Þegar Bilbó kom til sjálfs sín mátti sannarlega segja að hann væri í raun og veru sjálfs sín. Hann lá nefnilega á flötu plötunni við Hrafnaborg og ekki nokkur sála neins staðar nálægt. Það var skýskafinn himinn, en kalt í veðri. Hann hríðskalf, kaldur eins og klettur, en logaði í höfðinu.
„Núnú, hvað skyldi hafa gerst?“ sagði hann við sjálfan sig. „Ég er að minnsta kosti ekki enn kominn í hóp þessara föllnu hetja. En sjálfsagt hef ég líka nógan tíma til þess.“
Hann settist upp með herkjum. Þegar honum varð litið niður í dalinn sá hann enga drísla þar á randi. Eftir nokkurn tíma dró úr hausverknum og hann gat ekki betur séð en að álfar væru á ferli í urðinni fyrir neðan. Hann nuddaði sér um augun. Jú, stóðu ekki herbúðirnar enn á sínum stað á sléttunni fyrir neðan? Og var ekki stöðugur erill uppi við Hliðið? Dvergarnir virtust í óða önn að velta um múrnum. Annars var allt steinhljótt. Engin hróp heyrðust og enginn ómur af söng. Þungur harmur lá í loftinu.
„Við höfum þá haft sigur eftir allt saman!“ sagði hann og strauk auman hausinn. „Samt er þetta allt hundleiðinlegt.“
Allt í einu varð hann þess var að maður kom klífandi upp hlíðina í áttina að honum.
„Hæ, þú þarna!“ hrópaði hann hásum rómi. „Hæ, þú þarna! Hvað er títt?“
„Hvaða rödd talar þar meðal steinanna?“ sagði maðurinn, nam staðar ekki langt frá þeim stað þar sem Bilbó sat og skimaði í kringum sig.
Þá mundi Bilbó allt í einu eftir hringnum! „Ja, hver fjárinn!“ sagði hann. „Það getur líka haft ókosti í för með sér að vera ósýnilegur. Ég býst við að það hafi haft það af mér að fá að liggja í hlýju og þægilegu bóli í nótt!“
„Það er ég Bilbó Baggi, félagi Þorins,“ hrópaði hann og tók í skyndi ofan hringinn.
„Það var mikið að ég fann þig!“ sagði maðurinn og kom arkandi að honum. „Þín er sárt saknað og við höfum lengi leitað þín. Þú hefðir endanlega verið talinn til hinna föllnu sem víst eru margir, ef vitringurinn Gandalfur hefði ekki sagt að hann hefði síðast heyrt til þín hérna uppi. Ég var sendur hingað í síðustu leit. Ertu mikið meiddur?“
„Ég fékk víst bölvað högg á hausinn,“ sagði Bilbó. „En ég hafði hjálm og harða höfuðskel. Samt líður mér hálf illa og fæturnir lyppu líkastir.“
„Ég skal þá bera þig niður að herbúðunum í dalnum,“ sagði maðurinn og lyfti honum upp léttilega.
Maðurinn var fljótur og fótviss. Það leið því ekki á löngu áður en hann setti Bilbó niður framan við tjald eitt á Dal. Þar stóð Gandalfur með annan handlegginn í fatla. Sjálfur vitkinn hafði ekki einu sinni komist hjá meiðslum enda voru fáir ósárir í öllum hernum.
Þegar Gandalfur sá Bilbó, varð hann himinlifandi. „Bilbó!“ hrópaði hann. „Nú dámar mér ekki! Þú hefur þá sloppið lifandi eftir allt saman — hvort ég er glaður! Ég var farinn að óttast, að þín alkunna heppni hefði nú ekki dugað þér lengur! Þetta var líka hræðileg rimma og munaði engu að illa færi! En önnur tíðindi mega bíða. Komdu hingað!“ sagði hann í alvarlegri tón. „Þín er beðið með óþreyju.“ Svo vísaði hann hobbitanum með sér inn í tjaldið.
„Heill! Þorinn,“ sagði hann þegar inn kom. „Ég er með hann.“
Og hver skyldi hafa legið þar nema sjálfur Þorinn Eikinskjaldi, særður mörgum ólífissárum en rifin brynja hans og skörðótt öxi lágu á gólfinu. Hann leit upp þegar Bilbó kom til hans.
