X. KAFLI Hlýjar viðtökur

Það birti og hlýnaði þegar kom fram á daginn og þeir flutu áfram eftir ánni. Bráðlega sveigði hún undir bratta fjallsöxl sem reis upp vinstra megin við þá. Þar, undir klettabelti sem minnti einna helst á fjallshamra, rann meginállinn í stríðum streng með bylgjum og boðaföllum. En skyndilega var það yfirstaðið og þeir voru komnir framhjá klettunum. Bakkarnir urðu lægri og á sama tíma fór trjánum fækkandi. Þá opnaðist fyrir Bilbó víðáttumikið útsýni.

Landið breiddi úr sér allt í kringum hann, nærsviðið var þanið út með árflaumnum sem dreifðist og sveimaði í hundruðum krókóttra ála eða hægðist í fenjum og tjörnum með ótal smáeyjum til allra hliða, en þó stöðugt með aflmikilli straumkvísl í miðjunni. Og þarna lengst í fjarska með dökkan kúfinn falinn í tættri skýjahettu gnæfði Fjallið yfir! Hann fékk þó ekki séð undirlöndin sem upp að því lágu í grenndinni í Norðaustri né uppblásnar auðnirnar allt í kring. Ekkert stóð upp úr nema fjallið þar sem það reis einmana og horfði yfir mýrafenin í áttina að skóginum. Fjallið eina! Bilbó var kominn langt að og hafði gengið í gegnum mörg ævintýri til þess að fá að sjá það, og nú leist honum ekki á blikuna.

Hann hlýddi á tal flotálfanna og úr orðum sem þeir létu falla dró hann saman ýmis upplýsingabrot. Hann komst að því að það væri einstæð heppni að hann skyldi svona í fyrsta skipti fá að sjá fjallið og það úr svo mikilli fjarlægð. Þótt fangavistin hefði verið óskemmtileg og stellingar hans óþægilegar (að ekki sé talað um vesalings dvergana þar undir honum í tunnunum) þá hafði hann verið heppnari en hann átti von á. Samræður flotálfanna snerust mest um viðskiptin sem fram fóru eftir vatnaleiðum, um aukna umferð eftir ánni eftir því sem vegasambandinu austan að Myrkviði hrakaði og gekk úr sér af notkunarleysi og um þræturnar milli Vatnamanna og Skógarálfa um viðhald á skipaleið Skógár og viðleguköntum hennar. Landið hafði tekið miklum stakkaskiptum og allt á hinn verri veg síðan dvergarnir bjuggu í Fjallinu en fólk var að mestu búið að gleyma þeim tímum nema sem óljósum og skuggalegum sögusögnum. Miklar breytingar höfðu jafnvel orðið á seinni árum eða frá því að Gandalfur hafði síðast fregnir af því. Í mikilli úrkomu með steypiregni höfðu stórflóð hlaupið í fljótin sem runnu til austurs og skollið á nokkrir jarðskjálftar (sem sumir kenndu drekanum um allt — og sendu honum kveðju með bölvi og heiftarsvip í átt til Fjallsins). Mýrarnar og fenin höfðu líka breiðst út í allar áttir. Vegaslóðar höfðu sokkið og fjöldi riddara og faranda sem ætluðu að komast leiðar sinnar sokkið í djúpar keldur. Jafnvel álfastígurinn gegnum skóginn sem dvergarnir höfðu fylgt samkvæmt ráðum Bjarnar Birnings, var nú orðinn vafasamur og fáfarinn við austurjaðar skógarins. Áin sjálf var nú orðin eina örugga samgönguleiðin út úr Myrkviði norðanverðum austur á sléttuna í skugga Fjallsins og fyrir fljótinu réð konungur Skógarálfanna.

Af öllu þessu mátti ráða að Bilbó hafði ekki verið svo mjög óheppinn, að hann skyldi þó rata á einu leiðina sem fær var. En líka hefði það verið honum nokkur hugarléttir, þar sem hann lá skjálfandi ofan á tunnunum, ef hann hefði vitað að Gandalfi höfðu nú, langt í fjarska, borist fregnir af ferðum þeirra og hafði svo miklar áhyggjur af þeim að hann hafði ákveðið að binda strax enda á önnur erindi sín (en út í þau förum við ekki í þessari sögu). Hann hafði þegar búið sig af stað til leitar að leiðangri Þorins. En um það hafði Bilbó ekki minnstu hugmynd.

