V. KAFLI Gátur í myrkri

Þegar Bilbó opnaÐi augun vissi hann ekki, hvort hann hefði nokkuð opnað þau. Því að allt var jafn dimmt eins og hann hefði ekki opnað þau. Og enginn var þarna, hvergi nálægt honum. Ímyndið ykkur bara hvað hann var hræddur. Hann heyrði ekkert, sá ekkert og fann ekki fyrir neinu nema grjótgólfinu sem hann lá á.

Hann velti sér silalega við, þreifaði fyrir sér á fjórum fótum, þangað til hann rakst á vegginn. Hvorki upp né niður fann hann fyrir neinu — engin merki um drísla, engin merki um dverga. Hann snarsvimaði eins og höfuðið væri á floti og gat ekki einu sinni gert sér grein fyrir í hvaða átt þeir höfðu stefnt, þegar hann féll niður. Hann reyndi þó að geta í það eftir því sem hann ímyndaði sér, og þannig skreið hann áfram góða stund, þangað til skyndilega að hönd hans snart eitthvað sem virtist vera hringur úr köldum málmi og lá þar á gólfi ganganna. Þetta átti eftir að marka tímamót í lífi hans, en þá hafði hann ekki hugmynd um það. Hann stakk hringnum einfaldlega í vasa sinn án þess að velta því nokkuð fyrir sér. Það varð heldur ekki séð að hann kæmi honum að nokkrum notum á þessari stundu. En eftir það hélt hann ekki lengi áfram, heldur settist á kalt gólfið og gafst upp, gjörsamlega á valdi vesældarinnar. Þar húkti hann langalengi og sá sjálfan sig fyrir sér að steikja fleskjur og egg í eldhúsinu heima — því að hann þóttist einhvern veginn finna það innan í sér að kominn væri einhver matmálstími eða bita, en það gerði hann aðeins ennþá leiðari.

Hann var gjörsamlega ráðalaus hvað hann ætti að gera, gat ekki einu sinni ímyndað sér hvað hefði gerst eða hvers vegna hann hefði verið skilinn eftir, eða hvers vegna, úr því að hann hafði verið skilinn eftir — að dríslarnir skyldu þá ekki hirða hann. Hann gerði sér ekki einu sinni grein fyrir hvers vegna honum var svo illt í höfðinu. Svarið við þessu öllu var, að hann hafði lengi legið alveg hreyfingarlaus, ósýnilegur og ómeðvitaður í dimmu skoti.

Eftir nokkra stund gáði hann að pípunni sinni. Hún var þá óbrotin sem var þó altént nokkuð. Þá þreifaði hann eftir tóbakspungnum sínum og viti menn! Það var meira að segja tóbak í honum og það var jafnvel enn betra. En þá leitaði hann að eldspýtunum og fann engar og þar með hrundi sú von gjörsamlega. En við nánari umhugsun sá hann, að það væri sér fyrir bestu. Guð mátti vita hvað gæti ruðst út úr dimmum holum þessa hryllingsstaðar ef tóbakslyktin bærist um. Samt fékk það mjög á hann að geta ekki fengið sér neinn reyk. En í því að hann var að fálma niður í alla vasa og leita allsstaðar að eldspýtunum snerti hönd hans litla sverðið – eða rýtinginn sem hann náði frá tröllunum en var alveg búinn að gleyma. Sem betur fer höfðu dríslarnir heldur ekki fundið það, þar sem hann faldi það innan undir buxnastrengnum.

Nú dró hann það út. Það blikaði af því dauft og þó eins og dimmt fyrir augum hans. „Svo það er þá álfablað líka,“ hugsaði hann, „og það sýnir mér, að dríslarnir eru ekki mjög nálægt, en þó ekki nógu langt í burtu.“

Það var eins og þetta herti hann upp. Það var eitthvað svo glæsilegt við það að bera sverð sem smíðað var til forna í Gondólín í Dríslastríðunum miklu sem eru svo fræg af söngvum og sögnum. Hann hafði einnig veitt því athygli hve dríslunum brá í brún þegar þeir skyndilega sáu slík vopn.

„Á ég þá að snúa við?“ hugsaði hann. „Nei, það er ómögulegt! Til hliðanna! Ófært! Áfram? Það er víst eina leiðin! Áfram skal halda!“ Svo hann reis á fætur og trítlaði af stað, bar litla sverðið fyrir sér en þreifaði með hinni hendinni á veggnum meðan hjartað hamaðist í brjósti hans.

Nú mátti með sanni segja að Bilbó væri í ógöngum. En höfum samt í huga, að þrengingarnar voru ekki alveg eins miklar fyrir hann og þær hefðu verið fyrir mig eða þig. Hobbitar eru nefnilega ekki alveg eins og venjulegt fólk. Þótt hobbitaholur séu ágætar og upplífgandi og vel loftræstar og þannig gjörólíkar neðanjarðargöngum dríslanna, þá eru þeir þó alla daga vanari gangagreftri en við, og þeir tapa ekki svo auðveldlega áttum neðanjarðar — enda þótt þeir séu að ná sér eftir að hafa fengið högg í hausinn. Auk þess eru þeir frægir fyrir það hvað þeir eru snöggir í hreyfingum, eiga auðvelt með að fela sig og fljótir að ná sér eftir fall og skrámur. Þeir eiga sér auk þess mikinn sjóð spakmæla og heilræða sem mennirnir ýmist hafa aldrei heyrt eða eru búnir að gleyma endur fyrir löngu.

Allt að einu hefði mig ekki langað til að vera í sporum herra Bagga. Þessi göng virtust endalaus. Hann hafði ekki hugmynd um hvert þau lágu nema þau virtust stefna stöðugt niður á við og nokkurnveginn í sömu áttina þrátt fyrir einstaka sveigjur og beygjur. Við og við kom hann að gangaopum sem lágu til hliðanna, ýmist sá hann þau við glitið frá sverðinu eða þreifaði fyrir þeim á veggjunum. En hann hirti ekkert um neinar hliðarálmur, hraðaði sér framhjá þeim af ótta við að einhverjir drísilskrattar eða ímyndaðar myrkraverur gætu skotist út úr þeim. Hann hélt áfram og áfram, neðar og neðar og heyrði ekkert hljóð nema einstaka sinnum vængjagust í leðurblöku sem fór framhjá eyrum hans. Fyrst í stað brá honum við það, en svo vandist hann því og hirti ekkert um það. Ég veit ekki hve lengi hann hélt þannig áfram, en nógu lengi til þess að honum varð um og ó en þorði samt ekki að nema staðar. Áfram hélt hann þangað til hann var orðinn útþreyttari en allt útþreytt. Honum fannst að það hlyti að vera kominn morgundagurinn eða þar næsti dagur.