„Ég vildi bara fá að kveðja þig, kæri þjófur,“ sagði hann. „Nú held ég til biðsala feðra minna, þar til nýr heimur rís. Þar sem ég yfirgef nú allt mitt gull og silfur og fer þangað sem slíkir fjármunir eru lítils verðir, þá vildi ég skilja við þig í vináttu og taka aftur öll mín stóryrði og framkomu við Hliðið.
Bilbó kraup sorgmæddur niður hjá honum. „Vertu sæll Konungur undir Fjalli!“ sagði hann. „Nú ætlar þetta ævintýri þá að enda beisklega, en ekki verður hjá því komist og ekkert fjall úr gulli getur úr því bætt. Þó er ég glaður yfir að hafa mátt deila með þér öllum hættunum — það var meira en nokkur Baggi átti skilið.“
„Ónei!“ sagði Þorinn. „Það er meira í þig spunnið en þú sjálfur gerir þér grein fyrir, barn hins blíða Vesturs. Þú hefur til að bera töluvert hugrekki með töluverðri visku, mátulega samblandað. Ef fleiri okkar kynnu eins og þú að meta góðan mat, gleðistundir og söngva fram yfir gullsjóði, væri heimurinn skemmtilegri. En nú verð ég víst að fara. Vertu sæll!“
Þá sneri Bilbó sér undan. Hann hvarf á braut og settist einn út af fyrir sig vafinn teppi og hvort sem þið trúið því eða ekki, grét hann fögrum hrynjandi tárum, þangað til hann var orðinn rauðeygður og rámur í rómi. Vissulega var hann góð og viðkvæm sál. Og raunar leið langur tími, áður en hann hafði skap í sér til að segja aftur nokkurn brandara. „Mikil blessun var það fyrir mig,“ sagði hann að lokum við sjálfan sig, „að ég skyldi rakna við tímanlega Ég vildi óska að Þorinn væri á lífi, en samt er ég hamingjusamur yfir því að við skyldum geta skilið í góðu. En það verð ég að segja, að ég var meiri bjáninn, og hvernig allt fór í handaskolum með þennan Erkistein. Það hafði heldur ekkert upp á sig, því að það var barist þrátt fyrir allt sem ég gerði til að reyna að tryggja frið og ró, en varla er nú samt hægt að kenna mér um það.“
Bilbó fékk síðan að heyra alla söguna, hvað gerst hafði eftir að hann missti meðvitundina. En hann hryggðist meira en gladdist af því og hafði nú fengið nóg af ævintýrum. Hann klæjaði í fæturna eftir heimferðinni. En þar sem hún frestaðist nokkuð, ætti ég að hafa tíma til að segja ykkur undan og ofan af því sem gerðist. Ernirnir höfðu lengi haft grun um liðssafnað dríslanna. Þeir fylgdust svo vel með öllu úr lofti að ekki tókst að leyna þá fullkomlega hinum miklu herflutningum. Því komu þeir líka afar margir saman undir forustu stóra Arnarins í Þokufjöllum og að lokum þegar þeir fundu orustuþefinn úr fjarlægð flykktust þeir hraðfari á faxi stormsins á síðustu stundu. Það kom einkum í þeirra hlut að hrekja drísildjöflana niður úr fjallshlíðunum, varpa þeim fram af hengiflugi eða reka þá skrækjandi og tryllta beint í fangið á óvinum þeirra. Þannig leið ekki á löngu áður en þeir höfðu gjörhreinsað Fjallið eina af þessum ófögnuði, og fylkingararmar álfa og manna sitt hvoru megin dalsins gátu lagt lið sitt að orustunni fyrir neðan af fullum þunga.
En jafnvel þó Ernirnir hjálpuðu til, áttu þeir enn við ofurefli að etja. En þá, á allra síðustu stundu, hafði Björn birst — enginn vissi hvernig eða hvaðan hann kom. Hann var einn síns liðs og í bjarnarlíki. Hann virtist hafa stækkað úr öllu hófi og var tröllaukinn í sínum reiðiham.