Það eina sem hann vissi var, að þessi á virtist ætla að halda áfram endalaust og að hann var glorhungraður og kominn þar ofan í kaupið með afleitt nefkvef. Verst af öllu var þó að honum var ekkert um það gefið hvernig Fjallið eina grágretti sig á móti honum og ógnaði eftir því sem hann kom nær. En nokkru seinna tók áin hinsvegar suðlægari stefnu og Fjallið fjarlægðist aftur, meðan árbakkarnir urðu grýttari og klettóttari, og smám saman söfnuðust allar kvíslar í eina djúpa og þrönga rás sem æddi hvítfyssandi gegnum gljúfur.

Sólin var um það bil að setjast þegar Skógáin bar þá í nýjum sveig til austurs og út í Langavatn. Þar myndaðist víður ós með klettastólpum sem minntu á hlið til beggja handa en grýttar eyrar undir. — Langavatn! Bilbó hafði aldrei ímyndað sér að neitt vatn nema sjálft hafið gæti verið svo stórt. Það var svo breitt að hin gagnstæða strönd virtist ósköp smágerð og fjarlæg og svo langt var það, að norðurendi þess sem vísaði til Fjallsins eina var ekki sýnilegur. Bilbó vissi aðeins af kortum sem hann hafði séð, að lengst í norðri undir blikandi stjörnum Vagnsins myndi Hlaupá renna í vatnið norðan af Dal og ásamt með Skógánni mynduðu þær þessa voldugu uppistöðu, stöðuvatnið, þar sem áður hafði staðið djúpur hamradalur. Í suðurendanum fékk allt þetta volduga vatn loks framrás í háum fossum og streymdi hraðfleygt áfram til ókunnra landa. Í hljóðbærri kvöldkyrru mátti heyra fjarlægan fossniðinn.

Þeir þurftu ekki langt að róa út úr ósi Skógár til að koma að hinni undarlegu borg sem hann hafði heyrt álfana í kjallara konungs tala um. Hún stóð ekki á ströndinni, þó þar væru einnig nokkrir kofar og byggingar, — heldur úti í vatninu, þó varin fyrir straumkasti árinnar af klettanefi, en bak við það myndaðist kyrr flói. Voldug brú gerð úr timbri lá út þangað á gildum stólpum gerðum úr heilum viðarbolum og þar úti hafði borgin verið reist öll úr timbri, þessi iðandi starfsama borg. Hún var þó ekki borg Álfa, heldur reistu hana Menn, sem enn áræddu að búa hér í skugga hins fjarlæga drekafjalls. Þeir stunduðu enn með góðum árangri viðskipti með skipum upp eftir stórfljótinu úr Suðri, en þá þurfti að flytja varninginn landleiðina upp með fossunum til borgar þeirra.

En til forna, á velmektardögunum á Dal í norðri, höfðu borgarbúar verið vellauðugir og voldugir og þá sigldu heilu flotarnir um vatnið og árfarvegina, sumir hlaðnir gulli, aðrir með hópa stríðskappa. Þá voru háð stríð og hetjudáðir drýgðar sem nú voru orðnar einskærar sagnahefðir. Enn mátti sjá fúnandi rústir stærri borga við ströndina þegar sjatnaði í vatninu í þurrkum.

Enn rak fólk lítt minni til þess, þótt sumir héldu áfram að kveða fornar kviður um dvergakonungana undir Fjallinu, þá Þrór og Þráin af ætt Durins, eða um komu drekans og fall höfðingjanna af Dal. Sumar kviðurnar spáðu því líka að Þrór og Þráinn mundu aftur snúa einn góðan veðurdag og þá myndi gull aftur streyma sjálfrennandi í fljótunum út um fjallahliðin og allt landið yrði aftur ómandi af ungum söng og björtum hlátri. En þessar fögru sagnahefðir höfðu annars lítil sem engin áhrif á óumbreytanlegt daglegt líf þeirra.

