Í jarðholu nokkurri bjó hobbiti. Þið skuluð þó ekki halda að hún hafi verið skítug og fúl af raka, eða að út úr veggjunum hafi staðið óteljandi dinglandi ánamaðkadindlar og enn síður að hún hafi dúnstað af fúkka og myglu. Og þið skuluð heldur ekki ímynda ykkur að hún hafi verið svo þurr og rykug og eyðilega tóm, að þar væri engin leið að setjast niður og njóta góðrar máltíðar. Ónei, öðru nær, því að þetta var ósvikin hobbitahola og varla er hægt að hugsa sér notalegri stað á jarðríki.
Fyrir holunni voru fullkomlega kringlóttar dyr svo þær minntu á kýrauga, grænmálaðar og nákvæmlega út úr miðjunni stóð glampandi fægður látúnshúnn. Inn af dyrunum gekk forstofa, sívöl eins og jarðgöng, en hún var fjarska notaleg og alveg reyklaus, veggirnir allir viðarklæddir og gólfin ýmist steinlögð eða með mjúkum ábreiðum. Þar voru gljálakkaðir stólar og ótal krókar og snagar til að hengja á húfur og kápur — því að hobbitar voru einstaklega gestrisnir og höfðu gaman af gestakomum. Göngin teygðust lengra og lengra, nokkurnveginn en þó ekki alveg þráðbeint inn í hæðina — eða Hólinn eins og allir, jafnvel í margra kílómetra fjarlægð allt um kring, kölluðu það — og út frá göngunum opnuðust ótalmargar dyr, allar kringlóttar, fyrst öðrum megin og síðan hinum megin. Hjá hobbitum þekktist ekki að fara upp á loft: Svefnherbergi, baðherbergi, kjallarar, matarbúr (nóg var af þeim), fataskápar (heilu herbergin undir föt), eldhús, matstofur — allt var á sama gólfi og raunar út frá einum og sama ganginum. Stássstofurnar voru vinstra megin við ganginn (eða horfðu svo við þegar inn var gengið) því að það var gluggamegin. Það voru djúpt innfelldir, kringlóttir gluggar sem vissu út að garðinum og engjunum undir aflíðandi brekkum niður að ánni.
Hobbitinn sem hér réði húsum var vel efnum búinn og bar ættarnafnið Baggi. En Baggarnir höfðu búið hér í Hólnum eða í grennd við hann lengur en elstu karlar gátu munað. Þeir voru álitnir mjög svo virðingarverðir, ekki aðeins af því að þeir voru flestir vel bjargálna, heldur líka af því hve aðgætnir þeir voru, tóku aldrei neina áhættu, hættu sér aldrei út í nein ævintýri né tóku upp á neinu óvæntu: Það mátti nokkurn veginn alltaf vita fyrirfram hverju Baggi svaraði hverri spurningu, svo það var mesti óþarfi að spyrja hennar. En þetta er aftur á móti sagan af því hvernig einn af þessum Böggum lenti í ævintýrum og hvernig það æxlaðist svo til, að hann tók upp á því að gera og segja algjörlega óvænta hluti. Við það missti hann kannski tiltrú nágrannanna, en ávann sér — ja, þið sjáið það seinna hvort hann hafði nokkurn ávinning af því öllu saman.
Móðir þessa ákveðna hobbita — Æ! hvað er eiginlega hobbiti? Líklegast þarf nú á dögum að útskýra hvað hobbiti er, þar sem þeir eru orðnir svo sjaldgæfir og feimnir við Stóra fólkið, eins og þeir kalla okkur, að þeir sneiða hjá okkur. Þeir eru (eða voru) smávaxnir, aðeins hálfir á við okkur. Þeir eru drjúgum sjónarmun minni en skeggjuðu dvergarnir en skegglausir. Það er svo sem enginn galdur við þá tengdur, nema hvað þeir eru snöggir og liprir að láta sig hverfa hljótt og hratt, meðan stóra og heimska fólkið eins og þú og ég komum arkandi með svo miklum skarkala að gæti minnt á fíl og er ekki mikill vandi að heyra til okkar úr mílufjarlægð. Þeir eru feitlagnir einkum framan á maganum, klæðast skærlitum fötum (mest grænum og gulum), skólausir því að þykkur siggvöxtur myndar af náttúrunnar hendi hálfgildings leðursóla undir iljunum en ofan á ristum og á öklunum vaxa þéttvaxnir brúnir hárbrúskar, hrokknir eins og lubbinn á höfðinu á þeim. Þeir hafa langa og liðuga svarbrúna fingur, eru gæðalegir á svip og hlæja djúpum dillandi hlátri (sérstaklega eftir aðalmáltíð dagsins, sem er raunar tvisvar á dag ef þeir geta komið því við). Þá vitið þið nóg um þá til að byrja með.
Jæja, eins og ég ætlaði að fara að segja, þá var móðir þessa tiltekna hobbita — Bilbó Bagga — sú fræga Belladonna Tóka, ein af þremur merkisdætrum Gamla Tókans, höfðingja þeirra hobbita sem bjuggu handan Ár, litlu sprænunnar sem rann meðfram Hólnum. Það orð lék á (í öðrum fjölskyldum) að einhver í Tókaætt hefði endur fyrir löngu gifst álfkonu. Slíkt var auðvitað fráleitt, en hinu var ekki að neita, að það var eitthvað óhobbitalegt í fari þessa fólks. Við og við gerðist það að einhverjir úr Tókaættinni hlupu út undan sér og héldu út í buskann í ævintýraleit. Þeir einfaldlega hurfu þegjandi og hljóðalaust en fjölskylda þeirra þaggaði það niður og reyndi að láta eins og ekkert væri. Svo mikið var víst, að Tókar þóttu ekki eins virðulegir og Baggarnir, þótt vafalaust væru þeir miklu ríkari.
Ekki svo að skilja að Belladonna Tóka legðist í neina ævintýraleit eftir að hún giftist Búngo Bagga. En það var þó kannski ævintýri út af fyrir sig, að Búngo þessi eiginmaður hennar, það er faðir Bilbós, byggði henni þá óhófslegustu hobbitaholu (víst að hluta með hennar fjármunum) sem þekktist hvort sem var undir Hól eða yfir Hól eða handan Ár, og þar bjuggu þau síðan til æviloka. Hitt er líklegt, þótt Bilbó einkasonur hennar, væri að útliti og framkomu eins og lifandi eftirmynd síns trausta og rólega föður, að hann hafi fengið eitthvað skrýtið í vöggugjöf frá Tókaættinni, eitthvað sem leyndist undir niðri og beið þess aðeins að fá tækifæri til að blása út. En það tækifæri lét þó á sér standa, þangað til Bilbó var löngu orðinn fullvaxta hobbiti, um fimmtugt eða þar um. Þannig höfðu árin liðið og hann setið alla tíð um kyrrt í fallegu hobbitaholunni sem faðir hans hafði smíðað og ég var að lýsa fyrir ykkur. Var ekki ekki annað að sjá en að þar mundi hann óhagganlega una alla ævi sinnar daga.
En þá gerðist það að morgni dags endur fyrir löngu og af undarlegri tilviljun í allri heimsins rósemd, — í þá daga þegar varla mátti hljóð heyra en allt var svo iðjagrænt og hobbitarnir enn svo fjölskipaðir og velmegandi — að Bilbó Baggi stóð á hlaðinu úti fyrir dyrum sínum og var að fá sér reyk eftir morgunverðinn úr voldugri pípu sinni sem náði næstum því niður á kafloðnar tærnar (sem hann hafði vandlega greitt) — að Gandalfur átti leið hjá. Já, þessi Gandalfur! Ef þið vissuð aðeins fjórðunginn af því sem ég veit um Gandalf, og hef ég þó aðeins heyrt lítið brot af öllu því sem um hann er skvaldrað, þá eruð þið sjálfsagt við því búin að heyra allskyns furðusögur. Því að sögur og ævintýri spruttu á furðulegasta hátt upp í kringum hann, hvar sem hann lagði sína leið. Hann hafði ekki látið sjá sig hér undir Hól svo áratugum skipti, aldrei síðan vinur hans Gamli Tóki dó. Það var raunar svo langt síðan hann hafði komið hingað, að hobbitarnir voru næstum búnir að gleyma því, hvernig hann leit út. Hann hafði verið einhvers staðar langt handan Hóls og Ár í eigin erindagjörðum síðan fólkið þarna hafði verið litlir hobbitastrákar og hobbitastelpur.
Bilbó var því með öllu óviðbúinn þennan morgun þegar hann sá gamlan mann koma röltandi með stóran staf í hendi. Hann hafði uppháan topphatt bláan á höfði, var í grárri skikkju með silfurlitan klút um háls en fram yfir hann hékk langt hvítt skeggið og lafði niður að mitti. Þá var hann í feikimiklum svörtum leðurstígvélum.