Urr hans minnti á glymjandi trumbur og byssuhvelli og hann þeytti úlfum og dríslum úr leið sinni eins og strápokum eða fiðurs. Hann kom aftan að fylkingum þeirra og ruddist sem þrumubrak í gegnum herkví þeirra. Þar höfðu dvergarnir skipað sér kringum höfðingja sína á lágri hringlaga hæð. En Björn laut niður og lyfti upp Þorni sem hafði hnigið niður stunginn spjótum og bar hann út úr hildarleiknum.
Ekki leið þó á löngu, áður en hann sneri við aftur í tvíefldri reiði svo ekkert fékk fyrir honum staðist. Hann drap lífvarðarsveitinni á dreif og steig Belg niður í svaðið og kramdi hann. Þá féll dríslunum allur ketill í eld og þeir tvístruðust. Því meira hertu hinir sig upp í nýrri sigurvon og fylgdu fast á hæla þeim, svo fæstir þeirra komust undan. Þeir ráku marga þeirra út í Hlaupá en hina sem flýðu til suðurs og vesturs eltu þeir út í fenin kringum Skógána og þar fórst meirihluti síðasta flóttahyskisins, en nokkrir sem sluppu inn í ríki Skógálfanna voru felldir þar eða tortímdust í veglausum skuggum Myrkviðar. Söngvar herma að þrír hlutar drísilkappanna í Norðri hafi farist á þeim degi og síðan var í mörg ár friðvænlegt í fjöllunum.
Lokasigur var tryggður fyrir náttmál, en flóttinn var enn rekinn á fæti daginn eftir, þegar Bilbó kom til tjaldbúðanna og því voru fáir eftir í dalnum nema þeir sem alvarlega voru særðir.
„Hvar eru Ernirnir?“ spurði hann Gandalf um kvöldið, þar sem hann lá vafinn í margar hlýjar ábreiður.
„Sumir taka víst enn þátt í eltingaleiknum,“ sagði vitkinn, „en flestir hafa snúið heim aftur til hreiðra sinna. Þeir höfðu ekkert lengur hér að gera og sneru aftur í birtingu. Dáinn krýndi höfðingja þeirra gullkórónu og hét þeim vináttu um aldur og ævi.“
„Æ, það var leitt. Ég á við, að mig hefði langað svo til að hitta þá aftur,“ sagði Bilbó dottandi. „Kannski hitti ég þá bráðum í bakaleiðinni. Ég held líka að ég ætti nú að fara að koma mér heim?“
„Hvenær sem þú vilt,“ sagði vitkinn.
Þó liðu enn nokkrir dagar, áður en Bilbó kom sér af stað. Þeir jörðuðu Þorin djúpt undir Fjallinu og Bárður lagði Erkisteininn á brjóst hans.
„Megi hann liggja hjá honum uns Fjallið hrynur!“ sagði hann „Megi það verða til hamingju allri þjóð hans sem hér mun síðan búa!“
Álfakonungurinn lagði þá á gröf hans Orkrist, álfasverðið sem hann hafði tekið af Þorni í fangavistinni. Sagt er í söngvum að það hafi ætíð blikað í myrkri ef óvinir nálguðust og þannig varð aldrei komið að virki dverganna að óvörum. Nú tók Dáinn Náinsson sér þar bústað og varð Konungur undir Fjalli og með tímanum flykktist þangað fjöld annarra dverga að hásæti hans í hinum fornu sölum. Af tólf félögum Þorins lifðu tíu. Fjalar og Kjalar höfðu fallið þar sem þeir hlífðu höfðingja sínum með eigin skildi og líkama, enda var hann elsti móðurbróðir þeirra. Hinir gerðust lendir menn Dáins, því hann var örlátur á fé.