Strax og tunnuflotinn kom í ljós fyrir höfðann var bátum róið til móts við hann út frá stólpum borgarinnar og flekaræðurunum heilsað með kveðjuhrópum. Þá var köðlum kastað og árar knúðar og bráðlega var flotanum mjakað út úr straumkastinu frá Skógá og hann tekinn í tog út fyrir háa klettahöfðann og inn á víkina við Vatnaborg. Þar var hann lagður við stjóra ekki langt frá brúartaglinu við ströndina. Síðan var til þess ætlast að kaupmenn úr suðurvegi kæmu og tækju sumar tunnurnar til baka en fylltu aðrar með varningi sem aftur skyldi róið með upp eftir fljótinu til Skógarálfanna. En nú varð nokkur bið á því og tunnurnar voru skildar eftir einar á floti meðan álfarnir af flekanum og bátsmennirnir héldu til veislu í Vatnaborg.

En þeim hefði brugðið í brún ef þeir hefðu getað fylgst með því sem var að gerast þar í fjörunni, eftir að þeir voru horfnir frá og skuggar nætur fallnir. Fyrst losaði Bilbó um eina tunnuna, stjakaði henni upp í fjöruna og opnaði hana. Stunur heyrðust að innan og út skreið dvergur nokkur allur úr lagi genginn. Blautur hálmur var í tjásulegu skeggi hans. Hann var svo sár og stirður, svo laminn og lemstraður að hann gat varla staðið á fótunum né vaðið í land úr grunnu fjöruvatninu, til þess eins að leggjast veinandi í fjöruna. Á sér hafði hann sérkennilegan sultarsvip og villigrimmd hunds sem hefði verið hlekkjaður og gleymst í hundakofa í heila viku. Þetta var sjálfur Þorinn, en hann var aðeins þekkjanlegur af gullkeðjunni og af litnum á óhreinni og snjáðri himinblárri hettu hans með sínum sölnaða silfurskúfi. Það leið meira að segja löng stund áður en hann gat yrt á hobbitann hvað þá sýnt honum viðeigandi kurteisi.

„Jæja, hvort ertu þá dauður eða lifandi?“ sagði Bilbó önugur yfir ókurteisinni. En það var ekki sanngjarnt, því að sjálfur hafði hann þó fengið heila máltíð fram yfir alla dvergana og auk þess getað liðkað bæði hendur og fætur, að maður ekki tali um að hann hafði nóg loft. Svo bætti hann við: „Heldurðu að þú sért enn í fangelsi eða viltu verða frjáls? Ef þú vilt fá eitthvað að borða og ef þú vilt endilega halda áfram þessu bjánalega ævintýri — þá er það þitt en ekki mitt mál — en þér væri nær að reyna að sveifla handleggjunum og nudda fæturna og reyna að hjálpa mér við að leysa hina út, meðan enn er tækifæri til þess!“

Auðvitað sá Þorinn að þetta var eina vitið, svo að eftir fáeinar stunur til viðbótar, staulaðist hann á fætur og rétti hobbitanum hjálparhönd eftir bestu getu. Þeir áttu fyrir höndum erfitt og andstyggilegt verk þarna svamlandi í ísköldu vatni í myrkrinu við að finna réttu tunnurnar. Með því að berja þær að utan og kalla, fundu þeir aðeins sex dverga svarafæra. Þeim var hleypt út og hjálpað í land og þar lögðust þeir líka fyrir endilangir, muldrandi og stynjandi. Þeir voru svo blautir og meiddir og krepptir að þeir gátu varla skilið að þeir væru lausir úr prísundinni né þakkað réttilega fyrir frelsunina.

Dvalinn og Balinn virtust verst farnir og var til einskis að biðja þá um að taka til hendi. Bifur og Bógur höfðu ekki kastast eins til í sínum tunnum og voru þurrari, en þeir lögðust líka niður aðgerðalausir. Fjalar og Kjalar sem voru ungir (af Dvergum að vera) og hafði líka verið komið betur fyrir með nógu stoppi í minni tunnum, komu hins vegar út næstum því brosandi út að eyrum með einni eða tveimur skrámum og stirðleika sem fljótt fór af.

„Ég vona bara að ég þurfi aldrei framar að finna lyktina af eplum!“ sagði Fjalar. „Mín tunna var full af eplum. Og það gerir mann brjálaðan að finna eplalyktina stöðugt á sama tíma og maður getur varla hreyft sig, er ískalt og glorhungraður. Ég gæti nú borðað hvað sem er í allri veröldinni — nema ekki epli!“

Með góðfúsri hjálp Fjalars og Kjalars tókst þeim Þorni og Bilbó að lokum að finna alla sem vantaði í hópinn. Vesalings fitukeppurinn hann Vambi var steinsofandi og meðvitundarlaus. Dóri, Nóri, Óri, Óinn og Glói voru gegnblautir og varla lífsmark með þeim. Það varð að bera þá hvern um sig og leggja þá bjargarlausa á ströndina.

