VIII. KAFLI Flugur og kóngulær

Þeir gengu inn eftir skógarstígnum í einfaldri röð. Yfir innganginum var einskonar bogahlið sem vissi inn í myrk göng og var samsett af tveimur voldugum trjám sem hölluðust saman, of gömul og of kaffærð af ývið og þakin skófum til þess að geta sjálf borið nema slitring af svörtu laufi. Stígurinn var þröngur og hlykkjaðist fram og aftur milli trjástofna. Brátt sáu þeir ljósið frá hliðinu aðeins sem litla bjarta holu langt að baki og hljóðin svo bæld, að það var eins og fótatak þeirra væri á dúnpúðum meðan öll trén lutu niður til að hlusta.

Eftir því sem augu þeirra vöndust myrkrinu gátu þeir farið að greina sitthvað til beggja handa í einskonar grænglituðu myrkri. Einstaka sinnum tókst örmjóum sólargeisla að smjúga niður um rof í laufþykknið langt fyrir ofan og jafnvel komast fyrir algera tilviljun hjá því að lokast inni í hnýttum stofnun og greinaflækjum, heldur stingast oddhvass og bjartur niður hjá þeim. Það var þó sjaldan og brátt hætti það alveg.

Í skóginum voru kolsvartir íkornar á kviki. Þegar skarpskyggn og íhugul augu Bilbó vöndust því að sjá hluti, gat hann greint þá skjótast burt af stígnum og fela sig á bak við trjástofna. Þar mátti líka heyra undarleg hljóð, rýt, snögga rykki og flökt í lággróðrinum og undir laufinu sem lá í óendanlega þykkum hrúgum hér og þar á skógarbotninum, en hann gat ekki gert sér grein fyrir frá hverju hljóðin stöfuðu. Það ógeðslegasta sem bar fyrir augu þeirra voru þó kóngulóarvefir: svartir þéttir kóngulvefir með óeðlilega sverum þráðum strengdum milli trjánna, eða í bendu í lægri greinunum beggja vegna. Þó teygðust þræðirnir hvergi þvert yfir stíginn, en þeir félagar gátu ekki gert sér grein fyrir, hvort það var fyrir einhvern galdur eða af einhverri sérstakri ástæðu, að stígurinn hélst hreinn af þessu.

Brátt varð þeim eins hjartanlega illa við skóginn eins og þeir áður höfðu ógeð á jarðgöngum dríslanna. Skógurinn virtist enn ömurlegri af því að á honum virtist engan endi að finna. En þeir áttu engra kosta völ, þeir urðu að halda ferðinni áfram og áfram — sama þó þeir væru orðnir veikir af löngun að sjá sól og himin og þráðu að finna ferskan vindblæ í andlitinu. Hér var engin hreyfing á loftinu undir skógarþekjunni, hér var óendanlega kyrrt, dimmt og loftþungt. Jafnvel dvergarnir fundu fyrir því sem þó voru vanir námugreftri og geta því lifað langalengi án sólarljóss. En þótt hobbitinn vildi gjarnan búa í jarðholu, hefði hann aldrei viljað vera þar innikraminn heilu sumardagana og fannst hér eins og hann væri smámsaman að kafna.

Verstar voru næturnar. Þær voru bik-svartar — og ekki nóg með að þær væru kallaðar bik-svartar heldur voru þær það í raun og veru, svartasta bik. Svo svartar að ekkert varð í rauninni séð. Bilbó reyndi að veifa hendinni framan við nefið á sér en gat ekki séð hana. Þó gátu þeir grillt í einhver augu. Þeir sváfu allir í einni hrúgu þétt saman og skiptust á um að vaka. Þegar Bilbó átti vaktina sá hann glitta í eitthvað í myrkrinu umhverfis og þá fóru stundum að koma í ljós tvö augu, ýmist gul eða rauð eða græn, — sem störðu á hann úr lítilli fjarlægð, en síðan dofnuðu þau og hurfu og tóku að lýsa á öðrum stað. Stundum glitti í þau af greinunum rétt fyrir ofan hann og það fannst honum skelfilegt. En verst var honum þó við hræðileg föl, búlgandi augu. „Skordýraaugu,“ hugsaði hann, „ekki venjuleg dýraaugu, en þó miklu stærri.“

Þó enn væri ekki orðið sérlega kalt, reyndu þeir að kveikja varðeld að næturlagi, en gáfust brátt upp á því. Svo virtist að með því söfnuðu þeir að sér hundruðum og þúsundum augna allt í kringum sig, þó svo að þessi kvikindi, hver sem þau voru, létu þá aldrei sjá bolinn á sér í flikri bálsins. Og það sem var enn verra, að í bjarmanum söfnuðust þúsundir dökkgrárra og svartra fiðrilda saman, á stærð við hendina á þeim, með vængjaslætti og suði fyrir eyrum þeirra. Það gátu þeir ekki þolað og heldur ekki risavaxnar leðurblökur, kolsvartar eins og stromphattar sem drógust að birtunni. Þessvegna gáfust þeir upp á að kynda eldana að næturlagi en sváfu bara í þessu botnlausa og óhugnanlega myrkri.

Á þessu gekk að því er hobbitanum fannst í ár og daga. Og alltaf var hann sársvangur, því að haldið var ákaflega spart á matarbirgðunum. Þannig gekk þetta dag eftir dag og þegar aldrei sá neinn enda á skóginum, vöknuðu áhyggjurnar. Vistirnar myndu ekki endast í það óendanlega, meira að segja voru þær farnar að minnka verulega. Þeir reyndu að skjóta sér íkorna og eyddu mörgum örvum áður en þeim tókst að drepa einn á brautinni. En þegar þeir höfðu steikt hann, reyndist hann hræðilegur á bragðið og þeir skutu ekki fleiri.

Þeir voru líka stöðugt þyrstir því vatnsbirgðirnar voru knappar og allan tímann sem þeir höfðu verið í skóginum urðu þeir ekki varir við neina uppsprettu né læk.

Þangað til dag einn að leiðin lokaðist af rennandi vatni. Þetta var á, nokkuð straumhörð og ekki mjög breið en rann þvert yfir veginn. Hún virtist kolsvört í myrkrinu. Sem betur fer hafði Björn stranglega varað þá við þessari álagaá, annars hefðu þeir vísast drukkið úr henni, af hvaða lit sem hún var og fyllt hálftóma vatnsbelgi sína með vatni úr henni. Áður hafði sýnilega staðið þar trébrú yfir, en hún fúnað og hrunið niður og aðeins stóðu eftir brúarstólpar við bakkann.

Bilbó kraup niður og rýndi fram fyrir sig í myrkrið. Allt í einu hrópaði hann: „Það er bátur við hinn bakkann! Æ, að hann skyldi ekki heldur vera hérna megin!“

„Hvað heldurðu að sé langt í hann?“ spurði Þorinn, því að hann vissi að Bilbó hafði þeirra skarpasta sjón.

„Ekki svo mjög langt. Ég gæti trúað svo sem tólf metrar.“

„Tólf metrar! Ég hefði nú haldið að það væru minnst þrjátíu metrar, en ég sé ekki eins vel og fyrir hundrað árum. En tólf metrar eru í sjálfu sér engu betri en míla. Við getum ekki stokkið yfir þá og við þorum hvorki að vaða strauminn né synda hann.“

„Kann nokkur ykkar að kasta línu?“

„Að hvaða gagni kæmi það? Báturinn er sjálfsagt bundinn, þótt okkur tækist að kasta krækju í hann, sem ég efast um.“

„Ég held ekki að hann sé bundinn,“ sagði Bilbó, „þó ég geti auðvitað ekki verið viss um neitt í dimmunni. En mér virðist að hann hafi aðeins verið dreginn upp í halla á hinum bakkanum, þar sem stígurinn liggur að vatninu.“

„Dóri er sterkastur, en Fjalar yngstur og hefur besta sjón af okkur,“ sagði Þorinn. „Komdu Fjalar og segðu okkur, hvort þú sérð bátinn sem herra Baggi er að tala um.“

Jú, Fjalar þóttist sjá hann og eftir að hann hafði starað lengi á hann til að fá hugmynd um áttina, létu hinir hann fá kaðalstreng. Þeir höfðu raunar margar hankir með sér, en á lengsta spottann festu þeir stóra járnkrækju sem þeir notuðu annars til að festa bakpokaböndin um axlirnar. Fjalar tók við hönkinni, hnitaði henni lengi og vandlega og kastaði yfir ána.

Splass hún lenti í vatninu! „Ekki alveg nógu langt!“ sagði Bilbó og rýndi út í myrkrið. „Tveimur fetum lengra hefði hún lent á bátnum. Reyndu aftur. Ég held að álögin frá vatninu séu ekki nógu sterk til að skaða þig, þó þú snertir blautt reipið.“

Fjalar dró strenginn aftur til sín og tók upp krókinn, en handlék allt varlega. Svo þeytti hann kaðlinum af meiri krafti.