„Komdu sæll,“ sagði Bilbó með áherslu eins og til að sýna að hann meinti það. Sól skein í heiði og gljáði á grasið iðjagrænt. En Gandalfur tók kveðju hans með því að horfa skondnum svip undan signum brúnum, svo kafloðnum að þær stóðu stífar út fyrir skuggsælt hattbarðið.
„Hvað áttu eiginlega við?“ sagði hann „Ertu að bjóða mér sæld, eða bara að segja mér í óspurðum fréttum að ég sé sæll hvort sem ég vil það eða ekki; eða láta mig vita að þér finnist að ég eigi að vera sæll á þessari stundu, eða almennt að maður hljóti að vera sæll á slíkum degi?“
„Allt í senn,“ sagði Bilbó og lét sér hvergi bregða. „Og í kaupbæti með allri þessari sælu máttu fá þér í pípu með mér hér undir beru lofti. Tylltu þér og fáðu þér reyk. Ekkert liggur nú á, við höfum allan daginn fyrir okkur!“ Svo settist Bilbó sjálfur niður á svolítinn kamp við dyrnar, krosslagði fæturna og blés frá sér bráðfallegum gráum reykjarhring sem hófst upp í loftið og sveif áfram án þess að gliðna í sundur upp eftir Hólnum.
„Vel af sér vikið!“ sagði Gandalfur, „En ég má engan tíma missa í að blása reykjarhringi í dag. Ég er að leita að einhverjum sem vildi taka þátt í mikilli ævintýraferð sem ég er að undirbúa, og mér gengur ekkert að finna neinn.“
„Því gæti ég trúað að sá væri ekki auðfundinn hér um slóðir! Við hér erum ósköp venjulegt og hæglátt fólk og þörfnumst engra ævintýra. Hvað eru ævintýri líka annað en árans óþægindi og truflun! Í ævintýrum getur maður aldrei verið viss um að komast tímanlega í matinn! Mér er bara hulin ráðgáta hvað er varið í þessi ævintýri,“ sagði herra Baggi; hann smeygði öðrum þumalfingrinum undir axlabandið og blés frá sér öðrum reykjarhring.
Svo dró hann fram bréf sem hann hafði fengið með póstinum um morguninn, fór að lesa þau og lét sem gamli maðurinn væri ekki til. Honum fannst lítt áhugaverður þessi gamli gramur og vildi helst að hann hefði sig hið bráðasta á braut. En gamli maðurinn færði sig ekki um fótmál, bara stóð þarna og studdist fram á stafinn og starði á hobbitann án þess að segja nokkuð, þangað til Bilbó fór að þykja það óþægilegt og varð önugur yfir þessari truflun.
„Jæja, vertu þá sæll!“ sagði hann loks. „Hér viljum við sem sé vera laus við öll ævintýri, takk fyrir. Þú gætir leitað fyrir þér yfir Hól eða handan Ár.“ Þar með skyldi því samtali vera lokið.
„Hún kemur ykkur heldur en ekki að notum þessi himnaríkissæla,“ sagði Gandalfur. „Nú þýðir hún að þú viljir losna við mig, ég megi vera sæll ef ég bara snauti burt og þú verðir ekki sæll fyrr en þú sért orðinn laus við mig.“
„Nei, alls ekki, og engan veginn, herra minn! En hvað erum við að skeggræða þetta saman, og ég veit ekki einu sinni hvað þú heitir.“
„Jæja og jæja, góði minn — en ég veit hvað þú heitir, herra Bilbó Baggi. Og víst veistu hver ég er, þótt þú munir ekki eftir mér í þessari andrá. Ég heiti Gandalfur og Gandalfur það er ég! Að hugsa sér að mér skuli vera sælað burt af syni sjálfrar Belladonnu Tóka, eins og ég væri farandsali og hnappasmiður að bjóða látúnshnappa við dyrastaf.“
„Ó, Gandalfur, Gandalfur! Hjálpi mér! Ekki þó förukarlinn sem gaf Gamla Tóka tvöföldu demantshnappana göldróttu sem festust saman og losnuðu ekki fyrr en þeim var skipað það? Ekki þó sami gamli þulurinn sem sagði okkur öll skemmtilegu ævintýrin um drekana og drísildjöflana og tröllin og sagnirnar af því hvernig kóngsdætrum var bjargað og af öllum þeim óvæntu höppum sem féllu í skaut fátæka stráksins, sonar ekkjunnar? Ekki þó sami karlinn og var þvílíkur snillingur í að skjóta á loft flugeldum! Hvort ég man það. Gamli Tóki fékk þá og var vanur að skjóta þeim á Miðsumarnótt. Þeir voru alveg hreint frábærir. Þá sprungu út á himninum risavaxnar liljur og ljónsmunnar og logandi gullregn og svifu um í rökkrinu og langt fram á kvöld!“
Af þessum hrifningarorðum herra Bagga getur lesandinn strax ráðið að hann var ekki nærri því eins skyni skroppinn og hann vildi vera láta og auk þess var hann sýnilega mesti blómavinur. „Detta mér nú dauðar lýs,“ hélt hann áfram. „Ekki þó sá sami Gandalfur og bar ábyrgð á því að bæði strákar og stelpur fóru út í veður og vind að taka upp á allskyns skrýtnum uppátækjum, hvort sem það var að klifra upp í tré eða heimsækja álfa – eða sigla með skipum burt til fjarlægra stranda! Já, hjálpi mér, þá var lífið svei mér ske — æ, æ, æ ég á við það að þú settir allt í háaloft í þá gömlu og góðu daga. Ég verð að biðja þig afsökunar, en ég hafði ekki hugmynd um að þú værir enn í þessum bransa.“
„Hvar annars ætti ég að vera?“ sagði vitkinn. „Vænt þykir mér um að þú manst ennþá eftir mér. Ekki er annað að heyra en að þú minnist flugeldanna með söknuði, og þá er þér þó viðbjargandi. Og fyrir sakir afa þíns Tóka og vesalings Belladonnu, skal ég verða við ósk þinni.“
„Ég bið af afsaka, en ég var ekki að biðja þig um nokkurn skapaðan hlut!“
„Jæja, það er skrýtið. Nú varstu þó að biðja um það í annað skipti – um afsökun mína. Hana gef ég þér. Og það sem meira er, ég skal taka þig með mér í þessa ævintýraferð. Það verður gaman fyrir mig, ágætt fyrir þig — og þú getur hagnast vel á því, það er að segja ef við þraukum hana af.“
„Nei, takk! Ég kæri mig ekki um nein ævintýri. Að minnsta kosti ekki í dag. Nú var ég búinn að segja vertu sæll við þig og svo ekki meira með það! En þér er velkomið að líta inn einhvern tímann seinna – og fá þér tesopa. Já, hvenær sem þú vilt! Hvernig stendur á hjá þér á morgun! Já, komdu þá! En vertu nú bara sæll og blessaður.“ Og með það sneri hobbitinn sér á hæli og smeygði sér inn um kringlóttar grænar dyrnar og skellti þeim í lás svo snöggt sem hann þorði, án þess að sýnast of dónalegur. Því að vitkar voru nú einu sinni vitkar og best að fara varlega að þeim.
„Hví í ósköpunum fór ég að bjóða honum í te!“ sagði hann önuglega við sjálfan sig um leið og hann beygði inn í matarbúrið. Bilbó var að vísu nýbúinn að snæða morgunverð, en fannst sér þó ekki veita af svo sem einni smáköku eða tveimur og einhverjum sopa eftir alla þessa áreynslu.
En eftir stóð Gandalfur utan dyra og sauð lengi niðri í honum hláturinn. Að vörmu spori gekk hann nær dyrunum, brá staf sínum og krotaði með honum á fallegar grænlakkaðar dyr hobbitans eitthvert tákn. Svo skundaði hann á braut í sama mund og Bilbó var að innbyrða aðra kökuna og farinn að vona að hann væri laus við öll ævintýri.
Daginn eftir var hann steinbúinn að gleyma Gandalfi. Hann var ósköp gleyminn á stefnumót nema hann skrifaði þau niður á stundatöflu sína t.d. Miðvikudagur – Gandalfur í te. En í gær hafði hann verið svo flaumósa að hann gleymdi að púnkta það niður.
Rétt þegar kominn var tetími, var dyrabjöllunni hringt svo hátt að allt ætlaði um koll að keyra og þá mundi hann það! Hann rauk til og setti ketilinn á og bætti við einum bolla og diski og einni aukaköku eða tveimur og hljóp til dyra.
