VI. KAFLI Af pönunni í eldinn

Nú var Bilbó sloppinn frá dríslunum en hafði ekki hugmynd um hvar hann var niður kominn. Hann hafði týnt hettu sinni, úlpu, mat, hesti, látúnshnöppum og öllum vinum sínum. Hann rölti áfram og áfram, þangað til sólin fór að hníga í vestrinu – nú að baki fjöllunum. Skugginn af þeim var að færast yfir leið Bilbós og nú horfði hann um öxl til þeirra. En þegar hann horfði fram fyrir sig, sá hann aðeins ása og hlíðar sem fóru lækkandi í múlum og bölum niður á láglendi sem hann gat einstaka sinnum greint framundan sér milli trjánna.

„Guð hjálpi mér!“ hrópaði hann. „Ég virðist vera kominn hinum megin út úr Þokufjöllum og standa hér á jaðri Handanlanda þeirra! En hvað í Óinu skyldi hafa orðið af Gandalfi og dvergunum? Ég vona bara og bið að þeir séu ekki enn undir fjöllunum á valdi dríslanna.

Hann þrammaði enn góðan spöl áfram út úr litla fjalladalnum og fram af stalli hans og niður hlíðarnar, en smámsaman læddi óþægilegri hugsun að honum. Hann var að velta því fyrir sér, hvort hann ætti ekki, nú þegar hann hafði ráð á töfrahringnum að snúa aftur við inn í þessi hræðilegu hryllingsgöng og leita að vinum sínum og reyna að frelsa þá. Hann hafði rétt tekið einbeitta ákvörðun um að það væri skylda sín að snúa aftur — og það þó hann væri mjög aumur yfir því — þegar hann heyrði raddir.

Hann nam staðar og hlustaði. Ekki líktist það neinu dríslatali. Svo hann læddist áfram mjög varlega á hljóðið. Hann var á grýttum fjallavegi sem liðaðist niður í hlykkjum undir klettabelti á vinstri hönd, en hinum megin fyrir neðan stíginn hlíðarbrekka með lautum hér og þar, að nokkru leyti huldum kjarri og lágum trjám. Og það var einmitt upp úr einni af þessum lautum undan kjarrinu sem barst mannamál.

Hann læddist enn nær og skyndilega kom hann auga á haus með rauðri hettu sem gægðist út á milli tveggja kletta. Það var Balinn sem stóð þar á verði. Bilbó langaði mest til að klappa saman lófum og hrópa af gleði, en hann gerði það ekki. Hann var enn með hringinn á fingrinum, af ótta við að mæta einhverju óvæntu og óskemmtilegu og hann tók eftir því að Balinn horfði beint á hann án þess að sjá hann.

„Nú skal ég þó koma þeim á óvart,“ hugsaði hann og skreið inn í kjarrið við endann á lautinni. Hann heyrði að Gandalfur var eitthvað að rífast við dvergana.

Þeir voru að ræða um öll þau ósköp sem yfir þá höfðu dunið í göngunum og að velta því fyrir sér og deila um hvað þeir ættu nú að gera. Auðséð var að dvergarnir voru með einhvern uppsteyt en Gandalfur sagði þá að það kæmi ekki til greina að þeir héldu áfram og skildu herra Bagga eftir á valdi dríslanna. Þeir yrðu að snúa við og finna út hvort hann væri lífs eða liðinn og reyna að bjarga honum.

„Hann er nú einu sinni vinur minn,“ sagði vitkinn, „og mesti gæðapiltur. Mér finnst að ég beri vissa ábyrgð á honum. Þið hefðuð ekki átt að missa svona hendina af honum.“

Dvergarnir spurðu þá aftur á móti hvers vegna í ósköpunum þessi aumingi, sem aldrei gæti einu sinni haldið hópinn en drægist sífellt aftur úr, hefði verið tekinn með í leiðangurinn, og hvers vegna í ósköpunum vitkinn hefði ekki getað valið einhvern með meira vit í kollinum. „Fram að þessu hefur hann orðið okkur til meiri vandræða en gagns,“ sagði einn þeirra. „Ef við eigum nú að fara að snúa við inn í þessi andstyggilegu göng til að leita að honum, þá svei honum.“

Gandalfur svaraði reiðilega: „Það var mín ákvörðun að taka hann með og ég er ekki vanur að taka með mér neitt sem ekki getur orðið að einhverju gagni. Annaðhvort hjálpið þið mér að finna hann eða ég fer einn og skil ykkur hér eftir og þið skuluð þá, það sem eftir, er komast af án minnar hjálpar. Ef við aðeins gætum fundið hann aftur, veit ég fyrir víst að þið yrðuð mér ævarandi þakklátir. En hvað átti það líka að þýða, Dóri, að kasta honum niður.“

„Þú hefðir sjálfur sleppt honum,“ svaraði Dóri, „ef drísildjöfull hefði verið að kippa í fæturna á þér aftanfrá í myrkrinu, troðið á fótunum á þér og sparkað í bakið á þér.“

„Jæja, en hvers vegna tókstu hann þá ekki upp aftur?“

„Hjálpi mér! Það er nú hægara um að tala en í að komast! Fullt af dríslum að berjast og bítast í myrkrinu, allir að hnjóta um hvers annarra dauða skrokka og rekast á! Það munaði nú minnstu að þú hyggir af mér hausinn með Glamdringi, og Þorinn var að stinga og leggja hér og þar með Orkristi. Þú smelltir aftur á einu af þessum blindandi leiftrum þínum og við sáum dríslana hlaupa burt eins og ýlfrandi hvolpa. Þá hrópaðir þú „fylgið mér allir!“ og þá hefðu auðvitað allir átt að fylgja þér. Við héldum líka að við værum allir. Það gafst ekkert ráðrúm til að telja eins og þú ættir sjálfur best að vita, þangað til við brutumst út framhjá hliðvörðunum, út um þetta neðra hlið og endasentumst hingað niður. Og hér stöndum við svo eftir innbrjótslausir — fari hann kolaður!“

„Og hér er innbrjóturinn!“ sagði Bilbó og stökk mitt á meðal þeirra og tók hringinn af fingrinum.

