlegir til að verða eftir með þeim, þó ekki væri nema eina nótt svo að segja í skugga Fjallsins.

„Ekki þá fyrr en söngvarnir hafa ræst!“ sögðu þeir. Þegar komið var út í Villulöndin var auðveldara að trúa á drekann og allt tregara að trúa dvergunum. Í rauninni þurfti enga varðgæslu um vistirnar, því allt landið var auðnin tóm. Svo að fylgdarmennirnir yfirgáfu þá hið bráðasta og reru á fleygiferð aftur niður strauminn eða riðu eftir strandstígum, þó myrkrið væri þegar tekið að færast yfir.

Nóttin var köld og einmanaleg og þá misstu þeir móðinn. Daginn eftir héldu þeir af stað þó þeim væri alveg hætt að lítast á blikuna. Balinn og Bilbó fóru aftast með tvo til reiðar, þar sem þeir teymdu þunghlaðna klyfjahestana, hinir fóru framar og skyggndust um eftir fjárgötum, en þær voru hvergi sýnilegar. Þeir stefndu í Norðvest og skásniðu landið upp frá Hlaupá og nálguðust æ meir heljarmikinn fjallsrana, sem vísaði suður á bóginn í áttina að þeim.

Þetta var ósköp þreytandi ferðalag, þögult og laumulegt. Hér kvað við enginn hlátur, söngur né hörputónar og nú fór að sluma í stoltinu og vonunum sem lifnað höfðu í brjóstum þeirra, þegar hinir gömlu söngvar voru kyrjaðir við raust í borginni og á bökkum Langavatns. Nú þrömmuðu þeir áfram, daufir í dálkinn. Þeim var meira en ljóst að nú leið að lokum leiðangursins og hætt við að þeir biðu þar hörmulegan endi. Landið umhverfis þá varð æ líflausara og auðara, meðan Þorinn lýsti fyrir þeim hvernig allt hefði forðum verið grænt og frítt. Lítið var um gras og brátt sást þar hvorki kjarr né tré, nema ef það voru brotnir og kolugir stubbar sem aðeins minntu á það sem áður hafði verið. Þeir voru komnir á Drekaauðnirnar og það var liðið langt á árið.

Þó náðu þeir undirhlíðum Fjallsins án þess að nokkrar ógnir yrðu á vegi þeirra né ummerki um Drekann, utan auðnirnar sem hann hafði rótað upp kringum bæli sitt. Fjallið reis dimmt og þögult fyrir framan þá og gnæfði æ hærra yfir þeim. Þeir settu upp fyrstu búðir sínar vestan í suðurrananum, en hann endaði í dálitlum klettamúla sem kallaðist Hrafnaborg. Uppi á henni hafði eitt sinn staðið varðstöð, en þangað þorðu þeir ekki að klífa af ótta við að það væri of áberandi.

Áður en þeir hófu leit í vesturhlíðum Fjallsins að hinum huldu dyrum, sem þeir byggðu alla sína von á, sendi Þorinn af stað njósnaflokk til að kanna sjálfa suðurhlíð fjallsins þar sem aðalhliðið var. Til þeirrar ferðar valdi hann Balin, Fjalar og Kjalar og auk þess fór Bilbó með þeim. Þeir örkuðu áfram undir gráum og þöglum hamrahlíðum að rótum Hrafnaborgar. Þar hjá rann áin eftir að hafa tekið breiða bugðu um Dal út frá Fjallinu á leið sinni niður í Langavatn, straumhörð og með miklum nið. Bakkarnir voru berir og klettóttir, og bar hátt og bratt yfir strauminn og þegar þeir störðu þaðan yfir þrengslin, freyðandi og hvissandi í stórgrýtinu, gátu þeir séð inn í hinn víða dal sem tveir ranar Fjallsins umkringdu og stóðu þar gráar rústir fornra húsa, turna og múra.

„Þar liggur allt sem eftir er af Dal,“ sagði Balinn. „Fjallshlíðarnar sem áður voru skrýddar grænum skógum og allur hinn skjólvæni dalur svo blómlegur og unaðslegur áður fyrr þegar allar bjöllurnar klingdu í bænum.“ Hann virtist svo dapur og sár af reiði, að hann mátti vart mæla. Hann hafði verið einn af félögum Þorins daginn sem Drekinn kom.