Skyndilega og mjög svo óvænt steig hann splass! í vatn! Úff! Það var ískalt. Þá snarstöðvaðist hann. Hann vissi ekki hvort þetta væri aðeins smápollur á veginum eða vatnsrás sem lægi þvert yfir göngin eða kannski eyri við djúpt stöðuvatn neðanjarðar. Þá lýsti varla neitt af sverðinu að heitið gæti. Þar sem hann stóð kyrr og lagði við hlustir, heyrði hann dropahljóð eins og vatn seitlaði niður úr óséðu lofti fyrir ofan og dreitlaði niður á vatnsborð, en hann varð ekki var við neinn straumnið.

„Þetta hlýtur þá að vera tjörn eða stöðuvatn en ekki neitt neðanjarðarfljót,“ hugsaði hann með sér. Hann þorði þó ekki að vaða út í það í myrkrinu. Hann var ósyndur og sá líka fyrir hugskotssjónum allskyns ógeðsleg slímug dýr iðandi í vatninu með stór búlgandi blind augu. Og víst er um það að margar skrýtnar skepnur hrærast í tjörnum og vötnum neðanjarðar, djúpt undir fjallsrótum. Einhverjir forfeður sumra fiskanna syntu þangað niður fyrir ótölulegum fjölda ára og komust aldrei út aftur. Augu þeirra fóru smámsaman að stækka og þenjast út í viðleitni náttúrunnar til að sjá eitthvað í myrkri. Þar eru líka slímugri skepnur en fiskar. Jafnvel í göngunum og hellunum sem dríslarnir hafa holað út, er ýmislegt á ferli, sem þeir hafa ekki einu sinni hugmynd um að hafi laumast inn til að fá að leynast þar í myrkrinu. Sumir hellanna eru líka frá því mörgum öldum fyrir komu dríslanna, sem þá hafa aðeins víkkað út holur upprunalegu eigendanna sem enn eru þar að laumast í afkimum og snuðra.

Þarna dýpst undir fjallsrótum við koldimmt vatn hafðist Gollrir gamli við. Ég hef ekki hugmynd um hvaðan hann kom, hver hann var, né heldur hverskonar kvikindi hann eiginlega var. Ég veit bara að hann var Gollrir — allur biksvartur eins og myrkrið — nema stórar kringlóttar og fölvar glyrnurnar. Hann hafði yfir svolitlum eintrjáningi að ráða og spyrnti sér áfram næstum hljóðlaust um tjörnina, nokkuð breiða, djúpa og nákalda. Hann rétt damlaði sér áfram með flötum fótunum út fyrir borðstokkinn, svo varlega að vatnið gáraðist ekki né bifaðist minnstu vitund. Þar skimaði hann fölvum augum eftir blindum hellafiskum og þreif þá leiftursnöggt með löngum kjúkunum. Hann var líka sólginn í drísla og fannst þeir ágætir til átu, ef hann gæti komist yfir þá. En hann var mjög varkár og gætti þess að láta ekki komast upp um sig. Hann var vanur að ráðast aftan að þeim og kyrkja þá, ef einhver þeirra var einn á ferð í námunda við vatnið. En þeir komu þangað sjaldan því að þeim stóð ógn af því að eitthvað óskemmtilegt væri þar í leynum, neðst undir rótum fjallsins. Þeir höfðu komið niður að vatninu endur fyrir löngu þegar þeir voru að bora göng en komust ekki lengra. Svo að þar endaði stígur þeirra í þessa áttina og síðan höfðu þeir enga þörf fyrir að koma þangað — nema hvað Stórdrísillinn sendi þá þangað af og til, því að stundum langaði hann í fisk úr vatninu. En þá kom það fyrir, að drísillinn sem sendur var sneri ekki við og enginn fiskur heldur.

Í rauninni bjó Gollrir á slímugum hólma í miðju vatninu. Hann fylgdist strax með Bilbó úr fjarlægð og beindi að honum fölvum glyrnunum sem voru eins og kíkjar, en Bilbó gat ekki séð hann. Gollrir var strax mjög undrandi yfir þessu aðskotadýri, því að hann sá strax að þetta var enginn drísill.

Gollrir fór nú út í bátinn sinn og ýtti sér frá hólmanum á meðan Bilbó sat þar á bakkanum alveg ráðalaus við endalok vegar og vits. Skyndilega kom Gollrir að honum og hvíslaði eða hvæsti:

„Hjálpi oss og skvetti oss, minn dýri! Hyggsum vera veislumat, bragðgóður biti handa oss gollrum!“ Og hvenær sem hann sagði gollrum kom hræðilegt kokhljóð úr honum. Af því hafði hann hlotið nafn, þó að hann annars venjulega kallaði sjálfan sig „minn dýri“.

Hobbitinn hoppaði næstum út úr eigin húð, svo mjög brá honum, þegar hann heyrði hvæsið og sá samstundis fölar glyrnurnar glápa á sig.

„Hver ert þú?“ spurði hann og otaði bitvopninu fram fyrir sig.

„Hvað skyldi þetta vera, minn dýri?“ hvíslaði Gollrir, (en það var hans háttur að tala ætíð þannig við sjálfan sig, þar sem hann hafði engan annan til að tala við). En hann var einmitt kominn til að kanna hvað þetta væri, hann var ekki reglulega svangur þá, aðeins forvitinn. Að öðrum kosti hefði hann gripið bráðina fyrst og hvíslað á eftir.

„Ég er Bilbó Baggi og er búinn að týna dvergunum mínum og vitkanum og hef ekki hugmynd hvar ég er staddur, en stendur á sama um það, bara ef ég kemst burt.“

„Kva e’ann me í krummulunni?“ sagði Gollrir og góndi á sverðið sem honum var ekkert um gefið.

„Sverð úr hulduborginni Gondólín!“

„Shississu svei,“ hvæsti Gollrir en mátti strax sjá á framkomu hans að betra væri að fara varlega. „Skyldi hann þá vilja sestast niður og rabba saman, ljúfinn! Vill hann koma og geta gátur?“ Hann gerði sig blíðan á manninn, vildi vita meira um gestinn og hvort líklegt væri að hann bragðaðist vel. „Kannki setjast niður og rabba smálegt við minn dýra. Kannki hann hafa gaman af gátum, kvur veit?“ Hann lagði sig fram um að vera altillegur, að minnsta kosti í bili þangað til hann vissi meira um sverðið og hobbitann og hvort hann væri virkilega aleinn á ferð, hvort hann skyldi vera ætilegur og hvort Gollrir sjálfur væri nógu svangur til að hafa lyst á honum. Gátur voru það eina sem honum datt í hug. Að spyrja gátna og stundum ráða þær, var eini leikurinn sem hann mundi og hafði viðhaft við ýmis undarleg dýr í holum sínum endur fyrir löngu, áður en hann glataði öllum sínum vinum og var hrakinn burt og skreið niður og niður í myrkrið undir fjöllunum.

„Til er ég í það,“ svaraði Bilbó sem líka vildi fá ráðrúm til að komast að einhverju meiru um þetta kvikindi, hvort hann væri virkilega einn, en umfram allt hvort hann væri hættulega grimmur og soltinn eða jafnvel vinur dríslanna.