Hver ósköpin! þeim brá svo við að þeir hentust í háa loft! Svo hrópuðu þeir hver í kapp við annan af undrun og ánægju. Gandalfur var sá hissasti af þeim öllum, en um leið líklega sá ánægðasti. En hann kallaði Balin til sín og sagði honum álit sitt á varðmanni sem hleypir allskonar aðvífandi fólki framhjá án nokkurrar viðvörunar. Óneitanlega hækkaði Bilbó mjög í áliti meðal dverganna eftir þetta. Áður efuðust þeir um, þrátt fyrir orð Gandalfs, að hann kynni nokkuð til verka sem innbrjótur. Balinn var þó ekki ánægður en hinum fannst að það hefði líka verið meistaralegt hjá Bilbó að sleppa framhjá honum.

Bilbó varð nú svo glaður yfir öllu hrósinu sem hann fékk fyrir frábæra innbrjótshæfileika að hann klúkkaði bara innra með sér og hætti alveg við að minnast nokkuð á hringinn. Og þegar þeir spurðu hann, hvernig hann hefði farið að þessu, sagði hann: „Nú bara svona, laumaðist áfram ósköp varlega og hljóðlega.“

„Ja, ég er svo aldeilis hlessa,“ sagði Balinn, „þetta er í fyrsta skipti sem nokkurri mús tekst að læðast varlega og hljóðlega framan við nefið á mér, án þess að ég taki eftir henni.“ Svo bætti hann við: „Ég tek húfuna ofan fyrir þér.“ Og það gerði hann líka, hneigði sig og sagði kurteislega.

„Balinn, þjónustufús.“

„Baggi, þjónustufús,“ svaraði Bilbó.

Svo vildu þeir fá að vita allt sem á daga hans hefði drifið, eftir að þeir misstu af honum og hann settist niður og leysti frá skjóðunni um allt — nema um hringinn sem hann fann (ég segi þeim það „ekki alveg strax,“ hugsaði hann með sér). Sérstaklega hrifust þeir af gátukeppninni. Þeir urðu gagnteknir af frásögninni og fór hrollur um þá, þegar hann lýsti Gollri.

„Og mér einfaldlega kom ekki í hug nokkur ný gáta, því að það truflaði mig hvað hann sat þarna nálægt mér,“ lauk Bilbó frásögninni. „Svo að ég sagði barasta: „Hvað er ég með í vasanum?“ og hann gat ekki getið upp á því, þó hann fengi þrisvar að reyna. Og þá sagði ég við hann. „Nú er komið að loforði þínu. Vísaðu mér leiðina út!“ En þá kom hann að mér og ætlaði að drepa mig, en ég tók á rás, og svo datt ég um koll, en hann fór framhjá mér í myrkrinu. Þá fylgdi ég honum eftir og heyrði hann alltaf vera að tauta við sjálfan sig. Af því gat ég ráðið, að hann hélt að ég vissi um útgönguleiðina og því ætlaði hann að fara þangað í veg fyrir mig. Svo settist hann niður í útganginum svo að ég kæmist ekki framhjá honum. En þá stökk ég bara yfir hann og slapp, og hljóp að útgönguhliðinu.“

„En hvað um verðina?“ spurðu þeir. „Voru engir verðir þar?“

„Ójú! ekki vantaði það. Ég lék bara á þá. En ég festist í dyrunum af því að það var aðeins opin smárifa á þeim og þar slitnuðu af mér allir hnapparnir,“ sagði hann leiður og sýndi rifin fötin. „En ég kreisti mig og kramdi í gegn — og hér er ég.“

Dvergarnir horfðu næstum lotningarfullir á hann, þegar hann talaði um að leika á verði, hoppa yfir Gollri og kreista sig í gegnum dyragætt og það með yfirlætissvip eins og þetta hefði sosum ekki verið neitt.

„Hvað sagði ég ykkur?“ mælti Gandalfur hlæjandi. „Það er meira í herra Bagga spunnið en þið getið ímyndað ykkur.“ En sjálfur horfði hann undarlega á Bilbó undan kafloðnum augnabrúnum um leið og hann sagði þetta, svo að hobbitinn varð hræddastur um að hann grunaði að einhverju væri sleppt úr sögunni.

En nú var komið að hobbitanum að spyrja, því að þótt Gandalfur væri búinn að útskýra það allt fyrir dvergunum, hafði Bilbó ekkert heyrt. Sérstaklega vildi hann fá að vita, hvernig vitkinn hefði aftur getað komið á vettvang, og hvernig þeir hefðu síðan allir sloppið út.

En Gandalfur var nú þannig gerður sem vitki, að hann var tregur til að útskýra snilli sína oftar en einu sinni. Þess í stað sagði hann Bilbó að þeir Elrond hefðu raunar vitað um það að hinir vondu dríslar hefðust við í þessum hluta fjallgarðsins. En aðalhlið þeirra hefði verið í öðru fjallaskarði þar sem umferð væri meiri og því auknar líkur á bráð. En nú virtist það hafa komið í ljós að fólk hefði verið farið að forðast það skarð vegna hættunnar og því hefðu dríslarnir nýlega gert sér nýtt hlið í öðru skarði, sem dvergunum hafði verið ráðlagt að fara um, af því að það væri öruggara en önnur skörð, en svo hefði ekki reynst.

„Ég þarf að aðgæta, hvort ég get ekki fengið eitthvert sæmilega siðað tröll í fjöllunum til að loka þessu hliði þeirra aftur,“ sagði Gandalfur, „því að annars verður engin leið yfir fjöllin örugg.“

Áfram hélt Gandalfur frásögninni, þegar Bilbó rak upp ópið í skútanum, þá gerði hann sér í hvelli grein fyrir hvað var á seyði. Og í sama leiftrinu og drap dríslana, sem ætluðu að handsama hann, tókst honum að skjótast inn um sprunguna rétt áður en hún skall saman. Svo fylgdi þrælrekunum og föngunum eftir alveg að útjaðri stóra hásætissalarins og þar settist hann niður í skugganum og úthugsaði kröftugustu galdrana sem hann gat fundið.

„Það var hræðilega vandasamt verk,“ sagði hann, „þar mátti ekkert út af bera!“

En að sjálfsögðu var Gandalfur sérfræðingur í göldrum með eldum og ljósum (hobbitinn hafði aldrei getað gleymt göldróttum flugeldasýningum hans á miðsumarhátíð Gamla Tóka, eins og við munum). Það sem á eftir fylgdi vitum við öll – nema það að Gandalfur vissi allt um bakdyrnar, eins og dríslarnir kölluðu lægra hliðið þar sem Bilbó hafði misst hnappana. Um það vissu allir sem nokkuð þekktu til þessa hluta fjallgarðsins. En víst var betra að hafa vitka í fararbroddi til að halda ró sinni í göngunum og rata í rétta átt.