„Ég bið afsökunar að láta þig bíða!“ ætlaði hann að segja, en þá sá hann að úti fyrir stóð enginn Gandalfur, heldur dvergur með blátt síðskegg sem reyrt var niður undir mittisólina. Hann var sérkennilega skæreygur undir dökkgrænni topphettu. Ekki hafði Bilbó fyrr opnað dyrnar en hann ruddist inn og lét eins og búist hefði verið við honum.
Hann hengdi hettu sína á næsta snaga. „Dvalinn heiti ég, þjónustufús,“ sagði hann og hneigði sig djúpt.
„Bilbó Baggi, sömuleiðis!“ svaraði hobbitinn til baka, svo yfirkominn af undrun að honum datt ekki einu sinni í hug að spyrja dverginn hvað honum væri á höndum. En þegar þögnin var orðin vandræðaleg bætti hann við. „Ég ætlaði rétt að fara að fá mér te, má bjóða þér sopa með mér?“ Hann var víst dálítið stífur í fasi, en í rómnum mátti greina meðfædda gestrisnina. En hvernig á maður líka að bregðast við, ef óboðinn dvergur treður sér inn úr dyrunum og fer úr yfirhöfninni án nokkurra skýringa.
Ekki höfðu þeir lengi setið að borði, varla byrjaðir á þriðju köku, þegar enn háværari hringing hristi húsið.
„Afsakaðu, ég verð að fara fram!“ sagði hobbitinn og hljóp til dyra.
„Það var mikið að þú lést sjá þig!“ ætlaði Bilbó að segja við Gandalf. En það var ekki heldur Gandalfur í það skipti. Þar stóð annar dvergur á þrepskildinum nokkru eldri með hvítt síðskegg og skarlatsrauða hettu. Hann ruddist inn um leið og dyrnar opnuðust líkt og honum hefði verið boðið.
„Ég sé að þeir eru byrjaðir að tínast hingað,“ mælti hann þegar hann sá græna hettu Dvalins hangandi á snaganum. Hann hengdi rauðu hettuna sína þar við hliðina og mælti „Ég er Balinn, þjónustufús,“ og hneigði sig með hönd á brjóst.
„Takk fyrir!“ sagði Bilbó gapandi af undrun. Það var að vísu ekki hans að þakka fyrir neitt, en það að þeir væru farnir að tínast hingað kom alveg flatt upp á hann. Honum fannst gaman að fá gesti en helst vildi hann vita einhver deili á þeim eða spyrja þá út úr við komuna. En nú fór honum að líða illa af tilhugsuninni um að hann ætti ekki nógar kökur, og þá yrði það auðvitað skylda hans sem gestgjafa, að setja sjálfan sig hjá.
„Gakktu í bæinn og fáðu þeir tesopa,“ hafði hann sig til að segja eftir nokkur andköf.
„Ég vildi nú heldur fá bjór, ef þér væri sama, herra,“ sagði Balinn hinn hvítskeggjaði. „En kökur vil ég – helst þríkornakökur, ef þú ættir þær til.“
„Nóg af þeim!“ svaraði Bilbó og botnaði ekkert í sér, og áður en hann vissi sjálfur af var hann þotinn af stað niður í kjallara að fylla pottkollu af bjór og síðan í búrið að sækja tvær ljómandi fallegar þríkornakökur, sem hann var nýbúinn að baka og ætlaði sjálfum sér til kvöldnæringar.
Þegar hann kom til baka sátu Balinn og Dvalinn saman við borðið og töluðu saman eins og þeir væru gamlir vinir (og ekki að furða þar sem þeir voru líka bræður). Bilbó lét bjórinn og frækökurnar smella á borðið, rétt í því að dyrabjallan hringdi, og enn aftur.
„Nú hlýtur það að vera Gandalfur,“ hugsaði hann másandi á hlaupunum. En það var ekki að heldur. Nú birtust tveir dvergar í viðbót báðir með bláar hettur, silfrað belti og ljósgul síðskegg. Og báðir voru með verkfærapoka og skóflu. Inn hoppuðu þeir samstundis og rifa kom á gættina. En nú gat ekkert lengur komið Bilbó á óvart.
„Hvað get ég gert fyrir ykkur, dvergar mínir?“ sagði hann.
„Kjalar, þjónustufús!“ sagði annar, „Og Fjalar,“ bætti hinn við og báðir sveifluðu bláum hettunum kringum sig og hneigðu sig djúpt.
„Sömuleiðis ykkur og fjölskyldum ykkar!“ svaraði Bilbó og var nú farinn að kunna sig betur en áður.
„Ég sé að Dvalinn og Balinn eru mættir,“ sagði Kjalar. „Komum okkur þá inn í kösina!“
„Kösina!“ hugsaði herra Baggi. „Mér hættir nú alveg að lítast á blikuna. Ég verð víst aðeins að tylla mér hér niður til að ná áttum og fá mér smásopa. Hann hafði aðeins getað dreypt á glasinu sínu – úti í horni, meðan dvergarnir fjórir sem komnir voru röðuðu sér í kringum borðið og voru farnir að spjalla saman um námur og gull og vandræðin með dríslana, og hörmungina með drekann og ótal aðra hluti sem hann botnaði ekkert í og langaði heldur ekki til að vita neitt um, því að það var alltof ævintýralegt – þegar dinglara-dingl-ding-dong dyrabjallan gall við enn einu sinni eins og einhver hobbískur óþekktarormur væri að hamast við að rífa strenginn niður.
„Það er víst einhver fyrir utan!“ sagði hann og drap tittlinga.
„Segðu heldur fjórir, ég heyri ekki betur,“ sagði Fjalar. „Auk þess sáum við til þeirra skammt á eftir okkur.“
Vesalings litli hobbitinn vissi nú ekki sitt rjúkandi ráð, svo að þegar hann kom fram í forstofuna, féll honum allur ketill í eld og hann grúfði andlitið í höndum sér og botnaði ekkert í því, hvað væri eiginlega á seyði og hvort allir þessir gestir sem dembdust yfir hann ætluðu að vera þar í kvöldmat. Þá glumdi bjallan aftur við, svo ærandi og óþolinmóð að hann komst ekki hjá því að fara til dyra. Úti fyrir birtust ekki aðeins fjórir, heldur voru þeir orðnir FIMM. Enn einn dvergur hafði bæst í hópinn, meðan hann var að íhuga málin í forstofunni. Varla hafði hann hreyft við lokunni fyrr en þeir skullu yfir hann eins og flóðalda, ryðjandist sig inn og hneigjandist sig og segjandist sig hver í kapp við annan: „þjónustufús“, — Dóri, Nóri, Óri, Óinn og Glóinn hétu þeir og áður en við var litið höfðu þeir hengt upp á snagana tvær rauðar hettur, eina gráa, aðra brúna og loks eina hvíta á lit og örkuðu inn í stofu, héldu potthlemmsbreiðum lúkum í gyllt og silfruð belti sín og bættust í hóp hinna sem fyrir voru. Nú mátti þó næstum fara að segja að komin væri kös. Sumir dverganna vildu öl, aðrir heimtuðu létt vín og einn kaffi, en allir steyttu þeir sig út af kökum, svo nú var nóg að gera hjá hobbitanum um sinn.
Hann hafði sett stóra kaffikönnu yfir eldinn, þríkornakökurnar voru búnar og dvergarnir byrjaðir að naga heilan umgang af skonroki með smjöri — þá var barið fast að dyrum, nú voru það ekki bjölluhringingar, heldur hvell högg á fallegu grænu útidyr hobbitans. Einhver að berja á þær með staf.
Bilbó kom þjótandi fram ganginn, allt í senn reiður, ruglaður og ráðalaus – þetta var sá alversti miðvikudagur sem hann hafði nokkurn tímann upplifað. Hann rykkti upp dyrunum og inn þeyttust í einni bendu hver ofan á annan, enn fleiri dvergar, raunar bættust þeir fjórir við. Og að baki þeim stóð Gandalfur, hallaði sér fram á staf sinn skellihlæjandi. Hann hafði gert töluverða dæld í fallegu dyrnar með stafnum og þó samtímis máð út leynimerkið sem hann hafði rist í þær daginn áður.