Þeir þorðu ekki fyrir nokkurn mun að fylgja ánni eftir nær Hliðinu, heldur lögðu krók á leið sína út fyrir endann á suðurrananum, þangað til þeir fundu sér stað til að leynast bak við klett en þaðan blasti þó við dimmt hellisopið í hrikalegu klettabelti innst inni í vikinu milli fjallsrananna. Út úr því opi spratt áin Hlaupá en líka lagði út gufu og óhugnanlegan svartan reyk. Enga hreyfingu var að sjá í auðninni nema gufuna og vatnsrennslið og við og við flugu hjá svartar og óhugnanlegar krákur. Eina hljóðið sem heyrðist var niðurinn í grýttri ánni og einstaka skrækjandi krunk fuglanna. Það fór hrollur um Balin.

„Snúum strax við til baka!“ sagði hann. „Hér fáum við hvort sem er ekkert að gert! Mér líst heldur ekkert á þessar kolsvörtu krákur, mér finnst þær vera eins og sendiboðar og snuðrarar hins illa.“

„Drekinn er þá enn á lífi og hefst við í sölunum undir Fjallinu — eða ég ímynda mér það eftir reyknum að dæma,“ sagði hobbitinn.

„Það þarf að vísu ekkert að sanna,“ sagði Balinn, „en samt efast ég ekki um að þú hafir rétt fyrir þér. Hann gæti verið fjarverandi um skeið, eða legið á verði úti undir fjallshlíðinni. Þó hann hafi vikið sér frá, býst ég við að gufa og reykur kæmi eins út um hliðið, því að allir salir fyrir innan eru sjálfsagt á kafi í fúlli stybbunni.“

Þeir sneru aftur í þungum þönkum til búða sinna og skrækjandi krákurnar fylgdu þeim flögrandi eftir. Það var ekki lengra síðan en í júní að þeir sátu í góðu yfirlæti í fögrum bústað Elronds í Rofadal. Nú var komið fram um veturnætur en strax var eins og þær ánægjustundir hefðu horfið út í buskann fyrir mörgum árum. Hér stóðu þeir einir á þessum ógnarinnar auðnum án þess að eiga von á nokkurri hjálp. Þeir voru komnir á leiðarenda, en virtust fjær því en nokkru sinni að ljúka erindi sínu. Þeim var fallinn allur ketill í eld.

Þó undarlegt mætti virðast gerðist herra Baggi nú þeirra borubrattastur. Hann fékk uppdrátt Þorins oft að láni og rýndi í hann, braut heilann um rúnastafina og merkingu mánaletursins sem Elrond hafði komið auga á. Og nú gekk hann fremstur fram í því að dvergarnir skyldu tafarlaust hefja sína hættulegu leit í vesturhlíðunum eftir leynihurðinni. Þeir færðu þá búðir sínar yfir í langan dalskorning, miklu þrengri en stóru kvosina að sunnanverðu þar sem Fljótshliðið vissi út, en hér voru lágir hamrar utan í Fjallsrananum. Tveir þeirra stóðu hér vestur úr meginfjallinu í löngum klettóttum hryggjum sem lágu vestur á sléttuna. Hér í vesturhlíðinni voru færri ummerki um eyðandi fótspor drekans og mátti jafnvel finna þar dálitla beit fyrir hestana.

Úr þessum búðum í vesturhlíðinni, sem lágu allan daginn í skjóli við kletta og hamravegg þar til sólin fór að hníga handan Myrkviðar, hófu þeir leitina og unnu baki brotnu í hópum við að finna einhvern stíg upp í hlíðina. Ef nokkuð væri að marka kortið, ættu hinar leyndu dyr að standa einhvers staðar hátt yfir klettabeltinu í dalbotninum. En dag eftir dag sneru þeir aftur í búðir sínar án árangurs.

Þá duttu þeir allt í einu og óvænt ofan á það sem þeir höfðu verið að leita að. Það vildi svo til að dvergarnir Fjalar og Kjalar fóru dag nokkurn með hobbitanum niður í dalinn og réðust til uppgöngu í klungrið að sunnanverðu. Um hádegisbil var Bilbó að klöngrast framhjá stórum kletti sem stóð þar upp eins og strýta.