„Varlega nú!“ sagði Bilbó, „það lenti á milli trjánna á bak við bátinn. Dragðu það nú gætilega til þín.“ Fjalar fór sér að engu óðslega, en brátt sagði Bilbó: „Gættu nú að þér! Nú liggur það í bátnum. Við skulum bara vona að krækjan festist.“

Og hún gerði það. Nú stríkkaði á kaðlinum. En það kom ekki að haldi, báturinn haggaðist ekki. Þá kom Kjalar honum til hjálpar og síðan bættust við Óinn og Glóinn. Þeir toguðu og toguðu, og skyndilega hrukku þeir allir við og skullu aftur fyrir sig. En Bilbó var vel á verði, náði taki á reipinu og með trjárenglu tókst honum að hamla gegn litla svarta bátnum þar sem hann skutlaðist yfir ána. „Hjálp!“ hrópaði hann og Balinn kom á rétta augnablikinu til að ná taki á bátnum áður en árstraumurinn reif hann.

„Hann var þá bundinn eftir allt saman,“ sagði hann og horfði á sundurslitna landfesti sem lafði niður af honum hinum megin. „Þetta var vel dregið, piltar mínir og vel kom það sér að okkar kaðall var sterkari en festin.“

„Hver á að fara fyrst yfir?“ spurði Bilbó.

„Ég geri það,“ sagði Þorinn, „og þú kemur með mér og þeir Fjalar og Balinn. Báturinn ber ekki fleiri. Þá koma Kjalar og Óinn og Glóinn og Dóri. Þar næst Óri og Nóri, Bifur og Bógur og síðastir Dvalinn og Vambi.“

„Alltaf er ég látinn ganga af, og mér er ekkert um það,“ sagði Vambi. „Nú er komið að einhverjum öðrum að reka lestina.“

„Þú ættir þá að reyna að megra þig. Svona þungur eins og þú ert, hlýturðu alltaf að verða síðastur þegar farmurinn er minnstur. Vertu ekki alltaf að sífra á móti öllum fyrirmælum, eða þú getur lent illa í því.“

„En báturinn er áralaus. Hvernig getum við þá róið honum yfir að hinum bakkanum?“ spurði hobbitinn.

„Réttið mér aðra kaðalhönk og krók,“ sagði Fjalar og þegar þeir voru búnir að hnýta, kastaði hann því út í myrkrið framundan en miðaði eins hátt og hann gat. Þar sem kaðallinn kom ekki niður til jarðar ályktuðu þeir að hann hefði náð að festast í greinum. „Stígið nú út í bátinn,“ sagði Fjalar, „einn af ykkur ætti að að handstyrkja sig á kaðlinum sem er fastur á trjágrein á hinum bakkanum. Einhver hinna ætti að gæta króksins sem við notuðum fyrst og þegar við erum komnir heilu og höldnu yfir getur hann krækt honum á og þið getið dregið bátinn til baka.“

Með þessu voru allir brátt komnir yfir Álagaána og yfir á hinn bakkann. Síðastir komu Dvalinn sem var þegar búinn að skröltast upp á bakkann með uppgerðan kaðalinn á handleggnum — og Vambi (sínöldrandi) að stíga í land á eftir honum, þegar mikið óhapp kom fyrir. Þeir heyrðu æðandi hófatak nálgast á stígnum framundan. Og út úr rökkrinu birtist skyndilega ímynd fljúgandi hjartardýrs. Það ruddist gegnum dvergahópinn og þeyttist yfir þá. Hátt stökk það og yfir ána í einu stökki. En það komst þó ekki heilt á húfi yfir á hinn bakkann. Þorinn var sá eini sem hafði staðið stöðugur og haldið stillingu sinni. Strax og hann var kominn yfir ána, hafði hann dregið upp boga sinn og lagt ör á streng ef ske kynni að einhver hulinn vörður bátsins birtist. Nú var hann öllu viðbúinn og sendi örskjótt og öruggt skot á hlaupandi dýrið. Þegar það kom niður á hinn bakkann hnaut það við fallið. Myrkrið gleypti það, en þeir heyrðu hófatakið skjótlega hægjast og síðan þagna.

En áður en þeim gæfist tími til að reka upp fagnaðaróp til að hylla skotveiðimanninn, gaf Bilbó frá sér svo hræðilegt vein, að allar vonir um gómsæta bráð gufuðu upp. „Vambi datt í ána! Vambi er að drukkna!“ æpti hann. Því miður var alltof mikið til í því. Vambi hafði aðeins verið búinn að stíga öðrum fæti upp á bakkann, þegar hjörturinn rauk að honum og yfir hann. Hann hafði misst jafnvægið og við það stjakað bátnum frá bakkanum og síðan oltið um koll milli borðstokks og bakka ofan í myrkt vatnið, þar sem hann náði ekki taki á slímugum rótum undan bakkanum. Á meðan sveif báturinn hægt frá og hvarf með straumnum.

Það grillti enn í hettu hans á yfirborði vatnsins þegar þeir hlupu fram á bakkann. Í flýti köstuðu þeir til hans kaðli með krók á. Hann greip um hann og þeir gátu dregið hann upp á bakkann. Hann var að sjálfsögðu holdvotur frá toppi til táar, en það var þó ekki allra verst. Þegar þeir lögðu hann á bakkann var hann steinsofandi og hélt svo föstum höndum um reipið að þeir gátu ekki náð því úr greip hans. Og hann vaknaði ekki, hvað sem þeir gerðu til að vekja hann.

Þar stóðu þeir yfir honum, bölvuðu óheppni sinni og klunnaskap Vamba og hörmuðu missi bátsins, því að nú höfðu þeir engin ráð með að komast til baka yfir ána til að sækja veiðibráðina. Þá heyrðu þeir eins og djúpan lúðrablástur í skóginum og hundgá eins og af veiðihundum í fjarska. Þeir þögnuðu allir og þar sem þeir sátu hljóðir fannst þeim þeir heyra undirgang eins og af mikilli veiðiferð nokkru fyrir norðan stíginn, þótt ekki sæju þeir neitt.

Nú sátu þeir lengi þarna og þorðu sig ekki að hræra. Vambi svaf áfram með bros á rennblautu andlitinu, eins og hann væri nú laus við allar áhyggjur sem áður höfðu kvalið hann. Skyndilega birtust á stígnum fyrir framan þá, nokkur hvít hjartardýr, hind með nokkrum kálfum eins mjallahvít og hjörturinn hafði áður verið svartur. Það lýsti af þeim í skuggunum. Áður en Þorinn gæti hrópað viðvörun höfðu þrír Dverganna stokkið á fætur og skotið örvum sínum af bogunum. Engin þeirra hæfði. Hjartardýrin sneru við og hurfu milli trjánna eins hljóðlátlega og þau höfðu komið og Dvergarnir höfðu skotið örvum sínum til einskis á eftir þeim.

„Hættið! Hættið!“ hrópaði Þorinn. En það var of seint. Upptendraðir Dvergarnir höfðu eytt síðustu örvum sínum og þar með voru bogarnir sem Björn hafði gefið þeim orðnir einskisnýtir.

Hópurinn var ósköp niðurdreginn um kvöldið og drunginn gróf dýpra um sig næstu daga. Þeir voru nú komnir yfir álagastrauminn, en hinum megin við hann hélt stígurinn áfram að hlykkjast sem fyrr og þeir sáu engan mun á skóginum. En ef þeir aðeins hefðu þekkt betur til aðstæðna og dregið réttar ályktanir af veiðihljóðunum og hvítu hjartarhindinni á vegi sínum, þá hefðu þeir mátt skilja að þeir voru loks farnir að nálgast austurjaðarinn, og myndu brátt koma, ef þeir aðeins varðveittu þor sitt og von, í gisnari skóg þar sem sólskinið lýsti aftur.

En þeir höfðu ekki hugmynd um það og á sama tíma voru þeir að sligast undir fargi Vamba, sem þeir urðu að dröslast með eftir því sem þeir best gátu, og skiptast á um það fjórir í einu, meðan hinir deildu farangrinum milli sín. Ef birgðirnar hefðu ekki verið orðnar miklu rýrari nú en í byrjun, hefði þeim líklega aldrei tekist þetta. En lítið gagn var að sofandi og síbroandi Vamba í staðinn fyrir klyfjar af matarbirgðum, hvað þungar sem þær væru. Og eftir nokkra daga var svo komið að allt var uppurið, hreinlega ekkert eftir til að éta eða drekka. Ekkert heilnæmt gátu þeir heldur fundið í skóginum, ekkert nema sveppi og undarleg grös með fölu laufi og heldur óskemmtilegum daun.

Eftir fjögurra daga gang frá álagaánni komu þeir í einhvern hluta skógarins sem var að mestu vaxinn beykitrjám. Í fyrstu líkaði þeim vel við þessa breytingu því að hér var enginn undirgróður og dimman því ekki eins djúp. Í glýjunni var sem kviknaði grænleit ljósmóða í kringum þá og sumsstaðar gátu þeir nú séð talsvert út frá stígnum til beggja hliða. En í þessari skímu sáu þeir svo sem ekkert nema endalausar raðir af gráum trjábolum líkastar súlum í voldugum rökkursal. Hér gætti svolítils andblæs með hvin sem þó var dapurlegur. Fáein laufblöð svifu skrjáfandi niður og minntu á, að utan skógarins væri farið að hausta. Þeir óðu og sukku í þykka bunka af visnu laufi óteljandi fyrri hausta sem slæddist yfir vegarkantinn frá dumbrauðri ábreiðu skógarins.