„Varlega! Varlega!“ sagði hann. „Það er ólíkt þér, Bilbó, að láta vini þína bíða svona lengi á dyramottunni og opna svo dyrnar eins og í byssuhvelli. Má ég kynna, hér er Bifur og Bógur, Vambi og síðast en ekki síst sjálfur Þorinn.“
„Þjónustufús!“ sögðu þeir Bifur, Bógur og Vambi hver á fætur öðrum. Þeir tóku af sér hetturnar og hengdu þær upp á snaga, tvær gular, eina fölgræna og loks eina himinbláa með löngum silfurskúf. Sú síðasta var hetta Þorins, þess fræga og meiriháttar dvergs, sem var í rauninni enginn annar en sjálfur Þorinn Eikinskjaldi, og var það fyrir neðan virðingu hans að skella þannig niður á gólfið í forstofu Bilbós með þá Bifur, Bóg og Vamba í hrúgu ofan á sér, og verst af öllu, hvað Vambi var óskaplega feitur og þungur. Þorinn var því í meira lagi fýldur svo hann nefndi ekki einu sinni á nafn neina þjónustu. En vesalings Baggi klifaði í sífellu á því hvað sér þætti þetta leitt, svo að Þorinn varð hundleiður á þeirri þvælu og tuldraði „blessaður minnstu ekki á það,“ og létti brúnum.
„Þá erum við allir saman komnir!“ mælti Gandalfur og taldi á snögunum þrettán hetturnar hangandi í röð – bestu lausu sparihetturnar sem þeir áttu – og loks sinn eigin topphatt. „Hér er aldeilis hátíð! Vonandi er eitthvað eftir handa okkur þeim síðbúnu að éta og drekka! Hvað er nú þetta? Te! Nei takk fyrir. En litla lögg af rauðvíni þægi ég.
„Ég sömuleiðis,“ sagði Þorinn.
„Hindberjasultu og eplaköku handa mér,“ sagði Bifur.
„Hakkabuff og ost,“ sagði Bógur.
„Svínasultu og salat,“ sagði Vambi
„Og okkur vantar meiri kökur – og öl – og kaffi, ef þú vildir vera svo vænn,“ kölluðu hinir dvergarnir innan úr stofunni.
„Ef þú vildir spæla nokkur egg til viðbótar, þá værirðu góður strákur!“ kallaði Gandalfur á eftir hobbitanum þar sem hann var á leið fram í búr. „Og komdu svo líka með kalda kjúklinginn og súrsuðu gúrkurnar.“
„Það er engu líkara en hann viti betur en ég sjálfur, hvað ég á til í búrinu!“ hugsaði Baggi, og var orðinn herfilega flaumósa því það var engu líkara en að þetta fjárans ævintýri væri strax byrjað þarna inni á gafli hjá honum. Og þegar hann var búinn að hrúga flöskum og diskum og hnífum og göfflum og glösum og djúpum diskum og skeiðum á heljarstóra bakka, var hann orðinn bullsveittur og kófrauður í framan af illsku.
„Fari þeir norður og niður þessir dvergar!“ sagði hann upphátt við sjálfan sig. „Og svo nenna þeir ekki einu sinni að ljá manni minnstu hjálparhönd.“ En það var eins og við manninn mælt bara! Þarna stóðu þeir Balinn og Dvalinn í eldhúsdyrunum og á eftir þeim komu Fjalar og Kjalar og áður en nokkur gæti sagt lús eða mús, höfðu þeir þrifið alla bakkana og tekið með sér nokkur smáborð og farið með inn í stofuna og lagt á borð sem haganlegast.
Gandalfur sat fyrir borðsenda líkt og í forsæti fyrir dvergunum þrettán, en Bilbó settist á koll við arininn og nartaði í kex (hann var búinn að missa alla matarlyst) og reyndi að láta líta út fyrir að allt væri í stakasta lagi eins og það ætti að vera og ekkert ævintýri á döfinni. Dvergarnir hámuðu í sig góðgætið og samkjöftuðu varla. Tíminn var fljótur að líða. Loks ýttu þeir stólum frá borði og Bilbó bjóst til að fara að taka saman diskana og glösin.
„Ég gæti ímyndað mér að þið ætlið að vera frameftir og fá kvöldmat?“ sagði hann í kurteisasta og undirgefnasta tón sem hann átti til.
„Að sjálfsögðu!“ sagði Þorinn. „Og við komumst víst ekki fyrr en seint til að ræða málin og þá þurfum við að fá einhverja tónlist til að hressa sálina. Svona, takið nú til!“
Og tólf Dvergar, allir að Þorni undanskildum sem var yfir það hafinn að sinna húsverkum, stukku á fætur og hlóðu öllu upp í hrúgur. Og svo báru þeir það út, biðu ekki eftir bökkunum, stilltu upp með jafnvægislist heilu súlunum af diskum og undirskálum og með flösku ofan á, og báru það út einhendis, meðan hobbitinn var allsstaðar að þvælast fyrir þeim, veinandi af hræðslu „æ, fariði nú varlega!“ eða „verið nú ekki að hafa fyrir þessu, ég skal sjá um það allt saman.“ En dvergarnir svöruðu honum aðeins með því að kyrja gamansöngva á hlaupunum:
Glös og bolla og botél öll
brjótum við og brömlum,
skvettum út um víðan völl
víni af belgjum gömlum.
En húsbóndinn, helst er hann til tálma
hvaða læti, hvaða læti, hvað er hann að mjálma
Beygla gaffla, brenna göt
í borðdúkana fína,
best er að láta fljúga föt
og feiti í kodda klína.
Og húsbóndinn, hvað er hann að skæla
hvaða læti, hvaða læti, hvað er hann að væla.
Á leirtauinu í ljótum pott
lurkahöggin dynja
og látum þennan leiða þvott
loks um gólfin hrynja.
Og húsbóndinn, hringsnýst um sig sjálfur
hvaða læti, hvaða læti, hann er eins og kálfur
Engum dettur auðvitað í hug að þeir hafi gert neitt af þessum óskunda og skammarstrikum. Áður en við var litið var allt orðið fínt og fágað og búið að koma öllu fyrir á sínum stað. En hobbitinn gerði lítið annað en hringsnúast um sjálfan sig á miðju eldhúsgólfinu til að fylgjast með því sem hinir voru að gera. Að því búnu sneru þeir aftur inn í stofuna. Þar sat Þorinn og teygði úr sér með lappirnar á aringrindinni og var að reykja pípu. Svo blés hann út úr sér þeim alstærstu reykjarhringjum sem Bilbó hafði séð og þeir stefndu rakleitt hvert svo sem hann beindi þeim, upp um strompinn, bak við klukkuna á arinhillunni, undir borðið eða hann gat látið þá hringsóla uppi undir loftinu. En hvert sem hringarnir hans fóru komust þeir ekki undan Gandalfi. Því — plúpp-plúpp — sendi hann óteljandi minni reykjarhringi úr lítilli leirpípu sinni og lét þá skjótast og vefjast í gegnum hvern og einn af hringum Þorins. Og hringir þessa gamla galdrakarls urðu grænir og sneru við og hnituðu marga hringa um höfuð vitkans. Komið var heilt ský af hringum allt í kringum höfuðið á honum og í daufri birtunni var hann orðinn æði undarlegur svo minnti á særingamann. Bilbó stóð hjá og starði furðu lostinn á listir þeirra – hann var mjög hrifinn af reykjarhringum – nú fyrirvarð hann sig við tilhugsunina um, hvað hann hafði verið montinn í gærmorgun af reykjarhringunum sem hann sendi á skrið yfir Hólinn.
Þá er komið mál að heyra söng og fagra tóna! sagði Þorinn. „Takið upp hljóðfærin!“
Kjalar og Fjalar hlupu að pokum sínum og drógu upp úr þeim litlar fiðlur: Dóri og Nóri og Óri göldruðu fram úr innanávösum sínum svolitlar flautur, Vambi kom vagandi með stóra trumbu framan úr anddyrinu, Bifur og Bógur skruppu fram með honum og sóttu klárínspípur sem þeir höfðu skilið eftir frammi í forstofu ásamt göngustöfum sínum. En Dvalinn og Balinn sögðu: „Afsakið, við skildum okkar eftir úti á þrepunum.“ „Komiði þá líka inn með mína!“ sagði Þorinn. Og svo sneru þeir til baka með víólur á stærð við sig sjálfa og hörpu Þorins vafða í grænan dúk. Það var afburða falleg gullharpa og ekki hafði Þorinn slegið fyrsta strenginn fyrr en tónlistin ómaði um allt, svo skyndilega og yndislega að áður en Bilbó vissi af hafði hann gleymt öllu öðru og sveif með tónunum inn í myrkurlönd undir furðutunglum langt, langt handan Ár og í fjarska burtu frá hobbitaholunni hans undir Hólnum.
Húmið læddist inn í stofuna um litla gluggann sem opnaðist út undir Hólnum, logarnir á arninum flöktu til og frá — það var apríl — og áfram héldu dvergarnir að spila af list meðan skugginn af skeggi Gandalfs dinglaði til og frá á veggnum.