„Þú skalt þá byrja,“ sagði hann, því að hann hafði engan tíma haft til að upphugsa neina gátu.

Þá hvæsti Gollrir út úr sér:

Það teygir sig hærra en tré,

þótt rótlaust með öllu sé.

Hulið er skógi skeggs,

skömm ef það nokkuð vex.

„Lauflétt,“ sagði Bilbó. „Ætli það sé ekki fjallið?“

„Á það soddan létt með að ráða? Það verður að keppa við oss, minn dýri! Ef minn dýri spyr og það önku svarar, megum við éta það, minn dýri. Ef það spyr oss og við ekki svara, þá við gera það sem það vill, ekki satt? Að vísa veginn út, já!“

„Allt í lagi!“ sagði Bilbó. Hann þorði ekki að andmæla. En nú hrökk gáfnageymirinn á honum af stað og ætlaði að springa í örvæntingarfullri leit að gátum sem gætu forðað honum frá því að verða étinn.

Þrjátíu hvítir hestar

hólum rauðum á.

Njóta þeir þess mest að

makka sína kljá.

Honum datt ekki annað í hug þessa stundina — hann var svo svangur að hann hugsaði ekki um annað en eitthvað að éta. En þetta var afgömul gáta og Gollrir vissi svarið fyrirfram eins og allir gera.

„Það eru auðvitað rauðu kastaníurnar! Rauðir gómarnir!“ hvæsti hann. „Tennur! tennur! minn dýri, en oss hafa barrasta sex.“ Næst kom hann með sína aðra gátu:

Raddlaus veinar hann,

vængjalaus flögrar hann,

tannlaus nagar hann,

munnlaus púar hann.

„Bíddu hálft andartak!“ æpti Bilbó og var að því kominn að ruglast af því að hann gat ekki hugsað um annað en mat. En sem betur fer hafði hann einhvern tímann heyrt eitthvað þessu líkt og sótti aftur í sig vitið og hugsaði svarið. „Vindurinn, auðvitað vindurinn,“ sagði hann og nú varð hann svo ánægður með sig, að hann bjó sjálfur til eina gátu á stundinni. „Hún ætti að koma kvikindinu í bobba,“ hugsaði hann:

Auga í bláu andliti

horfði í auga í grænu andliti.

Þetta auga er eins og mitt auga,

sagði fyrra augað.

Nema lágt lágt niðri,

ekki hátt hátt uppi.

„Sjiss, sjiss, sjiss“ slefaði Gollrir. Hann hafði nú verið svo lengi neðanjarðar að hann var farinn að gleyma mörgu uppi á yfirborðinu. En rétt þegar Bilbó var farinn að vona að kvikindið gæti ekki svarað, rifjuðust upp fyrir Gollri minningar frá því fyrir óra, óra, óra löngu þegar hann bjó hjá ömmu sinni í holu í árbakkanum. „Sjiss, sjiss, minn dýri,“ sagði hann „Sól skín á baldursbrá, ætli ekkí.“

En það var mjög þreytandi fyrir Gollri að ráða svona gátur um hversdagslega hluti ofanjarðar. Þeir minntu hann á gamla daga, þegar hann var ekki eins einmana, ekki eins lævís né andstyggilegur og það kom honum í vont skap. Og það sem verra var, hann fór að finna til svengdar, svo að næst vildi hann reyna eitthvað erfiðara og óræðara.

Það verður ei séð né ásnert,

aldrei heyrt, lyktar ekkert.

Það er í hellum og holum öllum,

handan stjarna og undir fjöllum.

Það er við upphaf og endi,

lífi eyðir sem veifað sé hendi.

En því miður fyrir hann hafði Bilbó áður heyrt einhverja álíka gátu enda umlukti svarið hann hvort eð er á allar hliðar. „Myrkrið!“ sagði hann án þess einu sinni að þurfa að klóra sér í höfðinu eða setja upp hugsanahúfu.

Kista án lama, loks eða lykils,

leynir þó gullnum sjóði.

dembdi hann samstundis á Gollri en aðallega til að vinna tíma til að geta hugsað einhverja miklu þyngri þraut næst. Honum fannst þessi gáta hlálega létt, þótt hann breytti orðalaginu svolítið. En hún varð fjandi snúin fyrir Gollri. Hvað sem hann gretti sig og hvæsti, frussaði og hvíslaði við sjálfan sig gat hann ekki kreist fram svarið.

Eftir góða stund fór Bilbó að verða óþolinmóður. „Jæja, hvað á þetta að verða?“ sagði hann. „Svarið er ekki sjóðandi ketill eins og þú virðist halda af blástrinum sem þú gefur frá þér.“

„Fá oss færi, fá oss tækifæri, minn dýri, sjiss sjiss.“

„Jæja,“ sagði Bilbó eftir að hafa gefið honum heillangan umhugsunarfrest, „hvað er þetta, á ekkert svar að koma við þessu?“

Skyndilega rifjaðist það upp fyrir Gollri þegar hann endur fyrir löngu sem strákur var að ræna hreiður og þegar hann sat undir árbakkanum og kenndi ömmu sinni, já, hvað haldiði, hann kenndi ömmu sinni að sjúga hvað — „Eggsis!“ hvæsti hann. „Eggsis er það!“ Svo spurði hann tafarlaust aftur.

Lifir en aldrei þó andann dregur,

ósköp er hann kuldalegur.

Aldrei er hann þyrstur, ekkert drekkur,

utan um hann þröngur brynjuserkur.

Sjálfum fannst honum raunar eins og Bilbó áður, að þetta væri hræðilega létt gáta, enda gat hann sjálfur varla um annað hugsað. En hann fann enga betri í bili, því að eggjaspurningin hafði komið honum út úr stuði. Þetta átti eftir að verða hræðilegasta kvölin fyrir vesalings Bilbó sem aldrei kom nálægt vatni, ef hann gat nokkuð hjá því komist. Ég býst við að þið vitið svarið fyrirfram eða sjáið það strax í hendi ykkar þar sem þið sitjið í ró og næði heima hjá ykkur og sálarró ykkar er ekki raskað af tilhugsuninni um að verða kannski étin. En þarna sat Bilbó bara gónandi út í loftið, ræskti sig einu sinni eða tvisvar en fann ekkert svar.

Eftir góða stund fór Gollrir að hvæsa og gera sig allan til af eftirvæntingu að fá að éta keppinautinn. „Er það gómsarasætt, minn dýri? Er það svellandi safaríkt? Er það tryllilega tyggilegt?“ og hann fór að mæna gráðugum glyrnum á Bilbó úr myrkrinu.