Áfram hélt Vambi að sofa og þeir þreyttust mjög af að bera hann. Öðru hvoru heyrðu þeir órólegan hlátur, stundum söng í fjarsknuum. Það var hlátur fagurmildra radda en ekki grófur hlátur drísla, söngurinn unaðslegur en hljómaði þó draugalega og annarlega og hann hressti þá ekki við. Þeir vildu bara hraða sér burt frá þessum stað með öllum þeim kröftum sem þeir enn áttu eftir.

Tveimur dögum síðar fór að halla undan fæti og þeir komu niður í dal sem var næstum barmafullur af voldugum eikum.

„Er enginn endir á þessum bölvaða skógi?“ sagði Þorinn. „Einhver ætti að klifra upp í tré og sjá hvort hann getur ekki stungið höfðinu upp úr laufþekjunni og fengið útsýn yfir skóginn. Best er að velja hæsta tréð sem slútir yfir veginn.“

Auðvitað þýddi „einhver“ ekkert nema Bilbó. Hann var sjálfkjörinn, því að tréklifrarinn yrði að stinga höfðinu upp úr hæstu laufþekjunni og þá yrði hann að vera nógu léttur svo að efstu og grennstu greinarnar gætu borið hann. Vesalings herra Baggi hafði nú aldrei fengið mikla þjálfun í trjáklifri, en dvergarnir hófu hann fyrst upp á lægstu greinar voldugrar eikar sem óx beint upp af vegarkantinum og síðan varð hann að bjarga sér sjálfur eftir bestu getu. Hann klöngraðist upp gegnum flækta sprota, fékk hvað eftir annað á ann og varð grænn og grómtekinn af gömlum berki á gildum stofnum. Oftar en einu sinni rann hann til en tókst að verjast falli á síðustu stundu. Loksins eftir mikla hrellingu á erfiðum stað, þar sem hann fékk ekki handfesti í neinar þægilegar greinar, nálgaðist hann toppinn. En alltaf hafði hann áhyggjur af því, hvort kannski væru kóngulær í trénu og því næst hvernig hann ætti að komast niður aftur (nema með því að hrapa).

Að lokum tókst honum að stinga hausnum upp úr laufþekjunni og fann þar í raun og veru nokkrar kóngulær. En þær voru aðeins litlar og venjulegar og auðséð að þær voru á höttunum eftir ákveðnum fiðrildum. Bilbó næstum blindaðist af birtunni. Hann heyrði til dverganna sem hrópuðu til hans langt að neðan, en gat engu svarað, aðeins ríghaldið sér og deplað augunum. Sólin skein svo skær að hann fékk ofbirtu í augun. Þegar hann hafði jafnað sig á því, sá hann allt í kringum sig heilt haf af grænu laufi sem vindurinn gáraði líkast haföldu og allsstaðar voru hundruð fiðrilda á sveimi. Ég býst nú við að þetta hafi þá verið „purpurakeisarinn,“ sem sækir í toppinn á eikartrjám, nema sá var munurinn að þessi fiðrildi voru alls ekki purpuralit, heldur dökk dökk flauelssvört, alveg einlit.

Hann fylgdist lengi með „svörtu keisurunum“ og naut þess að finna goluna í hárinu og á andlitinu, en að lokum minntu hróp dverganna, sem allir voru eins og á nálum, hann á raunverulegt hlutverk hans. En árangur af þeirri könnunarferð varð ekki mikill. Hann gat gónt svo mikið sem hann vildi, en hann sá hvergi út yfir trjábreiðuna og laufþakið í allar áttir. Hjarta hans sem hafði fagnað því að sjá sólina og finna vindinn, seig aftur niður í buxurnar. Hann fengi engan mat þegar hann sneri aftur niður.

Í rauninni voru þeir, eins og ég áður minntist á, ekki svo ýkja langt frá jaðri skógarins. Ef Bilbó hefði bara gert sér grein fyrir því, þá stóð þetta tré sem hann hafði klifið og var í sjálfu sér mjög hátt, neðst í djúpum katli, svo að þaðan sem hann sat í toppnum á því, virtust ennþá stærri tré þenjast út allt um kring, eins og upp að barminum á stórri skál og því var ekki við því að búast að hann gæti séð út yfir skóginn. Þannig lét hann blekkjast og klifraði örvæntingarfullur aftur niður úr trénu. Hann kom niður á jörðina allur rispaður, núinn og aumur og varð aftur næstum blindur í myrkrinu. Og við lýsingu hans á aðstæðum urðu hinir brátt jafn vonlausir.

„Skógurinn teygist endalaust áfram og áfram og áfram í allar áttir! Hvað eigum við nú til bragðs að taka? Og hvaða gagn var líka að því að senda hobbita upp!“ hrópuðu þeir eins og þetta væri allt Bilbó að kenna. Þeir hirtu ekki grænan túskilding um fiðrildin, og brugðust aldrei að verri við en þegar hann sagði þeim frá dásamlega vindblástrinum uppi á himninum. Sjálfir voru þeir alltof þungir til að geta klifrað upp og notið hans.

Þá um kvöldið kroppuðu þeir síðustu bita og brauðmola sem þeir áttu. Og morguninn eftir var það fyrsta sem þeir tóku eftir, að þeir voru glorhungraðir og þarnæst að það var farið að rigna og hér og þar duttu dropasletturnar þungt á skógarbotninum. En það var aðeins til að minna þá á að þeir voru líka skrælþyrstir, án þess að fá nokkuð úr því bætt. Maður getur ekki svalað hræðilegum þorsta með því að standa undir risavaxinni eik og bíða eftir því að dropi af laufi hennar falli af tilviljun á tunguna. Eini ljósi punkturinn í tilverunni kom óvænt frá Vamba.

Hann vaknaði skyndilega upp af dásvefninum, settist upp og klóraði sér í kollinum. Þegar hann kom til sjálfs sín, hafði hann ekki hugmynd um hvar hann var niður kominn, né hvers vegna hann var svona svangur. Hann hafði steingleymt öllu sem borið hafði við síðan þeir lögðu upp í leiðangurinn á einum maímorgni fyrir löngu. Það síðasta sem hann mundi var veislan í húsi hobbitans, og þeir áttu í hreinustu vandræðum með að fá hann til að trúa öllum þeim ævintýrum sem þeir höfðu síðan ratað í.

En þegar hann heyrði að ekkert væri eftir matarkyns, settist hann niður og fór að skæla, en hann var ósköp linur og óstöðugur á fótunum. „Til hvers í ósköpunum var ég þá að vakna!“ veinaði hann. „Og mig sem dreymdi svo fagurlega. Mér þótti sem ég væri á gangi í skógi, sem var raunar líkur þessum skógi, nema hvað hann var allur upplýstur af kyndlum á trjánum, lömpum sem sveifluðust á greinum og bálköstum á jörðinni. Þar stóð yfir mikil veisla sem skyldi vara að eilífu. Í öndvegi sat skógarkonungur með laufkórónu og var sungið glaðlega og ég gæti ekki talið upp né lýst öllu því góðgæti sem þar var á boðstólum til matar og drykkjar.“

„Það er mesti óþarfi,“ sagði Þorinn. „Ég skal bara segja þér að ef þú getur ekki um annað talað en mat, væri þér betra að þegja. Við höfum fengið meira en nóg af þér eins og þú ert. Ef þú hefðir ekki vaknað upp, hefðum við bara skilið þig eftir í skóginum í þínum bjánalegu draumum. Það er ekkert gaman að þurfa að burðast með svona flykki eins og þig, þó við höfum vikum saman verið vannærðir.“

Þeir áttu nú einskis annars úrkosta en herða ólina um tóman kvið, axla galtóma vatnsbelgi og birgðaílát og staulast áfram eftir veginum, án þess að eygja nokkra von um að komast á leiðarenda áður en þeir einfaldlega legðust niður og dæju úr hungri. Þannig reikuðu þeir áfram allan daginn, siluðust áfram kraftlitlir, en Vambi hélt áfram að vola og væla um það að fæturnir gætu ekki borið hann og hann vildi bara leggjast niður og halda áfram að sofa.

„Nei, þú átt ekkert með að gera það!“ sögðu hinir. „Nú verða bífurnar á þér að bera sinn búk, við erum búnir að bera þig nógu lengi.“

Samt þverneitaði hann skyndilega að fara fetinu lengra og fleygði sér til jarðar. „Haldiði sjálfir áfram, ef þið viljið,“ sagði hann. „Ég ætla bara að sofna og láta mig dreyma um mat, úr því ég fæ hann ekki öðru vísi. Ég vona að ég vakni aldrei aftur.“

En þá gerðist það að Balinn, sem hafði farið fremstur, hrópaði upp yfir sig: „Hvað var nú þetta? Mér sýndist ég sjá blika á ljós í skóginum.“

Allir fóru að gá og þeim virtist sem þeir sæju í nokkurri fjarlægð rautt glit af stöku ljósi og síðan var eins og kviknaði út frá því á fleiri ljósum. Nú reis jafnvel Vambi á fætur og þeir hröðuðu sér áfram eins og þeim stæði alveg á sama þó þarna væru tröll eða dríslar á ferð. Ljósið var framundan þeim, eilítið vinstra megin við stíginn og þegar þeir komu til móts við það sáu þeir greinilegar að blys og eldar loguðu þar undir trjánum, góðan spöl utan við stíginn.