Náttmyrkrið fyllti stofuna, eldurinn kulnaði og skuggarnir hurfu og áfram léku þeir. Skyndilega byrjaði einn þeirra að syngja og svo tók annar við og þeir léku undir á hljóðfærin og sungu dimmrödduðum hreimi, líkt og dvergar eru vanir að gera í jarðdjúpum sinna fornu heimkynna og hér kemur svolítið brot af söngvum þeirra, þó að vísu sé varla hægt að lýsa þeim án tóna.
Um Þokufjöll við förum köld
með forynjum og hellafjöld.
Við horfum upp til hájökuls
og hugur leitar roðagulls.
Þar dvergar unnu dag og nótt
og dundu hamrar títt og ótt,
mörg var þeirra meistarasmíð
í myrkum sölum undir hlíð.
Fyrir aldna kónga og álfaþjóð
þeir unnu margan dýran sjóð,
með demant létu ljósið fölt
lýsa inn í sverðahjölt.
Á silfurhálsbands streng var stráð
stjörnubliki um blómaláð,
í drekaeldsins víraverk
þeir vófu tungls og sólarserk.
Um Þokufjöll við förum köld
með forynjum og hellafjöld.
Við höldum aftur heim til ranns
og heimtum okkar gull og glans.
Þeir ristu klára kristallsstaup
og knúðu fagran hörpu laup.
Þeir milda söngva mærðu fram
sem mannlegt eyra ei nam.
Þá var sem stormur færi um fjall,
feigðar var það ógnarkall,
rauður blossi barst um hlíð,
og brunnu trén í neistahríð.
Saman klingdu klukkurnar
en kom þó ei að liði par,
því yfir dundi drekafár
sem drap og brenndi allt sem stár.
Fjallið allt í ösku og sút,
ætluðu dvergar að flýja út,
en ófreskjan þá undir tróð,
úti var um þeirra þjóð.
Um Þokufjöll við förum köld
með forynjum og hellafjöld.
Við heimtum okkar hörpugull,
vor harmaskál er barmafull.
Á meðan þeir sungu fann hobbitinn fara um sig heillun til fagurra muna af höndum görva af list og töfrum. Það var sem hann fyndi logandi og afbrýðisama ást, sem var þráin í hjörtum dverganna. Svo var eins og eitthvert Tókaeðli vaknaði innra með honum og hann var gripinn löngun til að fara og sjá háu fjöllin, heyra hvininn í furutrjánum og niðinn í fossunum og kanna hellana, mega handleika sverð í stað göngustafs. Honum varð litið út um ljórann. Stjörnurnar voru sem óðast að koma í ljós á myrkum himninum yfir trjátoppunum. Honum fannst þær minna á glitrandi gimsteina dverganna lýsandi í dimmum hellum. Skyndilega brá fyrir loga í skóginum handan Ár — sjálfsagt einhver bara að kveikja bál í skóginum — en hann ímyndaði sér, að rænandi dreki væri að lenda á kyrrlátri hæðinni og setja allt í bál og brand. Hann varð gripinn hrolli og jafnskjótt varð hann aftur hinn hversdagslegi hr. Baggi í Baggabotni undir Hól.
Hann stóð upp skjálfandi. Honum var minna í hug að sækja lampa en að látast sem hann ætlaði að sækja hann og fara þess í stað og fela sig á bak við bjórámuna í kjallaranum og koma ekki aftur fram fyrr en dvergarnir væru allir farnir burt. Þá varð hann þess var að söngurinn og tónarnir dóu út og þeir horfðu allir á hann gljáandi augum í myrkrinu.
„Hvert á að fara?“ spurði Þorinn og mátti heyra að hann hafði getið sér til um báða möguleikana í huga hobbitans.
„Ég ætlaði að fara og sækja svolítið ljós?“ sagði Bilbó afsakandi.
„En við viljum hafa skuggsýnt,“ sögðu Dvergarnir einum rómi! „Svartamyrkur til samsæris! Og enn líða margar stundir fram til dögunar.“
„Jájá, að sjálfsögðu!“ sagði Bilbó og ætlaði strax að setjast aftur. En í fátinu hitti hann ekki á kollinn sem hann hafði setið á heldur lenti á aringrindinni og skellti til skörungnum og kolaskóflunni svo glumdi við.
„Þeyþey!“ sagði Gandalfur. „Það er best að Þorinn hafi orðið!“ Og þannig hóf Þorinn máls.
„Kæri Gandalfur, Dvergar mínir og herra Baggi! Við komum hér saman í húsi vinar okkar og væntanlegs samsærismanns, hins ágæta og hugumdjarfa hobbita — megi hárin á tám hans halda áfram að vaxa! Þökk sé fyrir vín hans og öl!“ Hér þagnaði hann við sem snöggvast til að ná andanum og bíða eftir væntanlegum kurteislegum viðbrögðum hobbitans. En skjallið verkaði ekki vitund á vesalings Bilbó Bagga sem gerði ekki annað en bæra varirnar til að mótmæla því, að hann væri nokkuð hugdjarfur og enn síður vildi hann láta kalla sig samsærismann. En ekkert hljóð kom fram yfir varir hans, því að hann var svo kolruglaður að hann vissi ekkert hvað hann átti af sér að gera. Svo að Þorinn hélt áfram:
„Við erum hér saman komnir til að ræða áætlun okkar, leiðir, aðferðir, stefnu og framkvæmd. Áður en dagur lýsir munum við leggja upp í leiðangurinn mikla, og úr þeirri löngu ferð má vera að sumir okkar snúi aldrei aftur, jafnvel engir (nema kannski vinur okkar og ráðgjafi, hinn ráðsnjalli vitringur Gandalfur). Þetta er hátíðleg stund. Markmið okkar, býst ég við að sé okkur öllum kunnugt. Þó er hugsanlegt að við þurfum lítillega að útskýra það fyrir hinum virðulega herra Bagga og fáeinum hinum yngri dvergum (þar á ég við Kjalar og Fjalar) hvað við höfum nákvæmlega í sigtinu — “
Þannig var ræðustíll Þorins. Hann var mikilsháttar dvergur. Hann hefði getað, ef hann fengi það, haldið áfram að masa í þessum dúr, endalaust þangað til allt loft væri úr honum, án þess að segja nokkuð sem allir hinir ekki vissu. En nú varð hann fyrir óþægilegri truflun. Vesalings Bilbó stóðst ekki lengur mátið. Við orðin að jafnvel engir myndu snúa aftur, var sem óstöðvandi neyðaróp risi upp innra með honum og áður en hann réði við nokkuð braust það út um barkann eins og eimpípa á járnbrautarlest sem er að koma út úr jarðgöngum. Dvergarnir hrukku svo við að þeir felldu borðið um koll. En Gandalfur sló blátt ljós á enda töfrastafsins og í leiftrunum frá því mátti sjá vesalings hobbitann liggjandi á hnjánum á arinmottunni, titrandi eins og bráðnandi búðingshlaup. Svo féll hann kylliflatur á gólfið og æpti í sífellu „sleginn eldingu, sleginn eldingu“. Og meira fengu þeir ekki langalengi upp úr honum. Svo þeir tóku hann og báru yfir á sófann í setustofunni, settu ölkollu við hlið hans og sneru síðan aftur til sinna kolsvörtu samsæra.
„Taugaveiklaður vesalingur,“ sagði Gandalfur um leið og þeir settust aftur. „Á vanda til að fá undarleg köst. Samt er hann einn þeirra bestu, já ég segi það, einn sá allra besti — getur orðið óður eins og dreki í sjálfheldu.“
Hafirðu einhvern tímann séð dreka í sjálfheldu, þá gerirðu þér að sjálfsögðu grein fyrir að það eru ekki nema skáldlegar ýkjur að ætla sér að líkja nokkrum hobbita við þau ósköp, jafnvel þó það hefði verið sjálfur langafabróðir Gamla Tóka, hinn voldugi Bolabrestur, sem var svo stórvaxinn (af hobbita að vera) að hann gat riðið stríðsfáki. Það var hann sem stýrði áhlaupinu gegn herjum dríslanna við Gramsfjall í Orustunni á Grænuvöllum og hjó höfuð konungs þeirra Golfhauss hreinlega af bolnum með trékylfu. Hausinn flaug hundrað metra um loftið og féll niður í kanínuholu. Þannig vannst orustan og til varð íþrótt sú sem við köllum Golf.