„Mætti ég biðja um hálft andartak,“ sagði hobbitinn en var farinn að skjálfa af skelfingu. „Ég gaf þér lengra tækifæri rétt áðan.“

„Það verður að svara strax, engin vægð, svara strax!“ sagði Gollrir og byrjaði að klöngrast úr bátnum og upp á eyrina til að hirða Bilbó. En þegar hann stakk löngum fitjugum tánum í vatnsborðið, stökk svolítill smáfiskur upp af hræðslu og lenti á tánum á Bilbó.

„Úff!“ sagði hann, „hvað hann getur verið kaldur og slepjugur!“ og þar með hafði hann svarið. „Fiskur! auðvitað fiskur!“ hrópaði hann. „Það er fiskur!“

Gollrir varð fyrir hræðilegum vonbrigðum. Og Bilbó var fljótur með nýja gátu svo Gollrir varð að skreiðast aftur upp í bátinn til að hugsa.

Enginn fótur lá á einum fæti, tvífótur sat hjá á þrífæti,

en ferfótur fékk sinn skammt.

Hann gat nú varla komið með þessa gátu á óheppilegri tíma, en Bilbó vildi bara vera nógu fljótur til. Kannski var gátan svo flókin, að Gollrir hefði átt í vandræðum með hana á öðrum tíma. En eftir að svarið við síðustu gátunni var fiskur, þá lá nú beint við hver „enginn fótur“ var og eftir það rakti gátan sig sjálf. „Fiskur á einfættu borði og maður sat við borðið á þrífættum stól og ferfættur köttur fékk fiskbita.“ Það var auðvitað svarið og Gollrir var ekki lengi að koma með það. Og nú fannst honum kominn tími til að leggja fram einhverja svakalega erfiða og hryllilega gátu. Og hún var þessi:

Ferlíki þetta étur allt,

blóm og tré, fugla og fé,

nagar járn, japlar stálið kalt,

sverfur harðan stein í mél,

rífur fjöll í ryk og salla,

rústar borgir, kóngar falla.

Vesalings Bilbó sat þarna í myrkrinu og byrjaði á því að rifja upp heiti allra risa og skrímsla sem hann hafði heyrt sagnir af, en engin þeirra komust nokkuð í hálfkvisti við þetta. Hann fann það á sér að svarið lægi allt annars staðar og að hann ætti að vita það, en hann gat ekki komið sér niður á neina hugsun. Svo fór hann að verða dauðhræddur um sjálfan sig og það kann ekki vel að verka á hugarstarfið. Aftur byrjaði Gollrir að mjaka sér út úr bátnum. Hann teygði löppina í vatnið og spyrnti sér upp að bakkanum, en Bilbó gat ekki einu sinni séð glyrnur hans nálgast sig. Hann var algerlega miður sín, tungan límdist við góm og hann ætlaði að veina upp yfir sig: „Meiri tíma! Meiri tíma!“ en í niðurbældum skræk heyrðist ekkert annað en

„Tíma! Tíma!“

Þannig bjargaðist Bilbó af einskærri heppni. Því að auðvitað var gátan um „Tímann.“

Enn einu sinni varð Gollrir fyrir nístandi sárum vonbrigðum svo nú fór hann að verða bálreiður og á sama tíma hundleiður á þessum leik. Og um leið var hann orðinn svo glorhungraður að hann gat ekki beðið lengur. Í þetta skipti fór hann ekki aftur út í bátinn, heldur settist í myrkrinu við hliðina á Bilbó tilbúinn til atlögu. Það var svo hræðilega óþægilegt fyrir hobbitann að hann hætti að geta haft nokkuð vald á hugsunum sínum.



„Það verður að spyrja oss spurninga, dýri minn, jamm, jamm og já. Bara eina gátu enn jamm, jamm,“ sagði Gollrir.

En Bilbó var fyrirmunað að velta upp fyrir sér nokkurri gátu meðan þetta fúla blauta kvikindi sat þarna hjá honum og var meira að segja byrjaður að brýna klærnar og pota í hann.

Hann klóraði sér í höfðinu, hann reyndi að klípa sig, en ekkert dugði, honum kom ekkert í hug.

„Spyrja oss! Spyrja ossumið!“ sagði Gollrir.

Bilbó kleip sig aftur, lamdi sig í hausinn. Hann greip um litla sverðið sitt, þreifaði jafnvel vasa sinn Þar fann hann hringinn sem hann hafði tekið upp af slóð sinni og var búinn að gleyma.

„Hvað er ég með í vasanum?“ sagði hann upphátt. Eiginlega var hann bara að tauta þetta við sjálfan sig, en Gollrir var svo æstur að hann tók það sem gátu og varð hræðilega uppnæmur!

„Ógilt! Ógilt!“ hvæsti hann. „Ekki rétt, minn dýri, má ekki spyrja hvað það hafi í vasanum?“

Bilbó varð þá allt í einu ljóst að hinn hefði tekið þessu sem gátu og þar sem hann fann enga betri gátu til að bera fram, hélt hann fast við spurninguna.

„Hvað er ég með í vasanum?“ spurði hann og brýndi róminn.

„Sjississ,“ hvæsti Gollrir alveg brjálaður. „Ég má þá geta þrisvar, minn dýri, allt þá þrennt er.“

„Jæja, segjum það! Gettu þá!“ sagði Bilbó.

„Höndsina!“ sagði Gollrir.

„Rangt,“ svaraði Bilbó og sem betur fer hafði hann rétt mátulega tekið hendina úr vasa sér. „Gettu aftur!“

„Sjississ,“ hvein í Gollri og var hann nú orðinn æstari en nokkru sinni. Hann fór að telja upp fyrir sér allt sem hann gæti sjálfur haft í vösunum, fiskibein, drísiltennur, blautar skeljar, tjásu úr leðurblökuvæng, skerpistein til að brýna vígtennurnar og allskyns andstyggðarhluti. Og hann reyndi að ímynda sér, hvað annað fólk hefði í vösum sér.

„Hnífur!“ sagði hann loksins.

„Rangt!“ svaraði Bilbó en hann hafði líka sem betur fer fyrir nokkru týnt vasahnífnum sínum. „Síðasta spurningin!“

Nú var Gollrir miklu verr á sig kominn en þegar Bilbó áður lagði fyrir hann gátuna um eggið. Hann hvæsti og puðraði og reri sér fram og aftur í gráðið, stappaði niður fótunum og iðaði og skriðaði. En hann þorði ekki að eyða síðustu spurningunni.

„Komdu með það!“ sagði Bilbó. „Ég bíð!“ Hann lét sem hann væri svo sterkur og óhræddur, en þó sýndist honum enn með öllu óvíst hvernig gátuleiknum myndi ljúka, hvort Gollrir hefði upp á rétta hlutnum eða ekki.

„Tíminn útrunninn!“ sagði hann.

„Snæri, — eða ekkert!“ æpti Gollrir, en það mátti heldur ekki — að koma með tvö svör í einu.