Ekki var lengur um það að ræða að skipta fjársjóðnum í þeim hlutum sem um hafði verið rætt — til Balins og Dvalins, til Dóra, Nóra og Óra, til Óins og Glóins, til Bifurs og Bógs og Vamba — né til Bilbós. Hinsvegar var fjórtándi partur alls silfurs og gulls, smíðuðu og ósmíðuðu, fenginn Bárði, því að Dáinn sagði: „Við munum virða samninga hins fallna, enda hefur honum nú verið skilað Erkisteininum.“
Við Bilbó sagði hann: „Þetta er þinn fjársjóður ekki síður en minn. En hinir gömlu samningar fá ekki lengur staðist því að svo margir myndu þá gera tilkall til sjóðsins. En jafnvel þótt þú værir fús að gefa eftir allar kröfur þínar, vildi ég ekki að þau orð Þorins sem hann iðraðist mest, ættu eftir að koma fram, að við launum þér smánarlega. Ég vildi sannarlega launa þér ríkulegar öllum öðrum.“
„Þakka þér kærlega fyrir,“ sagði Bilbó. „En sjálfur er ég því fegnastur að fá sem minnst. Því að hvernig í ósköpunum ætti ég að koma öllum þeim fúlgum fjár heim til mín, án þess að slóð ofbeldis og morða fylgdu mér eftir alla leiðina? Það er mér hulin ráðgáta. Og ég hef heldur enga hugmynd um hvað ég ætti að gera við allan þann auð þegar heim kæmi. Hann er sannarlega betur kominn í þínum höndum.“
Svo fór að lokum að hann vildi aðeins taka með sér tvær litlar kistur, aðra með silfri, hina með gulli, mátulega byrði fyrir stæltan smáhest. „Ætli það sé ekki mátulegt handa mér að ráða við,“ sagði hann.
Loks var komið að skilnaðarstund og Bilbó kvaddi vini sína. „Vertu sæll Balinn!“ sagði hann, „og vertu sæll Dvalinn, og vertu sæll Dóri, Nóri, Óri, Óinn, Glóinn, Bifur, Bógur og Vambi!“ Megi skegg ykkar aldrei þynnast né skrælna.“ Svo sneri hann sér að Fjallinu og bætti við: „Vertu sæll, Þorinn Eikinskjaldi! Og veriði sælir Fjalar og Kjalar! Megi minning ykkar aldrei dofna!“
Allir dvergarnir hneigðu sig djúpt fyrir honum á hlaðinu framan við Hliðið, en orðin stóðu föst í hálsi þeirra. „Vertu sæll og gæfan fylgi þér, hvert sem þú ferð!“ stundi Balinn loksins upp. „Ef þú einhvern tímann gætir heimsótt okkur aftur þegar salir standa fagrir enn á ný í allri sinni dýrð, skyldum við halda veislu sem tæki öllum fram!“
„Ef þið ættuð nokkurn tímann leið framhjá mínum húsum,“ sagði Bilbó, „skuluð þið ekki hika við að berja að dyrum! Tetíminn er eins og venjulega klukkan fjögur, en auðvitað eruð þið velkomnir á hvaða tíma dags sem er.“
Svo sneri hann á braut.
Álfaherinn hélt heim á leið, og þótt þungur harmur væri kveðinn að þeim mörgu sem fallið höfðu, gátu þeir glaðst yfir því að hinn norðlægi heimshluti yrði notalegri til íveru um langa hríð. Drekinn var dauður og veldi dríslanna hnekkt. Vetur nálgaðist hnig og þeir horfðu glaðir fram til vorsins.
Gandalfur og Bilbó riðu á eftir Álfakónginum og meðfram þeim stikaði Björn, aftur í mannslík. Hann hló stórum og söng hástöfum á leiðinni. Þannig héldu þeir áfram þar til þeir nálguðust jaðar Myrkviðar aðeins norðan við framhlaup Skógár. Þar var áð, því að vitkinn og Bilbó hugðust ekki halda inn skóginn og það þótt kóngurinn byði þeim þangað að veislum. Ætlun þeirra var að fara meðfram skógarjaðrinum fyrir norðurenda hans og út á auðnirnar á milli skógarins og undirhlíða Gráufjalla þar fyrir norðan. Þetta var löng og óskemmtileg leið, en nú eftir að dríslarnir höfðu verið brotnir á bak aftur virtist þeim hún öruggari en hin skelfilega skuggaleið í gegnum skóginn. Auk þess myndi Björn verða þeim samferða.