Þá blöstu allt í einu við augum hans grófhlaðin steinþrep. Það hljóp einhver móður í hann og dvergana og þeir stukku ákafir upp þrepin og þar tók við einstigi sem þeir týndu og fundu til skiptis en slóðin lá upp á sunnanverðan ranann, þangað til þeir komu inn á mjóan hjalla sem lá lækkandi í fláa langt norður með fjallshlíðinni. Þegar þeim varð litið niður sáu þeir að þeir voru einmitt fyrir ofan klettabeltið í botni dalsins og fyrir augu þeirra bar einmitt tjaldbúðirnar fyrir neðan. Þeir héldu áfram þögulir, studdu sig við klettavegginn á hægri hönd og fetuðu sig í einfaldri röð eftir hjallanum, þangað til veggurinn líkt og opnaðist og þeir komu inn í svolítið vik eða skoru með bröttum veggjum, með grasi í botninn, kyrrlátt og þögult. Inngangurinn að því sást ekki að neðan vegna slútandi kletta og þá ekki heldur úr fjarlægð vegna þess hve vikið var þröngt og leit aðeins út eins og dimm sprunga og ekkert meira. Ekki var hérna um neinn skúta að ræða enda opið upp úr, en innst í vikinu reis upp flatur veggur, og neðan til við jörð var hann sléttur og lóðréttur eins og verk steinhöggvara, en á honum sáust þó hvergi samskeyti né sprungur.

Engin merki voru þar um dyrastafi, þverstykki né þröskuld og heldur ekki um þverslá, loku eða skáargat. Þó voru þeir ekki í neinum vafa um að þeir hefðu loksins fundið dyrnar.

Þeir börðu á vegginn, þrýstu og ýttu á hann, þeir grátbændu hann um að opnast, fóru með brot úr særingarþulum en ekkert haggaðist. Loks þreyttust þeir á þessu og lögðust til hvíldar í grasinu undir klettaveggnum og um kvöldið hófu þeir langt klifur aftur niður.

Það ríkti spenna í búðunum um nóttina. Morguninn eftir ráðgerðu þeir að fara aftur á kreik. Aðeins Bógur og Vambi voru skildir eftir til að gæta hestanna og vistanna sem þeir höfðu flutt með sér frá ánni. Hinir fóru allir niður um dalinn og upp eftir hinum nýfundna stíg og síðan allir í halarófu út á þröngu sylluna. En þeir gátu ekki tekið með sér neina pinkla eða poka út á hana, því að hún var svo mjó og svimandi há og ofan af henni fimmtíu metra fall niður í grýtta urð fyrir neðan, en hver um sig hafði með sér væna kaðalhönk sem þeir vöfðu um mitti sér, og þannig komust þeir slysalaust í litla grösuga klettavikið.

Þar settu þeir nú upp þriðju búðir sínar og hífðu upp með köðlunum allar þær nauðsynjar sem þeir töldu sig þurfa. Niður létu þeir svo aftur síga suma hinna fimari dverga, svo sem Kjalar, til að bera fréttir eða skiptast á um vaktina fyrir neðan, meðan Bógur var hífður upp í efri búðirnar. Vambi var ófáanlegur til að fara upp, hvorki með festinni né upp göngustíginn.

„Ég er of feitur fyrir svona línudans,“ sagði hann. „Mig svimar bara og misstíg mig á skegginu á mér og þá yrðuð þið þrettán aftur. Og þessi tjösluðu reipi eru alltof veik til að þola mig.“ Sem betur fer var þetta þó ekki rétt, eins og þið munuð bráðum fá að heyra.



Á meðan fóru sumir þeirra að kanna betur sylluna handan við vikið og komust raunar að því að slóðin lægi hærra og hærra upp á fjallið. En þeir þorðu ekki að fara langt upp eftir henni, enda tilgangslaust. Þegar ofar kom ríkti algjör þögn, ekki einu sinni rofin af fuglakvaki né öðru hljóði nema vindinum sem gnauðaði í steinvörðum. Þeir félagar töluðu í hálfum hljóðum, hrópuðu aldrei neitt né sungu, því að hætta gat leynst bak við hvern klett. Hinir sem eftir sátu í vikinu voru uppteknir af því að reyna að leysa gátur dyranna en varð lítt ágengt. Þeir voru enn alltof ákafir til að nenna að huga neitt að rúnunum eða mánaletrinu, en reyndu stöðugt og hvíldarlaust að uppgötva hvar nákvæmlega á sléttum klettaveggnum dyrnar gætu verið faldar. Þeir höfðu tekið með sér haka og allskyns verkfæri frá Vatnaborg og reyndu í fyrstu að beita þeim. En þegar þeir hjuggu í steininn splundruðust sköftin og skeindu þá á handleggjum og stálhausarnir brotnuðu eða bognuðu sem blý. Þannig sáu þeir greinilega að engin námutækni kom hér að neinu gagni við þá töfra sem lokuðu dyrunum. Þeim brá líka mikið í brún og urðu dauðhræddir vegna hávaðans og bergmálsins sem kvað við.