„Bæði vitlaust,“ hrópaði Bilbó og létti ákaflega við. Hann stökk strax á fætur, sneri baki í næsta klettavegg og otaði fram litla sverðinu sínu. Hann vissi að sjálfsögðu að gátuleikur var órofa heilagur og afar forn hefð fyrir honum svo að jafnvel verstu kvikindi þorðu ekki að rjúfa þann eið, ef þau léku hann. En þó fannst honum vissara að treysta ekki þessum slímuga ódámi, svo kynni að fara að hann sviki loforð sín þegar hann ætti úr vöndu að ráða. Hann myndi beita hverskyns undanbrögðum til að losa sig út úr því. Og Bilbó varð líka að viðurkenna að síðasta spurningin hafði ekki verið ósvikin gáta samkvæmt hinum fornu lögum.

Samt réðst Gollrir ekki strax á Bilbó, sá líka sverðið í hendi hans. Hann hreyfði sig ekki, heldur sat eftir skjálfandi og skrollandi. Loks gat Bilbó ekki beðið lengur.

„Jæja, þá,“ sagði hann. „Þá er að því komið að þú efnir loforð þitt. Ég vil komast út. Þú verður að vísa mér leiðina.“

„Sögðusstum við það, minn dýri? Vísa litla andstyggilega Baggsins út, já, já. En kva hefur það í vössanum sínum. Ekksi snæri, minn dýri, og ekksi ekkert. Ó, nei, gollrum!“

„Það skiptir ekki máli lengur,“ sagði Bilbó. „En loforð er loforð.“

„Vondur er það, óþolsinsmóður, minn dýri,“ hvæsti Gollrir. „En það verða bíðsa sig, já það verða. Oss kemst ekki svo straxaralega upp göngin. Oss fyrst sækja sumsaralega hluti sem hjálpa oss, já sækjasta.“

„Jæja, flýttu þér þá!“ sagði Bilbó og þótti í öðru gott að losna við Gollri. Hann grunaði annars að hann væri bara að finna sér tylliástæðu og myndi ekkert snúa við. Hvað var Gollrir líka að tala um? Hvaða gagnlega hluti gat hann svo sem geymt hérna niðri í myrkrinu? En þar hafði hann rangt fyrir sér. Gollrir hugðist raunverulega snúa við. Hann var nú orðinn öskuvondur og ofan í kaupið glorhungraður. Og hann var óttalega ómerkilegt og illt kvikindi og var nú þegar farinn að leggja niður fyrir sér slungin svikabrögð.

Skammt undan landi var hólminn hans, án þess að Bilbó hefði nokkra hugmynd um það og þar geymdi hann í felustað sínum nokkra vesæla draslmuni en þó einn mjög svo dýrmætan hlut, mjög fallegan og mjög furðulegan. Hann átti hring, gullhring, dýrmætt djásn.

„Ammælisgjöfin mín!“ hvíslaði hann að sjálfum sér eins og hann hafði oft gert í þessu myrkri. „Það þarf ég að sækja nú, oss viljum það!“

Hann vildi ná í hringinn því að það var máttarbaugur og hver sem setti hann upp varð ósýnilegur með öllu. Þó mátti greina skuggann af handhafa hans í skjannabjörtu sólskini, en jafnvel þá aðeins titrandi og dauft.

„Ammælisgjöfin mín! Ég fékk hana á ammælisdaginn, minn dýri.“ Þetta var hann vanur að segja við sjálfan sig. En hver gat um það vitað, hvernig Gollrir hefði komist yfir þá gjöf endur fyrir löngu, þegar slíkir hringir enn gátu legið á glámbekk í heiminum. Það var meira að segja alls óvíst að sjálfur sköpuður og dróttinn hringanna sem yfir þeim réði hafi haft hugmynd um það. Fyrst eftir að Gollrir komst yfir hringinn bar hann þennan dýrgrip næstum stöðugt á fingri sér, þangað til honum fór að leiðast það, lét hann síðan í poka sem hann bar innan á sér þangað til hann fór að erta hann í húðinni og nú var hann vanur að fela hann í holu í kletti úti í hólma sínum, og alltaf þurfti hann að vera að skreppa út í hólmann til að skoða hann. En stundum setti hann hringinn líka upp, þegar honum fannst hann ekki lengur geta án hans verið eða ef hann var orðinn mjög, mjög svangur og leiður á því að éta tóman fisk. Þá laumaðist hann upp eftir dimmum göngunum í leit að frávillingsdríslum. Þá leyfði hann sér jafnvel stundum að fara upp í staði þar sem kyndlar loguðu svo að skar í augun, en sjálfur var hann öruggur. Ójá, alveg öruggur. Enginn myndi sjá hann, enginn tæki neitt eftir honum fyrr en hann hefði náð kyrkingstaki á hálsinum á honum. Aðeins nokkrum stundum áður hafði hann einmitt verið með hringinn og veitt lítinn drísilskratta. Hvað ræfillinn hafði veinað og vælt. Hann átti enn eftir eitt eða tvö bein af honum til að naga, en nú langaði hann í eitthvað mýkra undir tönn.

„Alveg öruggur, jahá,“ hvíslaði hann að sjálfum sér. „Það sér oss ekki, eða gerir það nokkuð, minn dýri? Ónei, það gerir það ekki og þessvegna verður asstyggilega sverðið því gagnslaust, já með öllu.“

Þannig voru illyrmislegar ráðagerðir hans, þegar hann hvarf skyndilega frá Bilbó og slabbaði sig aftur út í bátinn og spyrnti sér á honum út á vatnið. Bilbó hélt að hann sæi ekki kvikindið meira. Samt beið hann enn um sinn, því að hann hafði enga hugmynd um, hvernig hann ætti sjálfur að finna sér leið út úr þessum ógöngum.

Skyndilega heyrði hann ægilegan skræk. svo honum rann kalt vatn milli skinns og hörunds. Gollrir var þar bölvandi og veinandi í myrkrinu ekki ýkja langt frá eftir hljóðunum að dæma. Hann var þá úti í eyjunni sinni að róta hér og þar, leitandi og snuðrandi árangurslaust.

„Kvars ers þa? Kvass ers þa,“ heyrði Bilbó hann væla. „Týnt ers þa, týnt, tjónað! Bölvi oss og mölvi oss, djásnið oss er týnt.“

„Hvað gengur eiginlega á ?“ hrópaði Bilbó. „Hefurðu tapað einhverju.“

„Það mákki spyrja oss,“ skrækti Gollrir. „Kemur því onki við, nei, gollrum! Það er týnt, gollrum, gollrum, gollrum!“

„Ég er líka týndur hérna,“ hrópaði Bilbó, „og vildi gjarnan ótýnast aftur. Og það var nú einu sinni ég sem vann gátuleikinn og mundu hverju þú lofaðir. Komdu þessvegna. Komdu og vísaðu mér fyrst leiðina út og svo geturðu haldið áfram að leita að því sem þú týndir. Þó Gollrir væri óendanlega niðurbrotinn og aumur af hljóðunum að dæma, fann Bilbó ekki til mikillar samúðar með honum. Hann grunaði þvert á móti að það sem Gollrir var að bralla gæti varla verið af hinu góða. „Fylgdu mér þá út!“ hrópaði hann!