En nú var hinsvegar friðsamari afkomandi Bolabrests að rakna við í setustofunni. Eftir svolitla hvíld og vænan slurk af bjór skreið hann titrandi á beinunum að dyrum dagstofunnar. Og hvað skyldi hann hafa heyrt. Glóinn hafði orðið: „Uss!“ (Fyrirlitningarhljóð eitthvað í líkingu við þetta). „Haldiði að það sé nokkurt gagn í þessu viðrini? Það vantar ekki að Gandalfur lætur mikið af honum, hvað hann sé kröftugur, en eitt öskur eins og þetta á örlagastund, myndi vekja hvaða dreka sem er og allt hans lið, svo að þeir gætu drepið okkur alla. Mér heyrðist það líka miklu fremur vera skelfingaróp en kraftaöskur. Ég verð bara að segja, að ef ég hefði ekki séð merkið á dyrum hans, þá væri ég viss um að ég hefði farið húsavillt. Og að horfa upp á þennan ræfil, skjálfandi á beinunum á arinmottunni, þá leist mér ekkert á blikuna. Hann líkist meira einhverjum mangara en almennilegum innbrotsþjófi.“
Í því sneri herra Baggi hurðarhúninum og gekk inn. Nú var það Tókaeðlið í honum sem hafði betur. Nú var honum sama þótt hann sleppti bæði svefni og morgunmat til að sýnast kaldur karl. Og þetta um litla ræfilinn skjálfandi á mottunni æsti hann svo upp, að hann vissi ekkert hvað hann gerði. Oft á tíðum harmaði Baggaeðlið í sér hvað hann gerði núna og álasaði sjálfum sér: „Bilbó, þú varst meiri fábjáninn, þú gekkst inn og steigst sjálfur loðnum tánum út í kviksyndið.“
„Afsakið mig,“ sagði hann, „en mér varð á að heyra nokkur orð til ykkar. Ég ætla mér ekki einu sinni að láta sem ég viti hvað þið eruð að bralla, né tilvísun ykkar til innbrotsþjófa, en ég tel að það sé rétt skilið hjá mér (því nú var komið að því sem hann taldi varða heiður sinn) að þið álítið mig einskis nýtan. En eitt vil ég barasta segja ykkur. Það eru ekki nokkur einustu merki á húsdyrum mínum — ég ætti að vita það því að hurðin var máluð fyrir viku — og ég er alveg sannfærður um að þið hljótið að hafa villst á húsum. Þegar ég sá ykkur, hvern á fætur öðrum standandi á þrepskildinum mínum, grunaði mig strax að þetta væri allt tómur misskilningur eða gabb. En segjum nú svo, ef þetta ætti að vera rétta húsið, þá á ég heimtingu á því að þið gerið mér grein fyrir, hvað þið viljið mér og hvað ég á að gera. Hver veit nema ég yrði yðar þjónustufús, jafnvel þó þið senduð mig til að leysa þrautir í austasta austrinu og berjast við villtustu Varúlfa og Varorma í Hinstuauðnum, því að langalangalangalangafabróðir minn var enginn annar en Bolabrestur Tóki, og —“
„Jájájá, við vitum sosum allt um það, en það var fyrir svo langalöngu,“ sagði Glóinn. „En ég var að tala um þig. Og þú þarft ekkert að segja mér um það, að merkið var á hurðinni – sem er venjulegt í iðngreininni, eða var það að minnsta kosti. „Æfðan innbrotsþjóf vantar gott starf með mikilli spennu og hæfilegum launum,“ þannig er venjulega lesið úr því. En eins má setja Æfðan fjársjóðaleitara í staðinn fyrir innbrotsþjóf, ef þú vilt það heldur. Sumir hafa líka tekið upp það starfsheiti. Það kemur í sama stað niður. Gandalfur sagði okkur að hér um slóðir væri einmitt einn slíkur á lausum kjala og hann hefði mælt sér mót með honum hér í miðvikudagsteinu.“
„Auðvitað var merkið á hurðinni,“ sagði Gandalfur. „Því að ég hafði sjálfur sett það þar. Og af ósköp eðlilegum ástæðum. Þið báðuð mig um að finna þann fjórtánda í leiðangurinn, og ég valdi herra Bagga. Og ekki þarf annað en að einhver ykkar segi að ég hafi valið rangan mann eða rangt hús, og þá verðið þið aftur þrettán með allri þeirri ógæfu sem þeirri tölu fylgir, eða þið hættið við allt saman og snúið ykkur aftur að því að grafa kol úr jörð.“
Hann byrsti sig svo illilega framan í Glóin að dvergurinn seig saman í stólnum og þegar Bilbó ætlaði eitthvað að fara að gebba sig, sneri hann sér að honum, gretti sig og yggldi kafloðnar brýrnar svo að Bilbó sá það ráð vænst að láta strax aftur munninn svo small í. „Það var rétt,“ sagði Gandalfur. „Um þetta þarf ekki frekar að þjarka. Ég hef valið herra Bagga og það ætti að vera ykkur nægilegt. Ef ég segi að hann sé fyrirtaks Innbrjótur, þá er hann Innbrjótur, eða kemst upp á lagið að stela með tímanum. Hann hefur af miklu meiru að má en þið getið ímyndað ykkur, og langtum meiru en hann hefur sjálfur hugmynd um. Ég er handviss um að þegar þið hafið lifað af leiðangurinn (ef þið þá gerið það) þá getið þið þakkað mér fyrir valið á honum. Jæja, Bilbó drengur minn, farðu nú að sækja lampann svo að við getum brugðið svolitlu ljósi yfir þetta allt saman.“
Svo vatt Gandalfur í sundur skinnrollu í ljósinu frá stóra lampanum með rauða skerminum og líktist það einna helst landabréfi.
„Sjáðu nú Þorinn, þennan uppdrátt gerði Þrór afi þinn,“ og til að svara æstum spurningum Dverganna bætti hann við. „Þetta er uppdráttur af Fjallinu eina.“
„Ég sé nú ekki að það komi okkur að miklu gagni,“ sagði Þorinn vonsvikinn eftir að hafa rennt augum yfir það. „Ég man sjálfur vel eftir Fjallinu og öllu næsta umhverfi þess. Það þarf enginn að segja mér hvar Myrkviður er eða Visnuheiðar þar sem Stóru drekarnir æxlast.“
„Þarna er líka teiknuð rauð drekamynd við Fjallið,“ sagði Balinn, „við ættum nú heldur ekki að eiga í neinum vandkvæðum með að finna hann, ef við nokkurn tímann komumst þangað.“
„En einu atriðinu hafið þið ekki tekið eftir,“ sagði vitkinn, „og það eru leynidyrnar. Sko þarna rúnamerkið undir Vesturhlíðinni og hendina sem bendir þangað frá hinum rúnunum? Þar er verið að sýna leyniinnganginn að Neðri sölum.“ (Sjáið kortið í bókarlok með rúnatextanum og skýringar við það).
„Hann kann að hafa verið leynilegur í þá daga,“ sagði Þorinn, „en hvernig getum við treyst á að hann sé enn leynilegur? Gamli Smeyginn hefur nú hafst þar við svo lengi, að hann veit sjálfsagt allt sem hægt er að vita um þessa ranghala.“
„Það kann að vera – en hann hefur þó varla notað ganginn mikið.“
„Af hverju?“
„Af því að hann er of þröngur fyrir hann. „Fimm feta háar dyrnar og þrír mega ganga hlið við hlið,“ segja rúnirnar, og Smeyginn getur ekki smeygt sér ofan í svo þrönga holu, jafnvel ekki meðan hann var ungur og enn síður nú eftir að hann hefur steytt sig út af svo mörgum dvergum og Dalverjum.“
„Mér fyndist það nú alveg nógu víður gangur fyrir mig,“ tísti í Bilbó (sem þekkti ekkert til dreka, en var vel kunnugur hobbitaholum). Hann var orðinn svo spenntur og áhugasamur, að hann steingleymdi að halda sér á mottunni. Hann hafði líka svo mikið dálæti á landabréfum og í forstofunni hékk uppi stórt kort af sveitinni í kring og þar hafði hann merkt inn á með rauðu bleki allar uppáhalds gönguleiðir sínar. „Hvernig ætti líka að vera hægt að fela svo stórar dyr fyrir nokkrum sem ætti leið framhjá þeim, hvað þá fyrir drekanum?“ spurði hann. En hann var nú bara lítill hobbiti, það verður að hafa í huga.
„Með ýmsu móti,“ sagði Gandalfur. „En hvernig nákvæmlega þessar dyr eru huldar vitum við ekki fyrr en við komum að þeim. Eftir því sem sagt er á kortinu ímynda ég mér að dyrunum sé þannig hagað að utanverðu, að þær líti út eins og sjálf fjallshlíðin án þess að nokkra missmíði sjái á. Þannig fara Dvergar einmitt að — held ég, er það ekki rétt?“
„Jú, víst er um það,“ sagði Þorinn.