„Jæja, hér erum við þá allir mættir!“ sagði Þorinn. „Og ég geri ráð fyrir að við stöndum í mikilli þakkarskuld bæði við heillastjörnu okkar og herra Bagga fyrir björgunina. Því verður ekki á móti mælt að hann á fulla kröfu á þakklæti, þó betra hefði verið ef hann hefði gert okkur ferðina þægilegri. En allt að einu — við erum þér allir ákaflega þjónustufúsir, herra Baggi. Vonandi verðum við af sjálfum okkur ennþá þakklátari þegar við höfum fengið að borða og förum að ná okkur eftir hnjaskið. En á meðan, hvað er næst á dagskrá?“

„Ætli það sé ekki Vatnaborg?“ sagði Bilbó. „Hvað annað ætti það líka að vera?“

Engin önnur hugmynd kom heldur upp. Svo að þeir Þorinn, Fjalar og Kjalar og hobbitinn héldu eftir fjörunni upp að stóru brúnni. Við aðganginn að henni var varðstöð, en verðirnir kærulausir á vaktinni, því að svo langt var um liðið síðan varðstaðan skipti nokkru máli. Þeir voru bestu vinir Skógarálfanna nema stundum skarst í odda milli þeirra vegna tímabundinna deilna um fljótatolla. Aðrar þjóðir voru langt í fjarska og yngra fólkið í borginni var jafnvel farið að draga opinberlega í efa að nokkur dreki hefðist við í Fjallinu og gerðu gys að gráskeggjum og öðrum gamlingjum sem þóttust á unga aldri hafa séð hann fljúga um himininn. Að öllu þessu athuguðu þurfti ekki að koma á óvart þótt verðirnir við brúartaglið væru að drekka og skemmta sér við eldinn í varðkofa sínum og heyrðu ekki höggin þegar dvergarnir voru að skríða úr skjóli né fótatak þessara fjögurra snuðrara. Þeim brá því heldur en ekki í brún þegar Þorinn Eikinskjaldi steig skyndilega inn úr dyrunum.

„Hver ert þú og hvað viltu?“ hrópuðu þeir, stukku á fætur og gripu til vopna sinna.

„Ég er Þorinn, sonur Þráins sonar Þrórs konungs undir Fjalli!“ sagði dvergurinn með þrumandi röddu og sýndist vera hinn mesti kappi, þrátt fyrir gauðrifin föt og upplitaða hettu. Gull glitti um háls honum og mitti. Augun voru dimm og djúp. „Ég er kominn aftur. Ég vil hitta Borgarstjóra ykkar!“

Úr því varð ægilegt uppnám. Sumir þeir fáráðustu hlupu úr varðstöðinni til að gá að því, hvort Fjallið yrði ekki að gulli á einni nóttu og árnar ummynduðust í streymandi glómálm. Varðliðsforinginn steig fram.

„Og hverjir eru þessir?“ spurði hann og benti á Fjalar og Kjalar og Bilbó.

„Tveir eru systursynir mínir,“ svaraði Þorinn. „Þeir eru Fjalar og Kjalar af Durinsætt eins og ég, hinn er herra Baggi sem hefur verið fylgisveinn okkar úr Vestrinu.“

„Ef þið farið með friði, skuluð þið tafarlaust leggja niður öll vopn!“ sagði foringinn.

„Við erum óvopnaðir,“ sagði Þorinn og það var raunar dagsatt, því að Skógarálfarnir höfðu tekið af þeim alla hnífa og þar á meðal líka hið mikla sverð Orkristuna. Bilbó hafði að vísu stutt sverð sitt, falið eins og venjulega undir klæðum en hafði ekki orð á því. „Við þörfnumst engra vopna, þegar við snúum loks við til heimahaga okkar eins og sagt hefur verið til forna. Enda gætum við ekki barist við svo marga. Færið okkur til Borgarstjórans!“

„En hann situr að veislu,“ svaraði varðliðsforinginn.