Bilbó fannst ósköp þreytandi og einmanalegt að sitja þarna á þröskuldinum — það var að vísu enginn þröskuldur þar í eiginlegri merkingu, þótt þeir kölluðu litlu grastóna milli veggjarins og og brúnarinnar „þröskuld“ í gamni en minntust líka orða Bilbós forðum í óvænta boðinu í hobbitaholunni, að þeir þyrftu ekki annað þegar á Fjallið kæmi en sitja á þröskuldinum og bíða nógu lengi þangað til þeim dytti eitthvað í hug. Nú sátu þeir hér og brutu heilann einhver ósköp en datt ekkert í hug eða reikuðu stefnulaust um, en urðu aðeins þeim mun heimskari og hugmyndasnauðari.

Víst höfðu þeir orðið yfir sig hrifnir þegar stígurinn fannst, en nú misstu þeir enn allan móð — með hjartað í buxunum og þó vildu þeir ekki gefast upp né yfirgefa staðinn. Nú virtist hobbitinn heldur ekki vera neitt hugkvæmari en dvergarnir. Hann gerði ekki annað en halla bakinu upp að klettaveggnum og stara eitthvað út í vestrið gegnum vikið, út fyrir sylluna og vestur yfir alla víðáttuna að dimmum vegg Myrkviðs. Í fjarskanum þar fyrir handan þóttist hann jafnvel sjá móa fyrir Þokufjöllum svo ótrúlega lágsigldum og fjarlægum. Þegar dvergarnir spurðu hvað hann væri að gera, svaraði hann:

„Þið sögðuð að mitt hlutverk skyldi vera að sitja á dyrahellunni og hugsa,, að ég ekki tali um að komast inn, svo hérna sit ég og hugsa.“ En hræddur er ég um að þá stundina hafi hann ekki verið mikið að hugsa um, hvernig hann gæti leyst verk sitt af hendi, miklu frekar að allur hugur hans hafi legið handan hinnar bláu fjarlægðar og leitað kyrrlátra Vesturlanda, Hólsins og hobbitaholunnar sinnar undir honum.

Stór grá steinhella lá þarna á miðri grastónni og hann starði í þungum þönkum á hana og virti fyrir sér stóru sniglana sem skriðu um hana. Þeir voru með kuðungahúsin sín á bakinu og virtust una sér sérlega vel í þessu lukta viki með svölum klettaveggjunum. Þeir voru óvanalega stórir og skriðu hægt og skildu eftir sig slímuga slóð bæði á hellunni og klettaveggjunum.

„Á morgun hefst síðasta vika sumars,“ sagði Þorinn allt í einu upp úr eins manns hljóði.

„Og á eftir sumri fylgir vetur,“ bætti Bifur við.

„Og á eftir þessu ári fylgir annað,“ sagði Dvalinn, „og þá verða skeggin á okkur orðin síðari, án þess að nokkuð gerist hér, þá lafa þau fram af brúninni og niður í Dalinn. Og hvað skyldi sosum innbrjóturinn ætla að gera fyrir okkur? Væri honum nú ekki nær úr því að hann ræður yfir ósýnilega hringnum og ætti, eins og nú er ástatt að leggja sig sérstaklega fram, að laumast inn um Framhliðið og reyna að snuðra þar svolítið!“

Bilbó heyrði til dverganna — þeir sátu á klettum rétt yfir vikinu þar sem hann húkti — „Ó, hjálpi mér bara!“ sagði hann við sjálfan sig, „svona eru þeir þá farnir að hugsa um mig, einmitt það? Alltaf er það aumingja ég sem á að bjarga þeim út úr öllum erfiðleikum, að minnsta kosti eftir að vitkinn hvarf. Hvað á ég nú til bragðs að taka? Ég hefði svo sem getað sagt mér það sjálfur að þetta myndi allt enda með ósköpum fyrir mig. En hvernig gæti ég afborið það að fara aftur og sjá hinn ógæfusama Dalbæ, hvað þá reykjarmökkinn út úr hliðinu! ! !