„Þetta hlið gerðu þeir fyrir mörgum öldum,“ sagði hann, „ætluðu það sem neyðarútgang, ef á þyrfti að halda, en einnig sem útrásarhlið til héraðanna fyrir handan, en þangað halda þeir enn í ránsferðir og valda oft miklu tjóni. Um það standa þeir stöðugan vörð og hefur engum tekist að skemma það fyrir þeim. Héðan í frá munu þeir vafalaust hafa tvöföld varðhöld á því,“ sagði Gandalfur og hló við.

Öllum hinum var líka hlátur í huga. Að vísu höfðu þeir orðið fyrir töluverðu tjóni, en þeir höfðu aftur á móti unnið það afrek að drepa sjálfan Stórdrísilinn og fjölda annarra drísla og það var þó fyrir mestu, að allir höfðu sloppið á lífi, svo að segja mátti að þeir hefðu haft betur í þessari lotu.

En vitkinn kallaði þá aftur til alvörunnar á ný. „Við verðum tafarlaust að halda ferðinni áfram, megum ekki slaka á, nú höfum við fengið svolitla hvíld,“ sagði hann. „Þeir munu koma á eftir okkur í hundraðatali þegar nóttin skellur á. Það getið þið verið vissir um. Og skuggana er þegar tekið að lengja. Þeir finna þefinn af fótsporum okkar klukkustundum saman eftir að við erum farnir hjá. Við verðum að koma okkur sem allra flestar mílur á braut fyrir náttmál. Það lítur út fyrir tunglskin ef veðrið helst gott og það kæmi sér vel fyrir okkur. Ekki af því að tunglið trufli þá mikið, en það verður miklu auðveldara fyrir okkur að ráða ferðinni í tunglsbirtu.“

„Ójá,“ sagði hann og svaraði enn einni spurningu Hobbitans. „Vissulega missir maður tímaskynið í neðanjarðargöngum dríslanna. Nú er kominn fimmtudagur, en það var á mánudagskvöldið eða réttara sagt aðfaranótt þriðjudagsins sem þeir réðust á okkur. Síðan höfum við farið óraleiðir vegar beint í gegnum iður fjallgarðsins og erum nú á hinni hlið hans — vissulega höfum við stytt okkur leið. En þó er sá galli á, að við komum ekki út á þeim stað sem liggur niður af hinu fjallaskarðinu. Við komum niður alltof norðarlega og eigum því fyrir höndum langa leið yfir fjandsamlegt land til að komast á rétta braut. Og enn erum við æði hátt uppi í fjöllunum. Svona, komum okkur nú af stað!“

„En ég er svo hræðilega svangur,“ stundi Bilbó, sem skyndilega hafði gert sér grein fyrir að hann hefði ekki fengið að bragða á matarbita síðan kvöldið fyrir kvöldið fyrir síðasta kvöld. Það var varla hægt fyrir hobbita að hugsa þá hugsun til enda. Hann hafði það á tilfinningunni að maginn væri allur eitt tóm sem væri ekki til og fæturnir svo máttlausir undir sér að hann lyppaðist niður, nú þegar mesta spennan var hjá liðin.

„Við því er ekkert að gera,“ sagði Gandalfur, „nema þú viljir snúa við og biðja dríslana kurteislega um að skila þér aftur hestinum þínum og farangrinum.“

„Nei, takk fyrir!“ sagði Bilbó.

„Nú jæja, úr því að svo er, þá er ekki um annað að gera fyrir okkur en að herða sultarólina og þramma áfram — eða við verðum sjálfir hafðir fyrir kvöldmat, sem er þó sýnu verra en að fá engan kvöldmat.“

Þegar þeir voru komnir af stað aftur, var Bilbó alltaf að skima til beggja handa eftir einhverju ætilegu. Brómberin voru enn aðeins í blóma, hvergi var neinar hnetur að finna, ekki einu sinni hvítþyrnisber. Hann tuggði nokkrar súrur, saup úr lófa við dálítinn fjallalæk sem varð á vegi þeirra og gleypti þrjú hrútaber sem hann fann þar á lækjarbakkanum, en ekki var nú mikill matur í þeim.

Áfram og áfram héldu þeir. Malarborni stígurinn hvarf. Leiðin lá um kjarr og puntgresi milli kletta, kanínukroppaðan grassvörð, um blóðberg og salvíu og mæru og gular sólrósir. Svo komu þeir fram á fjallsbrún en fyrir neðan var brött hlíð alþakin urðum sem voru leifar af jarðskriðum. Þegar þeir byrjuðu að feta sig niður eftir urðinni fór sandur og fíngerð möl að renna burt undan fótum þeirra, næst fóru stórar sprungnar hellur að hrynja niður með skarkala og ýta við öðru horngrýti fyrir neðan sem tók að renna og síðan að velta niður. Við það kom rask á stóra kletta og þeir ultu af stað og skullu niður í ryki og braki. Áður en við var litið virtist öll hlíðin jafnt fyrir ofan og neðan þá fara á skrið og þeir runnu niður með henni, allir í einum hnapp í óskaplegum hrærigraut af skríðandi, hrapandi stórgrýti og steinum.

En trjágróður fyrir neðan skriðuna varð þeim helst til bjargar. Þannig runnu þeir inn í reinar kræklóttrar fjallafuru sem teygði sig hátt upp eftir fjallshlíðinni frá dimmum skógi í dalnum þar fyrir neðan. Sumir náðu taki á trjábolum og sveifluðu sér upp á lægri greinarnar, aðrir (eins og litli hobbitinn) skýldu sér bak við tré gegn grjóthríðinni. En brátt var hættan hjá liðin, grjóthrunið hafði stöðvast og aðeins heyrðust daufir brotskellir þegar stærstu klettarnir héldu áfram að skoppa og hringsnúast meðal burknanna og fururótanna fyrir neðan.

„Jæja, fyrir bragðið miðaði okkur þó nokkuð vel áfram,“ sagði Gandalfur, „og jafnvel dríslarnir sem eru á hælum okkar munu eiga erfitt með að komast hljóðlega hingað niður.“

„Einmitt það,“ nöldraði Vambi „en þeir verða þá heldur í engum vandræðum með að senda grjótflugið skoppandi yfir hausana á okkur.“ Dvergarnir (og Bilbó) voru ekkert upprifnir yfir þessu. Þeir höfðu nóg að gera við að nudda skrámur og meiðsli á leggjum og fótum.