„Það er engu líkara en draumar mínir séu að rætast,“ stundi Vambi upp þar sem hann skakklappaðist lafmóður fyrir aftan þá. Hann vildi helst æða beint inn í skóginn að ljósunum. En hinir voru ekki búnir að gleyma aðvörunum vitkans og Bjarnar.

„Slík veisla væri nú til lítils, ef við kæmumst aldrei lifandi til baka,“ sagði Þorinn.

„En án veislufanga tórum við ekki mikið lengur,“ sagði Vambi og Bilbó var hjartanlega sammála honum. Svo þrefuðu þeir lengi fram og aftur um þetta, þangað til þeir urðu að lokum ásáttir um að senda tvo njósnara saman til að laumast nær eldunum og kanna þá nánar. En svo gátu þeir heldur ekki komið sér saman um það, hverjir ættu að fara. Engan langaði til að taka þá áhættu að týnast og finna vini sína ekki aftur. Loks ákváðu þeir, þvert ofan í allar viðvaranir að láta sultinn taka völdin, ásamt sælukenndum lýsingum Vamba á öllu því lostæti sem þar væri að finna samkvæmt draumi hans af skógarveislunni. Svo þeir viku allir saman út af stígnum og dembdu sér inn í skóginn.

Eftir að þeir höfðu skreiðst og skjökt heillengi í áttina að ljósinu, gægðust þeir skyndilega milli trjábola og sáu inn í rjóður þar sem allmörg tré höfðu verið rudd og völlur sléttaður. Fjöldi fólks var þar á ferli, og virtust það vera álfar í grænum og brúnum búningum er sátu í hring á bekkjum sem gerðir voru úr aflimuðum trjábolum. Í miðjunni var heilmikið bál og blys voru fest á nokkur tré allt í kring. En það dásamlegasta af öllu: Þeir voru allir að éta og drekka, hlæjandi af hjartans lyst.

Steikarilmurinn af kjötinu var svo heillandi, að þeir réðu ekki við sig, — án þess að ráðfæra sig frekar hver við annan, ruddust þeir allir fram í einu með það eitt að leiðarljósi að sníkja sér einhvern mat. En ekki var sá fyrsti fyrr kominn fram í rjóðrið en öll ljósin slokknuðu eins og fyrir galdur. Einhver sparkaði í bálköstinn og eldurinn rauk upp líkt og flugeldur í glitrandi gneistaflugi og hvarf. Þar með voru þeir algjörlega villtir í ljósvana myrkri og gátu ekki einu sinni fundið hver annan, að minnsta kosti ekki fyrst í stað. Þannig ráfuðu þeir ráðlausir í myrkrinu, duttu um trjáboli, skullu beint á tré, hrópandi og kallandi svo að þeir hlutu að hafa vakið allt lifandi í skóginum í margra mílna fjarlægð. Loks tókst þeim að hóa sig saman, draga sig í hóp og telja með handsnertingu. En þá höfðu þeir auðvitað algjörlega tapað áttum og höfðu ekki hugmynd um hvar stígurinn ætti að vera. Þar með voru þeir rammvilltir, að minnsta kosti til næsta morguns.

Þeir áttu því einskis annars úrkosta en að búa um sig til næturinnar þar sem þeir voru niður komnir. Þeir þorðu ekki einu sinni að reyna að leita að matarafgöngum af ótta við að skiljast aftur að. En ekki höfðu þeir lengi legið, þó Bilbó væri um það bil að lognast út af, þegar Dóri sem var á vakt, sagði í háværu hvísli:

„Ljósin eru aftur að kvikna þarna yfirfrá og miklu fleiri en áður.“

Upp ruku þeir allir. Og mikið rétt, þarna sáu þeir, ekki langt undan, tugi blikandi ljósa og þeir heyrðu greinilega raddir og hlátrasköll. Nú skriðu þeir hægt í áttina þangað og í halarófu þar sem hver hélt snertingu við þann næsta á undan. Þegar þeir nálguðust sagði Þorinn: „Nú megum við ekki flana fram í fljótræði! Enginn má hreyfa sig né koma úr felum, fyrr en ég segi. Ég ætla fyrst að senda herra Bagga einan fram til að tala við þá. Þeir ættu ekki að verða hræddir við hann — („En hvað, ef ég er hræddur við þá?“ hugsaði Bilbó) — ég vona að minnsta kosti að þeir fari ekkert að misþyrma honum.“

Þegar þeir komu í bjarmann, otuðu þeir Bilbó skyndilega fram. Áður en hann hefði tíma til að setja á sig hringinn, rambaði hann inn í skerandi birtu eldsins og blysanna. En það kom ekki að haldi. Öll ljósin voru samstundis slökkt og við tók algjört myrkur.

Hafi áður verið erfitt fyrir þá að finna hvern annan, var það helmingi verra nú. Og nú fór svo illa að þeir gátu með engu móti fundið hobbitann. Þeir héldu fyrst að hann væri þar en við talningu komust þeir aldrei hærra en í þrettán. Þeir hrópuðu og kölluðu: Bilbó Baggi! Hobbiti! Bölvaður hobbitinn þinn! Hæ, hobbiti, farðu fjandans til, hvar ertu?“ og annað í þeim dúr, en þeir fengu ekkert svar.

Þegar þeir voru alveg að því komnir að gefast upp, hnaut Dóri af algjörri tilviljun um hann. Hann datt um koll yfir eitthvað sem hann hélt að væri trjábútur en komst að því að þar lá hobbitinn í hnipri og steinsvaf. Það þurfti að skekja hann til að vekja hann, og hann var hreint ekkert ánægður yfir því að mega ekki fá að sofa í friði.

„Mig dreymdi svo undursamlegan draum,“ muldraði hann, „ég var að háma í mig svo dásamlegan veislukost.“

„Skelfing er að vita þetta! Hann er þá orðinn eins og Vambi,“ sögðu þeir. „Blessaður vertu ekki að þvæla þetta um drauma þína. Draumaveislur koma ekki að neinu gagni og við getum ekki tekið þátt í þeim.“

„Þær eru þó það besta sem fáanlegt er á þessum andstyggðar stað,“ muldraði hann um leið og hann lagðist niður hjá dvergunum og reyndi að sofna á ný og komast aftur í draumaveisluna sína.

Ekki var þó ljósaganginum í skóginum enn lokið. Síðar þegar skammt lifði nætur, kom Kjalar, sem þá var á vakt til þeirra og sagði:

„Það er hreinasta ljósadýrð skammt hér frá, hundruð blysa og ótal útibál sem virtust kvikna skyndilega eins og fyrir galdur. Og heyrið bara sönginn og hörpusláttinn!“

Þeir lágu og hlýddu á um sinn, svo gátu þeir ekki lengur staðist freistinguna að færa sig nær og reyna enn einu sinni að fá hjálp. Þeir risu enn á fætur og í þetta skipti varð árangurinn lang verstur. Veislan sem nú blasti við augum þeirra var langtum stærri og glæsilegri en hinar sem þeir höfðu áður séð. Og hátt í öndvegi yfir veisluborðum sat skógarkonungur með laufkórónu á gullnu hári, áþekkur því sem Vambi hafði lýst úr draumi sínum. Álfafólkið lét skálar ganga á milli sín og rétti þær yfir eldana, sumir léku á hörpu, margir sungu við raust. Gljáandi hár þeirra var fléttað blómum, grænir og hvítir gimsteinar glitruðu í hálskrögum þeirra og mittisbeltum. Andlit þeirra og söngvar voru þrungin gáska og gleði. Hátt sungu þeir, skært og fagurlega og þá steig Þorinn allt í einu fram mitt á meðal þeirra.

Dauðaþögn skall á í miðju orði. Það slokknaði á öllum ljósum, eldarnir ruku upp í svörtum reyk. Aska og glóð kom í augu dverganna og skógurinn glumdi aftur við af gauragangi þeirra og ópum.

Bilbó fannst hann hlaupa hring eftir hring (þó var hann ekki alveg viss um það) og kalla og hrópa: „Dóri, Nóri, Óri, Óinn, Glóinn, Fjalar Kjalar, Vambi, Bifur, Bógur, Dvalinn, Balinn, Þorinn Eikinskjaldi,“ en allir voru þeir jafn sjónlausir og skynlausir og héldu uppi sömu hrópunum (nema einstaka sinnum hrópuðu þeir líka „Bilbó!“ inn á milli). En hróp hinna urðu æ fjarlægari og daufari, og þó að honum fyndist í bili að hljóð þeirra breyttust í vein og skerandi neyðaróp í fjarska, dóu þau að lokum öll út og hann var skilinn eftir einn í algjörri þögn og myrkri.