„Nei, ekki strax, minn dýri!“ svaraði Gollrir. „Oss verð að leita að því týnda, gollrum.“

„En þú fannst aldrei svarið við síðustu spurningunni og ert því bundinn af loforðinu,“ sagði Bilbó.

„Fann ekki svarið!“ sagði Gollrir. Allt í einu heyrðist hann hvæsa út úr myrkrinu. „Jæja, hvað hefur það í vössonum? Oss vill fá að vita það. Það verður að segja oss það fyrst!“

Bilbó sá að vísu í sjálfu sér ekkert á móti því að segja honum til um svarið. Nú hafði Gollrir víst skyndilega dottið á rétta tilgátu einfaldlega af því að hugur hans hafði stöðugt snúist um þennan eina hlut í aldir og hann alltaf verið hræddur um að honum yrði stolið frá sér. En Bilbó var orðinn leiður á allri þessari töf og hamagangi. Þegar allt kom til alls hafði hann unnið leikinn á sæmilega heiðarlegan hátt og undir mikilli áhættu. „Upp á svörum skal geta en ekki gefa,“ sagði hann.

„En þessast var onki réttmæt spurning,“ hvein í Gollri. „Það var onki gáta, minn dýri, ónei.“

Jæja þá, ef þú ert þá bara að tala um venjulegar spurningar,“ hélt Bilbó áfram, „þá varð ég einmitt fyrri til að spyrja þig. Hverju hefurðu týnt? Svaraðu mér því!“

„Hvað heffurða í vössasanum!“ Hvæsið varð nú háværara og hvassara en nokkru sinni fyrr og þegar Bilbó varð litið í áttina þangað sem það kom, brá honum við að sjá tvo litla ljósdepla mæna á sig. Eftir því sem grunsemdirnar fóru að magnast í huga Gollris, fóru eldglyrnur hans að loga fölvum loga.

„Hverju hefurðu týnt?“ endurtók Bilbó spurningu sína.

En nú breyttist glampinn í glyrnum Gollris í grænan logablossa sem nálgaðist óðum. Gollrir var aftur kominn út í bátinn og spyrnti sér æsilega aftur upp að dimmri ströndinni og hann var orðinn svo óður af söknuði og grunsemdum í bringu, að hann bar ekki lengur neinn ótta fyrir sverðinu.

Bilbó gat ekki ímyndað sér hvað hefði reitt þetta vesæla kvikindi svo til reiði, en þóttist sjá að öllu væri lokið og Gollrir ætlaði sér ekkert minna en að myrða hann. Hann varð því fljótari til, sneri sér við og hljóp blindandi aftur upp í dimma ganginn sem hann hafði komið út um en þreifaði sig eftir veggnum með vinstri hendinni.

„Hvað hefurða í vössasanum?“ heyrði hann hvæst fyrir aftan sig og svo skvampið þegar Gollrir stökk úr bátnum. „Já, hvað skyldi ég hafa í vasanum?“ sagði Bilbó við sjálfan sig þar sem hann lafmóður stautaði sig áfram. Hann stakk vinstri hendinni í vasann. Hringurinn var kaldur og það var eins og hann rynni sjálfkrafa upp á leitandi vísifingurinn.

Hvæsið var rétt fyrir aftan hann. Hann sneri sér við og sá í glyrnurnar í Gollri eins og litla græna lampa sem komu þjótandi upp brattann. Viti sínu fjær af hræðslu reyndi Bilbó allt hvað hann gat að herða á sér, en rak skyndilega tána í ójöfnu á gólfinu og féll flatur með sverðið undir sér.

Í einu vetfangi hafði Gollrir náð honum. En áður en Bilbó fengi nokkuð að gert, hvorki náð andanum, risið upp né sveiflað sverðinu, þaut Gollrir framhjá honum, án þess að veita honum minnstu athygli heldur hélt áfram að bölva og hvísla á hlaupunum.

Hvað var hér á seyði? Gollrir sá ágætlega í myrkri. Bilbó gat jafnvel séð aftan frá, hvernig blikið í fölvum augum hans lýsti leiðina framundan. Nú reis hann upp með erfiðismunum og slíðraði sverðið sem farið var að blika dauflega, og svo fylgdi hann varlega á eftir kvikindinu. Það var ekki um annað að ræða. Enga þýðingu hafði að skríða aftur niður að tjörn Gollris. Ef hann hinsvegar elti hann, var hugsanlegt að hann gæti látið kvikindið, þó ómeðvitað væri, vísa sér leiðina út.

„Bölvað sé það! bölvað sé það, bölvað sé það!“ hvæsti Gollrir. „Bölvað sé þetta Bagga! Það er farið. Kva er það með í vössunum? Ó, oss geta, oss geta, minn dýri. Hann hefur fundið það, já hann hlýtur að hafa það. Ammælisgjöfina mín.“

Bilbó sperrti eyrun. Nú var hann fyrst farinn að átta sig á því hvað væri á seyði. Hann herti á sér, kom eins nærri og hann þorði aftan að Gollri sem enn var á harðahlaupum, leit aldrei aftur fyrir sig en skimaði höfði til beggja hliða og sá Bilbó bjarmann af daufu glyrnuljósi hans sveiflast til á veggjunum í göngunum.

„Ammælisgjöfin mín! Bölvað verið það! Hvernig misstum oss það, minn dýri? Jú þannig var það vísst. Á leiðinni hérna niður eftir að við hálsundum þennan ljóta litla skræk. Þannig var það. Bölvað veri það. Það slapp frá oss eftir aldir og ævir. Það er týnt og tapað, gollrum.“

Skyndilega settist Gollrir niður og fór að skæla með blístrandi og skrækjandi kverkhljóðum svo hræðilegt var á að hlýða. Bilbó stansaði líka og þrýsti sér inn að gangaveggnum. Eftir nokkra stund hætti Gollrir að gráta og fór að tala. Hann virtist vera að rökræða við sjálfan sig.

„Það þýðir ekkert að snúa aftur til að leita. Munum ekki alla staðina sem oss komum á. Líka tilgangslaust. Baggið með það í vassasnum sínum. Andstyggilegi snuðrinn hefur fundið það segjum oss.

En við barrasta ímynda oss það barrasta, minn dýri, helber ímyndun. Getum ekki verið vissir fyrr en við grípum andstyggilegu skepnið og vindum það og kreisstum. En það veit ekkert hvað ammælisgjöfin getur gert, ætli það nokkuð? Geymir það bara í vassusunum. Það veit það ekki og kemst ekki langt. Það er villt í myrkrinu, þessi ljóti snuðri. Það veit ekki hvernig það á að komast út. Það sagði það sjálft.