„Hvaða vitleysa! Nú sveigjum við hér til hliðar og verðum ekki lengur undir jarðskriðunni. En við verðum áfram að hafa okkur alla við! Sjáið hvað birtunni líður.“

Sólin var löngu horfin á bak við fjöllin. Skuggarnir dýpkuðu allt í kringum þá, þótt þeir sæju í fjarska inn á milli trjánna og yfir skóginn neðar í hlíðinni hvar kvöldljósið sleikti enn sléttuna fyrir handan. Þeir skakklöppuðust áfram eins hratt og þeir komust niður aflíðandi hlíðar furuskógarins eftir krákustígum til suðurs. Stundum urðu þeir að olnboga sig í gegnum heilu burknabreiðurnar þar sem laufið reis hátt yfir höfuð hobbitans, þess á milli skálmuðu þeir hljóðlaust um skógarbotninn eftir þykkum barrvoðum og stöðugt varð skógarmyrkrið þyngra og skógarþögnin dýpri. Enginn blær gat þetta kvöld borið nein andvörp fjarlægs sjávarniðs inn á milli greina trjánna.

„Þurfum við nú nokkuð að fara lengra?“ spurði Bilbó, þegar orðið var svo dimmt að hann gat naumast séð skegg Þorins sveiflast til og frá við hliðina á sér — og svo hljótt að hann gat heyrt andardrátt dverganna og fannst hann næstum glymjandi. „Tærnar á mér eru allar rispaðar og bognar, mig verkjar í fótleggina og maginn í mér slettist til eins og tómur poki.“

„Örlítið lengra,“ sagði Gandalfur.

Enn leið nokkur tími, á við ár og aldir, þangað til þeir komu skyndilega út á vítt trjálaust svæði. Tunglið var á lofti og skein niður í rjóðrið. Einhvern veginn fannst þeim öllum að þetta væri ömurlegur staður, þótt ekkert annarlegt væri svo sem við hann að sjá.

Skyndilega heyrðu þeir ýlfur úr fjarska neðar úr hlíðinni, langdregið skerandi væl. Því var svarað með öðru góli til hægri og töluvert nær þeim, síðan hvert af öðru ekki langt til vinstri. Úlfar gólu að tunglinu og voru að safnast saman í stóð!

Ekki lifðu neinir úlfar neins staðar nálægt heimaholu herra Bagga undir Hólnum, samt þekkti hann þessi hljóð. Þeim hafði svo oft verið lýst fyrir honum í sögnum. Einn af eldri frændum hans (af Tókaættinni) hafði verið mikill ferðalangur og gerði sér að leik að líkja eftir úlfaþyt til að hræða hann. Þó fannst Bilbó nú miklu verra að heyra hljóðin úti í skógi undir tunglinu. Ekki einu sinni töfrahringir koma að neinu gagni gegn úlfum — allra síst gegn þeim illvígu úlfastóðum sem hér voru á ferli í skjóli drísildjöflanna, við þennan jaðar óbyggðanna á hjara veraldar. Svona úlfar voru miklu lyktnæmari en dríslar og þurftu ekki að sjá neinn til að ná honum!

„Hvað á ég að gera, hvað á ég að gera“ æpti hann. „Sloppinn frá dríslum, rifinn af úlfum!“ sagði hann, svo úr því varð máltæki. En líka er sagt að „detta út af steikarpönnunni og lenda í eldinum“, sem þýða mætti einfaldlega „úr öskunni í eldinn“. Allt lýsir þetta sömu óþægilegu aðstöðunni.

„Fljótt upp í trén!“ æpti Gandalfur og þeir hlupu að trjánum í jaðri rjóðursins og leituðu helst eftir trjám með lággreinum eða nógu grönnum bol svo auðveldara væri að klifra upp í þau. Það tók nokkurn tíma að finna þau eins og von var og síðan klifruðu þeir eins hátt upp í þau og greinarnar gátu borið þá. Ykkur hefði þótt það hlægilegt (úr öruggri fjarlægð) að sjá dvergana sitja hátt uppi í trjátoppum með skeggin lafandi niður, eins og gamlir bændur gengnir í barndóm og farnir að klifra upp í tré. Fjalar og Kjalar sátu efst í háu lerkitré sem leit út eins og risavaxið jólatré. Betur fór um Dóra, Nóra, Óra, Óin og Glóin í hávaxinni furu með reglulegum greinum sem stóðu út eins og fínustu gangrimlar upp með bolnum. Bifur, Bógur, Vambi og Þorinn voru allir í sama trénu. Dvalinn og Balinn höfðu klifrað upp eftir stofni hárrar og mjóvaxinnar furu með fáum greinum og reyndu að koma sér fyrir í liminu í toppnum. Gandalfur, sem var hávaxnari en allir hinir, hafði fundið tré sem hinir gátu ekki klifrað upp í, stóra og baðmmikla furu sem stóð rétt í jaðri rjóðursins. Sjálfur var hann alveg hulinn í liminu en glórði í augu hans í tunglsskininu þegar hann gægðist niður.

Og hvað um Bilbó? Hann komst auðvitað ekki upp í neitt tré en hringsólaði til og frá milli trjábola eins og kanína með hunda á hælunum, sem finnur ekki holu sína.

„Enn einu sinni hefurðu skilið innbrjótinn okkar eftir!“ sagði Nóri við Dóra þegar honum varð litið niður.

„Alltaf á ég að vera að burðast með þennan innbrjót á bakinu,“ sagði Dóri, „hvort sem er niður í jarðgöng eða upp í tré. Hvað heldurðu eiginlega að ég sé? Eitthvert burðardýr?“

„Hann verður étinn af úlfunum, nema við bregðumst skjótt við,“ sagði Þorinn, því að nú heyrðu þeir ýlfrin allt í kringum sig koma óðfluga nær. „Dóri!“ kallaði hann, því að hann sat einmitt lægst niðri í auðveldasta trénu, „flýttu þér og leggðu herra Bagga lið!“

Dóri þessi var í rauninni besti náungi þó hann væri sínöldrandi. En jafnvel þó hann klifraði niður á neðstu greinina, gat vesalings Bilbó ekki teygt sig upp til að ná til hans og það þó hinn teygði krumluna eins langt niður og honum var mögulegt. Svo að Dóri varð að klifra alveg niður úr trénu og láta Bilbó klöngrast upp á bak á sér og teygja sig þaðan í neðstu greinina.