Þetta var nú það alversta sem Bilbó hafði nokkurn tímann komist í. En brátt gerði hann sér grein fyrir, að tilgangslaust væri að aðhafast nokkuð fyrr en dagaði með örlítilli skímu. Það hefði ekkert upp á sig að vera alltaf að ana þetta hingað og þangað út í myrkrið og þreyta sig án minnstu vonar um að fá nokkuð í svanginn til morgunmatar að hressa sig á. Svo hann settist bara niður og studdi baki við trjábol og fór — og það ekki í síðasta sinn — að hugsa til sinnar órafjarlægu hobbitaholu með unaðslega matarbúrinu sínu. Hann féll í djúpa hugleiðslu um svínafleskju og egg og ristað brauð með smjöri, þegar honum fannst eitthvað snerta sig. Einhverskonar sterkt og slímugt band kom við vinstri hönd hans og þegar hann ætlaði að rísa upp, varð hann þess var að þessu sama efni hafði verið undið utan um fætur hans, svo að í stað þess að standa upp, féll hann um koll.

Stór kónguló sem hafði verið sem óðast að færa hann í fjötra meðan hann svaf, kom nú aftan að honum og greip hann. Hann sá aðeins glyrnurnar í ófreskjunni, en fann fyrir loðnum löppunum þegar hún var að bisa við að sívinda ógeðslegum spunaþræðinum um hann. Sem betur fer hafði hann komist til vitundar í tæka tíð. En tæpara mátti það ekki standa. Brátt hefði hann ekki getað hreyft legg né lið. Þar með hófst örvæntingarfull barátta hans við að reyna að losa sig. Fyrst lamdi hann skelluna með berum hnúunum — hún ætlaði víst að spúa í hann eitri til að róa hann, líkt og venjulegar kóngulær gera við flugur — en þá mundi hann allt í einu eftir sverði sínu og brá því á loft. Við það hörfaði kóngulóin sem snöggvast undan, og það gaf honum í skyndi tækifæri til að skera böndin af fótunum. Þá var komið að honum að ráðast til atlögu. Kónglan var því ekki vön, að fórnarlömb hennar bæru slík varnartæki sér við síðu, því að annars hefði hún líklega dregið sig skjótar í hlé. En Bilbó réðst tafarlaust á hana, áður en hún gæti skroppið í hvarf og stakk hana með sverðinu beint í glyrnurnar. Hún varð þá sem óð og hljóp og dansaði hátt í loft upp og glennti út fæturna í hræðilegum rykkjum, þar til hann gerði út af við hana með öðru sverðalagi. Þá valt hann sjálfur um koll og vissi ekki meira í þennan heim né annan.

Vissulega umlukti rökkurgrámi skógarins hann sem áður, þegar hann kom til sjálfs sín. Kóngurvofan lá dauð við hlið hans og sverðsblað hans var atað svörtu kámi. Einhvern veginn hafði dráp risakóngulóarinnar ákaflega mikil áhrif á herra Bagga. Þarna hafði hann upp á eigin spýtur, án hjálpar vitkans eða dverganna eða fyrir nokkurs annars atbeina, ráðið niðurlögum þessa ferlíkis. Honum fannst hann vera orðinn gjörbreyttur, miklu kröftugri og djarfari en áður og það þó hann væri á fastandi maga, og svo þerraði hann sverð sitt á grasinu og stakk því aftur í slíðrin.

„Ég vil nú gefa þér nafn,“ sagði hann við sverðið, „ég nefni þig Sting.“

Að því búnu fór hann að kanna aðstæður. Skógurinn var ískyggilegur og þögull, en hann varð umfram allt að leita að vinum sínum, og það var ólíklegt að þeir hefðu farið langt, nema álfarnir hefðu tekið þá höndum (eða eitthvað verra). Nú fannst Bilbó varasamt að vera með hróp og háreysti, heldur stóð hann lengi og velti því fyrir sér í hvaða átt vegurinn væri og í hvaða átt hann ætti að leita að dvergunum.

„Ó, að við skyldum ekki hlíta ráðum Bjarnar og Gandalfs!“ kveinaði hann með sjálfum sér. Það eru meiri vandræðin sem við höfum komið okkur í! Sagði ég við? Ég vildi óska að ég gæti sagt við, það er svo ömurlegt að vera svona aleinn.“

Að lokum giskaði hann eftir bestu getu á, hvaðan neyðarópin hefðu komið fyrr um nóttina — og af einskærri heppni (sem hann hafði vænan skammt af), rambaði hann næstum rétt á það, eins og þið munuð sjá. Eftir að hafa tekið af skarið læddist hann af stað eins hljóðlega og hann gat. Hobbitar eru meistarar í að hafa lágt um sig, einkum í skógum, eins og ég hef áður sagt ykkur. En þar að auki setti Bilbó hringinn á sig, áður en hann lagði af stað. Því gátu kóngulærnar hvorki heyrt hann né séð, þegar hann nálgaðist þær.

Hann hafði laumast hljóðlega áfram dágóðan spöl, þegar hann varð var við svo þéttan og svartan skugga fyrir framan sig, að hann sýndist jafnvel svartur í myrkri skógarins, eins og gleymst hefði að þurrka upp svolitla klessu af sjálfu miðnættinu. Þegar nær kom, sá hann að þetta voru spunahnútar kóngulóar þar sem einum þræðinum var brugðið yfir hinn og þeir flæktir saman fyrir neðan. Skyndilega sá hann einnig að þar sátu kóngulær, risavaxnar og hryllilegar, í greinum fyrir ofan hann og þó hann hefði hringinn skalf hann af ótta við að þær yrðu sín varar. Hann staðnæmdist bak við tré og fylgdist með um stund, og þá allt í einu í þögninni og kyrrðinni í skóginum varð hann þess áskynja að þessar ógeðslegu skepnur voru að tala saman. Raddir þeirra voru lítið meira en marr og hvæs, en þó gat hann skilið margt sem þær sögðu. Þær voru að tala um dvergana.

„Þetta var hörð hrina, en vel þess virði,“ sagði ein. „Ég skil ekki hvað þeir hafa þykka húð, en samt skal ég veðja að þeir eru safaríkir að innan.“

„Jahá, það verður góð máltíð úr þeim, en þeir þurfa fyrst að hanga svolítið,“ sagði önnur.

„Ekki láta þá samt hanga of lengi,“ sagði sú þriðja. „Þeir eru ekki eins feitir og þeir ættu að vera. Þeir hafa víst ekki fengið mikið í svanginn að undanförnu, býst ég við.“

„Drepum þá,“ sagði sú fjórða. „Drepum þá strax og látum þá svo hanga um stund.“

„O, þeir eru sjálfsagt dauðir nú, býst ég við,“ sagði sú fyrsta.

„Ónei, það eru þeir ekki. Ég sá einn vera að bylta sér rétt í þessu. Ætli hann hafi ekki verið að rumska, skyldi ég ætla, eftir sinn flugusvefn. Ég skal bara sýna ykkur.“

Að svo mæltu hljóp ein af feitari kóngulónum af stað eftir einum kaðlinum, þar til hún kom þangað sem um tylft vöndla hafði verið hengd í röð uppi á hárri grein. Bilbó var hryllingi lostinn, fyrst þegar hann sá þá hangandi í skugganum og dvergafætur stóðu út úr botni sumra vöndlanna, en annarsstaðar sá í nefbrodd eða skegg eða hettu.

Kóngulóin hélt að feitasta bögglinum. — „Vesalings gamli Vambi, sýnist mér,“ hugsaði Bilbó — og skepnan kleip fast í nefið sem stóð út úr. Niðurbælt gól heyrðist innan úr vöndlinum og táin skaust upp og sparkaði beint og fast í kóngulóna. Einhver líftóra var þá eftir í Vamba. Það heyrðist eins og sparkað hefði verið í linan fótbolta og kóngulóin skall út af greininni og tókst aðeins að ná taki í eigin þráð tímanlega.

Hinar hlógu. „Þú hafðir þá rétt fyrir þér,“ sögðu þær, „fleskið er bráðlifandi og sparkar!“

„Ég skal nú ekki vera lengi að binda endi á það.“ hvæsti vofan bálreiða og klifraði aftur upp í tréð.

Nú sá Bilbó að tími væri kominn til að skerast í leikinn. Hann gat ekki náð til ófreskjanna uppi á greinunum og hafði engin skeyti til að skjóta á þær. En þegar hann litaðist um sá hann stórgrýtta möl í einhverju sem líktist uppþornuðum lækjarfarvegi. Bilbó var ágætlega hittinn steinkastari og var ekki lengi að finna sér góða ávala völu sem fór vel í lófa. Sem drengur hafði hann æft sig í að kasta steinum og hæfa hvað sem var, þangað til kanínur og íkornar og jafnvel fuglar, forðuðu sér hið bráðasta, ef þau sáu hann beygja sig niður. Og jafnvel eftir að hann varð uppkominn hafði hann töluvert ástundað allskyns kastleiki eins og hælakast, pílukast, skeifukast, keiluspil, níupinna og aðrar nákvæmnisgreinar í miðun og köstum. Satt að segja var hann nokkuð fjölhæfur, hann kunni ekki aðeins að blása reykjarhringum út úr sér, ráða gátur og elda mat og ég hef ekki enn getað rakið það allt fyrir ykkur. Og það er heldur enginn tími til að fara út í þá sálma núna. Meðan hann var að taka upp steininn náði kóngulóin til Vamba og á næsta augnabliki hefði hann verið dauður. En einmitt á þeirri sömu stundu lét Bilbó steininn vaða. Hann hæfði kóngulóna, plúnk, beint í hausinn, hún valt rotuð niður úr trénu, plúmp, beint á jörðina og lá þar með allar lappir upp í loft í bendu.