„Og nú þarf ég að bæta við,“ hélt Gandalfur áfram, „því sem ég áður gleymdi að minnast á, að kortinu fylgir lykill, lítill og skrýtinn lykill. Hér er hann!“ sagði hann og rétti Þorni svolítinn lykil með löngum pípulegg og flóknu lykilskeggi, allt úr silfri. „Gættu hans vel!“
„Svo skal gert,“ sagði Þorinn og festi hann á fína keðju um hálsinn, sem hann huldi undir jakkanum. „Nú finnst mér hlutirnir vera farnir að skýrast. Þessi viðbót breytir öllu til batnaðar. Fram að þessu höfum við ekki haft neina skýra hugmynd um, hvað við gætum gert. Við ætluðum bara að fara austur eins hljóðlega og varlega og hægt væri, upp á von og óvon, allt til Langavatns. Þá myndu vandræðin upphefjast —“
„Og löngu fyrr, ef ég þekki rétt í Austurveg,“ tók Gandalfur fram í.
Án þess að ansa því nokkru, hélt Þorinn áfram: „Þaðan ætluðum við að halda upp með Hlaupá, koma við í rústum Dalbæjar — gömlu borginni þar í dalnum undir skugga Fjallsins. En engum okkar leist þó á blikuna að fara inn um Aðalhliðið. Áin streymir beint út úr hliðinu gegnum Klettinn mikla sunnan í Fjallinu, og út um það op kemur Drekinn oftast — já, því miður alltof oft, nema hann hafi breytt um hætti.“
„Það kæmi heldur ekki til greina,“ sagði vitkinn, „nema við hefðum þá voldugan stríðskappa okkur til halds og trausts, jafnvel Hetju. Ég reyndi sosum að grafa einhvern slíkan upp; en allir stríðskappar eru uppteknir af að berjast hver við annan í fjarlægum löndum og því er fátt um þá hér um slóðir, eða þeir hreinlega fyrirfinnast ekki. Sverðin nú á dögum eru líka flest bitlaus, axirnar notaðar til að fella tré og skildirnir sem ágætis vöggur ungbarna eða sem potthlemmar. Og hér eru drekar þægilega fjarlægir (og því þjóðsagnakenndir). Því datt mér helst í hug að fá góðan innbrotsþjóf í lið með okkur — og hafði þá einmitt í huga þessar leynilegu hliðardyr á Fjallinu eina. Og hér höfum við þá hinn smávaxna Bilbó Bagga, sem á að vera hinn útvaldi og tilkallaði innbrjótur. Svo nú er ekki um annað að ræða en að halda áfram og koma sér niður á einhverja áætlun.“
„Jæja, þá það,“ sagði Þorinn og sneri sér að Bilbó með uppgerðarkurteisi, „svo framarlega sem sérfræðingur okkar í innbrotum gæti gefið okkur einhverjar nýjar hugmyndir eða tillögur.“
„Fyrst vildi ég nú fá að vita eitthvað meira um hvað allt þetta snýst,“ sagði Bilbó sem vissi ekki sitt rjúkandi ráð innra með sér, hvað hann væri eiginlega að vilja, þó Tókaeðlið í honum væri jafn staðráðið og áður í að halda leiknum áfram. „Hvað eruð þið eiginlega að þvæla um gull og dreka og annað slíkt. Ég vil fá að vita hvernig gullið komst hvert og hverjum það tilheyrir og svo framvegis og svo framvegis.“
„Ó, hjálpi mér!“ sagði Þorinn, „hvað er að þér? Sástu ekki landabréfið? Og heyrðirðu ekki hvað við vorum að syngja? Og hefurðu ekki heyrt orð af því sem við höfum verið að ræða í margar klukkustundir?“
„Mér er alveg sama, ég vil fá einfalda og vafningalausa skýringu á þessu,“ sagði hann þrjóskur og setti upp uppgerðar merkikertisssvip (sem hann greip aðallega til ef einhverjir komu og vildu fá lán hjá honum) til að sýnast vitur og hygginn og hafa peningavit og almennt um leið til að uppfylla það álit sem Gandalfur hafði látið í ljós á honum. „Þá vildi ég fá að vita hver áhættan er, hvaða fjármuni ég þurfi sjálfur að leggja fram, hvaða tíma þetta taki og hver ágóðinn muni verða og svo framvegis,“ — en með þessu átti hann í stuttu máli við: „Hvað fæ ég út úr þessu? — og er nokkur von til að ég komist nokkurn tímann aftur til baka heill á húfi?“
„Nú, þá það,“ sagði Þorinn. „Endur fyrir löngu á dögum Þrórs afa míns, var fjölskylda okkar hrakin á brott af Norðurslóðum. Þau tóku alla fjársjóði sína og tæki með sér og settust að í þessu fjalli sem sjá má á kortinu. Annar forfaðir minn að langfeðgatali, Þráinn Gamli, hafði löngu áður fundið þennan stað, en nú hófu þeir þar námuvinnslu og grófu mikil jarðgöng með voldugri sölum og stærri vinnustofum en áður höfðu þekkst — en auk þess held ég að þeir hafi fundið töluvert gull og heilmikið af gimsteinum í fjallinu. Svo mikið er víst að þeir urðu stórauðugir og frægir. Afi minn varð Konungur undir Fjalli og var mikils metinn af þeim dauðlegu Mönnum sem bjuggu þar fyrir sunnan og voru smámsaman að færa byggð sína upp með Hlaupá og um dalinn sem Fjallið gnæfði yfir. Þar reistu þeir sér skemmtilega borg sem kölluð var á Dal og var mikill uppgangur á. Konungar þeirra á Dal réðu gjarnan smiði okkar í þjónustu sína og launuðu þeim vel, jafnvel hinum lélegri. Feðurnir á Dal báðu okkur um að taka syni sína í læri og greiddu okkur vel fyrir, einkum í ýmiskonar matvælum sem við hirtum lítt um að rækta eða afla okkur sjálfir. Þegar á heildina var litið voru þetta sannarlega uppgangstímar fyrir okkur og jafnvel þeir fátækustu meðal okkar höfðu nóga eyðslupeninga, gátu jafnvel fengið fé að láni og tekið sér tíma til að smíða fagra gripi aðeins sér til augnagamans, að ekki sé minnst á hin frábæru galdraleikföng, en ekkert slíkt þekkist lengur í heiminum. Vegna hinnar miklu framleiðslu urðu salarkynni afa míns full af allskyns brynjum og dýrgripum, steinskornum skrautmunum og bikurum og leikfangamarkaðurinn á Dal varð undur Norðurslóða.
Sjálfsagt var það nú einmitt þessi mikli auður sem vakti athygli drekans. Drekar eru þekktastir fyrir það, eins og þú veist, að ræna gulli og gersemum frá mönnum, álfum og dvergum, hvar sem þeir geta fundið þá. Þeir draga þessa dýrgripi til sín og gæta ránsfengs alla ævi (sem er næstum endalaus nema þeir séu drepnir). Þeir ásælast alla þessa dýrgripi, án þess að hafa þeirra nokkur not. Satt að segja kunna þeir ekki að greina á milli vandaðs hlutar og hnoðs, þótt stundum séu þeir nokkuð naskir á markaðsverð þeirra. Sjálfir geta þeir ekkert smíðað, ekki einu sinn fest lausa hreisturplötu í brynhúð sína. Þá var svo margt um dreka á Norðurslóð, að smámsaman fór að bera á gullskorti, svo að sumir drekarnir lögðu á flótta til suðurs og sumir voru drepnir en hvar sem þeir komu fylgdi þeim sú almenna eyðilegging og sóun sem Drekar allsstaðar valda og fór síversnandi. Þarna var líka einn þeirra alveg sérstaklega gráðugur, kröftugur og illvígur ormur sem kallaðist Smeyginn. Dag nokkurn hóf hann sig á loft og hélt suður á bóginn. Við heyrðum fyrst eins og vindsúg af norðanfárviðri þar sem furutrén á Fjallinu brustu og brökuðu í vindinum. Sumir af okkur dvergunum voru þá af tilviljun staddir úti við (og ég var sem betur fer einn þeirra — ævintýraglaður og duglegur unglingur, vildi helst alltaf vera á randi, og það varð mér til bjargar) — við sem sagt sáum úr fjarlægð að Drekinn lenti á Fjallinu okkar í logabáli. Svo færði hann sig niður eftir hlíðinni og þegar hann kom að skóginum fuðruðu öll trén samstundis upp. Þá var samhringt öllum bjöllum og klukkum á Dal og kapparnir vígbjuggust. Obbinn af dvergunum þusti út um Stórhliðið, en þar tók Drekinn á móti þeim. Enginn komst lífs af á þeirri útleið. Öll áin gufaði upp í suðubólstrum, þoka lagðist yfir Dal, og út úr þéttri þokunni birtist Drekinn og tortímdi næstum öllum stríðsköppunum — sama ógæfusagan og endurtók sig annars staðar í þá daga. Svo sneri hann við og smeygði sér inn um Aðalhliðið og rændi og ruplaði alla sali og hol, göng, kjallara, bústaði og ganga. Að því búnu voru engir Dvergar eftirlifandi í sölunum og hann lagði alla fjársjóði þeirra undir sig. Líklegt er talið, að hann hafi að hætti Dreka safnað öllu fémætu í einn haug lengst inni í neðanjarðarsölunum og liggi á því sem svefnbeð sínum. Síðan smug hann út um Stóra hliðið og réðst að næturlagi á Dalabyggðina og rændi fólki, einkum ungum stúlkum og reif þær í sig og á því gekk þar til allir Dalir voru eyddir og íbúarnir ýmist dauðir eða flúnir. Eigi veit ég gjörla hvernig ástandið þar er núna, en ég býst ekki við að neinn geti hafst við nær Fjallinu en á fjarlægari bakka Langavatns nú á dögum.