Rétt í sama mund komu úlfarnir skokkandi inn í rjóðrið. Skyndilega fylgdust hundruð glyrna með þeim. En Dóri brást ekki Bilbó. Hann beið þangað til hann hafði híft sig upp af herðum hans upp í greinarnar og síðan hoppaði hann sjálfur upp og náði taki á greinunum. Það mátti ekki seinna vera. Úlfur kom og glefsaði í kápu hans um leið og hann sveiflaði sér upp og munaði minnstu að hann næði honum. Á næsta augnabliki var allt úlfastóðið komið þar að, geltandi kringum tréð og stökkvandi upp með trjábolnum, með logandi glyrnur og tungurnar lafandi út úr sér.

En ekki einu sinni hinir villtu Vargar (en svo voru hinir illu Úlfar í jaðri Villulanda kallaðir) geta klifrað upp í tré, svo nú var þeim félögum óhætt í bili. Sem betur fer var logn og fremur hlýtt. Það er mjög óþægilegt að sitja lengi samfleytt uppi í trjám. En sérstaklega verður það hræðilegur dvalarstaður ef það er kalt og hvasst, að ekki sé talað um ef úlfar eru allt í kringum tréð sem bíða eftir þeim sem uppi sitja.

Rjóðrið milli trjánna var augljóslega einskonar fundarstaður úlfanna. Þeim fjölgaði óðum. Þeir skildu verði eftir undir trénu þar sem Dóri og Bilbó sátu. Síðan fóru þeir hnusandi um þangað til þeir höfðu snuðrað uppi hvert tré sem einhver sat uppi í. Þá settu þeir einnig verði við þau, meðan hinir úlfarnir (sem nú skiptu hundruðum, að því er virtist), fóru og settust í stóran hring í rjóðrinu. En í miðjum hringnum stóð stór grár úlfur. Hann mælti til þeirra á hræðilegu hrognamáli Varganna. Gandalfur gat skilið það. Bilbó skildi það ekki, en það hljómaði ömurlega í eyrum hans, eins og þeir gætu ekki fjallað um annað en grimmd og illsku, eins og reyndar var. Við og við svöruðu úlfarnir í hringnum höfðingja sínum í einum kór og varð af því svo mikill gaulandi að hobbitinn hrökk við og minnstu munaði að hann dytti niður af furugreininni sinni.

Ég skal rekja hvað Gandalfur heyrði, þó Bilbó skildi það ekki. Vargarnir og dríslarnir höfðu oft átt samstarf að illvirkjum. Dríslar eru ekki vanir að fara langt frá fjöllunum, nema þeir séu hraktir þaðan og þurfi þá að leita sér að nýjum bústöðum, eða ef þeir heyja reglulega styrjöld (en sem betur fer hefur það ekki gerst um langan aldur). En þegar hér var komið fóru þeir stundum í ránsferðir lengra frá fjöllunum, einkum til að afla sér ætis og þrælavinnuafls. Þá fengu þeir oft Vargana til liðs við sig gegn hlutdeild í ránsfengnum. Þá gerðust dríslarnir stundum úlfriðar, þeir riðu á Vörgunum eins og menn gera á hestum. Nú var það að koma í ljós að dríslarnir höfðu einmitt undirbúið mikla ránsferð um nóttina. Vargarnir voru komnir til að hitta dríslana, sem hafði seinkað mjög. Ástæðan fyrir því var vafalaust dauði Stórdrísilsins ásamt með allri ringulreiðinni sem dvergarnir og Bilbó og Gandalfur höfðu valdið og var þeirra sjálfsagt enn leitað.



Þrátt fyrir allar hætturnar í þessu fjarlæga landi höfðu djarfir menn upp á síðkastið verið að snúa aftur þangað úr Suðrinu, til að höggva við og reisa sér bú í fögrum skógum í dölunum og á árbökkunum. Þeir voru fjölmennir og bæði hugrakkir og vel vopnum búnir, svo ef þeir voru margir saman, eða á björtum degi, þorðu Vargarnir ekki að ráðast á þá. En nú höfðu þeir undirbúið, með hjálp dríslanna, að herja að næturlagi á nokkur þorp sem næst stóðu fjöllunum. Ef áætlanir þeirra hefðu staðist hefði enginn staðið eftir lifandi í þorpunum morguninn eftir, allir væru þeir drepnir nema fáeinir sem dríslarnir fengju að halda fyrir úlfunum og yrðu fluttir sem fangar í hella þeirra.

Það var hræðilegt að hlusta á þetta tal Varganna, ekki aðeins með tilliti til hinna dáðríku skógarmanna, eiginkvenna þeirra og barna, heldur líka vegna þeirrar miklu hættu sem nú ógnaði Gandalfi og vinum hans. Vargarnir voru bálreiðir og undrandi yfir að koma hér að þeim á sjálfum þingstað sínum. Þeir héldu líka að þetta væru vinir skógarmannanna sem væru komnir til að snuðra um þá og myndu bera njósn um fyrirætlanir þeirra niður í dalina en þá myndu dríslarnir og Vargarnir eiga mótspyrnu að mæta í hörðum bardaga í stað þess að taka fanga og rífa í sig fólk sem vaknaði upp af værum svefni. Því vildu Vargarnir umfram allt ekki fara burt og láta fólkið uppi í trjánum sleppa a.m.k. ekki fyrr en kominn væri morgunn. En þeir þóttust líka vissir um að löngu fyrr myndu herflokkar dríslanna koma niður úr fjöllunum og þeir gætu, hvort sem þeir vildu, klifrað upp í tré eða höggvið þau niður.