Næsti steinn hvein gegnum stóran kóngulóarvef, reif í sundur þræði og lenti á breddunni sem sat í honum miðjum, púmm, og hún var dauð. Eftir það varð algert uppnám í þessari kóngulóarnýlendu svo að þær gleymdu í bili dvergunum í vöndlunum, skal ég segja ykkur. Þær gátu ekki séð Bilbó en þær gátu nokkuð miðað út, úr hvaða átt steinkastið kom. Snöggar sem elding komu þær hlaupandi og sveiflandi sér í átt til hobbitans og þeyttu út löngum þráðum sínum í allar áttir, þar til loftið virtist allt fullt af dinglandi snörum.

En þá hafði Bilbó þegar læðst á annan stað. Við þetta fékk hann þá hugmynd að kannski gæti hann ginnt brjálaðar kóngulærnar til að elta sig lengra og lengra burt frá dvergunum, ef mögulegt væri, með því að gera þær forvitnar, æstar og reiðar í senn. Þegar um fimmtíu þeirra höfðu safnast saman þar sem hann áður stóð, kastaði hann fleiri steinum að þeim og öðrum sem eftir höfðu orðið. Svo dansaði hann inn á milli trjánna og tók að kyrja söng til að espa þær og fá þær allar til að elta sig, en líka hafði hann í huga, að dvergarnir gætu heyrt til hans.

Og þetta söng hann:

Ég er bara lítil fluga

og flýg burt frá þér.

Ógeðslega suga,

aldrei skaltu ná mér.

Ljótakussa!

Leiðahlussa!

Aldrei skaltu ná mér,

kóngulóarkussa!

Kóngulóin feita,

falin fluga er ég.

Kann ég vopni að beita,

vef þinn sker ég.

Tuddapadda!

Buddasadda!

Aldrei skaltu ná mér,

kóngulóarpadda!

Ekki var þetta svo sem merkilegur kveðskapur, en þá verður að hafa í huga, að Bilbó varð að yrkja þetta sjálfur, svo að segja af vörum fram, og það við heldur en ekki erfiðar aðstæður. En það kom samt að því gagni sem til var ætlast. Samtímis söngnum hélt hann áfram grjótkastinu og stappaði í jörðina. Svo að segja allar kóngulærnar á staðnum komu á eftir honum. Nokkrar skelltu sér til jarðar, aðrar æddu eftir greinunum, sveifluðu sér frá einu trénu í annað og spunnu nýja þræði í dimmar eyður. Þær voru miklu fljótari að renna á hljóðið en hann hafði búist við. Þær voru ofsareiðar. Að grjótkastinu slepptu þoldu þær ekki að láta kalla sig Ljótukussu og Tuddapadda væri nú enda móðgandi fyrir hvern sem er.

Bilbó ætlaði aftur að koma sér undan. En þá höfðu kóngulærnar dreift sér hingað og þangað á svæðinu þar sem þær bjuggu og voru á fullri ferð að spinna vefi í allar eyður milli trjábola. Þá leit helst út fyrir að hobbitinn yrði brátt innikróaður í þétta girðingu kóngulóarvefa allt í kringum sig – að minnsta kosti var það ætlun kóngulónna. En þó Bilbó stæði mitt á milli allra þessara leitandi og spinnandi skordýra, herti hann sig upp og hóf að syngja nýjan brag.

Æðarkobba og Letilobba

ætla mig að éta,

en aldrei þó það geta.

Þær komast strax í bobba,

ósýnileg veiði og ekki gefin

í vefinn.

Erfitt þeim reynist

að vita hvar ég leynist.

Vel er ég gómsæt,

vissulega ágæt.

En aldrei samt þær ná mér

alveg frá sér.

Síðan sneri hann sér við og sá að síðasta bilinu milli tveggja hávaxinna trjáa hafði verið lokað með þráðum — en sem betur fer ekki með raunverulegum vef heldur losaralegri flækju úr stórgerðum þráðum af tvöfaldri þykkt, sem hafði verið rimpað í skyndingu fram og aftur milli trjábolana. Hann reiddi upp sverð sitt, hjó þræðina í tætlur og hélt burt syngjandi.

Kóngulærnar sáu sverðið sveiflast, þó mér þyki ólíklegt að þær hafi nokkuð botnað í hvað það væri, og á samri stundu æddi allur skarinn á eftir hobbitanum, bæði á jafnsléttu og eftir greinunum. Þær stikuðu og veifuðu kafloðnum löppunum, smelltu bitkrókum og spunahólkum, augun útbólgin af froðu og reiði. Þær héldu áfram á eftir honum lengra og lengra inn í skóginn, þar til Bilbó þótti ekki ráðlegra að fara lengra. Síðan læddist hann til baka hæglátari en nokkur mús.

Hann vissi að hann hefði ekki mikið ráðrúm, áður en kóngulærnar hefðu fengið nóg og sneru til baka til trjánna, þar sem dvergarnir héngu. Á meðan varð hann að bjarga félögum sínum. Í fyrstu var erfiðast fyrir hann að komast upp á löngu greinina þar sem vöndlarnir héngu dinglandi. Ég býst varla við að honum hefði tekist það, nema af því að ein kóngulóin hafði skilið eftir lafandi þráð og upp eftir honum gat hann handfetað sig, þó þráðurinn vildi límast í lófa hans og særa hann — en þegar upp kom, tók á móti honum gömul þungfær, illvíg og spikfeit skella sem hafði orðið eftir til að gæta fanganna og hafði raunar hvað eftir annað verið að pota í þá til að smakka hver þeirra væri safaríkastur. Hún var jafnvel að hugsa um að fara að byrja veisluna meðan hinar voru í burtu, en herra Baggi var ekkert að tvínóna við hlutina og áður en paddan vissi af, fann hún fyrir stungunni og valt dauð út af greininni.

Næst þurfti Bilbó að byrja á því að losa fyrsta dverginn. En hvernig átti hann að fara að því? Ef hann hyggi á strenginn sem hélt vöndlinum uppi, myndi sá vesalings dvergur bara hrapa og skella til jarðar sem var mikið fall. Hann færði sig út eftir greininni (og á meðan dönsuðu og dingluðu allir vesalings dvergarnir til og frá eins og fullþroskaðir ávextir) og nú kom hann að fyrsta vöndlinum.

„Annað hvort Fjalar eða Kjalar,“ ályktaði hann af blárri hettunni sem stóð út af í toppinn. „Líklega fremur Fjalar,“ hugsaði hann og markaði það af löngu nefinu sem stóð út um vafningana. Með því að teygja sig niður og höggva á nokkra af sterku og klínugu þráðunum sem héldu vöndlinum saman, tókst honum að gera op á, og víst kom enginn annar en Fjalar í ljós með spörkum og látum. Það verður víst að viðurkennast að Bilbó fór hreinlega að skellihlæja þegar hann sá Fjalar baða út stirðum handleggjunum og hrista fæturna dansandi á spunastrengjum undir handarkrikunum, svo minnti á leikföngin skemmtilegu með fimleikakörlum sem snúast á vírum.

Með einhverjum hætti klifraðist Fjalar upp á greinina til hans og gerði sitt besta til að hjálpa hobbitanum, þótt hann væri miður sín og fárveikur af kóngulóareitrinu, auk þess sem hann hafði hangið alla nóttina og langt fram á næsta dag, þétt vafinn þráðum, aðeins nefið stóð út úr, og svo aðþrengdur að hann gat varla andað. Hann var líka óratíma að ná þessu ógeðslega lími úr augum og augabrúnum og skeggið varð að skera mestallt af honum. Jæja, síðan hjálpuðust þeir að við að tosa hinum dvergunum út og skera þá úr böndum. Enginn þeirra var neitt betur á sig kominn en Fjalar og sumir verr. Sumir höfðu jafnvel ekkert getað andað að ráði (og þar af sjáiði, að stundum getur komið sér vel að vera með langt nef) og sumir höfðu fengið í sig meira eitur en aðrir.

Næst björguðu þeir Kjalari, Bifri, Bógi, Dóra og Nóra. Vesalings Vambi var svo illa farinn — enda feitastur og hafði sífellt mátt þola stungur og smakk — að hann hreinlega valt út af greininni og hrapaði til jarðar en sem betur fer kom hann niður á þykka og mjúka laufhrúgu og lá þar afvelta. Enn héngu fimm dvergar utarlega á greininni þegar fyrstu kóngulærnar komu aftur á vettvang fárreiðari en nokkru sinni.

Bilbó stillti sér fyrst upp innst á greininni við trjábolinn og stóð í vegi fyrir að kvikindin kæmust út á hana. Hann hafði tekið hringinn af sér þegar hann var að bjarga Fjalari og gleymt að setja hann aftur á sig, og fóru kóngurvofurnar að spýta og hvæsa á hann.

„Nú sjáum við þig, litla ófétið þitt. Við skulum éta þig og skilja haminn og beinin af þér eftir hangandi í tré. En úff! Er hann með sting, eða hvað? Gildir einu, við skulum samt ná honum og síðan hengja hann á haus í nokkra daga.“

Á meðan þessu fór fram voru dvergarnir sem lausir voru, sem óðast að hjálpast að við að frelsa þá sem eftir voru og notuðu hnífa sína til að skera á þræðina. Brátt yrðu þeir allir lausir, en hitt var nokkuð á huldu hvað þá tæki við. Kóngulærnar höfðu átt auðveldan leik að færa þá í fjötra um nóttina, en þá höfðu þeir verið óviðbúnir og í kolniðamyrkri. Nú yrði ekki komist hjá hrikalegum bardaga upp á líf og dauða.