Já, það sagði það, en það er brögðótt. Það segir ekki það sem það veit. Það vildi ekki segja hvað það væri með vassasanum. En það veit það. Það fann leiðina inn, svo það hlýtur að finna leiðina út, jamm. Það er auðvitað á leiðinni að bakkdyrunum. Já að bakkdyrunum, þarna kom það.

En ef dríslarnir grípa það. Þá kemst það ekki langt út, minn dýri.

Sjississ, sjússúss, gollrum! Dríslar! Já, en ef hann er með ammælisgjöfina, dýrmæta Djásnið okkar, þá ná þeir því og finna hvað það getur. Þá er úti allur friður og öryggi, úti um allt, gollrum! Einhver drísillinn setur það upp og enginn sér hann. Hann verður þar en enginn sér hann. Ekki einu sinni skörpustu augu osussar munu taka eftir honum og hann kemur skríðandi brögðóttur og grípur ossið, gollrum, gollrum.

Hættum þá þessu masi, minn dýri og það í hasti. Ef Bagginn hefur farið þá leið verðustum við að vera fljótir og fara að gá. Af stað. Ekki svo langt. Flýtustum oss!“

Og Gollrir stökk upp og lagði af stað í æðibunu. Bilbó hraðaði sér á eftir honum, varlega, en var þó hræddastur við að reka tána í aðra misfellu og skella niður með skarki. Í huga hans þyrlaðist von og undrun. Svo virtist sem hringurinn væri einhverskonar töfrahringur sem gerði hann ósýnilegan! Víst hafði hann heyrt af slíkum hlutum í gömlum sögnum, en hann gat varla trúað því að hann hefði raunverulega fundið slíkan hring af einskærri tilviljun. Samt var það alveg víst. Gollrir hafði með sínum glóandi glyrnum farið framhjá honum, án þess að sjá hann, aðeins metra til hliðar við hann.

Áfram héldu þeir. Gollrir stautandi á undan, hvæsandi og bölvandi. Bilbó á eftir og fór eins hljóðlega og hobbiti framast getur. Brátt komu þeir þangað sem Bilbó hafði einmitt á niðurleiðinni tekið eftir, að margir hliðargangar opnuðust hingað og þangað. Þá heyrði hann að Gollrir byrjaði að telja þá.

„Einn til vinstri, jamm. Einn til hægri, júmm. Tveir til hægri, júmm, júmm. Tveir til vinstri, jamm, jamm.“ Og svona hélt hann áfram og áfram.

Eftir því sem göngunum fjölgaði hægði á honum, og hann fór að skjálfa og skæla. Þegar hann fjarlægðist tjörnina sína hann að verða hræddur og óöruggur með sig. Hér gátu dríslar hvar sem er verið á ferð og nú hafði hann ekki hringinn lengur til að skýla sér. Hann staðnæmdist við lágt hliðarop, vinstra megin við ganginn sem lá upp á við.

„Sjö til hægri, júmm. Sex til vinstri jamm!“ hvíslaði hann. „Hér er það. Hér er leiðin að bakkdyrunum, jamm. Hér eru útgöngin!“

Hann gægðist út en dró sig strax til baka. „Ekki dirfstum oss fara þangað inn, minn dýri, ónei við dirfstums ekki. Dríslar eru þarna niðri. Fullt af dríslum. Oss finnstum lyktina. Sjisssjiss!

Hvað skal ossið þá gera? Bölvist þeir og mölvist! Við verðum bíðast hér, minn dýri, bíða soltinn ögn og sjá til.“

Þeir voru komnir alla leið. Gollrir hafði í raun vísað leiðina, en samt komst Bilbó ekki út! Þarna sat Gollrir í hnipri í miðju opinu og glyrnurnar glömpuðu kaldar í höfði hans sem hann sletti fram og aftur milli hnjánna.

Bilbó þokaði sér aðeins frá veggnum hljóðlegar en mús, en strax virtist Gollrir stífna upp og fara að hnusa og augun urðu græn. Hann hvæsti lágt en ógnandi. Hann gat ekki séð Hobbitann, en nú var hann á verði og gat beitt þeim skilningarvitum sem hann hafði hvesst í myrkrinu, heyrn og lykt. Hann kraup niður á fjóra fætur með flata lófa að gólfinu, þrýsti höfðinu fram með nefið hnusandi næstum niður við steingólfið. Þó aðeins mótaði fyrir honum sem svörtum skugga í bjarmanum frá eigin glyrnum, gat Bilbó séð, eða réttara sagt fundið, að hann var spenntur eins og bogastrengur, tilbúinn að stökkva.

Bilbó hætti næstum að anda og stífnaði sjálfur upp. Hann var örvæntingarfullur. Hann varð að komast burt, út úr þessu hræðilega myrkri, meðan nokkrir kraftar væru eftir. Hann yrði að berjast. Hann yrði að stinga þetta andstyggilega kvikindi, slökkva á glyrnum hans, drepa hann. Kvikindið ætlaði að drepa hann. — Nei, það var ekki drengilegur bardagi. Sjálfur var hann ósýnilegur og Gollrir hafði ekkert sverð. Gollrir hafði í rauninni ekki hótað að drepa hann né gert tilraun til þess enn. Og hann var svo aumkvunarverður, aleinn og glataður. Skyndilegur skilningur, vorkunnsemi þó blandin hryllingi, kom upp í brjósti Bilbós, hann líkt og sá fyrir sér í anda tilveru endalausra tilbreytingarlausra daga án ljóss eða vonar um betra líf, ekkert nema harðan stein, kaldan fisk, sífellt snuðr og tuðr. Allar þessar hugsanir þutu á sekúndubroti um hug hans. En á einu leifturaugnabliki, eins og hann hefði hrifist af nýju afli og einbeitni, stökk hann.

Það var svo sem ekki langt stökk fyrir hvern sem var, en stökk í myrkri, beint yfir hausinn á Gollri tók hann, tvo metra áfram og metra upp á við, án þess að hann vissi það, munaði minnstu að hann höfuðkúpubryti sig á lágu lofti gangsins.

Gollrir reis upp, sperrti sig aftur á bak og þreifaði út í loftið um leið og hobbitinn flaug yfir hann, en of seint, hendurnar gripu í tómt og Bilbó sem kom örugglega niður á styrka fæturna, hljóp á fullri ferð niður nýju göngin. Hann sneri sér ekki einu sinni við til að fylgjast með hvað Gollrir aðhefðist. Í fyrstu fannst honum hann heyra hvæs og bölv rétt fyrir aftan sig, en svo hætti það. En allt í einu kvað við hræðilegur nístandi skrækur fullur af hatri og örvæntingu. Gollrir var búinn að vera. Hann þorði ekki lengra. Hann hafði tapað, misst bráð sína og líka misst eina hlutinn sem honum þótti vænt um, Djásnið sitt góða. Við þetta skelfingarvein var sem hjartað ætlaði að hrökkva úr brjósti Bilbós, en hann lét ekkert lát verða á hlaupunum. Nú heyrði hann dauft eins og af bergmáli en ógnandi, til raddarinnar í fjarska fyrir aftan sig.