Af þessu getið þið ráðið hversvegna Gandalfur, sem hlustaði á allt þeirra gjamm og gelt, fór að verða mjög svo uggandi um sinn hag, enda þótt hann væri vitki og gerði sér grein fyrir, að þeir félagar hefðu varla getað lent á verri stað og ekkert útlit fyrir að þeir gætu sloppið burt. Þó hann væri fastur uppi í háu tré með úlfa allt í kringum sig niðri á jörðinni, ætlaði hann þó engan veginn að gefast upp mótspyrnulaust. Hann safnaði saman risavöxnum furusprotunum af trjágreinunum. Svo kveikti hann í einum þeirra með björtum bláum eldi og þeytti honum hvínandi niður í úlfahringinn. Logandi sprotinn kom á hrygginn á einum þeirra og strax kviknaði í loðnum feldi hans, hann rauk af stað, æddi til og frá og ýlfraði hræðilega. Svo kom annar logandi sproti og fleiri hver á fætur öðrum, einn í bláum blossa, annar í rauðum og sá þriðji í grænum. Þeir skullu á jörðinni þegar þeir komu niður í miðjum hringnum og sprungu í marglitum gneistum og reyk. Einn sérlega stór logasproti lenti á nefi sjálfs úlfahöfðingjans og hann stökk margfalda hæð sína í loft upp og fór síðan æðandi fram og aftur í hringnum og beit og glefsaði jafnvel í aðra úlfa í reiði sinni og hryllingi.

Dvergarnir og Bilbó gerðu hróp að úlfunum og fögnuðu óspart hrakförum þeirra. Það var hræðilegt að sjá ofsareiði þeirra og hamagang, æðandi um allan skóginn. Úlfar eru ætíð logandi hræddir við eld, en þetta voru þeir hræðilegustu og óviðráðanlegustu eldar sem þeir höfðu kynnst. Ef gneisti kom á feld þeirra var hann fastur og brenndi þá inn úr skinni. Þeir urðu að kasta sér niður á bakið og velta sér aftur og aftur, annars stóðu þeir í ljósum logum. Brátt voru úlfar æðandi um allt rjóðrið og veltandi sér til að drepa í neistunum á hryggnum, meðan hinir sem voru teknir að loga, hlupu um ýlfrandi og kveiktu í öðrum, þangað til þeirra eigin vinir hröktu þá burt og þeir hrökkluðust niður hlíðarnar, vælandi og emjandi í leit að vatni.

„Hvaða læti eru þetta í skóginum í nótt?“ sagði Arnarkonungurinn. Hann sat þar svartur í tunglskininu á toppnum á klettanál í austurbrún fjallanna. „Ég heyri úlfagól! Skyldu dríslarnir nú vera að vinna einhver illvirki í skóginum.“

Hann sveiflaði sér á flug hátt í loft upp og strax hófu tveir af vörðum hans sig upp af klettunum til að fylgja honum. Þeir hnituðu hringa í loftinu og horfðu niður yfir úlfahringinn sem þó var ekki nema lítill depill langt fyrir neðan. En ernir hafa skarpa sjón og geta séð örsmáa hluti úr mikilli fjarlægð. Arnarkonungur Þokufjalla gat horft fránum sjónum sínum í sjálfa sólina án þess að blikna eða séð kanínu hreyfa sig á jörðinni úr mílu hæð og það jafnvel í tunglskini. Þó hann gæti ekki greint fólkið sem faldi sig í trjáliminu, gat hann fylgst með öllu uppnáminu meðal úlfanna, séð litlu eldblossana og heyrt ýlfrið og gjammið berast dauft af jörðinni langt fyrir neðan hann. Líka gat hann greint glampa í tunglsljósinu af spjótum og hjálmum dríslanna, en þessi illyrmi voru komnir á skrið í löngum röðum niður hlíðarnar frá neðra hliðinu og áleiðis til skógarins.

Ernir eru ekki sérlega blíðir á manninn. Sumir eru bæði ragir og grimmir. En í hinum forna stofni í norðurhluta fjallanna voru stærstu ernirnir. Þeir voru allt í senn stoltir og sterkir og göfuglyndir. Þeir voru engir vinir drísla þó þeir þyrftu ekki að óttast þá. Ef þeir skiptu sér nokkuð af þeim (sem var sjaldan, því að þeir höfðu ekki lyst á að éta slík kvikindi), þá steyptu þeir sér yfir þá og hröktu þá skrækjandi inn í hella sína til þess að fyrirbyggja illvirki sem þeir voru að vinna. Dríslarnir hötuðu ernina og óttuðust þá, en komust með engu móti upp í hályft hreiður þeirra og gátu því ekki hrakið þá burt úr fjöllunum.

Arnarkonungur hafði nú fengið forvitni á því hvað hér væri á seyði. Svo hann kvaddi fjölda annarra arna til liðs við sig og þeir flugu burt ofan úr fjöllunum og hægt og rólega hnituðu þeir marga hringa niður og niður, þar til þeir komu niður yfir hring úlfanna þar sem þeir höfðu mælt sér mót við dríslana.

Það kom sér líka ákaflega vel! Hér voru hræðilegir hlutir að gerast. Úlfarnir sem eldurinn hafði náð að festast í flýðu inn í skóginn og kveiktu í honum á mörgum stöðum. Nú var hásumar og hér austan í fjöllunum hafði lítið sem ekkert rignt um skeið. Visnaðir burknar, fallnar greinar, bunkar af barrnálum og visin og fúnuð tré stóðu brátt hér og þar í björtu báli. Allt í kringum rjóðrið með Vörgunum var eldur að breiðast út. En úlfaverðirnir yfirgáfu ekki trén sem þeir áttu að gæta. Æstir og reiðir hringsóluðu þeir ýlfrandi kringum stofnana og bölvuðu dvergunum með sínu hræðilega orðbragði, með tunguna lafandi út úr skoltinum og augun rauðblóðug og logandi sem bálið.

Þá komu dríslarnir skyndilega hlaupandi og öskrandi. Þeir héldu í fyrstu, að hér hefði lostið í bardaga við skógarmennina en þeir fréttu fljótt hvað væri á seyði. Það fannst dríslunum svo hlægilegt að sumir þeirra settust niður og kútveltust af hlátri. Aðrir veifuðu spjótum eða lömdu sköftunum á skildi sína. Dríslar eru ekki vitund hræddir við elda og brátt hófu þeir að hleypa í framkvæmd stórskemmtilegri ráðagerð, að þeim sjálfum fannst.