Þá um kvöldið var hann ósköp aumur og gat varla sofnað. Daginn eftir dreifðust dvergarnir í allar áttir. Sumir fóru að liðka hestana fyrir neðan, aðrir einfaldlega ráfuðu fram og aftur um fjallshlíðina. En Bilbó sat allan daginn í grösuga vikinu og starði til skiptis í eymd sinni á steininn eða til vesturs út um þrönga rifuna. Hann hafði undarlega tilfinningu fyrir því að hann væri eins og byrjaður að bíða eftir einhverju. „Skyldi Gandalfur snúa óvænt aftur í dag?“ hugsaði hann með sér.

Hvenær sem hann leit upp sá hann móta fyrir fjarlægum Myrkviði. Þegar sólin vatt sér í vestrið sá hann eins og gula sólarslikju leggjast yfir alla skógarþekjuna eins og ljósið gripi með fingurgómunum í síðustu fölu laufin. Brátt sá hann glóandi logahnött sólarinnar hníga að sjónarrönd. Hann stóð upp og gekk fram í opið og varð þess allt í einu var að örmjór fölur og daufur nýmáni var að fikra sig yfir jarðröndina.

Á sama augnabliki heyrði hann eitthvert snark fyrir aftan sig. Þar á gráu steinhellunni í grasinu stóð feikna stór þröstur, næstum kolsvartur, földröfnótt bringan öll í svörtum deplum. Krakk! Hann hafði þrifið snígil í gogginn og barði kuðungnum við steininn líkt og hann væri að knýja dyra. Krakk! Krakk!.

Skyndilega rann upp ljós fyrir Bilbó. Hann rauk til, — hirti ekki um neinar hættur heldur stóð tæpt fremst á syllubrúninni og kallaði til dverganna með háværum hrópum og veifaði til þeirra. Þeir sem næstir voru komu veltandi niður klettana, eins hratt og þeir gátu eftir syllunni til hans og skildu ekki hver ósköpin í öllum heiminum gengju á. Hinir fyrir neðan æptu og báðu um að láta hífa sig upp, (nema Vambi auðvitað: hann var sofandi).

Bilbó flýtti sér að útskýra allt. Þeir steinþögnuðu: Hobbitinn stóð þar við gráu helluna og dvergarnir fylgdust óþolinmóðir með honum og veifuðu lafandi síðskeggjunum. Sólin hneig neðar og neðar, en um leið hnigu vonir þeirra. Hún sökk niður í roðagullið skýjabelti og hvarf. Dvergarnir tuldruðu, en Bilbó stóð næstum hreyfingarlaus. Mjóa skarðatunglið var líka við það að snerta sjónhringinn. Kvöldið var komið. Þá skyndilega, þegar von þeirra var alveg að dvína og deyja út, gerðist það að einn eldrauður sólargeisli slapp eins og fingur gegnum rifu á skýjunum. Ljósgeislinn féll beint inn um rifuna á vikinu og á sléttan klettavegginn. Gamli þrösturinn sem fylgst hafði með öllu ofan af háum kletti, með bólgnum augum og höfði hallandi undir flatt, gaf skyndilega frá sér háværa trillu. Það kvað við hátt brak. Bergflaga klofnaði frá veggnum og hrundi niður. Skyndilega opnaðist hola í hana um þrjú fet frá jörðu.

Skjálfandi af ótta við að þeir misstu af tækifærinu, þustu Dvergarnir að klettinum og ýttu, en árangurslaust.

„Lykilinn! Lykilinn!“ æpti Bilbó. „Hvar er Þorinn?“

Þorinn þusti að.

„Lykilinn!“ hrópaði Bilbó. „Komdu með lykilinn sem fylgdi kortinu! Reyndu það meðan enn er tími til!“

Í því steig Þorinn nær og dró upp lykilinn á hálskeðjunni. Hann stakk honum í gatið. Hann snerist og gekk að! Snapp! Geislinn slokknaði, sólin seig niður og tunglið var horfið. Kvöldið tók á ný völdin á himninum.

Nú sameinuðu þeir alla krafta sína til að ýta — og hægt og hægt lét klettaveggurinn undan. Langar og beinar skorur birtust á fletinum og gleikkuðu út. Það mátti fara að greina útlínur hurðar sem var um fimm fet á hæð og mátuleg fyrir þrjá á breiddina og hægt og hljóðlaust opnaðist hún inn. Þá var engu líkara en að myrkrið flæddi eins og gufa út úr opinu í fjallshlíðinni og hyldjúpt myrkur, þar sem ekkert varð séð með augunum, kæmi á móti þeim eins og gapandi gin sem lá inn og niður í bergið.

Загрузка...