„Þjófari, þjófari, þjófari! Bagginsið! Við höturum það, við höturum, við höturum það alla tíð!“

Síðan varð þögn. En hún var eins ógnvænleg fyrir Bilbó. „Úr því að dríslarnir voru svo nálægt að Gollrir fann lyktina af þeim,“ hugsaði hann, „þá hljóta þeir að hafa heyrt skrækina og formælingarnar í honum. Svo ég verð ekki síður nú að fara varlega eða ég get lent í einhverju enn verra.“

Þessi göng voru mjög lág undir loft og aðeins gróft tilhöggin. Ekki var þó erfitt fyrir lágvaxinn hobbita að fara um þau, en verra var að þrátt fyrir alla aðgæslu var hann sífellt að reka vesalings tærnar á sér í andstyggilega nibbótta steina í gólfinu. „Ætli þetta sé nú ekki í það lægsta undir loft fyrir drísla£, að minnsta kosti þá stærri?“ hugsaði Bilbó, en hann vissi ekki að jafnvel þeir stóru, Orkarnir úr fjöllunum, komast ótrúlega hratt eftir lágum göngum, þeir lúta fram og þjóta áfram með lúkurnar næstum niður með jörð.


Göngin höfðu í fyrstu hallað undan fæti en brátt sneru þau upp á við og urðu síðast æði brött. Við það hægði á Bilbó. En loks var brekkan á enda og göngin urðu nokkuð jafnslétt, beygðu fyrir horn og urðu aftur íhöll niður á við, og þegar hann kom neðst í hallann, sá hann bjarma handan við næsta horn af svolítilli birtu. Ekki rautt ljós eins og af báli eða ljóskeri, heldur föl dagsbirta. Þá tók Bilbó aftur á rás.

Hann skaust áfram svo hratt sem fætur toguðu fyrir síðasta hornið og kom skyndilega út í opinn geim, þar sem ljósið virtist, eftir allan þennan tíma í myrkrinu, vera blindandi bjart. Í rauninni var þetta þó aðeins lítil dagskíma sem kom inn um dyragætt, en mikil steinhurð hafði verið dregin frá hliði.

Bilbó deplaði augum í ofbirtunni, og svo skyndilega sá hann dríslana. Þarna var allt morandi af dríslum í fullum herklæðum með brugðin sverð, sem sátu rétt innan við dyrnar og fylgdust með stóreygðir og ganginum fyrir innan. Þeir voru í viðbragðsstöðu, vakandi, viðbúnir öllu.

Þeir sáu hann meira að segja áður en hann sá þá. Já, þeir sáu hann! Hvort það var fyrir slys, eða síðasta bragð hringsins áður en hann tók sér nýjan húsbónda, þá var hann ekki lengur á fingri hans. Dríslarnir ráku upp ánægjulegt bardagaöskur og þustu að honum úr öllum áttum.

Ógn og úrræðaleysi skall yfir Bilbó, næstum eins og bergmál af eymd Gollris. Hann gleymdi alveg að grípa til sverðsins heldur stakk höndum í vasa. Og þarna fann hann hringinn ennþá í vinstri vasa sínum og smeygði honum upp á fingurinn. Dríslarnir snarstönsuðu. Þeir sáu ekki tangur né tetur af honum. Hann var horfinn. Þeir öskruðu helmingi hærra en áður en ekki með sama ánægjuhreimnum.

„Hvar er þetta?“ hrópuðu þeir.

„Förum upp í göngin!“ kölluðu sumir.

„Hingað!“ æptu sumir. „Þangað!“ öskruðu aðrir.

„Gætið dyranna,“ beljaði foringinn.

Blásið var í blístrur, það glamraði í brynjum, gall við í sverðum. Allsstaðar voru dríslar bölvandi og ragnandi, hlaupandi til og frá. Í öllum glundroðanum rákust þeir hver á annan þveran, duttu um koll og urðu bandbrjálaðir. Upp hófst hræðilegur skarkali, írafár og læti.

Bilbó var skelfingu lostinn, en hann hafði vit á að gera sér grein fyrir, hvernig hann ætti að bregðast við þessu. Hann laumaðist bak við stóra ámu, undir drykk handa varðliðinu og tókst þannig að víkja sér undan öllum hamaganginum, sleppa við að lenda í árekstrum, verða troðinn undir til dauðs, eða vera gripinn við áþreifingu.

„Ég verð að komast að dyrunum, verð að komast að dyrunum!“ sagði hann hvað eftir annað við sjálfan sig, en þó leið langur tími áður en hann þorði nokkuð að reyna til við það. En svo herti hann upp hugann og óð af stað út í hræðilegan blindingsleik. Allt var morandi af dríslum hlaupandi til og frá og vesalings litli Hobbitinn varð alltaf að vera að víkja sér undan hingað og þangað, eða honum var velt um koll af drísli sem botnaði ekkert í, hvað hann hefði rekist á. Þá skreið hann í snatri burt á fjórum fótum, og skrapp milli fóta foringjans svo engu mátti muna, stóð upp og hljóp að dyrunum.

Enn var gátt á, en of þröng því að einhver drísillinn hafði ýtt við steinhellunni. Bilbó þreif í af öllu afli, en tókst ekki að hnika henni. Þá ætlaði hann að troða sér út um rifuna. Hann þrýsti sér, en stóð fastur. Þetta var hræðilegt. Hnapparnir á fötum hans höfðu líkt og krækst á steinkantinn við dyrastafinn. Hann gat séð út undir beran himininn. Fyrir utan lágu þrep niður í þrönga dalskoru milli hárra fjalla. Sólin kom framundan skýi og skein björt utan á steinhurðina — en hann komst ekki út.

Allt í einu hrópaði einn drísillinn að innan. „Það er skuggi við dyrnar. Eitthvað á ferli fyrir utan.“

Hjarta Bilbós tók kipp í brjósti hans. Nú þrýsti hann á af öllu afli. Hnapparnir slitnuðu og tættust af í allar áttir. En í gegn komst hann í rifnum frakka og vesti og hentist niður þrepin, tindilfættur eins og geit, meðan kolruglaðir dríslarnir héldu áfram að tína saman alla fallegu látúnshnappana hans sem lágu á víð og dreif á dyraþrepinu.

Auðvitað komu þeir brátt á eftir honum, hóandi og hrópandi og leituðu innan um trén. En dríslum er lítt um það gefið að vera úti í sólinni. Hún gerir þá óstöðuga á fótunum og óskýra í höfðinu. Þeir gátu ekki séð Bilbó meðan hann hafði hringinn á sér og gætti þess að halda sig í skugga trjánna, en hljóðlega. Brátt sneru dríslarnir við nöldrandi og bölvandi til að gæta dyranna. Bilbó var sloppinn.

Загрузка...