Sumir fengu alla úlfana til að sitja rólegir. Sumir hlóðu burknum og hrísi kringum trjástofnana. Aðrir dreifðu sér um skóginn til að stappa og berja og berja og stappa, þangað til flestir logar voru slökktir — en þeir hirtu ekki um að slökkva logana næst trjánum þar sem dvergarnir biðu. Þvert á móti bættu þeir þar á laufi og öðrum eldsmat. Brátt var hringur loga og reyks kominn kringum öll tré dverganna. Dríslarnir hindruðu að hann breiddist utar en létu hann færast nær trjánum þangað til hann komst í brennihrúgurnar við trjábolina. Augu Bilbós fylltust af reyk og hann fann jafnvel hitann frá logunum og í gegnum eimyrjuna sá hann dríslana dansa hringinn í kring eins og fólk dansar kringum miðsumarsbál. Utan við hring þessara dansandi stríðskappa með spjót og axir, stóðu úlfarnir í virðulegri fjarlægð, fylgdust með og biðu.

Hann heyrði dríslana hefja upp raust sína og syngja hryllingssöng.

Smávinir fagrir fimmtán í trjánum,

fjarska er þeim orðið heitt á tánum.

Ætli þið fuglar fljúga kunnið

ef fiðrið á vængjum er sviðið og brunnið?

Hvort skal þá lifandi í hreiðrum steikja

eða hamfletta á logunum reykja?

Þeir mega syngja svo sem þeir geta,

en síðast munum við alla éta.

Svo gerðu þeir hlé á söngnum en hrópuðu háðslega „Fljúgið burt litlu fuglar! Fljúgið burt ef þið getið! Komið niður smávinir fagrir eða þið verðið steiktir í hreiðrunum! Syngið syngið smáfuglar! Hversvegna er söngur ykkar þagnaður?“

„Snautið burt! Pottormar!“ hrópaði Gandalfur til að láta ekki standa upp á sig svarið. „Nú er enginn hreiðurtími. En óþæg hrekkjusvín sem leika sér að eldi fá sína refsingu.“ Hann gerði þetta til að æsa þá upp og sýna þeim að hann væri ekki vitund hræddur við þá — þó hann væri það nú óneitanlega, og það jafnvel þó hann væri vitki. En þeir önsuðu honum engu og héldu áfram að syngja:

Brenni brenni barrið

og burknakjarrið.

Hæhó!

Grillum þessa dvergadindla,

drepum þá sem brennandi kyndla.

Hæhó

Sverfa skal að stæltu stáli,

steikjum þá í logandi báli.

Hæhó!

Hitnar þeim af böggunum hrísa,

hræin skulu nóttina lýsa.

Hæhó!

Og með þessu síðasta háglymjandi Hæhó! bárust logarnir undir tré Gandalfs. Og strax á eftir breiddust þeir út til allra hinna. Eldurinn læsti sig í trjábörkinn og brátt snarkaði í neðstu greinunum.

Þá kleif Gandalfur upp í efsta trjátoppinn. Skyndilega spratt stórglæsileg ljósasýning upp frá staf hans og leiftraði sem elding, meðan hann bjó sig undir að stökkva úr upphæðum niður á spjótsodda dríslanna. Það hefðu víst orðið hans endalok, þó vafalaust hefði hann líka dregið marga þeirra með sér í dauðann, þegar hann varpaði sér yfir þá eins og þrumufleygur. En hann stökk aldrei.

Rétt á sama augnabliki steypti Konungur arnanna sér niður úr lofti, greip hann í klærnar og hvarf á braut með hann.

Við kvað heljarglymur reiði og undrunar frá dríslunum. En hærra hlakkaði Konungur arnanna sem Gandalfur hafði nú talast við. Nú sveimuðu að hinir stóru ernirnir sem fylgt höfðu honum og þeir steyptu sér niður eins og voldugir svartir skuggar. Úlfarnir gjömmuðu og gnístu tönnum. Dríslarnir öskruðu og steyptu stömpum af illsku og þeyttu þungum spjótum sínum hátt í loft en árangurslaust. Og ernirnir lustu þá til jarðar eða hröktu þá með svipuhöggum svartra vængja, klóruðu með klónum í andlit dríslanna. Aðrir ernir flugu að trjátoppunum og þrifu dvergana sem voru að klöngrast eins hátt upp í trén og þeir komust eða þorðu að fara.


Og enn var vesalings litli Bilbó næstum skilinn einn eftir. En honum tókst með herkjum að grípa í fót Dóra um leið og hann var borinn burt síðastur allra og þeir hófust báðir saman hátt yfir allan hamaganginn og eldana, Bilbó sveiflaðist í lausu lofti og fannst handleggirnir á sér vera að slitna í sundur.

Langt fyrir neðan tvístruðust dríslar og úlfar vítt og breitt um skógana. Fáeinir ernir hringsóluðu enn og steyptu sér niður yfir orustuvellinum. Logarnir frá trjánum gusu skyndilega hátt upp fyrir efstu greinar og þau brunnu í brakandi báli. Skyndilega stóðu þau öll í gneistaflugi og kolsvörtum reyk. Bilbó hafði sloppið á síðustu stundu.

Brátt sáu þeir eldana aðeins í daufum bjarma langt fyrir neðan, rautt blik á svörtu gólfi. Þeir voru komnir hátt í loft og hækkuðu sífellt flugið í kröppum sveiflandi hringjum. Bilbó gat aldrei síðan gleymt þeirri tilfinningu, þar sem hann hékk á öklum Dóra stynjandi: „Ó, handleggirnir á mér! Ó, handleggirnir!“ en Dóri stundi á móti „Ó, vesalings fæturnir á mér! Ó, fæturnir!“

Bilbó var í eðli sínu svo lofthræddur að hann þurfti ekki að fara hátt upp til að sundla. Hann varð eitthvað svo utan við sig og annarlegur ef hann gægðist þó ekki væri nema út fyrir brúnina á svolitlum kletti. Honum var aldrei vel við að fara upp í stiga, hvað þá upp í tré (en hann hafði heldur aldrei áður þurft að flýja undan úlfum). Svo það má rétt ímynda sér, hvernig hann svimaði nú þegar honum varð litið niður gegnum dinglandi tærnar á sér og sá myrkvað landið gína við fyrir neðan sig, með tunglskinsblettum hér og þar á hamranúpum og bliki af ám sléttunnar.

Þeir nálguðist föla hályfta fjallatinda, tunglbjarta klettastanda sem risu hátt upp úr svörtum skugganum. Þó sumar væri virtist honum nístandi kalt. Hann lokaði augunum og velti því fyrir sér, hvort hann gæti þraukað af. Svo fór hann að ímynda sér hvernig færi, ef hann gæfist upp. Honum varð illt.