Við þessir fáu sem höfðum verið utan Hliðsins sluppum á lífi en snerum grátandi í felur og við formæltum Smeygni. Það kom á óvart að afi minn og faðir komu til okkar og bættust í hópinn með sviðin skegg. Þeir voru þungbrýnir mjög en sögðu fátt. Þegar ég spurði þá, hvernig þeir hefðu komist undan, sögðu þeir mér að halda mér saman, ég skyldi fá að vita það síðar á viðeigandi stund. Eftir það héldum við á brott landflótta, sviptir öllum eigum og höfum síðan orðið að vinna fyrir viðurværi okkar eftir bestu getu á flakki okkar fram og aftur um löndin, stundum orðið að leggjast lágt sem járnsmiðir eða við kolanám. En aldrei hafa fjársjóðirnir sem stolið var frá okkur getað liðið úr huga okkar. Og jafnvel þó hagur margra okkar hafi nú batnað,“ hér þagnaði Þorinn við og strauk gullkeðjuna um háls sér, „erum við staðráðnir í að vinna þá aftur og koma hefndum okkar og öllum bölvunum fram á Smeygni — ef við mögulega getum.
Ég hef oft velt því fyrir mér, hvernig faðir minn og afi sluppu út. Ég þóttist skilja að þeir einir mundu hafa vitað um leyndan útgang. Nú fæ ég allt í einu að vita að þeir hafi meira að segja gert uppdrátt, og vildi gjarnan fá að vita hvernig þú Gandalfur komst yfir hann, og hversvegna hann barst ekki til mín, hins lögmæta erfingja.“
„Ég komst ekkert „yfir hann,“ heldur var mér beinlínis fenginn hann,“ svaraði vitkinn. Afi þinn Þrór féll eins og þú munt vita í Moríanámunum fyrir dríslinum Azogi.“
„Bölvað sé það nafn, já,“ sagði Þorinn.
„Og Þráinn faðir þinn hélt af stað burtu þaðan hinn tuttugasta og fyrsta apríl og voru nákvæmlega hundrað ár liðin síðan nú á fimmtudaginn og eftir það hafði aldrei neitt til hans spurst.“
„Satt og rétt er það,“ svaraði Þorinn.
„Jæja, þá vil ég upplýsa þig um það, að faðir þinn fékk mér þetta kort og bað mig um að afhenda þér. En þú getur varla áfellst mig fyrir það, þótt það hafi dregist fyrir mér hverjum og hvernig ég skyldi afhenda það, ef þú vissir um alla þá fyrirhöfn sem það hefur kostað mig að leita þig uppi. Faðir þinn mundi hvað hann hét sjálfur, þegar hann fékk mér plaggið og sagði mér aldrei nafn þitt. Svo mér finnst að mér beri fremur þakkir fyrir að hafa uppi á þér og koma því til skila! Hér er það þá,“ sagði hann og rétti Þorni kortið.
„Ég skil nú samt ekki . . .“ sagði Þorinn og Bilbó hefði viljað taka undir þau orð. Því að þeim fannst þetta svo sem engin útskýring.
„Afi þinn,“ hélt vitkinn þá áfram hægt og alvarlega, „fékk syni sínum, það er föður þínum, þetta kort til öryggis áður en hann hélt inn í námur Moría. Síðan hélt faðir þinn af stað með kortið, eftir að afi þinn var fallinn, og hugðist freista gæfunnar með því. En hann varð þá fyrir hverju óhapptilfellinu á fætur öðru mjög svo óþægilegu, svo það gat varla verið einleikið, en komst aldrei í nánd við Fjallið eina. Hvernig hann svo lenti í Dol Guldúr veit ég ekki, en þar fann ég hann sem fanga í dyflissum Násugunnar.“
„En hvað í ósköpunum varstu að gera þar?“ spurði Þorinn og fór hrollur um hann, en skjálfti kom í alla dvergana.
„Skiptu þér ekki af því. Ætli ég hafi ekki eins og venjulega verið að athuga eitthvað, en það var líka nógu ógeðslegt. Sjálfur ég, Gandalfur, slapp aðeins burt þaðan með herkjum. Ég reyndi að bjarga föður þínum en það var þá orðið of seint. Hann var skynlaus og reikull í ráði og hafði gleymt næstum öllu nema uppdrættinum og lyklinum.“
„Við létum dríslana í Moríu fá fyrir ferðina,“ sagði Þorinn. „Nú ættum við að snúa okkur að Násugunni.“
„Láttu þér ekki detta það í hug. Hún er öflugri sem óvinur en allir dvergar til samans, þó hægt væri að kveðja þá saman á einn stað úr öllum heimsins hornum. Faðir þinn átti sér aðeins eina ósk, að sonur hans skoðaði þetta kort og notaði lykilinn. Drekinn í Fjallinu er líka meira en nóg viðfangsefni fyrir þig einn sér!“
„Heyr, heyr!“ hrópaði Bilbó og óvart upphátt.
„Heyra hvað?“ sögðu þeir allir og horfðu hissa á hann. Hann varð svo flaumósa í fátinu, að til þess að bjarga sér út úr því svaraði hann: „Heyrið hvað ég hef að segja!“
„Og hvað er það?“ spurðu hinir.
„Það sem ég vildi sagt hafa er, að það gefur auga leið að þið ættuð að halda í Austur og kanna allar aðstæður þar. Nú er loksins vitað um þessar leyndu hliðardyr og drekar hljóta einhvern tímann að þurfa að sofa, eða ég býst við því. Ef þið svo bara bíðið nógu lengi á þröskuldinum, þykist ég viss um að þið finnið eitthvað út úr því. En hitt verð ég líka að segja, að mér finnst að við höfum talað nógu mikið fyrir heila nótt, ef þið skiljið hvað ég meina. Hvernig væri nú að fara strax í rúmið og snemma á fætur í fyrramálið svo þið getið verið vel upp lagðir. En ég skal hafa tilbúinn góðan morgunverð, áður en þið leggið af stað.“
„Þú átt við áður en við leggjum af stað,“ sagði Þorinn. „Eða átt þú ekki einmitt að vera sjálfur innbrjóturinn? Og er það ekki þitt hlutverk að sitja þarna á dyrahellunni, að ég nú ekki tali um að komast inn um dyrnar? En hinu get ég verið sammála um rúmið og morgunverðinn. Ég vil fá sex egg með fleskinu, þegar ég er að leggja af stað í langferð. Þau eiga að vera spæld en ekki gufusoðin, og mundu umfram allt að láta ekki rauðuna springa.
Eftir að allir höfðu pantað sér sinn sérstaka morgunverð, án þess svo mikið sem að segja einu sinni svei þér (og Bilbó grútfúll yfir því), risu allir úr sætum. Nú kom að hobbitanum að vísa þeim öllum til sængur, en öll gestaherbergin fylltust og hann varð að gera hinum legupláss úr stólum og bekkjum, þangað til hann var búinn að hola þeim öllum niður einhvers staðar í hrúgum og gat háttað ofan í sitt eigið litla rúm. Hann var þó engan veginn ánægður með sjálfan sig og hafði skipt um skoðun. Hann ætlaði ekki að nenna að fara að rífa sig upp í bítið í fyrramálið og útbúa alla þessa andstyggilegu sérrétti handa öllum hinum. Tókaeðlið var á undanhaldi svo hann var hreint ekkert viss um að hann legði af stað í neitt ferðalag á morgun.
Þar sem hann lá í rúmi sínu, heyrði hann enn til Þorins söngla lágt við sjálfan sig í besta svefnherberginu næst við hliðina.
Um Þokufjöll við förum köld
með forynjum og hellafjöld.
Við heimtum okkar hörpugull
vor harmaskál er barmafull
Með þann óm í eyrunum sofnaði Bilbó og hann hafði af honum mjög óþægilega drauma. Hann vaknaði ekki fyrr en löngu eftir dögun.