Þá tók Bilbó eftir því að nokkrar kóngulær höfðu safnast að gamla Vamba á skógarbotninum, þær höfðu aftur bundið hann og voru að drösla honum burtu. Hann rak upp óp og lét höggin dynja á kóngulónum sem voru fyrir honum uppi á greininni. Þær hörfuðu strax undan og hann klöngraðist og lét sig renna niður trjástofninn niður í miðjan hópinn á jörðinni. Litla sverðið hans var óvenjulegur stingbroddur sem þær höfðu ekki áður kynnst. Hvernig það líka sveiflaðist til og frá! Það blikaði af gleði þegar það stakkst í ófreskjurnar. Hann drap einar fimm eða sex áður en hinar lögðu á flótta og skildu Vamba eftir hjá honum.

„Komið niður! Komið niður!“ hrópaði hann til dverganna uppi á greininni. „Standið ekki þarna aðgerðalausir og látið þær aftur spinna net sín um ykkur!“ Því að hann sá heilt ger kóngulóa sverma upp eftir öllum trjám þar í grennd og klifra út á allar greinar fyrir ofan dvergana.

Allir dvergarnir klöngruðust niður, stukku eða létu sig detta í eina kássu, en þeir voru ósköp máttfarnir og fæturnir varla gangfærir. En þarna voru þeir loksins tólf saman ef vesalings Vambi var talinn með en frændi hans Bifur og bróðir hans Bógur urðu að styðja hann til beggja handa. En allt í kringum þá var Bilbó á ferli dansandi í kringum þá og sveiflaði Sting meðan hundruð óðra kóngulóa gláptu á þá úr öllum áttum og ofan úr trjánum. Aðstaða þeirra félaga virtist skelfing vonlaus.

Svo hófst bardaginn. Sumir dverganna höfðu hnífa, aðrir lurka og allir komust þeir í grjótið og loks hafði Bilbó álfasverðið sitt. Hvað eftir annað hröktu þeir kóngulærnar burt og drápu margar þeirra. En þeir gætu ekki haldið það út til lengdar. Bilbó var að niðurlotum kominn og aðeins fjórir dverganna gátu kallast færir. Brátt myndi að því koma að þeir yrðu allir yfirbugaðir eins og vesælar flugur. Kóngulærnar voru þegar farnar að spinna mikla vefi allt í kringum þá frá einu tré til annars.

Að lokum sá Bilbó engin önnur ráð en að opinbera leyndardóm hringsins fyrir félögum sínum. Honum þótti það lakara, en hjá því varð ekki komist.

„Ég ætla nú að láta mig hverfa,“ sagði hann. „Ég geri það til að ginna kóngulærnar burt frá ykkur, ef ég get. Þið verðið að halda ykkur þétt saman í hóp og fara í hina áttina, þarna til vinstri, það er nokkurn veginn í áttina þangað sem við síðast sáum álfaeldana.“

Það var erfitt að fá þá til að meðtaka þennan undarlega boðskap svo þungt sem þeim var yfir höfðinu, auk þess sem hrópin og höggin af lurkunum og steinkastinu glumdu við um allt. En loks gat Bilbó ekki lengur beðið boðanna — kóngulærnar þrengdu æ meira að þeim. Skyndilega setti hann upp hringinn og dvergunum til mikillar furðu hvarf hann þeim sjónum.

Brátt kváðu aftur við söngvarnir um Æðarkobbu og Letilobbu inn á milli trjánna til hægri. Við það kom fát á kóngulærnar. Þær stöðvuðu framsókn sína, sumar æddu þegar af stað og gengu á hljóðið. Þegar þær heyrðu sig kallaðar Tuddapöddur urðu þær svo fokreiðar að þær misstu stjórn á sér. Og þá snerist Balinn, sem hafði skilið fyrirætlun Bilbós betur en hinir, til atlögu. Dvergarnir mynduðu þétta fylkingu og sendu grjóthríðina yfir kóngulærnar vinstra megin og brutust út úr hringnum. En hinum megin, langt fyrir aftan þá, þögnuðu hrópin og söngurinn skyndilega.

Dvergarnir vonuðu heitt og innilega að það táknaði ekki að Bilbó hefði verið yfirbugaður, en þeir urðu samt að halda áfram. En því miður komust þeir ekki nógu hratt. Þeir voru veikir og þreyttir og þeir gátu ekki annað en skakklappast áfram og margar kóngulærnar fylgdu þeim fast á eftir. Aftur og aftur þurftu þeir að snúa sér við og eiga í höggi við ófreskjurnar sem voru á hælum þeirra. Og nú þegar voru sumar kóngulærnar á ferð í trjáliminu fyrir ofan þá og renndu niður löngum klínugum þráðum.

Útlitið var orðið heldur svart aftur, þegar Bilbó birtist skyndilega aftur hjá þeim og réðist óvænt á furðu lostnar kóngulærnar frá hliðinni.

„Haldið áfram! Haldið áfram!“ skipaði hann. „Ég skal sjá um stungurnar!“

Og það gerði hann líka ósvikið. Hann þaut fram og aftur, sneiddi í sundur kóngurlóarþræði, hjó á lappirnar og rak sverðið í fituhlussurnar ef þær komu of nærri. Kóngulærnar tútnuðu út af vonsku og spýttu og froðufelldu og hvæstu óskaplegum fáryrðum. En þær voru nú orðnar dauðhræddar við Sting og þorðu ekki að nálgast, nú þegar hann var kominn aftur í bardagann. Svo það var sama hvað þær bölvuðu, bráð þeirra fjarlægðist þótt hægt færi en örugglega. Allt var þetta samt skelfileg íkoma og virtist taka margar klukkustundir. En að lokum þegar Bilbó fannst vart að hann gæti lyft hendi til fleiri sverðalaga, gáfust kóngulærnar upp á þessu, hættu að elta þá en sneru við vonsviknar til myrkra bústaða sinna.

Þá urðu dvergarnir þess varir að þeir voru komnir í jaðar rjóðurhrings þar sem álfabál höfðu logað. Þeir gátu ekki vitað, hvort það væri sami hringurinn og þeir höfðu komið að um nóttina. En svo virtist sem einhverjir varnartöfrar leyndust yfir staðnum sem kóngulærnar forðuðust. Hér varð dagsskíman grænleitari, greinalimið ekki eins þétt og ógnandi og hér gátu þeir hvílst og kastað mæðinni.

Þeir lágu hér um stund, móðir og másandi. Svo fóru þeir að spyrja áleitinna spurninga. Þeir vildu fá einhverjar skýringar á hvarfi Bilbós og þegar hann fór að segja þeim frá fundi hringsins, urðu þeir svo spenntir að þeir steingleymdu um stund eigin vandræðum og eymd. Sérstaklega var Balinn áfjáður í að heyra þetta og lét Bilbó segja sér alla söguna um Gollri með gátuleiknum og öllu og jafnvel að endurtaka sumt í frásögninni hvað eftir annað og ekki draga neitt undan um hringinn. En þar kom að birtan fór aftur að dofna og þá komu upp aðrar spurningar. Hvar skyldu þeir vera, hvar var skógarstígurinn, hvar gætu þeir fengið einhverja næringu og hvað áttu þeir næst til bragðs að taka? Þeir spurðu þessara spurninga aftur og aftur og það var eins og þeir byggjust við því að Bilbó hefði ráð undir rifjum við öllu. Af því megið þið ráða hvað álit þeirra á herra Bagga hafði hækkað. Þeir voru nú farnir að bera mestu virðingu fyrir honum (eins og Gandalfur hafði líka spáð). Nú hreinlega væntu þeir þess af honum að hann fyndi einhverja undraaðferð til að bjarga þeim og í því var meiri tilætlunarsemi en í venjulegu nöldri. Þeim var nú dagljóst, að þeir væru dauðir nema fyrir tilverknað hobbitans og gátu ekki nógsamlega þakkað honum fyrir björgunina. Sumir máttu til með að standa á fætur til að geta hneigt sig niður að jörðinni fyrir honum, þó þeir misstu við það jafnvægið og yltu um koll og gætu ekki reist sig við fyrr en eftir góða stund. Og þó þeir hefðu nú fengið að vita sannleikann um hvarf Bilbós, dró það ekki úr áliti þeirra á honum, því að þeir höfðu orðið vitni að því að hann hafði til að bera vit og áræði, ekki síður en heppni og töfrahring — og allt voru það mikilvægir eiginleikar. Satt að segja fóru þeir svo hástemmdum orðum um Bilbó að hann fór jafnvel sjálfur að trúa því að hann væri djarfur ævintýramaður, þó sjálfsagt hefði hann orðið enn borubrattari, ef þeir hefðu átt eitthvað til að éta.