„Því meiri ástæða er til að færa okkur til hans,“ tók Fjalar fram í, en hann var orðinn leiður á þessum formsatriðum. „Við erum útslitnir og örþreyttir eftir langa ferð og með okkur eru einnig veikir félagar. Láttu þetta nú ganga og eyddu ekki fleiri orðum í það eða Borgarstjórinn kynni síðar að þurfa að eiga nokkur alvarleg orð í eyra við þig.“

„Komið þá með mér,“ sagði foringinn og fylgdi þeim við sjöunda mann yfir brúna gegnum hliðin og inn á markaðstorg borgarinnar. Það reyndist vera víð hringkví með kyrru vatni umkringd háum stólpum sem stóðu undir miklum byggingum og með löngum trébryggjum sem lágu í ótal þrepum og stigum niður að yfirborði vatnsins. Frá einni stórbyggingunni lýsti mikil ljósadýrð og heyrðist margraddaður kliður af mannamáli. Þeir gengu inn um dyrnar, fengu í fyrstu ofbirtu af skærum ljósunum og horfðu eftir langborðum með þéttum röðum veislugesta.



„Ég er Þorinn sonur Þráins sonar Þrórs konungs undir Fjalli! Ég er kominn aftur!“ hrópaði Þorinn með glymjandi röddu frá dyrunum, áður en varðliðsforinginn gat nokkuð sagt.

Allir þustu á fætur. Borgarstjórinn stökk samstundis upp úr sínu stóra forsæti. En engir voru þó jafn undrandi og flotræðarar álfanna sem sátu yst í salnum. Þeir olnboguðu sig fram í gegnum mannmergðina að borði Borgarstjórans og hrópuðu:

„Þetta eru fangar konungs okkar sem hafa sloppið úr haldi, reikandi flækingar sem gátu enga skýringu gefið á ferðum sínum, laumuðust í gegnum skóginn og réðust á okkar fólk!“

„Er það rétt?“ spurði Borgarstjórinn. Satt að segja fannst honum sjálfum sú skýring miklu líklegri heldur en að hér væri um að ræða endurkomu konungsins undir Fjalli, hann efaðist jafnvel um að nokkur slíkur konungur hefði nokkurn tímann verið til.

„Það er rétt að álfakonungurinn hamlaði för okkar og fangelsaði okkur saklausa, á heimferð okkar,“ svaraði Þorinn. „En hvorki lásar né slár fá hindrað þá heimkomu sem kveðið er um í fornum fræðum. Ekki er þessi borg vonandi heldur undir valdi Skógarálfa. Ég ávarpa sjálfan Borgarstjóra þessarar Mannaborgar vatnsins, ekki flotaræðara konungsins.“

Þá kom hik á Borgarstjórann og hann leit til skiptis á þá. Álfakonungurinn var mjög áhrifamikill á þessum slóðum og Borgarstjórinn vildi ekki efna til neins fjandskapar við hann. Þar fyrir utan hafði hann engan áhuga á gömlum söngvum, þar sem hann hugsaði mest um viðskipti og tolla, um vöruflutninga og gull, og því átti hann að þakka stöðu sína. En margir voru á annarri skoðun og því var skjótlega leyst úr málinu án hans atbeina. Þessar fréttir frá salardyrunum breiddust út eins og eldur í sinu um alla borgina. Hróp hófust upp jafnt innan og utan dyra. Fram á bryggjurnar þrömmuðu óteljandi hraðstígir fætur. Sumir fóru að syngja brot úr hinum gömlu söngvum um endurkomu Konungsins undir Fjalli og það hafði síst verri áhrif á þá, þótt það væri sonarsonur Þrórs en ekki Þrór sjálfur sem kominn var. Æ fleiri tóku undir sönginn þangað til hann kvað við hátt og snjallt yfir vatninu.

Konungur undir fjalli,

úthöggvinn í stein.

Konungur silfurlinda,

kemur aftur heim.

Höfuð hans skal krýna,

harpan strengd á ný,

gullnir salir glymja

gleðisöngvum í.

Skógar fjöllin skrýða,

skín yfir landið sól.

Glampar allt í gulli,

grasið vex á hól.

Tifa árnar tærar,

tindrar á vatnafjöld.

Konungur undir Fjalli

tekið hefur völd.