„Far vel! Ó, Álfakóngur!“ sagði Gandalfur. „Megi gleði ríkja í grænskógi meðan jörð er enn ung! Og megi gleði ríkja með öllu þínu fólki!“
„Far vel! Ó, Gandalfur!“ svaraði kóngurinn. „Megir þú ætíð birtast þar sem þín er mest þörf og síst við þér búist! Og því oftar sem þú hefur viðdvöl í mínum sölum, þeim mun ánægðari verð ég!“
„Fyrirgefðu,“ sagði Bilbó stamandi og steig upp í annan fótinn, „en má ég biðja þig að taka við þessari gjöf!“ og hann tók upp hálskeðju úr silfri og perlum sem Dáinn hafði gefið honum að skilnaði.
„En ég veit nú ekki með hverju ég hafi unnið til slíkrar gjafar, Ó, hobbiti?“ sagði konungur.
„Ja, sko, ég hugsaði, ja, þú veist það líklega ekki,“ sagði Bilbó hálf hvumsa, „að, sko, að þetta getur verið svolítil greiðsla fyrir gestrisni þína. Ég á við að jafnvel innbrjótur getur átt sínar tilfinningar. Og víst drakk ég mikið af víni þínu og át mikið af brauði þínu.“
„Víst mun ég þiggja gjöf þína, Ó, Bilbó hinn Veglyndi!“ sagði konungurinn alvarlega. „Og hérmeð útnefni ég þig Álfvin og margblessa þig. Megi skuggi þinn aldrei rýrna (því að þá yrði alltof auðvelt fyrir þig að stela)! Farðu vel!“
Svo sneru álfarnir til skógar, en Bilbó lagði af stað í hina löngu leið heim.
Hann lenti í margskonar erfiðleikum og ævintýrum áður en hann komst heim. Villulöndin voru enn villt og margt var þar á ferli í þá daga utan drísla. En góða fékk hann leiðsögnina og verndina, — því að sjálfur vitkinn fylgdi honum og Björn einnig mikinn hluta leiðarinnar — og hann var því aldrei í neinni hættu. En um miðsvetrarleytið komu þeir Gandalfur og Bilbó, eftir að hafa riðið meðfram skógarjaðrinum, að húsi Bjarnar og þar dvöldust þeir um hríð. Á jólunum var hlýtt í skálanum og glatt á hjalla og menn komu víða að veislum eftir boði Bjarnar. Dríslar Þokufjalla voru nú bæði fáir og skelfdir og leyndu sér í dýpstu holum sem þeir gátu fundið og Vargarnir voru horfnir á braut úr skógunum svo menn gátu ferðast um óttalaust. Raunar gerðist Björn að þessu loknu voldugur höfðingi yfir þeim héruðum og ríkti yfir allri landspildunni milli fjallanna og skógarins. Og sagt var að í margar kynslóðir hafi menn af hans Birningaætt getað tekið á sig bjarnarmynd en þeir voru sumir grimmúðgir og vondir en flestir þó að hjartalagi líkir Birni, þó þeir væru minni vexti og ekki eins hamrammir. Á þeirra dögum voru síðustu dríslarnir hraktir burt frá Þokufjöllum og friður ríkti á ysta hjara Villulanda.
Komið var vor, og það hið fegursta með góðviðrum og sólarbirtu, áður en þeir Bilbó og Gandalfur loks kvöddu og þó Bilbó væri haldinn heimþrá, hvarf hann burt með söknuði frá Birni, því að blómin í garði hans blómstruðu svo glæst sem á hásumri væri.
Loks komu þeir eftir löngum þjóðveginum upp í fjallaskarðið þar sem dríslarnir áður höfðu fangað þá. Þeir komu í háskarðið að morgni til og er þeim varð litið um öxl sáu þeir skjannahvíta sólina skína yfir víðfeðm löndin. Þar fyrir handan lá Myrkviður blár í fjarskanum og þó enn dekkri á nálægari jaðrinum jafnvel þótt vor væri. Enn fjær greindu þeir Fjallið eina á mörkum sjónsviðsins. Á hæsta tindinum glytti enn dauft í óbráðna mjöll.
„Þannig breiðir snjórinn voð sína yfir eldinn og jafnvel drekar bíða sín endalok!“ sagði Bilbó og að því búnu sneri hann baki við ævintýrinu. Tókaparturinn hans var nú orðinn ósköp daufur í dálkinn, en Bagginn í honum styrktist með hverjum degi. „Ég vildi nú aðeins óska að ég sæti aftur heima í hægindastólnum mínum!“ sagði hann.