En um það tjóaði ekki að tala. Þeir áttu hreint engan mat, ekki nokkurn skapaðan hlut, og enginn þeirra var heldur fær um að fara og reyna að afla neinna matfanga, né heldur höfðu þeir þrek til að leita uppi Skógarstíginn, týnda stíginn. Það var alveg fyrir það skorið að Bilbó gæti fengið nokkra nýja hugmynd í sitt þreytta höfuð. Hann sat bara og starði fram fyrir sig á endalaus trén og brátt sló þögn á þá alla. Alla nema Balin. Löngu eftir að hinir voru þagnaðir og höfðu látið aftur augun hélt hann áfram að muldra og klúkka við sjálfan sig:

„Gollrir! Ja, ég er aldeilis hlessa. Þannig fór hann þá að því að laumast framhjá mér, eða skyldi ekkí? Jú, nú veit ég það! Hann laumaðist hljóðlega hann herra Baggi? Og hnapparnir hrutu yfir öll þrepin! Góði gamli Bilbó – Bilbó – Bilbó – bó – bó –“ Svo datt hann út af og varð alger þögn um hríð.

En skyndilega rumskaði Dvalinn við, glennti upp glyrnurnar og gægðist í kringum sig. „Hvar er Þorinn?“ spurði hann.

Þetta var hræðilegt áfall. Að hugsa sér, nú voru þeir bara þrettán, tólf dvergar og hobbitinn sá þrettándi. Hvar í ósköpunum skyldi Þorinn vera? Þeir veltu því fyrir sér, í hvaða voða hann hefði lent, göldrum eða kolsvörtum skrímslum og það fór skelfingarhrollur um þá, þar sem þeir lágu villtir og vegalausir í skóginum. En þeir voru svo úrvinda að þeir duttu aftur út af hver á fætur öðrum inn í óþægilegan svefn fullan af hryllingsdraumum, meðan kvöldið hneig inn í nýja kolanótt og þar verðum við að yfirgefa þá í bili, of lasburða og þreytta til að hafa einu sinni framtak í sér til að setja á varðgát eða skiptast á um vaktir.

Þorinn hafði verið gripinn miklu fyrr en þeir. Þið munið kannski að fyrst þegar Bilbó steig inn í birtuhringinn kom yfir hann svefn og hann datt niður eins og dauður? Næst hafði Þorinn stigið fram og um leið og ljósin slokknuðu datt hann líka niður eins og steinn fyrir einhverjum töfrum. Allur hávaðinn frá dvergunum þegar þeir villtust í myrkrinu, neyðaróp þeirra, þegar kóngulærnar gripu þá og bundu, allur bardagahvinur næsta dags hafði farið framhjá honum án þess að hann hefði hugmynd um það. Síðan höfðu Skógarálfarnir komið að honum, bundið hann og borið burtu.

Veislufólkið var að sjálfsögðu Skógarálfar. Þeir eru ekki vondir í sjálfu sér, en galli er, hvað þeir eru tortryggnir við ókunnuga. Og þó þeir byggju yfir mögnuðum töfrum, voru þeir enn í þá daga mjög á verði. Þeir voru ólíkir Háálfunum í Vestri, hættulegri og ekki eins djúpvitrir. Því að þeir voru flestir (ásamt dreifðum frændflokkum í hæðum og fjöllum) komnir af þeim fornu ættflokkum sem aldrei höfðu farið til Fagurheima í Vestri. En þangað héldu aftur á móti Ljósálfar og Djúpálfar og Sæálfar og lifðu þar öldum saman og urðu æ fegurri, vitrari og fróðari og fundu upp fullkomnari töfra og þá miklu list að búa til fallega og þarflega hluti, áður en sumir þeirra sneru aftur til Víðheims. Þar höfðu Skógarálfarnir hins vegar hafst við allan tímann í ljósaskiptum okkar sólar og tungls en vænst þótti þeim um stjörnurnar. Þeir breiddust út um stóru skógana sem voru þá svo víðfeðmir í nú löngu týndum löndum. Mest héldu þeir sig þó í skógarjöðrunum, til að eiga greiða leið til útrása, stundum til veiða eða einfaldlega til að fara í útreiðartúra eða hlaupa um víðavang í tunglskini eða stjörnubirtu. En eftir tilkomu Manna drógu þeir sig æ meira í hlé inn í drungann og dimmuna. En þeir voru allt að einu álfar og þar með gott fólk.

Í stórum helli, nokkrum mílum innan marka Myrkviðar að austanverðu bjó á þessum tíma voldugasti konungur þeirra. Rétt við risavaxnar steindyr hans rann á ein niður úr skógivöxnum fjöllunum og streymdi áfram út á láglendið og mýrarnar fyrir neðan háskógana. Út frá þessum stóra helli greindust óteljandi gangar og smáskútar í allar áttir, þeir hlykkjuðust langar leiðir neðanjarðar og mátti finna þar mörg herbergi og víða sali. En þessi húsakynni voru á allan hátt bjartari og heilnæmari en nokkrir drísilbústaðir og heldur ekki eins djúp og hættuleg. Í rauninni bjuggu líka flestir þegnar konungsins og stunduðu veiðar í opnum skóginum og gerðu sér hús og kofa á jörðinni eða uppi í greinunum. Beykitrén voru þeirra eftirlætisbústaðir. Konungshellirinn var einskonar höll þeirra, geymslustaður fjársjóðanna og virki álfaþjóðarinnar gegn utanaðkomandi árásum.

En þar djúpt niðri var líka að finna dyflissur fyrir fanga. Og það var einmitt niður í þessar holur sem þeir drógu Þorin — og fóru engum silkihönskum um hann, því að þeim var lítt um dverga gefið og litu jafnvel á þá sem óvini. Forðum daga höfðu skógarálfarnir jafnvel háð stríð við dvergana og sökuðu þá um að hafa dregið sér af fjársjóðum þeirra. Hitt er ekki nema réttlátt að taka fram að dvergar höfðu aðra sögu að segja og kváðust aðeins hafa tekið það sem þeim bar, því að þáverandi álfakóngur hafði samið við þá um að smíða skrautmuni úr hrágulli sínu og silfri, en eftir á ætlaði hann að svíkja þá um laun sín. Eini veikleiki álfakóngsins var hve hann var áfjáður í fjársjóði, einkum var hann æstur í silfur og hvíta gimsteina og þó hann ætti ærna fjársjóði, ágirntist hann æ meira og meira, af því að hann fann til þess að jafnast ekki í þessu á við aðra álfahöfðingja til forna. Þó stunduðu þegnar hans hvorki námugröft né smíðuðu málma eða gimsteina og höfðu engan áhuga á verslun eða jarðyrkju. Öllum dvergum var fullkunnugt um þessa óvild, þó ætt Þorins hefði hvergi komið nærri þeirri gömlu deilu sem ég var að lýsa. En Þorinn reiddist mjög þeirri illu meðferð sem hann mátti þola eftir að þeir léttu álögunum af honum svo hann kæmist til meðvitundar og hann var staðráðinn í því að ekkert orð um gull eða dýrgripi skyldi verða dregið upp úr sér.



Konungurinn leit þungum svip á Þorin þegar hann var færður fyrir hann og spurði hann spjörunum úr. En Þorinn vildi aðeins segja að hann væri sveltandi.

„Hvers vegna reyndir þú og þínir menn þrisvar sinnum að ráðast á þjóð mína við hátíðarhöld?“ spurði kóngurinn.

„Við réðumst ekkert á þá,“ svaraði Þorinn. „Við komum aðeins til að beiðast matarbita, því að við vorum sveltandi.“

„Hvar eru vinir þínir núna og hvað eru þeir að hafast að?“

„Ég hef ekki hugmynd um það, en ég býst við að þeir séu sveltandi í skóginum.“

„Hvað voruð þið að gera í skóginum?“

„Leita að mat og drykk því að við vorum að deyja úr hungri og þorsta.“

„En hvað voruð þið yfirhöfuð að flækjast í skóginum?“ spurði kóngurinn reiðilega.

En þá lokaði Þorinn sínum hvofti og fékkst ekki lengur orð upp úr honum.

„Gott og vel!“ sagði kóngurinn. „Takið hann þá burt og hafið hann í haldi þangað til hann fæst til að segja okkur sannleikann, sama þó það verði í heila öld.“

Þá bundu álfarnir Þorin og lokuðu hann niðri í einum af neðstu skútunum sem læst var með styrktum dyrum, og skildu hann þar eftir. En þeir færðu honum mat og drykk, meira en nóg, þó ekki væri hann sérlega bragðgóður. Því að Skógarálfar voru engir dríslar, þeir komu sæmilega vel fram jafnvel við sína verstu óvini, ef þeir handsömuðu þá. Risakóngulærnar voru einu lifandi verurnar sem þeir sýndu enga miskunn.

Og þarna lá nú vesalings Þorinn í dyflissu konungs. Þrátt fyrir allt mátti hann vissulega vera þakklátur fyrir brauðið, kjötið og vatnið sem honum var borið. En þegar hann komst yfir þakklætið, fór hann að velta því fyrir sér hvað orðið hefði af sínum vesalings ógæfusömu vinum. Hann átti nú brátt eftir að komast að því, en frá því verður hermt í næsta kafla,. Þar upphefst enn nýtt ævintýri, og þar mun hobbitanum enn einu sinni gefast tækifæri til að sýna og sanna að nokkur dugur sé í sér.

Загрузка...