Fluginu lauk rétt í tæka tíð, áður en hann gafst upp í höndunum. Nú gat hann sleppt takinu á öklum Dóra, en þó með andköfum og féll niður á grýttan botn arnarhreiðurs. Þar lá hann mállaus og í huga hans hrærðist saman undrunin yfir að hafa bjargast úr eldinum og samfelldur óttinn við að falla af þessari þröngu syllu niður í myrkrið á báðar hendur. Honum leið satt að segja furðulega í höfðinu eftir öll þau hræðilegu ævintýr sem hann hafði ratað í síðustu þrjá daga og enn hafði hann næstum ekkert fengið að éta og hann heyrði sig tauta við sjálfan sig: „Nú veit ég hvernig svínafleskju líður þegar henni er bjargað á síðustu stundu með forki upp af steikjandi pönnunni og kastað upp á hillu!“

„Nei, þú hefur enga hugmynd um það!“ heyrði hann Dóra svara, „því að svínafleskjan veit að henni verður aftur kastað á pönnuna fyrr eða síðar, en vonandi verður okkur það ekki. Auk þess eru ernir ekkert líkir forkum!“

„Ónei! ekkert líkir storkum — æ ég á við forkum,“ sagði Bilbó um leið og hann settist upp og starði áhyggjufullur á örninn sem sat þar rétt hjá. Hann spurði sig, hvaða aðrar endileysur hann kynni að hafa sagt og hvort hann hefði kannski móðgað örninn. Sá á ekki að móðga örn sem ekki er stærri en hobbiti og situr þar að auki uppi í hreiðrinu hans að næturlagi!

En örninn brýndi aðeins gogginn á steini, snyrti fjarðrirnar og veitti honum enga minnstu athygli.

Rétt á eftir flaug yfir annar örn. „Konungur arnanna biður þig að flytja fangana yfir á Stórusyllu,“ hrópaði hann og hvarf á braut. Hinn greip þá Dóra í klærnar og flaug burt með hann út í nóttina en skildi Bilbó einan eftir. En Bilbó var ekki upp á marga fiska, hann hafði krafta aðeins til að velta fyrir sér, hvað hann hefði átt við með „fangar“ og fór strax að ímynda sér að hann yrði víst slægður og hafður í kvöldverð líkt og kanína, þegar að honum kæmi.

En örninn sneri aftur, læsti klónum aftan í frakkann hans og sveif á brott með hann. Ekki flaug hann þó ýkja langt. Mjög fljótlega lagði hann Bilbó niður, skjálfandi af ótta, á breiða syllu í fjallshlíðinni. Enginn vegur lá þaðan niður nema sá hinn fljúgandi vegur og enginn stígur nema sá hinn kastandi sér fram af hengiflugi. Og þarna hitti hann fyrir alla félaga sína. Þeir sátu og studdu baki að klettaveggnum. Konungur arnanna var þar líka á tali við Gandalf.

Svo ekki leit út fyrir að Bilbó yrði étinn í þetta skiptið. Vitkinn og arnarhöfðinginn virtust vera kunningjar og jafnvel kært á milli þeirra. Staðreyndin var sú að Gandalfur, sem oft var á ferð á fjöllum, hafði eitt sinni gert örnunum greiða og læknað höfðingja þeirra af örvasári. Þá fékkst skýring á orðinu „fangar“, að þar var aðeins átt við „fanga sem bjargað hefði verið frá dríslunum,“ en alls ekki að þeir væru fangar arnanna. Þegar Bilbó heyrði á tal Gandalfs komst hann á snoðir um það, að líklega myndu þeir alveg sleppa við hin hræðilegu fjöll. Gandalfur var að ráðgast við stóra örninn um að bera alla dvergana, Gandalf sjálfan og Bilbó, langt í burtu og stytta þeim veg yfir sléttuna fyrir neðan.

En Konungur arnanna aftók að bera þá á nokkurn þann stað þar sem menn bjuggu. „Þeir myndu skjóta á okkur af stórbogum sínum úr ýviði,“ sagði hann „og halda að við værum að sækjast eftir kindum þeirra. Og vissulega væri það rétt hjá þeim á öðrum stundum. En ekki nú, í þetta skiptið erum við bara ánægðir yfir að svipta dríslana afþreyingu sinni og mega um leið endurgjalda með þakklæti það sem okkur var vel gert, en við viljum ekki leggja okkur í áhættu fyrir dvergana með því að flytja þá niður á suðurhluta sléttunnar.

„Ágætt,“ sagði Gandalfur. „Flyttu okkur bara hvert sem þú vilt og eins langt og þú getur! Við erum innilega þakklátir ykkur. En á meðan erum við að farast úr næringarskorti.“

„Já, ég er næstum dauður úr hungri,“ bætti Bilbó við svo mjóróma að enginn heyrði.“

„Kannski mætti úr því bæta,“ sagði Konungur arnanna.

Síðar um nóttina sást bregða fyrir björtu báli á klettasyllunni og skuggunum af dvergunum í kring, sjóðandi og steikjandi svo frá þeim barst indælis steikarilmur. Ernirnir höfðu borið upp til þeirra þurra brennibúta og drógu að kanínur, héra og einn gemling. Dvergarnir sáu um allan matartilbúning. Bilbó var of máttfarinn til að geta nokkuð hjálpað þeim, auk þess sem hann kunni lítt til verka við að flá kanínur eða skera kjöt í bita, vanastur því að slátrarinn kæmi með allt matarkyns til hans tilbúið á pönnuna. Gandalfur hallaði sér einnig eftir að hafa lagt sitt af mörkum við að kveikja upp eldinn því að Óinn og Glóinn höfðu víst týnt tundurkössunum sínum. (Dvergar hafa aldrei lært að nota eldspýtur).

Þannig lauk ævintýrunum í Þokufjöllum. Brátt fann magi Bilbós til saðningar og honum leið svo vel að hann gat aftur sofnað ánægður, þó fremur hefði hann fyrir sína parta kosið að fá brauð og smjör en þessa kjötbita sem steiktir voru á teini. Svo sofnaði hann í hnipri á hörðum kletti, fastar en hann hafði nokkurn tímann gert á fjaðradýnu í litlu holunni sinni heima. En alla nóttina dreymdi hann húsið sitt heima og fannst hann í svefninum ganga um öll herbergin í leit að einhverju en gat hvorki fundið né munað að hverju hann var að leita.

Загрузка...