Þannig sungu þeir eða eitthvað í þessa átt, nema kviðan var auðvitað miklu miklu lengri og inn á milli laust upp fagnaðarópum auk þess sem hörpuslagarar og fiðlarar léku undir. Aldrei í minni hinna elstu afa og langafa, hafði þvílík spenna og ákafi gripið um sig í borginni. Skógarálfarnir sem þarna voru staddir undruðust það mjög og urðu smeykir. Þeir höfðu auðvitað ekki minnstu hugmynd um hvernig Þorinn hefði sloppið úr fangelsinu og datt í hug að kannski hefði konungi þeirra orðið á einhver mistök. En af Borgarstjóranum var það að segja að hann sá sér þann kost vænstan að gangast undir hin almennu fagnaðarlæti, að minnsta kosti í bili og láta sem hann tryði því að Þorinn væri sá sem hann þættist vera. Samkvæmt því lét hann honum eftir sitt eigið volduga forsæti og skipaði þeim Fjalari og Kjalari til heiðurssæta sitt hvorum megin við hann. Jafnvel Bilbó fékk pláss við háborðið en engra frekari skýringa var krafist á tilkomu hans — enda var hvergi í söngvum einu sinni minnst á hann einu orði — og það fórst líka fyrir í öllu þessu allsherjar uppnámi.

Brátt voru hinir dvergarnir líka færðir inn í borgina og upp hófust fagnaðarlæti sem áttu sér engan líka. Allir gengust þeir undir læknisskoðun og fengu mat og húsaskjól og var leikið með þá á höndum sér á innilegan og fullnægjandi hátt. Þeir Þorinn og félagar fengu stórt hús til yfirráða, bátar og ræðarar voru þeim innan handar og mannfjöldi mikill flykktist utan að þeim og söng söngva allan liðlangan daginn og ráku upp hrifningaróp ef nokkur dvergur svo mikið sem rak út nefið.

Sumir söngvanna voru gamlir, en aðrir alveg nýir af nálinni og fjölluðu af fullkomnu raunsæi og sannfæringarkrafti um skyndilegan dauðdaga drekans og um allan þann mikla flutning ríkra gjafa sem bærust niður fljótið til Vatnaborgar. Borgarstjórinn stóð hvað mest að baki þeim skáldskap og voru dvergarnir ekkert sérstaklega hrifnir af því, en á sama tíma voru þeir mjög ánægðir með sinn hag og fljótir að safna holdum og styrkjast. Raunar höfðu þeir fyllilega náð sér eftir svo sem eina viku og þá voru þeir farnir að búast glitklæðum hver af sínum lit með skeggin kembd og snurfusuð og gerðust æði stoltir í framgöngu. Útlit og framkoma Þorins var svo stórlát að engu var líkara en að hann hefði þegar unnið konungdæmi sitt aftur og Smeyginn dreki væri þegar höggvinn í spað.

Þá fór líka, eins og hann hafði áður spáð, að álit og hlýhugur dverganna til litla hobbitans fór vaxandi með hverjum deginum sem leið. Nú heyrðist þar í hópi hvorki stuna né hósti gegn honum. Þeir drukku skál hans og klöppuðu honum á bakið og gerðu einhver ósköp með hann. Ekki veitti honum heldur af, því að hann var sjálfur mjög niðurdreginn. Hann fékk ekki máð úr huga sér myndina af fjallinu né hugsunina um drekann hræðilega og auk þess var hann að drepast úr skelfilegu kvefi. Í þrjá daga gerði hann ekkert annað en hnerra og hósta og hann mátti ekki fara út. Og lengi þar á eftir varð hann að takmarka ræður sína í veislum við: „Tabba ybbbur kæflega fybir.“

Á meðan höfðu Skógarálfarnir á flekanum haldið aftur upp Skógána með flutning sinn og varð þá allt í uppnámi í konungshöllinni. Annars hef ég aldrei frétt til fullnustu hvað varð um varðliðsforingjann né ráðsmanninn. En ekki heyrði ég minnst á lyklakippu né tunnur meðan dvergarnir dvöldust í Vatnaborg og einnig skal tekið fram að Bilbó var þá svo varkár, að hann forðaðist að gera sig nokkurn tímann ósýnilegan með hringnum. Samt held ég að meira hafi verið getið í eyðurnar en látið var uppi, því að Bilbó var alltaf dálítið leyndardómsfullur. Svo mikið er víst að álfakonungurinn gat sér nú til um erindi dverganna eða hélt að hann vissi það og hugsaði með sjálfum sér:

„Ojæja! Við sjáum nú hvað setur! Engir fjársjóðir munu sleppa til baka gegnum Myrkvið án þess að ég komi þar eitthvað við sögu. En annars býst ég svo sem við að þeir fái allir hörmulegan endi, sem er alveg maklegt á þá!“ Svo mikið var víst að hann hafði enga trú á því að dvergarnir gætu nokkurn tímann barist við eða drepið dreka eins og Smeyginn. Hitt fannst honum miklu líklegra að þeir myndu reyna að brjótast inn og stela fjársjóðum frá honum eða eitthvað í þá átt — sem ber þess vitni að hann var vitur álfur og vitrari en mennirnir í borginni. Þó hafði hann ekki alveg rétt fyrir sér, eins og við munum sjá að lokum. Hann sendi njósnamenn af stað um strendur Langavatns og svo langt norður á bóginn í áttina að Fjallinu eins og þeir fengust til að fara. Svo beið hann átekta.

Að hálfum mánuði liðnum fór Þorinn að huga að brottför. Hann sá að ekki mætti lengur við svo búið standa. Hann yrði að notfæra sér rétta tímann til að leita sér fulltingis, meðan hrifningin væri enn í hámarki í borginni. Ekki væri vænlegt að láta allt koðna niður við endalausar tafir. Hann gekk á fund Borgarstjórans og borgarráðs hans og tjáði þeim að nú vildi hann og félagar hans hið bráðasta halda af stað í áttina til Fjallsins.

Þá varð Borgarstjórinn í fyrsta skipti steinhissa og eilítið hræddur, fór jafnvel að velta því fyrir sér, hvort Þorinn gæti raunverulega verið afkomandi gömlu konunganna. Hann hafði aldrei ímyndað sér að dvergarnir myndu í rauninni neitt þora að nálgast Smeyginn, heldur hélt hann að þeir væru bara svindlarar og komast myndi upp um þá fyrr eða síðar. En þar hafði hann auðvitað á röngu að standa. Þorinn var að sjálfsögðu réttborinn sonarsonur gamla konungsins undir Fjalli og aldrei er að vita hvað dvergur þorir að gera eða tekur upp á til að ná hefndum eða ná fram rétti sínum.

En í rauninni var Borgarstjóranum ósárt um þó að þeir færu. Það var fokdýrt að halda þeim uppi og við komu þeirra hafði allt borgarlífið farið úr böndum og snúist upp í endalaust hátíðarfrí svo öll viðskipti höfðu stöðvast. „Best að leyfa þeim að fara og heimsækja Smeygin og sjá hvernig hann tekur á móti þeim!“ hugsaði hann. „Ójá, víst er það skiljanlegt Þorinn Þráinssonur Þrórssonar,“ sagði hann upphátt, „að þú viljir fara og gera tilkall til ríkis þíns. Stundin er upp runnin, eins og gamlir kveða. Við munum uppfylla hverja ósk þína þér til atbeina og vænta þakklætis þíns fyrir þegar þú hefur aftur unnið konungdæmi þitt.“

Því bar svo til tíðinda dag einn síðla hausts, þegar kaldir vindar gnauðuðu og laufin voru sem óðast að falla, að þrjú langskip héldu á brott frá Vatnaborg með fjölda ræðara, dvergana og herra Bagga innanborðs ásamt margvíslegum vistum. Klyfjahestar og smáhestar höfðu áður verið sendir af stað landleiðina eftir krókóttum hliðarstígum til að mæta þeim á hinum fyrirfram ákveðna lendingarstað. Borgarstjórinn og allt borgarráðið stóð þar á viðhafnarþrepum ráðhússins sem náðu allt niður að sjónum og óskuðu þeim góðrar ferðar. Gríðarlegur mannsöfnuður söng á bryggjunum og fólk tók undir út um hartnær hvern glugga. Hvítum árunum var dýft taktfast í kaf og freyddi af áratogunum. Stefnan var tekin í norður eftir vatninu í síðasta áfanga hins mikla leiðangurs þeirra. Sá eini sem var algjörlega miður sín var vesalings Bilbó.

Загрузка...